Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2016 Mars

31.03.2016 08:55

Gæðafæða.


Á dögunum (n.t.t. þann áttunda marz sl.) lýsti ég því hvernig bollasúpa sem rann út 20.06.2013 bragðaðist eins og daginn sem henni var pakkað. Ég þekki ekki mun á góðum og vondum mat, aðeins svona eða hinsegin og get því aðeins sagt að hafi þessi bollasúpa verið góð í upphafi þá var hún það enn - kannski jafnvel enn kjarnmeiri.

Í sama þætti lofaði ég að taka næst fyrir pottrétt sem rann út í nóvember 2013. Við það stend ég nú. Ég bragðaði samskonar pottrétt úti í Færeyjum sumarið 2014 og hann var bara afbragðsgóður. Já, semsagt "svona" matur, ekki "hinsegin". Það má gjarnan koma fram að ég eldaði hann sjálfur á bílastæði við bátaskýlin í Sumba á Suðurey eins og sanna má með myndum. Sá pottréttur var auðvitað innan allra löglegra marka enda var konan með í för og sá til þess að ég eldaði ekkert "ónýtt" eins og það heitir á kvennamáli.






Ég var svangur í kvöld og brá því á það ráð að efna gefið loforð og elda pottréttinn sem ég fann inni í skáp á dögunum. Fyrir staka tilviljun rak svo þessi sama kona inn nefið í Höfðaborg um það leyti sem rétturinn var tilbúinn. Um hennar viðbrögð og yfirlýsingar er best að hafa sem fæst orð. Ég fékk því að borða allt innihaldið sjálfur og get með sanni sagt að það var svo gott að ég tímdi engri örðu til Edilons Bassa sem þó þrábað um bragð. Mér fannst neitunin réttlætanleg - aldrei hef ég borðað hundamatinn hans!





Að máltíð lokinni brá ég mér á bar niðri í bæ, ekki þó til að fá í glas (sem eins og sumir vita gerist aldrei) heldur til að hlusta á Hinemoa, hljómsveit sem tengist fjölskyldunni talsvert. Flinkir krakkar þar á ferð. 
Nú eru liðnar einar fjórar klukkustundir frá kvöldmat og enn er ekkert sem bendir til að það hafi verið síðasta kvöldmáltíðin - eða þannig.....

30.03.2016 08:48

Bundið að nýju.


...og enn spá þeir hvössu! Það var því ekki seinna vænna að renna í Hólminn og óla Stakkanesið niður að nýju, að þessu sinni með bláum ólum. Kannski hefur blár litur einhvern fælingarmátt? Þeir vinnufélagar mínir hjá Eimskip eru betur gert fólk en það sem síðustu daga hefur kynnt sig, og lánuðu mér þessar góðu ólar. 
Að venju fylgdi svo einn kaffibolli hjá gömlu hjónunum. Stoppið varð aðeins lengra en ég ætlaði mér, því eins og venjulega vill togna úr öllum hlutum. Vegurinn var þurr og hitinn á uppeftirleiðinni var rétt yfir núlli en við núll eða undir á suðurleið.




26.03.2016 08:40

Stakkanes undir áföllum.


( Fært af Facebook frá 23/3)


Allt fram til þessa dags hélt ég að í Stykkishólmi byggi gott og heiðarlegt fólk. Nú renna hins vegar á mig tvær grímur....
Eða nei, það renna eiginlega engar grímur á mig - Nú veit ég einfaldlega betur.
Hvers vegna? Jú, vegna þess að í haust, hafandi fengið reynslu frá síðasta vetri, batt ég Stakkanesið mitt tryggilega niður á fjórar fullar vatnstunnur inni við Skipavík. Tvær vatnstunnur höfðu nefnilega ekki dugað veturinn þar áður því Stakkanesið fauk til hliðar með þær hangandi á sér - 400kg. af vatni. Í haust var þess vegna búið vel og tryggilega um með fjórum tunnum - 800kg. af vatni, tvær á hvora hlið og bundið yfir allt saman með nýjum, sterkum strekkiólum. Þannig umbúið hefur Stakkanesið staðið af sér öll vetrarveður. Þar sem ég er búsettur á höfuðborgarsvæðinu hef ég litið uppeftir öðru hverju og fylgst með en að öðru leyti treyst á að böndin héldu. Síðast var ég hér í Hólminum helgina 5-8 febrúar og þá stóð skipið í skorðum og böndin höfðu hvergi gefið eftir. Fyrir stuttu síðan gekk hér yfir mikið illviðri svo olli tjóni á eignum. Ég var hins vegar rólegur í Reykjavík, vitandi af Stakkanesinu eins vel frágengnu og mögulegt var.

