Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


23.11.2013 21:29

Afmælissigling.


Eðalhundurinn Edilon Bassi Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff varð heilla átta ára í gær, 22. nóv. Hann komst í mína eigu tæplega tveggja ára og þessi rúm sex sem liðin eru síðan hefur afar sjaldan verið langt á milli okkar.  Í tilefni dagsins færði Elín Huld (sem á þónokkurn heiður af uppeldi Bassa og umhirðu) honum kórónu sem búin var til á leikskólanum Efstahjalla í Kópavogi.  Bassi var ekki par sáttur við að láta mynda sig með kórónuna og þurfti utanaðkomandi aðstoð svo sæmilega tækist til. Hann fékk svo ekta afmæliskvöldverð, nefnilega sælkerakjötbollur, og  súkkulaðikex í eftirmat.

Því miður þurfti Bassi svo að eyða fyrri hluta afmæliskvöldsins einn, því við EH vorum á leið í Hörpuna að horfa (og hlusta) á Verslóvælið.  Söngfuglinn og Verslódaman  Bergrós Halla  var nefnilega meðal flytjenda og stóð sig með prýði eins og búast mátti við.

Efsta myndin hér að neðan er tekin af þeim Bergrós Höllu og Bassa í slökun heima í Höfðaborg. Þær neðri eru svo teknar í gær, á sjálfan afmælisdaginn:





Í dag var svo allt annar dagur. Það er laugardagur ( reyndar er honum farið að halla verulega) og veðrið hefur leikið við fólk hér í borgarlandinu. Ég hafði beðið talsverðan tíma eftir veðri til að hreyfa Stakkanesið og nú gafst ágætt tækifæri. Það var reyndar frekar kalt þrátt fyrir sólskinið, mælirinn sýndi mínus fjórar í birtingu en eina og hálfa um hádegið. Þegar Stakkanesið var sett í gang kom í ljós að vélin skilaði ekki kælisjónum frá sér. Það hafði semsagt krapað í lögninni og tók nokkur augnablik að hreinsa hana út. Að því loknu voru landfestar leystar og siglt út sundið í átt að Viðey. Þetta átti nefnilega ekki að vera löng sjóferð því upp á þessa helgi ber einnig síðustu Formúlukeppni ársins og henni sleppir maður ekki!

"Mamma" hans Bassa hafði beðið um að fá að fara með ef farið yrði og var auðsótt. Hún kom með nesti og eftir að við höfðum bundið Stakkanesið við bryggju í Viðey og gengið yfir þvera eyjuna (tvennt gekk, einn hljóp) var sest niður á fallegum útsýnisstað og nestið tekið upp:


Fyrir ofan er horft frá norðurströnd Viðeyjar inn til Mosfells (í myndjaðri vinstra megin), Helgafells, Grímmannsfells, Lágafells, Reykjafells og Úlfarsfells - séð frá vinstri til hægri. Næst til vinstri sér á sinuna í Geldinganesi.

Fyrir neðan er  horft yfir Kollafjörðinn til Lundeyjar á miðju sundi. Kjalarnesbyggðir í baksýn: 


Að neðan er enn horft yfir spegilsléttan sjóinn, yfir Brautarholt á Kjalarnesi til Akrafjalls:


Nestið var svo sem ekki flókið, kókómjólk og ostaslaufur. Það er samt alveg ótrúlegt hvað hundur - næstum ósköp venjulegur hundur - getur verið sólginn í ostaslaufur!





........og svo leið dagurinn, áður en varði var kominn tími til að rölta til báts og sigla heim. Við sáum til nokkurra siglara sem höfðu gripið tækifærið og "hreinsað botninn" í veðurblíðunni. Mér sýnist að alla næstu viku sé spáð hlýindum en nokkrum vindi og í ljósi þess að dagurinn er nánast enginn orðinn og fyrr eða síðar koma vetrarstormarnir, er líklegt að dagar Stakkanessins á floti þetta árið séu senn taldir.

Lagfæringum á Isuzu- vörubílnum sem ætlað er að bera Stakkanesið milli landshluta í framtíðinni miðar hægt en örugglega áfram. Nú fyrir nokkrum dögum kom svo upp glæný staða í þeim málum sem mun líklega auðvelda mér þessa flutninga um allan helming ef af verður - og það er nokkuð gulltryggt að af því verður. Mér bauðst nefnilega kerra að láni, sem er svo stór að hún rúmar auðveldlega Stakkanesið í  bátavagninum sínum - rétt eins og Isuzu er ætlað að gera. Kerran ber fjögur tonn, sem er talsvert meiri burðargeta en vörubíllinn hefur, og það sem meira er: sjúkrabílinn, með öll sín hestöfl ætti ekki að muna mikið um að renna í Hólminn og jafnvel lengra með ækið í eftirdragi. 

Í mínum huga er því eiginlega nærri komið vor - eða þannig..........


..........................................

Flettingar í dag: 340
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79167
Samtals gestir: 18489
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 16:21:40


Tenglar