Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


19.10.2015 08:25

Mánudagur nítjándi..


Í skjáhorninu á tölvunni minni stendur 19.10.2015. Það þýðir tvennt: Tíminn flýgur áfram og liðnir eru tíu dagar frá síðustu færslu.

Það sem helst bar við í erli annars tíðindalítilla daga var að hún Sulta týndist. Kannski man einhver eftir henni Sultu frá því í fyrrasumar, ef ekki vil ég benda á tengil úr Færeyjaferðinni  hér hægra megin á síðunni, merktan "K". Þar er Sulta kynnt til sögunnar. Hér syðra átti Sulta svo heima í Ástúninu í Kópavogi, á þriðju hæð í blokk og þegar köttur býr á þriðju hæð í blokk eru strokuleiðir ekki margar. Svo flutti hún í Hraunbæinn á dögunum, aftur í blokk en nú á fyrstu hæð. 

Það fór að bera á því - eins og von var á - þegar Sulta eltist að hún sýndi með vissu millibili áhuga á genadreifingu. Þetta ástand varði reglubundinn tíma en þegar ég sá Sultu síðast var hún með versta móti og falaði jafnvel félagsskap af hundinum Edilon Bassa, sem hún þó allajafna vill hafa lítil samskipti við - nema þá helst í formi áreitis. 

Svo mun það hafa gerst að söngtrippið Bergrós Halla fór til vinnu einn morgun snemma í síðustu viku og gleymdi opnum glugga á herbergi með opnar dyr. Það varð Sultu of mikil freisting, um leið og íbúðin varð mannlaus stökk hún út um gluggann og hvarf á vit ævintýranna.....

Þegar leið að dagslokum og strokið uppgötvaðist varð uppi fótur og fit enda hefur Sulta ekki séð heiminn nema gegnum gler allt frá því hún skreið, þá hnefastór, upp á millikassann undir ferðadrekanum norður í Hallbjarnarstaðakrók á Tjörnesi. (Færeyjaferðin "L") Hún veit því lítið um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í Hraunbænum. Sultu var ákaft leitað og lýst eftir henni á helstu kattasamfélagsmiðlum. Allt kom þó fyrir ekkert, enginn kannaðist við að hafa séð hana úti við og enginn finnandi gaf sig fram. Óljósar upplýsingar bárust um að til hennar hefði sést við Árbæjarskóla og leitinni var um hríð beint þangað en án árangurs. 

Að kvöldi laugardags bárust þær fréttir eftir krókaleiðum gegnum hið ómissandi og ómetanlega internet að fínleg kisa sem svaraði til lýsingar hefði skriðið inn um glugga og gert sig heimakomna í kjallaraíbúð blokkarinnar. Sá sem þar bjó hafði hins vegar enga hugmynd um að kattar væri saknað úr húsinu og setti gestinn því út aftur að morgni. Kattarhöldurum hafði sumsé láðst að lýsa eftir flótta"manninum" í nærumhverfinu - þ.e. blokkinni sjálfri!

Þar með var orðið nokkuð ljóst að Sulta væri ekki bara á lífi heldur hefði kannski aldrei farið langt frá húsinu. Nú var hver kimi vaktaður með þeim árangri að aðeins liðu örfáir klukkutímar frá því internetið skilaði sínum upplýsingum gegnum nýbökuðu mömmuna í Garðabænum til kattarhaldaranna í Hraunbænum til þess að Sulta fannst úti á bílastæði blokkarinnar - undir bíl og á kafi í ástandinu með sér miklu stærra fressi. Hún náðist þó inn á endanum og þar með var strokuævintýrinu lokið. Tíminn leiðir svo í ljós hvort hún flutti eitthvað með sér "í lestinni".

Að öðru leyti hefur vikan gengið sinn vanagang. Ég hafði ætlað mér að bóka eina góða helgi eða svo, í stéttarfélagshúsinu í Stykkishólmi síðar í þessum mánuði eða í byrjun þess næsta. Nú bregður hins vegar svo við að ásókn í húsið virðist hafa stóraukist síðan í fyrra og engin álitleg helgi er laus. Ég á pantaða nokkra daga eftir miðjan desember í félagsíbúð á Akureyri og hyggst þá njóta jólastemningarinnar í bænum, líkt og við EH gerðum í Vestmannaeyjum í fyrra og lesa má um HÉR, HÉR og HÉR.  Mér er slétt sama um hvort veðrið verður vitlaust eður ei, norður vil ek og skal þangað með öllum ráðum. Hvort ég kemst suður aftur er svo annað mál, enda skilst mér að Óskabarnið sé með ágætan rekstur á Akureyri og "mér er sama hvar ég ræ...."

Það verða því varla nema dagstúrar í Hólminn fram að jólum enda er svo sem nóg að gera við frítímann í Höfðaborg fyrir og eftir jól. Ég á t.d. eftir að endurbyggja gamlan Benz húsbíl, þið munið........

Af öðru segir færra. Rauða skellinaðran hefur verið rúin öllu rauðu og stendur nú berstrípuð undir ábreiðu í geymslunni sinni. Ég hef nefnilega ekkert verið að sýna á myndum ljóta dæld í bensíntanknum hægra megin, dæld sem mér skilst að hafi komið á sínum tíma í flutningum til landsins. Þessi dæld átti stóran þátt í því lága verði sem ég greiddi fyrir hjólið í sumar en nú á semsagt að lagfæra hana. Hér fyrir neðan birtist ein þeirra mynda sem sýna skemmdina:











 Rauðu hlutirnir hafa verið sendir til Sandgerðis þar sem margnefndur General Bolt-on ætlar að taka þá til meðhöndlunar í vetur. Hvað út úr því kemur verður gaman að sjá. Bláa bifhjólið hefur lítið bifast undanfarna daga enda nóg annað að gera en að fíflast í frítímanum. Ég má þó segja að útlit þess hafi tekið stakkaskiptum enda mátti svo sannarlega leggja á það hönd eftir langar útistöður uppi á Snæfellsnesi. Brúnir taumar undan boltum og skrúfum eru að mestu horfnir enda hafa brúnir boltar og skrúfur vikið fyrir ryðfríum.

Það er mánudagur og kvöldvakt þessa vikuna. Klukkan er að verða hálftíu og ekki seinna vænna að nýta daginn fram að vinnu.....

Flettingar í dag: 393
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79220
Samtals gestir: 18493
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 19:17:22


Tenglar