Jújú - það
gekk þokkalega austur í Hrífunes í gærmorgun, takk fyrir! Veðrið var líka ágætt, eiginlega hálfgert vorveður þannig séð.
....og hvað var svo verið að þvælast austur í Hrífunes um hávetur?
Það skal ég opinbera. Kunningi minn til allmargra ára stundar hlunnindabúskap austur þar og til búskaparins brúkar hann vélar og tæki. Eitt þeirra tækja var komið á viðhald og fyrir lágu nokkrar aðkallandi viðgerðir. Þarna fyrir austan hníf og gaffal en hins vegar lítið hægt að gera nema menn séu hreinlega með heilt verkstæði með sér og vantar þó venjulega eitthvað uppá. Því skyldi hálfhaltrandi apparatinu komið til höfuðborgarinnar með einhverju móti. Eftir að hafa þegið góðra manna ráð varð úr að við leigðum kerru á stærð við strætisvagn, hengdum aftan í Patroljeppa og lögðum af stað rétt fyrir tíu í gærmorgun.
Myndavélin mín er illa fallin til myndatöku í myrkri eins og þeir kannski muna sem sáu myndirnar úr Rauðfeldargjá á sínum tíma. Það verður því að taka viljann fyrir verkið. Patroljeppinn dró strætóinn nokkuð auðveldlega og við runnum vandalaust inná Suðurlandsveginn. Í Lögbergsbrekkunni lá stór jeppi á hliðinni talsvert langt utan vegar - mér sýndist það vera líka Patrol - og yfir honum stóðu nokkrir menn. Allt virtist þó slysalaust en atvikið gaf ástæðu til að varast launhálku á stöku stað.
Þegar kom yfir heiði var bjart að sjá austur eftir og sú birta náði allt að Eyjafjöllum. Þar dró heldur í loft og við Pétursey var ljósaskilti sem varaði við vindhviðum á Reynisfjalli. Það var dálítið skrýtið því lengst af höfðum við ekið í stafalogni en skiltið laug ekki og á fjallinu var krappur vindur og regnskúrir. Vindbelgingurinn entist austur á Mýrdalssand og oftar en ekki fylgdi regnfruss með. Öllu slíku lauk þó snarlega þegar beygt var upp að Hrífunesi enda fullyrti hlunnindabóndinn að á þeim slóðum ríkti eilífðar veðurblíða hvað sem á gengi annarsstaðar.
Þegar ekið var í hlað tók sjúklingurinn kyrrlátlega á móti okkur enda kom á daginn að hann gat sig hvergi hreyft - var hreinlega dauður með öllu!
Annað apparat átti bóndi frammi á heiði og vildi nálgast það áður en farið yrði í aðrar athafnir. Það var þrettán tonna beltagrafa sem átti nú að taka á hús, og ef ekki vildi betur verkast, nota til að ýta sjúklingnum upp á kerruna. Við ókum upp að gömlu vegasjoppunni í Hrífunesi, sem nú er verið að breyta í sumarhús, og tókum stöðuna þar. Myndin er tekin frá því húsi og rauða örin á að benda á gröfuna upp í heiði. Beltagröfur ferðast ekki hratt og það var ljóst að það myndi taka talsverðan tíma að koma vélinni alla leið niður að húsum.
( á milli myndanna eru tæpar 180 gráður - sú efri norður, sú neðri suður )
Það var ekki seinna vænna að leggja af stað og eftir skamma stund var komin hreyfing á hlutina. Á næstu mynd er horft niður yfir Hrífunes í átt að Meðallandi:
Á meðan beltavélinni var ekið niðureftir var reynt að koma lífi í sjúklinginn. Ekki vildi það ganga í fyrstu tilraun og það var í rauninni fyrst þegar eigandinn kom lötrandi á beltavélinni til byggða að sjúkrasagan fékkst fram óslitin og í smáatriðum. Eftir það var hægt að sinna endurlífguninni á rökrænan hátt - vélin var semsé olíulaus og þeir sem höfðu lent í vandræðum með hana í haust höfðu ekki getað komið henni í gang með venjulegum ráðum. Vélin hafði staðið inni í hlöðu aftan við beltagröfuna og þegar grípa átti til gröfunnar voru góð ráð dýr. Hún hafði því verið dregin með jeppa úr hýði sínu í hlöðunni og sett þarna út á grasblett. Nú fóru hlutir að skýrast!
Ástæðan fyrir því að ekki gekk að koma vélinni í gang var fljótfundin - handdælan fyrir hráolíuna dældi engu, eða öllu heldur dældi hún afturábak og áfram. Í farangrinum voru nokkur verkfæri og ekki annað að gera en taka dæluna úr vélinni og hluta í sundur. Það kom á daginn að dælan var full af óhreinindum úr tanknum, nokkuð sem er býsna algengt þegar verið er að dæla hráolíu úr gömlum, ryðguðum ílátum á tanka vinnuvéla. Við þeystum með dæluna upp í sumarhúsið þar sem hún var vandlega hreinsuð í eldhúsvaskinum.
Eftir lagfæringar, þrif og samsetningu varð þetta hin ásjálegasta dæla:
Þess var heldur ekki langt að bíða að dráttarvélin vaknaði til lífsins og nú loks fóru hjólin að snúast! Það er Bergendal sjálfur sem spáir þarna í framskófluhraðtengið sem var, líkt og margt annað, úr lagi gengið:
Skóflan sjálf átti að verða eftir, hún hafði ekkert til Reykjavíkur að gera svo eftir að hafa lagt hana út í gras var stillt upp og mátað við kerruna:
....svo var prjónað:
..og svo, eftir að hafa lyft afturenda Patroljeppans á loft, var hún inná - og sat svona líka flott!
Þriggja öxla kerran með 3,5 tonna burðargetuna virtist hvergi barma sér og lagðist ekki svo merkjanlegt væri. Næst þurfti að strappa vélina niður á sem öruggastan hátt:
Þá var fátt að vanbúnaði og lítið eftir nema taka beltavélina á hús.
Svo var lokað, gengið frá og lagt af stað. Fyrstu metrarnir lofuðu góðu, dráttarvélin sat vel á kerrunni, hemlarnir á kerrunni virtust virka á viðunandi hátt og jeppinn réð þokkalega við hlassið. Spölkorni neðan við Hólmsárbrúna þurftum við þó að taka "viðgerðarhlé" þar sem planki undir ámoksturstækjunum losnaði.
Lagfæringin tók augnablik og nú lá leiðin heim. Hraðinn var ekki nema um 60 km og það var komið myrkur þegar við náðum að Vík. Enn logaði rauð vindaðvörun fyrir Reynisfjall en nú var vindurinn með okkur og hjálpaði til upp brekkurnar. Það þarf líka dálítið sterkan vind til að hrista CASE 895!
Ferðin gekk vandræðalaust, við litum á festingar og hjólbarða á Hvolsvelli og síðan á Selfossi þar sem snæddur var síðbúinn kvöldmatur (sem vegna anna dagsins var raunar líka enn síðbúnari hádegismatur). Af praktískum ástæðum völdum við Þrengslin og ókum því til Hveragerðis og niður Ölfus. Lofthitinn í Þrengslunum var ekki nema um 2 gráður en vegurinn var þurr og hálkulaus með öllu. Klukkan var rétt um hálftíu að kvöldi þegar við renndum í hlað við N1 á Réttarhálsi. Þar var vélin tekin af og kerrunni skilað í stæði:
Við ókum kerrulausir heimleiðis frá N1 klukkan 21.52. Ég leit á klukkuna um morguninn þegar við lögðum af stað með kerruna frá sama stað og hún var þá 9.46. Við höfðum verið slétta tólf tíma að sækja þennan níðþunga Lazarus austur í Hrífunes og koma honum heim vandræðalaust - og það var miður janúar!
Þetta voru ekki leiðinlegustu tólf tímar ævinnar.............
"Spáin
er ill / og ferlega fámennt á götum..." var sungið fyrir mörgum árum af
þáverandi ungskáldi og gítarplokkara ofan af Akranesi. Það er einmitt þannig á þessum sunnudagsmorgni hér í Höfðaborg. Bassi hefur farið sína daglegu morgungöngu og er kominn aftur. Honum var hrollkalt og hann skreið feginn ofan í hlýja körfu við stofuofninn.
Stakkanesið var klakabrynjað í gærmorgun, þegar fryst hafði ofan í slyddukafald föstudagskvöldsins - rétt svona eins og eftir erfitt vetrarúthald á Halamiðum! Öfugt við þá sem berjast úti á Hala væsir ekki um stórskipið Stakkanes þar sem það bíður af sér veturinn í steinsteypubás Kristmundar í Stálveri. Kristmundur sjálfur nýtur hins vegar ekki skjólsins í Stálveri heldur velkist um úti á rúmsjó og gætir þar vélbúnaðar í iðrum Sturlaugs H. Böðvarssonar AK. Menn þurfa stundum að gera fleira en gott þykir.
Það er semsagt spáð illa til dagsins og morgundagsins. Ég heyrði í hrossabóndanum á Ketilstöðum í gær. Hann bregður sér hvergi, snýr afturendanum upp í vindinn að hætti hrossanna og stundar sín verk sem fyrr. Heyrði líka í Magnúsi að Neðra-Apavatni nú í morgun. Hann er að tygja sig af stað til borgarinnar og nær vonandi þangað fyrir veður. Hér á Stór - Kópavogssvæðinu er farið að blása og bætir smám saman í . Það heyrist talsvert á í Höfðaborg. Úti er snjólítið en hált, enda eru svellalög talsverð.......
Um daginn birti ég mynd úr Aðalvík - þ.e. úr safni pabba. Þær eru þar fleiri og á einni má glöggt sjá að fleirum en Reykvíkingum getur orðið hált á svellinu. Hertrukkurinn á myndinni hefur a.m.k. fengið fyrir ferðina! Þegar Kaninn var, ásamt Aðalverktökum að byggja radarstöðina uppi á Skorum / Straumnesfjalli voru öryggisbelti fáséð, nema í flugvélum. Þau voru allavega ekki í GMC herbílum. Ég man að pabbi talaði stundum um að menn hefðu fleygt sér í gólfið og reynt að halda sér þar ef bílarnir ultu. Þeir sem það hafa reynt hafa varla sloppið ómarðir frá raununum en kannski sloppið þokkalega samt. Ég held samt ég megi fara með að þessi Gemsi hafi verið mannlaus þegar hann rúllaði af veginum upp Straumnesfjallið og niður undir jafnsléttu.