Nú um páskana kom ég uppeftir og leit auðvitað á bátinn minn. Ég er ekki viss um að ég hefði verið jafn rólegur í illviðrinu á dögunum hefði ég vitað það sem ég sá nú. Einhver auðvirðileg sál hefur sumsé fundið hjá sér hvöt til að stela nýju strekkiólunum mínum, einu foktryggingunni minni, af bátnum! Ég hef gruflað og gruflað en ég kem ekki inn í minn heimska haus hvers konar manngerð fær af sér að gera svona nokkuð. Í mínum uppvexti vestur á Ísafirði var brýnt fyrir mér hversu rangt það væri að stela frá öðrum. Ég veit ekki hvernig þeim málum var háttað hér í Hólminum en eitthvað hefur viskan þá fallið utan garðs. Ég hef enga hugmynd um hver eða hverjir voru að verki og verð þess vegna - eðlilega - að setja alla undir sama hatt.






Ég er ekki að óska eftir strekkiólunum mínum til baka - ég á nóg af þeim og þykist enda vita að slík ósk væri gagnslaus. Sá sem er nógu siðblindur til að stela foktryggingunni af bátnum mínum er líka nógu siðblindur til að sitja sem fastast á henni í trausti þess að til hans hafi ekki sést við verknaðinn. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að skömm aumingjans lifir, hver sem hann er og meðan hann ekki finnst verða fleiri að bera þessa skömm.....
Eftir páskana fer ég suður með hálfum huga - ég get ekki ímyndað mér hverju verður stolið næst enda hef ég ekki ímyndunarafl til þeirra hluta eins og fram kom ofar. Þetta aumingjaframtak verður hins vegar til þess að ég verð að koma aftur á næstu dögum með nýjar ólar - þótt aumingjanum hafi verið sama þó Stakkanesið mitt fyki er mér það ekki, enda smíðaði ég það sjálfur og vil ógjarnan sjá þetta handverk mitt eyðileggjast - allra síst af þessum orsökum. 

20.03.2016 09:55

Hestur um Hest....



Í Höfðaborg er ekki til siðs að vaka frameftir á kvöldin, hvorki á virkum dögum né um helgar. Þess vegna vorum við Bassi á fótum rétt um sjöleytið. Hann hefur raunar minna við að vera en ég og þess vegna leyfir hann sér stundum að leggja sig aftur eftir "morgunfagnið"

Myndir dagsins (ekki svo að skilja að ég ætli að setja myndir inn daglega) eru teknar haustið 1993 við eyðibýlið Hest í Hestfirði. Ég var þarna einn á ferð, einu sinni sem oftar, það var síðdegi og stórkostlegt haustveður.




 Ég klöngraðist á jeppanum út fyrir býlið og út fjöruslóða allt þar til hraðinn var kominn undir gönguhraða. Þá lagði ég bílnum og gekk áfram langleiðina út í Tjaldtanga, þaðan yfir nesið og að gömlu eyðibyggðinni í Folafæti Seyðisfjarðarmegin. Þar var aðeins eitt hús uppistandandi og þó ekki meira en svo að það marraði í því þegar ég lagðist á húshornið og ýtti. Á sínum tíma fann ég fyrir því heimild að húsið / jarðarhlutinn muni hafa verið Heimabær, en kannski vita einhverjir betur.

Í skáp í hálfhrundu eldhúsi var gestabók í krukku ásamt blýantsstubbum. Ég kvittaði fyrir komuna en hélt svo áfram göngunni, upp langa og djúpa laut sem sk. heimildum heitir Álfalág. Þar var gríðarleg bláberjaspretta, svo mikil að ekki varð framhjá horft. Ég át mig upp lautina sem hallar stöðugt til fjalls. Þegar henni sleppti ofan til, hún jafnaðist út og ég sá loks til beggja handa var ég kominn himinhátt upp í Hestinn - a.m.k. fannst mér það. Bílinn sá ég sem lítinn depil í fjörunni Hestfjarðarmegin. Á niðurleiðinni í átt að bílnum var sama berjasprettan og það var farið að bregða birtu þegar ég hafði étið mig niður hlíðina.


