Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


21.04.2013 07:49

Það átti að fara að vora........!

.......en vorið virðist ekki alveg vera handan við hornið. Þegar ég leit á norsku veðurspána fyrir stuttu  (yr.no) mátti skilja á henni að eftir yfirstandandi helgi færi veðrið að breytast til hins betra. Undanfarið hef ég verið kuldagallaklæddur útivið að vinna í hjólabúnaði og bremsum Isuzu vörubílsins litla sem geymdur er niðri við Stálver. Þeir jólasveinar, Kristmundur Kristmundsson og bræðurnir Alexander og Erlingur Hafþórssynir hafa verið iðnir við að gera grín að mér fyrir að mæta þá helst í verkið að ekki sé hundi út sigandi. Sjálfir hafa þeir unnið drjúgt í Lunda ST, stórútgerðinni hans Kristmundar, svo Lundi mætti vera tilbúinn þegar strandveiðitímabilið hefst. Lundi hefur í vetur fengið gríðarlega andlitslyftingu - í orðsins fylstu merkingu, því framenda bátsins var lyft svo nemur vel einu feti. Kristmundur er nefnilega "fullorðinn" maður og gat engan veginn rétt úr skrokknum í þeirri stýrishússkytru sem talin var hæfa samanhnýttum enskum hungurhækjum. Lundinn er nefnilega alvöru "Colvic", framleiddur í landi fyrrum þorskþjófanna á Íslandsmiðum en miðað við hönnunina á vistarverum bátsins hafa Bretar ámóta mat á eigin hæð og Japanir. Eigum við að ræða lofthæðir og hurðaop í japönsku togurunum?

Hér ætla ég að setja mynd af Lunda eftir breytinguna, þegar ég nenni út í garrannn til að taka hana......





...og svo ein sem sýnir snjóalög og veðurfar í höfuðborginni morguninn 21. apríl 2013:



Eigin hugðarefnum hefur miðað nokkuð undanfarið, enda óvenju fáir utanaðkomandi hjálparþurfi í aprílmánuði. Í upphafi mánaðar gerði fallegan sólardag (þeir hafa að vísu verið allnokkrir en þessi bar af því hann líktist sumri!) og þennan dag ákvað ég að framkvæma verkið sem lengi hefur legið á mér. Þessi leiðindi með gluggakarmana í Stakkanesinu hafa pirrað mig talsvert, og eins og fram kom áður var það hrein og klár tilraun að setja tekklista meðfram gluggum bátsins. Yfirlýsta stefnan við smíðina var að hafa allt útvortis viðhaldsfrítt, plast, ál og ryðfrítt stál. Mér fannst hins vegar fallegt að ramma gluggana inn með lökkuðum tekklistum og vissulega var það útlitsatriði - fyrsta sumarið. Ég hét því jafnframt að ef eitthvert vesen yrði með þessa lista myndu þeir einfaldega fjúka.  Auðvitað varð svo vesen og ég hef þurft að bera á listana tvisvar á sumri svo fegurðargildi þeirra snerist ekki upp í andhverfu sína. Nú var svo komið að eftir veturinn voru listarnir bara gráir, ég held bara svei mér þá gráir í gegn. Mér óaði við því að skafa þá einu sinni enn og talaði því við snillingana í Málmtækni. Ég hef aldrei komið svo með vandamál þangað að ekki sé auðleyst, heldur ekki núna og út fór ég með skínandi fína plastlista á besta verði bæjarins. Þennan fallega sólardag notaði ég svo til að umbylta augnsvip Stakkanessins, og þegar leið á daginn og fólk losnaði úr vinnu naut ég aðstoðar dömuhanda, sem um leið komu færandi kaffibrauð. S.l. fimmtudag ( 18.4) var ég mættur að Stakkanesinu klukkan átta að morgni, lásaði vagninn aftan í Hrossadráparann og dró heim að Höfðaborg. Það var nefnilega annar fínn dagur á fimmtudaginn, sannkölluð sumareftirlíking hér sunnanundir vegg. Áður hafði ég verið búinn að botnmála svo það leiðindaverk var frá. Það þurfti hins vegar að þrífa bátinn hátt og lágt, hann var u.þ.b. hálffermdur af eldfjallaösku í bland við foksand sem dreift var frítt til vina og óvina frá Björgun hf. Seinnipart dagsins, þegar þrifum og standsetningu var að mestu lokið leyfði ég mér að leggjast í bleyti í pottana í Grafarvogslaug, og dreymdi Spánardrauma í sólarhitanum sunnan undir vegg innan um bikiniklæddar drottningar og prinsessur. Það hefur sína kosti að vera atvinnulaus.

Það stóð illa á sjó fimmtudaginn átjánda og kvöldflóð var ekki fyrr en um miðnættið. Um kvöldmatarleytið var björgunarbáturinn settur um borð, sömuleiðis rafgeymarnir og GPS/dýptarmælirinn. Þar með var allt klárt til sjósetningar og aftur var lásað aftan í jeppann og lagt af stað niður í Grafarvogshöfn. Stakkanesið ristir aðeins 60-70 cm í hælinn og vagninn er lágbyggður svo ég ákvað að reyna sjósetningu á hálfföllnu. Klukkan var alveg um níu þegar Stakkanesið rann af vagninum, flaut upp og sigldi hring á voginum.

Þrátt fyrir veður(hrak)spár næstu daga lýsi ég sumarið 2013 formlega komið!!













Nú geta menn myndað sér skoðun á augnsvipnum, eða "andlitslyftingunni":





Þegar búið var að binda við bryggju var aðeins einu nauðsynjaverki ólokið - að stilla útvarpsrásirnar inn. Trúr minni sannfæringu byrjaði ég á einu útvarpsrásinni sem ekki er tröllriðið af auglýsingum, pólitík eða auglýsingapólitík. Útvarp Latibær!



Meðan Stakkanesið fór einn "dýptarmælisprufuhring" í höfninni var tekin stutt vídeómynd. Ég hef aldrei reynt að setja inn vídeó, ætla samt að reyna að klóra mig fram úr því. Takist það, má sjá vídeóið hér fyrir neðan.



( Það virðast vera einhver vandræði með "upload" á vídeóinu. Er að garfa í þessu. Nauðsynlegt að kunna þetta....)






Flettingar í dag: 423
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79250
Samtals gestir: 18496
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 20:27:22


Tenglar