Ég hugsa að samkvæmt nýmóðins tjónamatskerfum tryggingafélaganna hefði verið settur "niðurrifslás" á flakið.......
Kannski ég skjóti inn einni öllu yngri mynd, en þó líklega u.þ.b. 23-24 ára gamalli. Hún er tekin á hæðinni ofan við Fagrahvamm í Skutulsfirði og á henni má sjá að það snjóaði talsvert vestra veturinn ´89-´90. Við pabbi stöndum framan við Landcruiser jeppa með Perkins dísilvél, djásn sem mér áskotnaðist innan úr Ísafjarðardjúpi:
....og mamma líka, svo á engan sé hallað:
Sumir sumarbústaðir verða aldrei vetrarbústaðir. Hér má sjá hvers vegna:
Já, það fennti stundum dálítið að Dalakofanum þeirra pabba og mömmu og kom fyrir a.m.k. einu sinni að vélsleðamenn skemmdu þakið með því að aka yfir það í slæmu skyggni og hríðarbyl.
Það eru til fleiri snjómyndir en þessar duga í bili.....
Hann Svenni
rakari er allur. Það var svo sem búist við því enda hafði hann lengi strítt við erfið veikindi og heilsu hans hrakað ört nú síðustu vikur.
Ég kynntist Svenna fyrir nokkrum árum þegar hann langaði í trillu og þeir vinir og félagar, hann og Sverrir stýrimaður leituðu til mín sem er með nefið ofan í öllu sem snertir trillur. Einhverjir bátar voru þá undir smásjánni og ég vissi af einum vestur á Ísafirði sem ég taldi að myndi henta rakaranum vel. Það var Ögnin:
Atvik réðu því að ég átti leið vestur á Ísafjörð um þetta leyti og myndaði því Ögnina í bak og fyrir. Rakaranum leist vel á myndirnar og með þær einar í höndunum keypti hann bátinn. Ættingjar og vinir sóttu hann svo vestur og Svenni gerði sjóklárt heima í bílastæðinu að Arnartanga. Hann gaf svo bátnum nafn látinnar konu sinnar, Sigrúnar Aradóttur. Trillan Sigrún að vestan var svo sjósett í bryggjuhverfinu í Grafarvogi vorið 2009.
Á einstökum góðviðrisdegi haustið 2010 lá leið okkar félaganna þriggja, rakarans, stýrimannsins og mín, til Vestmannaeyja. Erindið látum við liggja milli hluta en má nærri geta að það tengdist trillum á einhvern hátt. Við sigldum með Herjólfi frá Landeyjahöfn og útsýnið var stórkostlegt:
Það má líka sjá að þeim leiddist ekkert, stýrimanninum og rakaranum:
Við stoppuðum allt of stutt í Eyjum því þar var margt að sjá og að auki algerlega snjólaust meðan uppi á landi var snjór yfir og vegir glerhálir. Við höfðum varla snúið okkur við þegar við vorum aftur í Landeyjahöfn og Herjólfur spýtti okkur á land:
Heilsu Svenna hrakaði smám saman og þar kom að hann taldi sér ekki lengur mögulegt að eiga trilluna Sigrúnu. Hún var því seld og við félagarnir réttum hendi við frágang hennar og skil. Á þessum tíma hafði Svenni skipt út gömlum VW ferðabíl sem hann átti og fjárfest í yngri og betri vagni. Eitt fannst honum þó vanta á þennan fína bíl, það var sólarsella af stærri gerðinni - Svenni vildi frekar hafa hlutina einu númeri of stóra en aðeins of litla - og það kom í minn hlut að setja hana upp og tengja. Verkið kostaði margar og langar vangaveltur enda vildu umræðurnar gjarnan villast af leið og faglegar spekúlasjónir víkja fyrir fabúleringum um trillur og ferðalög! Hann var nefnilega drjúgur húmoristi, rakarinn og ekki dró stýrimaðurinn úr þegar hann var nærri - sem yfirleitt var.
Eina ferð fórum við Svenni saman á ferðabílnum hans. Það var hringur um Mýrar og Snæfellsnes, farinn sumarið 2011 í blíðskaparveðri. Þá var svo komið að hann treysti sér ekki til að aka lengri vegalendir sjálfur en lét mér eftir aksturinn. Meðal áningarstaða okkar í ferðinni var kirkjan að Ökrum á Mýrum:
Þar næst var áð við Ytri - Rauðamel. Hundurinn Hjörleifur, tryggur förunautur Svenna um árabil var auðvitað með í för og þurfti að kanna jarðveginn :
Við áðum raunar á sem flestum stöðum, við vikurnámið gamla að Arnarstapa, að Hellnum og við eyðibýlið að Dagverðará:
Við renndum niður að Malarrifi, Djúpalóni, inn í gíginn Berudal og loks bar okkur út í Öndverðarnes. Við gengum út að brunninum Fálka, þaðan niður í fjöruna um gömul bátanaust. Skoðuðum leifar húsa og mannvirkja á staðnum og fleira áhugavert:
......og svo var hellt uppá kaffi um borð í ferðavagninum og rakarinn smurði samlokur og galdraði fram fleira góðgæti:
Eftir kaffið héldum við að Skálasnagavita og kíktum á Svörtuloft. Svenna fannst staðurinn magnaður en vildi síður koma nálægt hrikalegum hraun-klettabrúnunum. Sagðist vera alltof lofthræddur fyrir slíka glæframennsku og bað mig fyrir alla muni að fara varlega, hann treysti sér nefnilega ekki til að keyra einn suður ef ég hrapaði fyrir björg. Þetta síðasta var sagt með illa földu glotti eins og stundum brá fyrir......
Við Skálasnaga var vendipunktur og leiðin lá heim, með nokkrum útúrdúrum þó. Fleiri ferðir átti Svenni ófarnar á "Skúrnum" sínum en þar kom að skrokkurinn leyfði ekki slíkan skakstur lengur. Þegar Svenni treysti sér ekki lengur til að búa einn fluttist hann á Vífilsstaði og síðar á hjúkrunarheimilið Ísafold í Garðabæ.
Sumarið 2012 átti ég leið á æskuslóðir Svenna rakara í Selárdal vestra. Ég leit á gamla heimilið hans að Kolbeinsskeiði og sýndi honum myndir sem ég tók af því. Hann sagði fátt......
Það þurfti ekki löng kynni af Svenna rakara til að finna að þar fór góður og gegnheill maður af gamla skólanum, trúr sínu og sínum. Slíkum mönnum fer nú fækkandi........
Sveinn Ásgeir Árnason verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju kl. 15 í dag, miðvikudaginn 8.jan.
Fólki
virðist ekki fjárvant - a.m.k. ekki sumu, ef marka má alla skothríðina í kvöld. Ég er svo aldeilis lessa, eins og kerlingin sagði...........
Ég var að grufla í gömlum myndum og fann þá þónokkrar hraðamælamyndir sem höfðu ekki ratað í rétt albúm gegnum tíðina. Ég efa ekki að það sé beðið með spenningi eftir þeim en svo verður bara að vera - mig langar ekki að birta þær strax.
Mig langar hins vegar að birta aðrar sem ég fann. Þær eru úr safni fv. tengdamóður minnar heitinnar og eru teknar á eða við Patreksfjörð fyrir áratugum síðan. Mig minnir að ég hafi birt einhverjar þeirra áður en það gildir einu.
Það hefur margt breyst á Patreksfirði síðan þessar myndir voru teknar. Prófum eina enn:
......kannski tvær:
......og kannski fleiri:
Að síðustu er ein alveg stórkostleg - finnst mér. Hún er af varðskipinu Ægi og er tekin þarna á legunni innan við Vatneyrina. Ægir er með gömlu brúna en ég veit ekkert um ártal myndarinnar né annarra sem birtast hér. Þær voru allar ómerktar en ég giska á að tengdamóðir mín fv., Halldóra Ólafsdóttir frá Lambavatni á Rauðasandi hafi tekið a.m.k. einhverjar þeirra. Hér er semsagt Ægir:
...og fyrst Ægir fær sitt pláss, málaður hergrár með fána á bóg er ekki úr vegi að birta mynd af öðru gráu skipi, sem þó er ekki með fána á bóg enda hergagn. Þetta er pramminn sem tók út af herflutningaskipi bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni ( að því gefnu að þær verði ekki fleiri) og rak á land á Rauðasandi. Þetta er helvedes mikill prammi og maður væri fullsæmdur af bátnum sem festur er ofan á hann og situr þar líkt og krækiber.....yrði þokkalegasta Stakkanes þetta:
Þá er það komið og vonandi hafa einhverjir gaman af að rýna í þessa gullmola.
Auðvitað eru
öll áramót jafnstór, þannig séð. Þau sem standa á heilum tug - að ekki sé talað um heilt hundrað, eins og gerðist fyrir örstuttu - eru kannski flottari í tölulegu tilliti en það gildir svo sem einu. Öll ár eru merkileg fyrir einhverra hluta sakir og ungi maðurinn á myndinni hér neðar átti ekki mörg ár að baki þegar myndin var tekin, líklega aðeins fjögur eða fimm. Sá eldri -svo nam rétt rúmum 63 árum - átti sömuleiðis langa leið ófarna og margt óreynt áður en yfir lauk. Myndin er tekin á gamlárskvöld ´87 eða ´88 (á ekki ártalið en er nokkuð viss um daginn) á flötinni innan við litla húsið okkar Elínar Huldar að Króki eitt á Ísafirði.
....og það er snjór. Það má kannski birta aðra úr safninu, sem líka sýnir snjó á gamlárskvöld. Hún er tekin líklega ´74 eða 75 utan við foreldrahús að Urðarvegi 4 á Ísafirði. Á henni er "týndi" ættliðurinn, (ættlerinn) þ.e. sá sem vantar á efri myndina. Við hlið myndefnisins er kústskaft með ánegldu einhvers konar eldflauga-snúningsapparati. Pabbi var nefnilega alla tíð óskaplega hrifinn af flugeldadóti sem snerist og spann. Það var svo undir hælinn lagt hvort það virkaði!
Einnig má sjá á myndinni Fiat 125 Berlina, bíl sem Úlfar Önundarson frístundaskipasmiður á Flateyri átti og var vistaður hjá mér þessa hátíðardaga meðan Úlli dvaldi hjá fjölskyldunni á Flateyri - en þangað var engum fært nema fuglinum fljúgandi og svo snjóbílnum þeirra Önfirðinga. Svo sér í pallröndina á bláa MAN vörubílnum hans pabba.......