Klukkan mun hafa verið að nálgast háttatíma þegar ég loks renndi í hlað heima á Ísafirði...


Síðasta myndin er reyndar ekki mín. Þegar ég yfirgaf bílinn og hóf gönguna sá ég ekki fyrir endann og skildi myndavélina eftir í bílnum. Þetta þótti mér afar slæmt en var ekki að gert því ég ætlaði ekki að eyða tíma í að ganga til baka eftir vélinni. Ég ætlaði að bíða betra tækifæris að ganga leiðina aftur og mynda allt sem fyrir augu bæri. Nú, 23 árum seinna er enn beðið tækifæris... Myndin af Heimabæjarhúsinu er klippt úr úr dagatali Hjálparsveitar skáta á Ísafirði og á sinn sess í albúminu mínu með svipuðum skýringum. Mig minnir að Gísli Gunnlaugsson á Ísafirði hafi tekið hana og ég vona að birtingin verði ekki illa séð.

08.03.2016 12:13

Hádegi.


Það er hádegi í Höfðaborg, líkt og annarsstaðar. Kannski aðeins svona meira há-hádegi, því nú fyrir hádegið urðu ákveðin tímamót hér heimavið. Þau fólust m.a. í því að eðalhundurinn Edilon Bassi Eyjólfs-eðaeftiratvikumElínarson Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhof Sandhaug Sóðalöpp fór í klippingu. Hann fer í klippingu sirka fjórum sinnum á ári. Fyrir hverja klippingu er hann ógnarstór hundur en á eftir er hann bara lítil og ræfilsleg písl sem kúrir sig skjálfandi af kulda uppi í sófa og vill ekki sjá að fara út og viðra sig. Svo fólust þessi tímamót líka í því að í fyrsta sinn ( í mínu minni) tókst mér að segja "nei, því miður" við mann sem hringdi og falaðist eftir aðstoð við bílinn sinn. Þeir sem best þekkja til vita hvílíkt risaskref var stigið með neituninni og horfir nú strax vænlegar með að ég geti mögulega lokið einhverju af þeim verkum sem ég þarf að ljúka fyrir sumarið - til þess einfaldlega að geta átt eitthvert sumar!

...og af því að nú er svona há-hádegi þá ákvað ég að gera sérstaklega vel við mig í mat. Það er raunar dálítið erfitt stundum því þrennt það leiðinlegasta sem ég veit í lífinu er að kaupa í matinn, taka bensín og borga reikninga með heimabanka. Þetta er ekki vegna þess að ég eigi ekki aura fyrir hlutunum, heldur er þetta eflaust einhver brotalöm í sálarlífinu. Á endanum verð ég að gera þetta allt en ekki fyrr en skáparnir eru tómir, bíllinn bensínlaus og reikningar komnir undir eindaga. Það vill svo til að núna eru skáparnir í eldahorninu í Höfðaborg nánast tómir. Ég gróf djúpt í einn og fann heila körfu með bollasúpum. Án þess ég þekki upprunann giska ég á að þessar bollasúpur séu þarna vegna þess að ég hafi tæmt einhvern húsbílinn eitthvert haustið og gleymt birgðunum. Þegar ég las á þessa bollasúpupakka stóð á þeim að síðasti söludagur væri svona frá miðju ári 2013 og fram á mitt ár 2014. Ég hef enga trú á að þurrmatur renni svo glatt út og trúr þeirri sannfæringu skellti ég í þessa fínu tómatsúpu. Eins og ég vissi - það var nákvæmlega ekkert að henni og ef eitthvað er er meiri kraftur í henni nú en var. Bollasúpur hafa yfirleitt langan lifitíma og þessi, sem rann út í júní 2013 hefur trúlega verið framleidd tveimur til þremur árum fyrr. Semsagt fínasta bollasúpa og tuttugu mínútum eftir neyslu kenni ég mér einskis meins, nema síður sé...



Ég mun í næsta þætti segja frá því hvernig pottréttur sem rann út 11/2013, bragðaðist..
  • 1
Flettingar í dag: 44
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135011
Samtals gestir: 27832
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:16:53


Tenglar