Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


15.12.2014 10:30

Enn fjör í Eyjum!


Það er kominn mánudagsmorgunn og það er kalt úti. Ég hef raunar engan hitamæli en ég sé kuldann út um gluggann - og svo hef ég netið. Veður.is segir fjögurra stiga frost hér í Eyjum en það er vindbelgingur og virkar því mun kaldara. Það var andskoti kalt að hlaupa út í heitu potta sundlaugarinnar í gær en hlaupið var þess virði og það tók sirka klukkutíma að hita sig svo í gegn að maður væri farinn að hlakka til kælingarinnar á leið inn í klefana aftur!

Eftir laugina var litið inn í Eldheima. Þar var fámennt, afar fámennt. Við vorum einu gestirnir það síðdegið og enduðum heimsóknina á fróðlegu og góðu spjalli við safnstýruna. Skoðunarferðin um safnið er hreint mögnuð og allir sem heimsækja Eyjar ættu að setja ferð í Eldheima á oddinn. 

Það var bjartviðri í gær en sem fyrr segir bæði kalt og vindasamt. Við ætluðum okkur að ganga bæinn þveran og endilangan eftir Eldheimaferðina en gáfumst fljótlega upp og héldum okkur við bílinn. Þessi mynd hér að neðan er raunar tekin á föstudaginn rétt eftir komu og þarna er nær snjólaus bær. Það átti eftir að breytast.









Myndirnar hér að neðan eru teknar eftir sundlaugarferðina í gær, sunnudag. Það hefur hressilega bætt í snjóinn þótt ekki hafi verið um neina ófærð að ræða - ekki nema þá á stöku stað fyrir vanbúna bíla.





Kirkjugarðurinn er einstaklega fallega skreyttur - eins og raunar bærinn allur. Myndavélin mín er hins vegar hvergi nærri nógu góð þegar þarf að mynda við takmörkuð birtuskilyrði og þessar myndir hér að neðan eru þær skárstu úr fjölda mynda sem teknar voru yfir garðinn og nágrennið.








Það er semsagt kominn mánudagur og ágætt veður þrátt fyrir vind og frost. Við eigum heimferð með Herjólfi síðdegis á morgun, þriðjudag. Veðurspá fyrir þann dagshluta er afleit, spáð er suðaustan stormi. Ef Herjólfur fer ferðina á annað borð verðum við líklega snögg til Þorlákshafnar, með hávaðarok og sjógang í rassinn!

Ég er samt að hugsa um að hafa vaðið fyrir neðan okkur og kaupa aukadag í orlofshöllinni við Heiðarveginn............


.................

Flettingar í dag: 162
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 349
Gestir í gær: 101
Samtals flettingar: 65287
Samtals gestir: 16932
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 11:27:17


Tenglar