Þannig var nú það. Af því að nú er alveg að detta í áramót og ég á eftir að hafa mig til (eða gera mig til eins og dæturnar orða það) fyrir matarboð á eftir, ætla ég að hnýta einni -og aðeins einni - mynd aftanvið. Hún sýnir að það gat snjóað víðar en á Ísafirði. Myndin er tekin um 1955 í Aðalvík vestra, af veginum sem lá frá birgðastöð bandaríska hersins og Ísl. aðalverktaka á Látrum og upp að radarstöðinni á Skorum (Straumnesfjalli). Horft er vestur yfir víkina að Sæbóli og ég held mér sé óhætt að segja að svona logn og sjóleysa hafi frekar verið viðburður en regla að vetri til:
Óska öllum gleðilegra áramóta og þakka enn og aftur fyrir innlitin og lesturinn á árinu sem er að líða.
Ég átti í
dálitlum vangaveltum við hann Tryggva Sig. í Eyjum í gær vegna skipsflaka við Snæfellsnes. Í framhaldinu var ég að grúska í myndum sem teknar voru sl. sumar á þeim slóðum. Mér fannst vanta myndir í skrána, myndir sem ég mundi eftir að hafa tekið en fann ekki þar sem þær áttu að vera. Eftir nokkra kaffibolla og smákökur datt ég svo niður á myndirnar þar sem þær áttu ekki að vera.
Hér rétt neðar á síðunni er færslan um kílómetrateljarana. Þar var þessu (kannski) undarlega áhugamáli lýst með nokkrum orðum en ég vissi að það vantaði myndir inní færsluna, myndir sem áttu að vera þar. Ókei, nú klárast dæmið þó allavega:
Þegar ég eignaðist sjúkrabílinn frá Selfossi hafði hann þjónað eigendum sínum dyggilega í rúman áratug. Sl. vor breyttist hann svo úr sjúkrabíl í ferðabíl en hélt þó útlitinu að mestu. Ég sagði frá furðusvipnum sem kom á litlu stúlkuna á Seljanesi við Berufjörð í sumar þegar við renndum heim á hlað, ég skrúfaði niður gluggann og spurði hvort ekki væri örugglega allt í lagi með alla á þessum bæ og hvort nokkurn þyrfti að flytja á spítala. Sumir komu til okkar gagngert í þeim tilgangi að spyrja hvort bíllinn væri ekki ekinn hálfa leið til helvítis og til baka. Jú, víst var hann kominn yfir ábyrgðartímann og aksturinn en það skipti svo sem ekki öllu máli. Þeir fengu yfirleitt sama svarið: "Topp viðhald og ástand, einn eigandi og alltaf geymdur inni" Geri aðrir betur!
Auðvitað gaf maður teljaranum í hraðamælinum auga. Tölurnar á honum voru mér ekki kunnuglegar, ég hef aldrei átt bíl með svona marga kílómetra að baki og maður fékk hálfgerðan sting þegar hvert nýtt hundrað bættist við. Svo kom auðvitað að því að teljarinn fór að sýna skemmtilegar tölur en því miður fóru flestar framhjá mér í byrjun. Svo var það í Snæfellsnesstúrnum að áliðnum júlí að hillti undir heila "þúsundveltu" Ég hafði því augun hjá mér til að missa ekki af viðburðinum.
Það var miðvikudagskvöld 24.júlí og við vorum að koma úr gönguferð um Beruvík. Klukkan var farin að nálgast ellefu, það var farið að bregða birtu enda talsvert þungbúið. Áfangastaðurinn var nýja tjaldsvæðið við Hellissand og sjúkrabíllinn malaði áfram á níutíu framhjá rústum eyðibýlsins Saxhóls. Ég leit á rústirnar út um bílstjóragluggann, svo á kílómetrateljarann af rælni og þá stóð helvítið í 305000 !!
Vegurinn var mjór, enginn útskot og rétt á eftir mér voru tvenn bílljós. Þessir örfáu tugir metra sem ég þurfti til að koma mér út í blákant og gefa "eftirförinni" merki um framhjáakstur dugðu til að teljarinn rúllaði um einn og sýndi nú 305001. Helvítis djöfull!
Eftirfararnir skutust framhjá og vegurinn fyrir aftan varð auður á ný. Ég tók myndavélina úr hulstrinu, mundaði hana á mælinn, setti í bakk og bakkaði nokkrar bíllengdir með annað augað í speglinum en hitt á teljaranum.
Það var þá sem ég kynntist því hvers konar vítisvél tölvutengdur digital-kílómetrateljari getur verið. Í stað þes að vinda ofan af sér eins og mér hefði fundist eðlilegt tryggði bölvaður sig í sessi með sína 305001. Hann hélt semsé áfram að telja upp þótt ég bakkaði!
Ég gat ekkert annað gert en að mynda mælinn í þeirri stöðu og vonast til að standa mig betur næst. Eins og sjá má er bíllinn í bakkgír þegar myndin er tekin og vélin malar lausagang. Það þarf ekki að kvarta undan olíuþrýstingi á 7,3 lítra International sleggjunni þó búið sé að snúa henni á fjórða hundrað þúsund kílómetra - og ekki alltaf á gönguhraða!
Þá er ég semsagt búinn að koma þessu frá mér og get hafist handa við að skrásetja síðustu ferð sumarsins á sjúkrabílnum. Sú var farin í septemberlok og er helst af henni að segja - og veðrinu - að ekki urðu mannskaðar á landinu og mun þó víða hafa staðið tæpt.........
Það koma
líka jól í Höfðaborg. Eðlilega eru þau í einfaldari kantinum því við erum aðeins tveir í heimili,ég og Bassi. Áróra hefur lítið sést undanfarna mánuði vegna anna við vinnu og fleira skemmtilegt svo það hefur verið rólegt hjá okkur tveimur. Ekki svo að skilja að það fylgi einhver hamagangur henni Áróru - öðru nær, hún er ennþá sama rólegheitabarnið og síðustu tuttuguogtvö árin.
Fyrir einhverju síðan - það hleypur á árum - var ákveðið að þegar Bergrós Halla útskrifaðist úr grunnskóla (af því nú "útskrifast" börn úr grunnskóla og þurfa helst að fara utanlandsferð í kjölfarið). Þetta var hvorki hugmynd né ákvörðun okkar foreldranna, við fylgdum aðeins straumnum og stefnunni sem mótuð hafði verið af börnum og foreldrum í Hjallaskóla. Þegar einhver ferðast til útlanda þá þarf eðlilega farareyri og hann var svo sem ekkert stórvandamál. Ég fékk samt söfnunarhugmynd, innblásna frá gömlum vini á Ísafirði sem safnaði sér fyrir rándýru reiðhjóli á þennan hátt - ég fékk mér gamla, risastóra rauðkálskrukku sem til var á háaloftinu sem erfðagóss frá tengdamömmu. Á krukkulokið gerði ég rifu, límdi það svo fast aftur með límbandi (sem ég gaf það hátíðlega nafn "innsigli") og hóf að safna öllu klinki sem til féll í krukkuna. Söfnunin gekk hægt því eins og flestir notaði ég mest kort í viðskiptum og það var sáralítið um lausa peninga. Eitthvað rataði þó í krukkuna en þegar kom að útskrift og utanlandsferð var það engan veginn nóg svo krukkan fékk að standa ósnert, farareyririnn var greiddur rafrænt eins og hjá öðrum.
Þegar ég flutti svo í Höfðaborg fluttist krukkan auðvitað með og þar sem í mér býr eðlislæg ótrú á plastpeningum hneigðist ég æ meira - eftir að ég var orðinn einráður - til notkunar á lausu fé. Þar með hækkaði hratt í krukkunni, fyrr en varði var hún orðin full og búið að byggja við, þ.e. taka í notkun aðra, þó öllu minni. Hér neðar á síðunni sagði ég frá ferð Bergrósar Höllu til Spánar í septemberlok sl. Mér þótti tilvalið, í ljósi þess hvernig til krukkunnar var stofnað í upphafi, að hún fengi innihald hennar sem farareyri til Spánarfararinnar. Svo varð og það munaði sannarlega um innihaldið.
(Ég hef raunar sagt frá þessu áður en það er í góðu lagi.)
Þannig atvikaðist það að undir lok september stóð krukkan góða tóm á eldhúsborðinu. Mér fannst tilvalið að safna í hana fyrir jólagjöfum og hófst handa með þriggja mánaða fyrirvara! Ég er passasamur á klink og allt sem til féll rann samviskusamlega í krukkuna - ég segi allt en undanskil þó krónupeninga. Krónupeningar eru verðlausir miðað við þyngd og fyrirferð en eru hinsvegar ágætir í skífur. Þeim er því safnað í sérstaka krukku í bílskúrnum og eru svo gripnir og gataðir þegar þannig stendur á. Sem dæmi má nefna að ein átta millimetra rústfrí brettaskífa kostar átta krónur í BYKO og má nærri geta hvort ég er ekki ágætlega settur með krónurnar því gatið í miðjunni kostar mig ekkert nema föndrið. Ég má því segja með sanni að ég eigi ekki krónu með gati nema þegar ég þarf.....
En semsagt, ég safnaði stíft í krukkuna og þegar dró að jólum og gjafainnkaup stóðu fyrir dyrum settumst við Bassi niður við eldhúsborðið, tæmdum krukkuna í bakka og flokkuðum innihaldið:
Eins og sjá má er töluvert af "gullpeningum" í safninu og ég sá í hendi mér (og vissi raunar af fyrri viðskiptum við krukkuna) að innihaldið myndi nema allnokkurri fjárhæð. Það kom enda á daginn og við Bassi vorum bara þónokkuð hróðugir þegar við settum klinkið aftur í krukkuna og fengum okkur smákökur úr boxinu bak við sérvíettustandinn! Síðan var marserað í Landsbankann í Mjódd en svona fyrir siðasakir hafði ég krukkuna í nettum bréfpoka merktum einhverri tískuverslun. Í bankanum tók ég númer hjá gjaldkera og beið af mér eina fimmtán viðskiptavini áður en kom að mér. Allan tímann sat ég með fargið í fanginu og ekki yrði ég hissa þótt einhver hefði haft vakandi auga á grunsamlegum manni með eitthvað blýþungt í poka. Að síðustu kom að mér og ég ætla ekki að lýsa furðusvipnum á gjaldkeranum (eða gjaldkerunni) þegar ég spurði hvort hún væri handsterk og rétti svo krukkuna yfir glerið á stúkunni! Því miður var þetta fullorðin kona og lífsreynd, ég hafði vonast eftir að hitta á eitthvert gjaldkeratrippi sem væntanlega hefði verið slegið illa út af laginu. Fullorðna konan benti mér - með örlitlu brosi sem var ótrúlega vel stjórnað - á talningarvél í einu horni útibúsins. Ég var þarna að tæma krukkuna sjálfur í fyrsta skipti og vissi ekkert hvernig svona hlutir gengju fyrir sig - fimmtán kúnna biðin hafði þá eftir allt verið óþörf! Ég klóraði mig fram úr talningarvélinni og lagði niðurstöðuna, að frádregnum 150 krónum sem vélin vildi ekki meðtaka, inn á reikning. Innihald krukkunnar reyndist rétt tæpar þrjátíuogfimm þúsund krónur og það er ekki slæm búbót í jólagjafainnkaupum!
Í gærmorgun, á Þorláksmessu var nokkrum utanhúss-jólaerindum ólokið. Í þau var gengið og er kom fram á miðjan dag, síðasta erindinu lauk og við vorum á heimleið sagð ég við Bassa: "Jæja Bassi minn. Nú er allt klárt til jólanna, nú getum við farið heim og þurfum ekki út úr húsi fyrr en annað kvöld"
.............og þannig hefur það verið. Það er aðfangadagshádegi, veðrið er þolanlegt þrátt fyrir spár, hér er sæmilega bjart, úrkomulaust en vindstrekkingur nokkur. Bassi hefur ekki nennt út í morgun enda tók hann hálfsannarstíma gönguferð í gærkvöldi. Eftir slíkt ráp er hann latur og vill helst liggja í körfunni sinni við ofninn. Við eigum ófrágenginn rauðan Vitarajeppa hér niðri og óinnpakkaðar jólagjafir. Hvorttveggja þarf að vinnast í dag. Ekki seinna vænna að hefjast handa!
Á fyrsta degi desembermánaðar var Stakkanesið tekið á land. Svo lengi frameftir hefur það aldrei verið á floti og Viðeyjarsiglingin, sem var sú síðasta þetta árið toppaði haustið að fullu. Eftir þá ferð gerði varla almennilegan dag og það var ákveðinn léttir að koma bátnum í naust og ganga frá honum til vetrarins. Einhvern tíma í haust þegar kvöld voru orðin dimm setti ég slönguseríu á stög mastranna og sigldi með hana minnst einu sinni um Sundin. Ég hugsa að það hafi verið sjón úr landi að sjá siglandi bát skreyttan eins og hvalaskoðunarskip en að stærð til eins og björgunarbát þeirra!
Það var svo á hörðu frostkvöldi fyrir nokkru síðan að ég tók með mér framlengingarsnúru að bátnum, fann mér rafmagnstengil í nálægum geymslugám og stakk seríunni í samband. Dró svo upp myndavélina og tók nokkrar myndir til að nota við nákvæmlega þetta tækifæri - jólakveðju okkar Bassa úr Höfðaborg. Vegna frostsins urðu myndirnar dálítið einkennilegar, líkt og á þeim sé móða. Ég get ekki gert að því, svona varð þetta bara og betra tækifæri gafst ekki. Stb. síðan á Stakkanesinu virðist nudduð. Hún er það alls ekki, þetta er aðeins einhverskonar ljósbrot vegna frostsins. Sama gildir um gluggana - þeir eru ekki hélaðir:
Við svo búið viljum við Bassi óska öllum sem lesa sig alla leið hingað niður, gleðilegrar jólahátíðar og þökkum lesturinn og kveðjurnar á árinu. Við sendum sérstakar kveðjur vestur á Ísafjörð, þar sem leiðindaveður spillir færð og rafmagnið flöktir. Fátt í þeim efnum kemur þó Ísfirðingum á óvart og þar á bæ ganga jólin sinn vanagang sama hvað á dynur - enda koma jólin innanfrá!
...............alveg eins og hér í Höfðaborg.........
Einu sinni
var til máltæki sem sagði, ef ég man rétt: "Lítið er ungs manns gaman" og mátti
útleggjast þannig að lítið þyrfti til að skemmta börnum. Ég er hvorki barn né ungur maður, svona þannig
séð. Samt bý ég enn að þeim eiginleika barnsins að geta glaðst yfir litlu. Eitt
af því sem ég hef gaman af er að fylgjast með kílómetrateljurum bíla og leita
uppi skemmtilegar talnaraðir. Þegar ég svo finn skemmtilega röð eða veit að von
er á henni tek ég gjarnan upp símann eða myndavélina og smelli mynd af
mælinum/teljaranum. Oft hef ég ætlað að vaka yfir skemmtilegri talnaröð en svo steingleymt
og misst af, en líklega jafnoft náð að mynda aðrar í staðinn - stundum er
nefnilega eins og hnippt sé í mig þegar upp rennur flott röð. Þannig var það
einmitt nú á dögunum þegar ég sat í bílnum á rauðu ljósi á
Kringlumýrarbrautinni. Mér varð litið á teljarann og hann sýndi nákvæmlega
189.000 km. Til allrar hamingju var síminn innan seilingar (en ekki kolfastur í
helvítis buxnavasanum eins og venjulega) og ég náði fínni mynd.
Ég man ekki alveg hvenær þessi árátta hófst. Kannski hefur hún alltaf verið til staðar en myndavélar ekki jafn handhægar og á síðustu árum. Allavega var Hrossadráparinn (hvurs nafn hefur þegar verið útskýrt) keyrður 122 þúsund kílómetra þegar ég eignaðist hann en fyrsta mynd af mælinum er tekin þegar hann rúllaði í 160.000:
Svo virðist hafa runnið rúmir fimmtán þúsund kílómetrar fram að næstu:
Eins og sjá má logar "Check engine" ljósið. Það er vegna þess að einu sinni tók ég tengi úr sambandi með vélina í gangi og ljósið kom samstundis. Þegar ég svo greip nýju bilanagreiningatölvuna sem keypt var í Toppi og átti að geta lesið nær alla bíla kom á daginn að meðal þeirra sárafáu sem hún las ekki var Suzuki. Ég varð fúll og hef leyft ljósinu að skína síðan. Það var hins vegar ekki nema sirka ein ferð til Ísafjarðar þar til næsta mynd var tekin:
Aftur líða u.þ.b. fimmtán þúsund kílómetrar milli mynda en svo gerast þær öllu þéttari. Fimmtán þúsund kílómetrar voru annars fljótir að rúlla á Hrossadráparanum þegar mest var :
....og áfram er haldið:
Svo fer að verða gaman að þessu. Næstu myndir eru teknar á vegarkafla í Grímsnesinu, rétt sunnan við Stóru-Borg:
Nú er farið að vaka yfir mælinum og nánast ekið með myndavélina í hendinni:
....og "tripteljarinn" eltir eins og hundur í bandi! Enn rúlla kílómetrar inn á mælinn:
Það er ekki einu sinni stoppað til að taka sumar myndirnar, aðeins rétt hægt á!
Það er vel merkjanlegt fallið á bensínmælinum þessa fimmtíu kílómetra. Skyldi hafa veið vetur, kuldi og snjór?
Þessi finnst mér sérstaklega flott:
....og svo áfram:
Þarna missum við sjónar af Hrossadráparanum. Ég hef nefnilega lítið af honum séð síðan um verslunarmannahelgi. Sonurinn eignaðist nefnilega annan samskonar sem þurfti smá hjálpar við. Sá er sömu tegundar, sama árgerð og eins að öllu leyti nema liturinn, sem er rauður. Það skiptir því litlu máli hvor bíllinn er, hann keypti rauðan en ekur svörtum, ég á svartan og ek rauðum - þetta ástand varir þar til ég verð ánægður með þann rauða og skipti aftur við drenginn. Að sjálfsögðu er myndavélin við hendina í þeim rauða:
Og þá er það myndin sem minnst var á hér efst, sú sem tekin var á rauðu ljósi á Kringlumýrarbrautinni fyrir nokkrum dögum:
Fyrir ekki svo löngu þurfti ég að hjálpa aðeins upp á "The blue streak", nafn sem stundum er notað á bláa kappakstursbílinn hennar Elínar. Nú er Bergrós Halla komin með bílpróf svo þær eru tvær um að halda bílnum liðugum. Þessi fagurblái Suzuki Ignis var keyrður 15.600 km. þegar við eignuðumst hann í apríl ´05. Þeir tímar eru löngu liðnir:
Fyrir stuttu eignaðist ég Nissan Micra fyrir hálfgerðan misskilning. Hann hefur lítið verið notaður, enda ekur maður bara einum bíl í einu og Vitaran er miklu meiri bíll. Ekki hafði Micran þó langt farið þegar þessi skemmtilega tala rúllaði upp á teljarann:
Að síðustu læt ég fylgja tvær myndir sem líklega hafa verið teknar í skoðunarstöðinni í Skeifunni. Tilfellin sjálf man ég ekki en tölurnar eru flottar:
Hugsið ykkur hvað lífið væri litlaust ef allir hefðu sömu áhugamálin!!
Stakkanesið
hefur farið sína síðustu sjóferð þetta haustið. Henni hefur þegar verið lýst í
myndum og löngu máli þó stutt væri farið, eða aðeins út í Viðey í gönguferð. Ég
ætla hins vegar að lýsa smáatviki sem kom fyrir í næstsíðustu sjóferðinni.
Kannski var
það ekkert smáatvik. Ég er ekki viss, kannski var um sögulegan viðburð að ræða
og ég er heldur ekki viss um að ég sé hæfur til að meta hvort svo sé. Þess
vegna verð ég að leggja málið í dóm.
Þannig var
að Stakkanesinu var stefnt til fiskjar upp við Lundey á Kollafirði nú í
nóvember. Í áhöfn vorum við tveir, ég og Edilon Bassi Breiðfjörð Thorsteinsson
Budenhof. Ekki var aflinn mikill, einn
marhnútur álpaðist á öngul þegar svo grunnt var orðið á Lundeyjarrifinu að sá
til botns. Ekki þótti áhöfninni fengur í aflanum svo mansanum var sleppt í
sjóinn að nýju. Nokkrum sinnum var kippt og rennt á nýjum stöðum en allt kom
fyrir ekki og þegar allt súkkulaðikexið var búið var farið að huga að heimferð.
Af því veðrið var gott tókum við stóran sveig á siglingunni og renndum meðal
annars inn á víkina fallegu norðan við Eiðið í Viðey. Þessi vík er svona
uppáhaldsstaður hjá okkur Bassa, við höfum þónokkuð oft lagst þarna við akkeri
og tekið kríublund ef letin hefur sótt á okkur.
Við létum
reka á víkinni og renndum einu sinni með veiðistöng - þarna er of grunnt fyrir
handfærarúllur. Ekki urðum við varir við fisk frekar en áður, en þegar við
vorum rétt lagðir af stað heimleiðis að nýju, sá ég eitthvað torkennilegt í
sjóskorpunni. Það reyndist vera brúnleit bjórflaska, án miða en með hálfrekinn
korktappa í stútnum. Þeir sem henda bjórflösku í sjóinn hafa venjulega ekki
fyrir því að reka korktappa í hana áður og því datt mér í hug að athuga
flöskuna betur. Stakkanesinu var lagt að og flaskan fiskuð um borð. Í henni
reyndist vera pappírsblað, hálfrakt og lyktandi af bjór. Blaðið var sett í
þurrk þegar heim kom, síðan skannað inn á tölvu og leit svona út eftir
meðhöndlunina:
Ég held að
textinn sé þokkalega skýr en skal samt endurrita hann til vonar og vara. Á
blaðinu stendur:
S.O.S. 15
júlí 1943. Halló, ég heiti Njálgur og ég er hér á eyðieyju langt úti á hafi
suður af Íslandi. Ég hef borðað íkorna hér og ekkert annað, þeir eru ógeðslegir
á bragðið. Komið fljótt, ég held að eldfjallið sé að fara að gjósa. Njálgur
Rassmusen 34 ára.
Þannig var
nú það. Eins og ég segi er ég ekki dómbær á gildi bréfsins. Mér þykir nafn
mannsins dularfullt - jafnvel ógeðfellt, en hvað veit ég svo sem um mannanöfn.
Norður á Hornströndum var eitt sinn maður að nafni Helvetíus og hefur eflaust
þegið það nafn frá foreldrum. Svo er eftirnafnið Rasmussen alþekkt en röð -ess-
anna er þá semsagt öðruvísi. Enn eitt þykir mér eftirtektarvert við bréfið,
nefnilega hvað Njálgur Rassmusen hefur haft kvenlega og netta rithönd. Svo má
spyrja sig hvort hann hafi e.t.v. haft pappír og ritföng ásamt bjór á
eyðieyjunni. Ég hef velt því fyrir mér hvort Njálgur Rassmusen hafi kannski
verið á skipi - farþegi eða skipverji - og hreinlega verið settur í land á
eyðieyju með brýnustu nauðsynjar vegna einhvers leiðindamáls sem upp hafi komið
um borð. Maður með þetta nafn er líklegur skotspónn æringja af ýmsu tagi og hin
kvenlega rithönd hefur þá ekki bætt um. Kannski hefur N.R. verið úlfur í
sauðargæru meðal skipsmanna, sem trúlega hafa verið eingöngu karlmenn, mögulega verið kvenmaður í karlmannsklæðum og kennt sig þessu undarlega nafni af
sjálfsdáðum.
Enn má láta
sér detta í hug, sé tekið mið af dagsetningu bréfsins þann 15. júlí 1943, að
N.R. hafi lent í hremmingum af hernaðarvöldum, enda heimsstyrjöldin sem af bjartsýni og trú á batnandi mannkyn hefur
hér á Íslandi verið kölluð "hin síðari" þá í algleymingi. Hafi svo
verið má láta sér detta í hug ýmsar ástæður þess að vesalings maðurinn lenti á
eyðieyju með bréfsefni, skriffæri og bjórflösku, án þess ég leyfi mér frekari
fabúleringar í þá veru. Af einföldum útreikningi má giska á að N.R. muni hafa verið fæddur árið 1909 eða þar
um bil. Hann hefur því verið rétt þrítugur þegar styrjöld skall á og hafi hann
verið í her einhvers lands má vel giska á að hann hafi verið kominn í einhverja
yfirmannsstöðu árið 1943. Það má vel gefa sér að þegar bréfið er skrifað hafi
N.R ekki verið svo ýkja lengi á eyðieyjunni því hann segist eingöngu hafa lifað
á íkornum og þeir séu ógeðslegir. Enginn lifir á íkornum einum saman - allavega
ekki til lengdar - og ég vona svo sannarlega að N.R. hafi verið bjargað sem
fyrst af eyjunni. Ef ekki, má reikna með tvennu: Annarsvegar hafi N.R.
hreinlega vanist íkornafæðinu því eins og máltækið segir má svo illu venjast að
gott þyki. Hinu má svo allt eins reikna með (og þá minni ég á að stærð eyjunnar
og umfang er óþekkt) að þó íkornar fjölgi sér hratt þurfi 34 ára karlmaður
(hafi svo verið) allnokkuð að borða og því hafi stofninn hreinlega komist í
útrýmingarhættu.
Svo er
algerlega óþekkt hvaða áhrif gosið í eldfjallinu, hafi það á annað borð gosið, hefur
haft á íkornastofninn.
Ég hef ekki
önnur ráð en leita á náðir þeirra sem kunna að lesa þetta pistilkorn mitt, ef
einhver kynni betur að skýra þetta dularfulla flöskuskeyti sem fannt á
Kollafirði norðan Viðeyjar fyrri hluta nóvembermánaðar 2013.
Hún Bergrós
Halla er í Versló, eins og áður hefur komið fram. Síðastliðið vor var ákveðin skiptiheimsókn
nema úr spænskum viðskiptaskóla og skyldi hún standa fyrstu daga
septembermánaðar. Að mánuði liðnum skyldu svo íslensku verslingarnir
endurgjalda heimsóknina. Í upphafi skólaárs nú í haust var gríðarlegur
spenningur meðal þeirra þriðjaársnema sem áttu von á Spánverja í heimsókn, því
spænsku nemarnir skyldu jú gista heima hjá þeim íslensku og síðan öfugt. Með
góðum fyrirvara voru bæði nöfn og myndir komin á netið og margir unglinganna
komnir í hálfgert "vinasamband" þegar leið að komu Spánverjanna. Sumir höfðu
"pantað" sér gest, öðrum var úthlutað gestum af skipuleggjendum. Í hlut
Bergrósar Höllu kom Davíð frá Barcelóna og eitthvað höfðu þau haft netsamband sín
á milli er að heimsókn kom. Stór hluti
undirbúnings kom í hlut mömmunnar, Bergrós Halla býr jú enn í heimahúsum og
Elín Huld sá um að allt yrði tilbúið þegar stóri dagurinn rynni upp.
Á
fimmtudagssíðkvöldi þann 30. ágúst lenti svo hópurinn á Sandgerðisflugvelli og
hver sótti sinn gest. Dagskrá heimsóknarinnar var nokkuð stíf, hófst snemma á
föstudagsmorgni og stóð allan daginn. Þann sama dag lauk minni
Ísafjarðarheimsókn og ég ók suður heiðar á sjúkrabílnum í blíðskaparveðri alla
leið - þrátt fyrir hroðalega veðurspá! Þegar ég nálgaðist suðvesturhornið var
ég símleiðis boðaður í gala-kvöldmat í Ástúninu og þáði að sjálfsögðu.
Ætlast var
til að gestgjafar sæju um afþreyingu fyrir gesti sína laugardag og sunnudag.
Við spænskan undirbúning fararinnar hafði legið fyrir listi yfir áhugaverða
staði í seilingarfjarlægð frá Rvk-svæðinu og einnig utan þess. Innan seilingar
voru hefðbundnir ferðamannastaðir, s.s. Þingvellir, Gullfoss og Geysir en
einnig Reykjanesskaginn í heild. Spænsku
nemarnir áttu að merkja við þá staði sem þeir óskuðu helst að sjá og skoða.
Langflestir
nemanna völdu Jökulsárlón sem óskastað og því var einn dagur heimsóknarinnar
lagður undir ferð þangað. Ekki var hægt
að gera ráð fyrir að hver fjölskylda æki austur með "sinn" nema og því var
ákveðið að leggja einn dag heimsóknarinnar undir rútuferð austur að lóninu.
Fyrir utan Jökulsárlón höfðu nemarnir helst valið heðbundnu staðina, enda eru
þeir líklega einhverjir best kynntu staðir á Íslandi, svona heilt yfir..
Við Bassi
náðum ágætis nætursvefni eftir aksturinn suður og kvöldverðinn, og vorum snemma
á fótum á gullfallegum laugardagsmorgni - eins og venjulega. Við hefðum hins
vegar getað sagt okkur sjálfir að íslensku verslingarnir myndu vilja sýna þeim
spænsku íslenskt "næturlíf" á föstudagskvöldinu og fram á nóttina. Þótt allrar
reglu væri gætt sváfu þessi blessuð lömb því eðlilega fram undir laugardagshádegi.
Það var ekki fyrr en undir miðjan dag sem ekið var af stað í austurátt beint
upp að Geysi. Þar hittum við fyrir þónokkra krakka/foreldra í sömu erindum.
Þeim spænsku þótti mikið til þess koma að sjá Strokk spýta úr sér og mynduðu
allt í gríð og erg. Frá Geysi var haldið
að Gullfossi og þaðan til baka um Lyngdalsheiði til Þingvalla. Það var farið að
halla degi þegar við lögðum af stað heim og nokkuð farið að kólna. Davíð hinn
spænski var farinn að skjálfa úr kulda enda hitastigið í Katalóníu talsvert
frábrugðið íslensku síðsumri. Hann mátti þó harka af sér því enn var talsverð
dagskrá eftir hjá verslingunum og skyldi standa fram á rauða nótt.
Það var ekki
fyrr en heim kom sem við foreldrar og fararstjórar áttuðum okkur á því að við
höfðum ekki tekið eina einustu mynd í dagsferðinni! Við lofuðum sjálfum okkur
að standa okkur betur daginn eftir, á sunnudeginum. Þá höfðum við ákveðið að
renna á Reykjanesið og sýna Davíð m.a. Krýsuvík, Strandarkirkju og
Raufarhólshelli. Bláa lónið var inni á
sameiginlegri ferðaáætlun hópsins og skyldi heimsótt í vikunni.
Svo rann
sunnudagurinn upp. Veðrið, sem hafði leikið við okkur daginn áður hafði
algerlega snúist við og nú var þoka með húðarrigningu á köflum. Eftir að hafa
ræst ungmennin undir hádegið og haldið fund um málið var ákveðið að setja undir
sig hausinn að víkingasið og æða út í votviðrið. Fyrsti viðkomustaður okkar var Kleifarvatn, þar sem ekið var niður að vatni og skoðaðar móbergsmyndir, bæði manngerðar og náttúrlegar. Á meðan rigndi svo ofboðslega að ég er sannfærður um að ef bíllinn hefði verið s.s. hundrað metrum lengra í burtu hefðum við hreinlega orðið úti á göngunni!
Þá var það Seltún. Ég þuldi upp söguna um hverinn sem sprakk og sýndi Davíð ummerkin, þ.e. þau sem enn sjást. Ég er ekki viss um að hann hafi haft mikinn áhuga fyrir leirslettunum, áhuginn snerist meira um að lifa veðráttuna af......
Vestfirskir víkingar þurftu hins vegar hvorki úlpu né húfu enda kallast það ekkert veður sem ekki fylgir snjókoma.....
Bergrós Halla var hins vegar aðeins tæpra fjögurra ára þegar hún flutti af Vestfjörðunum og vill gjarnan álíta svona veður "skítaveður":
Ég veit ekki hvort myndavélin hans Davíðs komst heil úr hildarleiknum, en blaut var hún orðin. Eftir þessa heimsókn í Seltún bætti heldur í veðrið og frekari myndatökur lögðust af. Ferðin hélt hins vegar áfram þótt lítið sæist út, bæði vegna þoku og eins vegna móðu á bílrúðunum. Við skoðuðum leifarnar af Krýsuvíkurkirkju og upplýsingaskilti um hana, renndum svo austur í Selvog, meðfram Hlíðarvatni og að Strandarkirkju. Eftir stutta skoðun þar var haldið að T-bæ, litla veitingahúsinu í Selvogi. Þar var að ljúka skírnarveislu í hliðarsal en samt var kaffisalan opin almenningi. Í afgreiðslunni voru tvær fullorðnar konur og við tókum spjall yfir kaffi og kökusneið. Einhvern veginn barst Ísafjörður í tal og uppruninn þar. Önnur konan sagðist þá vera að vestan og hefði m.a.s. alist upp á Ísafirði - hefði búið í Aðalstræti átta. Ég fór að telja upp þá sem ég mundi eftir í "hennar" enda hússins, Bjarna sem þar bjó, Binna Bjarna, son hans sem líklega býr enn fyrir vestan og Jónu Bjarna. "Ég er Jóna Bjarna" sagði þá konan og skemmti sér vel yfir mínum viðbrögðum, því sú Jóna Bjarna sem ég mundi eftir var gjörólík konunni sem ég var að tala við - enda trúlega þrjátíu ár liðin frá því ég sá henni síðast bregða fyrir!
Þannig var nú það. Við þökkuðum fyrir okkur og kvöddum þessar indælu konur í T-bæ. Okkar leið lá til Þorlákshafnar og veðrið var orðið þannig að vart var hundi út sigandi.
Við snerum á þessu útsýnisplani sem gert hefur verið niðri við vitann á Hafnarnesi. Ég reyndi að segja Davíð frá "dólossunum" steinsteyptu sem notaðir voru í eina tíð til að gera hafnargarðinn í Þorlákshöfn en er ekki viss um að hann hafi skilið mig - eða kannski þóttu honum þessi steyptu "tvö-T" -stykki bara ekkert merkileg.
Við höfðum talað um að reyna að líta á Raufarhólshelli í heimleiðinni en veðrið kom í veg fyrir langa göngu þar. Grjótið í hellinum var flughált og eftir svo sem 3-400 metra var ákveðið að snúa við og reyna frekar að komast heil heim. Það tókst og eftir alfataskipti hélt stíf dagskrá unglinganna áfram.
Á mánudagsmorgni tóku skipuleggjendur heimsóknarinnar í Versló við taumnum og sáu með prýði um sinn þátt. Það kom svo í minn hlut að aka Davíð út í Leifsstöð á fimmtudeginum. Þar með lauk vikulangri, velheppnaðri heimsókn spænsku verslinganna (ef frá er talið sunnudagsveðrið) og fyrir lá undirbúningur þeirra íslensku sem endurgjalda skyldu heimsóknina að tæpum mánuði liðnum. Sú ferð tókst líka með miklum ágætum en ég sem foreldri hafði fátt af henni að segja.
......ég veit bara að það var sól á Spáni.......alla dagana!
Eðalhundurinn
Edilon Bassi Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff varð heilla átta ára í gær, 22.
nóv. Hann komst í mína eigu tæplega tveggja ára og þessi rúm sex sem liðin eru
síðan hefur afar sjaldan verið langt á milli okkar. Í tilefni dagsins færði Elín Huld (sem á
þónokkurn heiður af uppeldi Bassa og umhirðu) honum kórónu sem búin var til á
leikskólanum Efstahjalla í Kópavogi.
Bassi var ekki par sáttur við að láta mynda sig með kórónuna og þurfti
utanaðkomandi aðstoð svo sæmilega tækist til. Hann fékk svo ekta
afmæliskvöldverð, nefnilega sælkerakjötbollur, og súkkulaðikex í eftirmat.
Því miður
þurfti Bassi svo að eyða fyrri hluta afmæliskvöldsins einn, því við EH vorum á
leið í Hörpuna að horfa (og hlusta) á Verslóvælið. Söngfuglinn og Verslódaman Bergrós Halla
var nefnilega meðal flytjenda og stóð sig með prýði eins og búast mátti
við.
Efsta myndin
hér að neðan er tekin af þeim Bergrós Höllu og Bassa í slökun heima í
Höfðaborg. Þær neðri eru svo teknar í gær, á sjálfan afmælisdaginn:
Í dag var svo allt annar dagur. Það er laugardagur ( reyndar er honum farið að halla verulega) og veðrið hefur leikið við fólk hér í borgarlandinu. Ég hafði beðið talsverðan tíma eftir veðri til að hreyfa Stakkanesið og nú gafst ágætt tækifæri. Það var reyndar frekar kalt þrátt fyrir sólskinið, mælirinn sýndi mínus fjórar í birtingu en eina og hálfa um hádegið. Þegar Stakkanesið var sett í gang kom í ljós að vélin skilaði ekki kælisjónum frá sér. Það hafði semsagt krapað í lögninni og tók nokkur augnablik að hreinsa hana út. Að því loknu voru landfestar leystar og siglt út sundið í átt að Viðey. Þetta átti nefnilega ekki að vera löng sjóferð því upp á þessa helgi ber einnig síðustu Formúlukeppni ársins og henni sleppir maður ekki!
"Mamma" hans Bassa hafði beðið um að fá að fara með ef farið yrði og var auðsótt. Hún kom með nesti og eftir að við höfðum bundið Stakkanesið við bryggju í Viðey og gengið yfir þvera eyjuna (tvennt gekk, einn hljóp) var sest niður á fallegum útsýnisstað og nestið tekið upp:
Fyrir ofan er horft frá norðurströnd Viðeyjar inn til Mosfells (í myndjaðri vinstra megin), Helgafells, Grímmannsfells, Lágafells, Reykjafells og Úlfarsfells - séð frá vinstri til hægri. Næst til vinstri sér á sinuna í Geldinganesi.
Fyrir neðan er horft yfir Kollafjörðinn til Lundeyjar á miðju sundi. Kjalarnesbyggðir í baksýn:
Að neðan er enn horft yfir spegilsléttan sjóinn, yfir Brautarholt á Kjalarnesi til Akrafjalls:
Nestið var svo sem ekki flókið, kókómjólk og ostaslaufur. Það er samt alveg ótrúlegt hvað hundur - næstum ósköp venjulegur hundur - getur verið sólginn í ostaslaufur!
........og svo leið dagurinn, áður en varði var kominn tími til að rölta til báts og sigla heim. Við sáum til nokkurra siglara sem höfðu gripið tækifærið og "hreinsað botninn" í veðurblíðunni. Mér sýnist að alla næstu viku sé spáð hlýindum en nokkrum vindi og í ljósi þess að dagurinn er nánast enginn orðinn og fyrr eða síðar koma vetrarstormarnir, er líklegt að dagar Stakkanessins á floti þetta árið séu senn taldir.
Lagfæringum á Isuzu- vörubílnum sem ætlað er að bera Stakkanesið milli landshluta í framtíðinni miðar hægt en örugglega áfram. Nú fyrir nokkrum dögum kom svo upp glæný staða í þeim málum sem mun líklega auðvelda mér þessa flutninga um allan helming ef af verður - og það er nokkuð gulltryggt að af því verður. Mér bauðst nefnilega kerra að láni, sem er svo stór að hún rúmar auðveldlega Stakkanesið í bátavagninum sínum - rétt eins og Isuzu er ætlað að gera. Kerran ber fjögur tonn, sem er talsvert meiri burðargeta en vörubíllinn hefur, og það sem meira er: sjúkrabílinn, með öll sín hestöfl ætti ekki að muna mikið um að renna í Hólminn og jafnvel lengra með ækið í eftirdragi.
Í mínum huga er því eiginlega nærri komið vor - eða þannig..........
Mér finnst
ég ekkert sérstaklega gamall - allavega ekki í anda, eða þannig.
Samt finnst mér vera liðin svona þúsund ár síðan ég ók af Breiðadalsheiði (já, eða ofanverðum Dagverðardal eftir því hvernig á er litið) yfir hálsinn að Nónvatni. Það eru raunar komin nokkur ár því þetta var sumarið ´89. Ég gæti átt í fórum mínum ljósmynd af þessu ferðalagi og ef ég finn hana birtist hún hér neðar.
Atvikin högðu því svo að ég skrapp til Ísafjarðar í ágústmánuði sl. Tilgangurinn var svona nokkurs konar vinaheimsókn, þar sem rifjuð voru upp gömul kynni og stofnað til nýrra. Farartækið var sjúkrabíllinn sem nokkrum sinnum hefur verið nefndur áður og heimsóknin spannaði tvær helgar. Fyrri helgina var mikið ekið enda var þá löngu burtfluttur félagi minn með í för. Sá hafði ekki komið til Ísafjarðar í áraraðir og greip tækifærið þegar bæði gisting og bíltúr voru í boði. Veðrið þessa helgi var ekki upp á marga fiska en við tókum laugardaginn snemma og ókum um göngin vestur til Þingeyrar, á köflum í ausandi rigningu og alla leið með þokuna hangandi í útvarpsloftnetinu. Gegnum þorpið héldum við út í Haukadal og áfram út í Keldudal. Það er gaman að koma út í Keldudal í góðu veðri því bæði er dalurinn fallegur, útsýnið magnað og leiðin áhugaverð svo ekki sé meira sagt. Þennan dag var Keldudalurinn jafn fallegur og aðra, en útsýnið var frekar lítið og vegurinn svaðblautur. Myndavélin var með í för en ég verð að viðurkenna að ég tók ekki eina einustu mynd - fannst það hreinlega ekki vera fyrirhafnarinnar virði, sem er auðvitað tótal kjaftæði því í svona eftiráfrásögn hafa myndir heilmikið gildi, þó ekki væri nema fyrir það eitt að sýna veðrið eins og það var.
Ég fór fyrst út í Keldudal fyrir u.þ.b. tuttugu árum, skrifaði frásögn um ferðina fyrir sex, sjö árum og þá með myndum. Ef ég finn þá frásögn hlekkja ég á hana -HÉR-
Það dró aðeins úr rigningunni er leið á daginn og þokunni létti heldur. Þegar við snerum til baka kom upp sú hugmynd að heimsækja sundlaugina á Þingeyri. Það var semsagt laugardagseftirmiðdegi, dumbungsveður og gjóla, akkúrat svona veður sem fær fólk til að skella sér í flotta innisundlaug með potti og öllu - en hvar var þá allt fólkið? Jú, í sundlauginni voru tvö stelpuskott að afgreiða og auk okkar komu tveir menn, trúlega feðgar og sátu skamman tíma í pottinum. Það var nú öll aðsóknin að þessu fyrirmyndarmannvirki. Við höfum líklega dvalið hátt í klukkutíma í laug og potti og vorum, eins og fyrr segir nær einir á svæðinu. Eftir sundlaugarferðina var haldin pylsuveisla í enneinnsjoppunni, sem okkur var sagt vera eina matvöruverslun bæjarins. Ég vísa aftur til fyrstu línu pistilsins en mér finnst ár og dagur síðan ég gekk um stórverslun Kaupfélags Dýrfirðinga sem þá var og hét, skoðaði bækur í bókabúðinni og dót í dótabúðinni. Í fyrrasumar var ég á Þingeyri í sirka klukkutíma og fékk þá kaffi og vöfflu í Simbahöllinni. Þar var líka einu sinni verslun...........
Full ferð á sjúkrabílnum til baka um Dýrafjarðarbrú, yfir Gemlufallsheiði á krúskontról með stillt á 95 og það dró ekki niður í dísilsleggjunni á uppleiðinni. Renningur út á Flateyri þar sem enn býr fólk á seiglunni einni saman. Þar lá stærsti bátur byggðarlagsins ónýtur á sjávarbotni við bryggjukantinn. Mér datt í hug myndir sem maður sér á netinu af yfirgefnum veiðistöðvum á Suðurskautslandinu, hálfsokkin skip, hálfhrunin hús, tómar götur........
Bjössi Drengs var hins vegar sprellifandi heima í Breiðadal og hann átti ágætis kaffi.
Um kvöldið var stórveisla hjá okkur félögum í Tjöruhúsinu, sjávarréttahlaðborð að hætti Magga Hauks. Bregst aldrei.
Svo var allt í einu kominn sunnudagur og félaginn á suðurleið aftur. Við ókum hvor sínum bíl inn í Súðavík og litum þar inn hjá vinafólki - sem skömmu síðar flutti af staðnum með allt sitt. Við áttum þó enga sök þar á, hana eiga aðrir....
Í Súðavík skildu leiðir og félaginn ók suður á við. Ég sneri til baka og tók eftir því við Arnarnesið að veðrið hafði heldur en ekki breytt um svip frá deginum áður - það hafði birt til fjalla, blámi sást í lofti og ég sá í hendi mér að nú myndi gott útsýni af Bolafjallinu. Félaginn hefði haft gaman af því að fara þangað upp en sá möguleiki var ekki lengur fyrir hendi. Eftir stutt stopp við Arnarnesið og enn styttri samráðsfund með Bassa þar sem boðið var upp á veitingar í kexformi, var afráðið að skella sér á Bolafjallið. Veðrið hélt áfram að lagast og þegar út í Bolunarvík kom var komin þessi dæmigerða vestfirska blíða að frádregnum nokkrum vindsperringi sem þó gætti ekki að ráði fyrr en uppi á Bolafjallinu sjálfu. Við Bassi röltum dálítið um brúnina, kíktum niður þar sem það var hægt og skoðuðum yfir Djúp í kíki ( ekki þó Bassi). Blæstrinum þarna á fjallinu fylgdi nokkuð kul og kulinu fylgdi letikast. Ég sneri til bíls, upp í ból og undir teppi, greip bók og las í góðan hálftíma meðan Bassi hljóp langar leiðir út og inneftir fjallinu - trúlega í leit að kindum til að reka. Að endingu var lesturinn truflaður af háværu gelti. Þegar ég leit út stóð Bassi þar og gelti að blásaklausum útlendingum á fjallaferðabíl, sem höfðu komið á fjallið án þess ég yrði var við. Útlendingarnir höfðu raunar þegar séð sakleysissvipinn á "óargadýrinu" og hlógu góðlátlega að hamaganginum. Ég fór út, bað afsökunar á "úttlensku" og fjarlægði hávaðasegginn. Okkar tími var liðinn og við héldum í rólegheitum niður af fjallinu og beint í heita pottinn í sundlaug Bolunarvíkur. Eftir hátt í klukkutíma dvöl þar meðal kunningja var enn haldið af stað og nú til Ísafjarðar. Þegar þangað kom áttaði ég mig á að ég hafði svo sem ekkert sérstakt að gera annað en að eyða deginum svo mér datt í hug að athuga hversu langt væri enn hægt að aka upp Dagverðardalinn. Um hann lá jú þjóðbraut vestur til Súgandafjarðar og Önundarfjarðar fyrir gerð Vestfjarðagangna en eftir það vissi ég það eitt að Skotfélagið hafði fengið úthlutað svæði ofarlega á dalnum og þangað myndi bílfært. Dagverðardalurinn var alla tíð malarvegur, lengst af erfiður í viðhaldi vegna halla og vatnsrennslis. Það mátti því búast við að sá kafli hans sem lítt eða ekkert er ekinn lengur væri orðinn afar lélegur.
Það kom í ljós að upp að skotæfingasvæðinu var vegurinn var mjög þokkalegur en þar fyrir ofan var hann aðeins grófur ruddi, enda mestallt yfirborðsefni þvegið úr honum og grjótið eitt eftir. Það glamraði í bollum og könnum í hillum sjúkrabílsins þegar fetað var yfir grjótið en samt var haldið ofar því ég hafði fundið mér nýtt markmið, nefnilega að skoða hvernig vegurinn væri yfir hálsinn - Engidalsfjöllin - og að Nónvatni. Afleggjarinn að Nónvatni er aðeins ógreinilegur slóði sem liggur af hinum gamla aðalvegi um Breiðadalsheiði rétt við vegamót Botnsheiðar og í gagnstæða átt. Hann var þó nokkuð auðfundinn og sjúkrabílnum var beitt á hann.
Ekki hafði ég ekið langt þegar á mig fóru að renna tvær grímur. Vegurinn var (eins og ég vissi) afar grófur og grýttur enda lagður sem leið lá yfir klappir og holt. Sjúkrabíllinn, þó fjórhjóladrifnn væri, var augljóslega ekki hentugasta farartækið í svona ferðalag þar sem allt lauslegt var í hættu. M.a.s. Bassi var hálfhræddur við hristinginn og lætin, og kom sér fyrir í farþegasætinu við hlið mér. Það var skárra en að liggja á gólfinu. Eftir u.þ.b. kílómetra ákvað ég að snúa við og geyma Nónvatnið til betri tíma. Ákvörðuninni fylgdi önnur samhliða, nokkurn veginn á þá leið að þar sem ég ætti leið vestur fyrir veturinn á Hrossadráparanum skyldi ég aka á honum frameftir. Hrossadráparinn hefur nefnilega marga fjöruna sopið þegar kemur að erfiðum slóðum og spottum og hann getur étið þennan Nónvatnsveg hreinlega í morgunmat.
Þegar inn á aðalveginn kom langaði mig að klára brekkuna og aka upp í háskarðið, milli kinnanna tveggja þangað sem sæist vestur til Önundarfjarðar. Á kortinu mínu heitir skarðið Breiðadalsskarð og úr Breiðadalsskarði er víðsýnt til beggja handa. Þaðan var líka auðséð að Kinnin (með stórum staf) yrði ekki ekin á sjúkrabílnum í þetta sinn því "vegurinn" var lokaður af grjóthruni og úrrennsli. Ég lét því staðar numið þarna á hæsta punkti Breiðadalsheiðar og myndaði yfir Dagverðardalinn, Tungudals"hálendið, út yfir Skutulsfjörð, Ísafjarðardjúp og allt yfir til Snæfjallastrandar:
Mig langaði að aka upp á Þverfjall og litast þar um. Hér áður fyrr var ég hagvanur á Þverfjalli enda átti ég mörg sporin (og hjólförin) þangað upp í misjöfnum veðrum og færð til að huga að radíóbúnaði á vegum Pósts og Síma (sem svo hétu þá). Hér gilti hins vegar hið sama og um Nónvatnsafleggjarann - ég vildi ekki mölva postulínið í hillum og skápum sjúkrabílsins og lét því liggja að sinni. Þverfjallið bíður Hrossadráparans líkt og Nónvatn og Fossavatn í Engidal.
Það er kannski rétt, af því í mörgum pistlum á undanförnum árum hefur verið minnst á Hrossadráparann, að gefa örstutta skýringu á þessu nafni - sem mörgum finnst hálf óhugnanlegt. Þannig er að sumarið ´08 sá ég á tjónaútboði hjá VÍS auglýstan átta ára Suzuki Vitara jeppa, illa dældaðan að framan. Hann var hins vegar lítið ekinn, ættaður úr uppsveitum Suðurlands og í eigu sama manns frá upphafi. Þannig hagaði til að ég átti framenda í heilu lagi á þennan bíl, gerði því allt að því fáránlega lágt tilboð í hann og lét slag standa. Fyrir einhverja tilviljun var mér hins vegar sleginn bíllinn og ég tók það sem merki um að einhver vildi greinilega stýra honum í mína eigu ( það er allt í lagi að dramatisera hlutina dálítið, ekki satt?). Þegar gengið var frá kaupunum hjá VÍS spurðist ég fyrir um tilurð tjónsins á bílnum og fékk að vita að hann hefði lent á hesti-eða hestum og skemmst svona illa við það. Ekki lágu fyrir upplýsingar um afdrif hestsins/hestanna en miðað við skemmdirnar hefur a.m.k. ein skepna steinlegið.
Bíllinn fór svo heim á Lyngbrekkuna í viðgerð sem lauk á stuttum tíma enda allir hlutir til staðar, og hefur síðan snúist langt á annað hundrað þúsund kílómetra í minni eigu. Nú sýnir mælirinn tæpa tvöhundruðogfjörutíu þúsund kílómetra og enn er ekkert lát á þeim gamla.
Þá er upplýst allt það helsta um hrossadráparann og útúrdúr lokið. Þverfjallið fékk semsagt að vera í friði að sinni og leið okkar Bassa lá til baka niður að gamla sæluhúsinu Kristjánsbúð, við vegamót Botns- og Breiðadalsheiða. Sú var tíðin að við skellinöðruguttar höfðum þarna viðkomu á ferðum okkar yfir heiðar þegar við sóttum í að heimsækja upprennandi dömur á Suðureyri og Flateyri (Hér er skylt að taka fram að í þeim efnum bar Suðureyri höfuð og herðar yfir Flateyri - miklu fleiri og miklu fallegri stelpur!). Ég fullyrði að í þá daga var hlutum sýnd meiri virðing en síðar varð og aldrei mun það hafa hvarflað að nokkrum okkar að ganga um húsið öðru vísi en með tilhlýðilegri virðingu. Nú er öldin önnur og gamla sæluhúsið á heiðinni hefur ekki sama hlutverki að gegna og áður, þegar engin voru Vestfjarðagöngin. Nú koma þangað fáir, og þeir fáu sem koma fá að vera í friði með það sem þeim dettur í hug. Stundum rekast þarna uppeftir krumpaðar sálir sem fá eitthvað út úr því að leggjast á gamalt, fúið sæluhús og rífa það sundur með berum höndunum:
Gamla sæluhúsið er klárlega ekki svona útlítandi af völdum veðurs, því það veður sem hefði valdið álíka skemmdum hefði líka feykt ruslinu burtu. Brotin lágu hins vegar beint neðan við, sárin voru nýleg og það var deginum ljósara að sá eða þeir sem þarna höfðu "skemmt sér" höfðu haft nægan tíma og nægan áhuga. Innandyra var eitt og annað sem hefði mátt hirða ef áhugi hefði verið fyrir hendi, svosem forláta olíuofn - en kannski höfðu farartæki þeirra sem dunduðu sig við að eyðileggja húsið ekki haft flutningsgetu fyrir slíkt. Dagatalið sem hékk á veggnum innandyra hafði heldur ekki haggast fyrir neinu veðri.......
Mér fannst þetta dapurlegt merki um mannanna eðli. Ofan við húsið stóð gamli vitinn sem í náttmyrkri og dimmviðri varpaði hvítum geislum með stuttu millibili yfir heiðina. Oft var vitaljósið eina skíman sem maður hafði á heiðinni þegar ferðast var um í slæmu veðri á vélsleða Símans sáluga. Þá var ekki verra að geta skotist inn og beðið af sér hríð eða safnað kröftum fyrir næstu atrennur, annaðhvort upp á Þverfjall eða áleiðis heim. Það er orðið langt síðan síðasta leiftrið lýsti út yfir heiðina en vitinn stendur enn:
Frá Kristjánsbúð lá leiðin niður heiði á ný. Það var farið að halla degi og Hamraborg farin að kalla í kvöldmat. Enn ein helgin að líða, tvöhundruðogsjötíu kílómetra þvælingur um Keldudal í Dýrafirði, Súðavík, Bolafjall og Breiðadalsheiði að baki og kominn tími á smáhvíld. Við tóku fimm virkir dagar, svo var aftur komin helgi. Það var mikið ferðast þá helgi og dugar í annan pistil...........
(Örstutt í lokin: Mér hefur ekki tekist að finna pistilinn sem ég skrifaði forðum um Keldudal í Dýrafirði. Blog-central kerfið er lokað og ég kemst ekki í efnið mitt þar. Ég á líka eftir að finna myndir af ferðinni yfir að Nónvatni ´89 en hún er geymd á vísum stað og birtist síðar)
Frídagur
verslunarmanna árið 2013 var ekki frídagur dýranna. Í það minnsta ekki frídagur
dýranna í dýragarðinum að Slakka í
Laugarási, Biskupstungum. Eins og fram kom í síðasta pistli eyddum við EH
sjálfri helginni á stefnulitlu rápi um flatlendið austan fjalla en á meðan
tveir eldri afleggjararnir skemmtu sér á þjóðhátíð í Eyjum stóð sá yngsti sína
plikt í vinnu á höfuðborgarsvæðinu. Bergrós Halla átti svo sitt frí á
mánudeginum líkt og margir aðrir og við EH höfðum ákveðið að gefa henni þann
dag - þ.e. gera eitthvað það með henni sem henni þætti skemmtilegt og óskaði
eftir. Við höfðum jafnframt ákveðið að leggja fram okkar tillögu, sem mótaðist
fyrst og fremst af veðurútliti dagsins og svo öðru (smá)atriði sem okkur grunaði
að hægt væri að stilla upp.
Bergrós Halla hafði aðspurð engan sérstakan viðburð
í huga, var aðallega þreytt eftir vinnutörn helgarinnar. Þegar við svo viðruðum
okkar hugmynd gleymdist henni öll þreyta á svipstundu og andlitið ljómaði eins
og á þeim sem gleðjast beint frá hjartanu. Okkar tillaga snerist nefnilega um
bíltúr austur í Slakka í Laugarási, þar sem vistuð eru dýr af flestum mögulegum
tegundum, jafnt láðs- sem lagar. Jú, og lofts auðvitað því ekki má gleyma
fuglunum (hvort eru hænsni annars dýr loftsins eða láðsins?)
Það voru
liðin allmörg ár síðan Bergrós Halla heimsótti Slakka síðast. Ef við giskum á
fjögur ár þá er mikill munur á því að vera fjórtán eða átján, ekki satt? Rósin
okkar var rétt að detta yfir átján ára markið langþráða en það var hreint ekki
að sjá á kiðlingalátunum þegar ferðin var undirbúin og lagt var af stað. Okkur
EH leiddist svo sem ekkert heldur enda fátt skemmtilegra en að sjá afkvæmin
gleðjast svo innilega. Aðeins einn lét sér fátt um finnast og hreiðraði um sig
upp við drifaskiptistöng sjúkrabílsins - ekki kannski notalegasti staðurinn en
þegar maður (hundur) veit af nammipoka í nágrenninu er vissara að halda sig
nærri...
Prinsessan fékk að sitja frammí og þar sem hún sat og föndraði við símann sinn var upplagt að hrinda í framkvæmd (smá) atriðinu sem fyrr var nefnt. Við vissum nefnilega að Áróra átti ferð frá Eyjum til Landeyjahafnar á svipuðum tíma og var ein á ferð á eigin bíl. Við höfðum því ákveðið að reyna að stilla hlutum svo upp að systurnar gætu hist í Slakka og átt þar góða stund með sínu uppáhaldsáhugamáli.
Allt gekk þetta eftir og innan skamms voru systurnar sameinaðar í kattakofanum. Ég segi það dagsatt að með kettina í höndunum höfðu þær ekki elst einn dag frá síðustu heimsókn og þetta velþekkta "Gvuð, má ég eig´ann?) hljómaði alveg jafn djúpt, heitt og innilega og áður fyrr:
Það þarf vart að taka fram að Edilon Bassi var geymdur úti í bíl á meðan. Hegðunarmunstur hans hæfir ekki slíkum samkomum og þótt hann sé gæðahundur að flestu leyti var óþarfi að taka áhættuna - enda bannað að koma með eigin dýr inn á svæðið.
Svo kom að því að fleiri -og yngri - vildu klappa kisunum. Okkar tvær voru ekki alveg á því að sleppa en létu sig þó á endanum. Næst var það hvolpahornið:
Það má svo vel giska á hvað hvolpurinn er að hugsa. Manni gæti dottið í hug: "Kræst, það eru enn þrír tímar til lokunar. Hvað þarf maður (hundur) eiginlega að þola þetta oft og lengi?"
Við foreldrarnir höfum svo sem ekkert á móti dýrum. Þessvegna máttum við alveg líka - svona aðeins........
Ég mátti til að mynda þennan fallega blending með raunalega andlitið. Hann var orðinn svo þreyttur á vafstrinu að hann stóð varla undir sjálfum sér. Starfsstúlkan sem heldur á honum sagði mér að búið væri að finna honum heimili og hann væri á leið þangað næstu daga. Vonandi hefur honum vegnað vel:
Svo fundu systurnar kanínubúrið. Þar festust þær algerlega og á tímabili héldum við að þær yrðu framvegis heimilisfastar í Slakka:
Meðan þær tvær sinntu sínu litum við aðeins á fiskabúrin. Þar gat að líta fisk sem ég kunni ekki að nefna og kann ekki enn, en hann er sannarlega með því ljótasta sem ég hef á ævinni séð:
...og svo voru allir hinir, sem alls ekki voru ljótir:
Ekki má gleyma þessum bölvaða hávaðasegg, sem rak upp hvert öskrið á fætur öðru svo menn og dýr hrukku við:
Þessi var öllu rólegri, sat á öxl eiganda síns og litaðist um:
Mér finnst mýs ekki skemmtileg dýr og vil helst ekkert af þeim vita. Þó man ég eftir skemmtilegu músabúri sem til var í Efri-Engidal uppúr 1960 og kúarektorinn Kristinn Sölvi safnaði músum í. Þær mýs voru ólíkt líflegri en þessi dauðyfli sem hrúguðu sér saman inn í alltof lítið hús:
Það leið að lokun dýragarðsins þennan daginn og Áróra, sem hafði tekið þjóðhátíðina með trompi vildi fara að nálgast bólið sitt í bænum. Hún lagði því af stað heimleiðis á undan okkur hinum, sem dóluðum í rólegheitum í átt til höfðuðborgarinnar og létum berast með straumi ferðafólks á heimleið eftir misvel heppnaða helgarútilegu. Sjálf höfðum við undan engu að kvarta. Við höfðum verið á ferðinni síðan á miðvikudagseftirmiðdag og spannað svæði allt frá ysta tanga Skálmarness í vestri til Þykkvabæjar í austri. Í okkar huga var þetta eins og mánaðarlöng reisa enda mun þetta vera áttundi pistillinn sem skrifaður er um þetta sex daga tímabil.
Ferðaáætlun sumarsins var þó hvergi nærri tæmd og á heimleiðinni voru rædd drög að næsta þvælingi. Þau plön áttu svo öll eftir að breytast................