Hann er
búinn, hann júní og fleiri skemmtilegir hlutir verða ekki gerðir í þeim mánuði.
Eitt og annað hefur verið afrekað, ég hef td. átt afmæli (sem er auðvitað ekki afrek í sjálfu sér heldur óumflýjanlegur hlutur - því miður), skroppið mörgum sinnum í Hólminn og farið skemmtilegar siglingar, og m.a.s. náð að skreppa til Vestmannaeyja og eiga þar frábæran dag í góðum félagsskap.
Síðasta helgi er á pari við það allra skemmtilegasta. Ég nefndi hér rétt neðar að kajakinn skyldi með öllum ráðum inn í ferðabílinn og flytjast upp í Hólm, jafnvel þótt hann þyrfti að liggja í rúminu. Til að gera langa sögu stutta þá flutti ég kajakinn upp í Hólm í rúminu í ferðabílnum - það var nákvæmlega þannig. Elín Huld var með í för og bar baggana með mér, sem betur fór.
Við komum uppeftir seint á föstudagskvöld enda var seint lagt af stað að sunnan vegna anna. Lögðum á tjaldsvæðinu, snöruðum kajaknum úr rúminu og útfyrir bíl og steinsváfum fram eftir laugardagsmorgni í einmunablíðu. Eftir morgunverð og annað umstang var kajakinn aftur lagður til hvílu og rennt niður að höfn, þar sem Stakkanesið vaggaði við bryggju. Þar um borð var allt í lukkunnar velstandi eftir tveggja vikna kyrrstöðu. Kajakinn var svo borinn niður á bryggju og ég gallaði mig í hlífðarbuxur og gömlu, góðu svarthvítu gúmmískóna. Myndavélin var sett í hólf, björgunarvestinu smellt og þá var ekkert að vanbúnaði.
Utan við höfnina var nær sléttur sjór, aðeins örlitlar gárur og það var gaman að róa út í Stakksey, þar sem hvalrekinn var á dögunum og áðurnefnt bátsflak hafði sést á myndum. Það var sýnu meiri ylgja utan við eyna svo ég réri suður fyrir hana og inn á sundið milli Landeyjar og Stakkseyjar. Bátsflakið lá í litlum vogi suðvestanvert í Stakksey og þar var sjórinn spegilsléttur.
Fyrir vogsbotni var malarfjara á stuttum kafla, annars var leir. Ég renndi kajaknum upp í malarfjöruna og gekk á land með myndavélina.
Það er lítið eftir af þessum bát. Ég giskaði á að hann hefði verið sirka 15 - 17 tonn og ekki er annað að sjá en honum hafi verið rennt þarna upp vélarlausum. Ég sá heldur engar leifar af stýrishúsi. Það eru dæmi um að bátar sem lagt hefur verið við legufæri hafi slitnað upp og rekið inn um eyjar og upp í þær en þessi lá þannig að honum hlýtur að hafa verið ráðið þarna í fjöruna. Hver tilgangurinn var með því að setja aflagðan bát upp í óbyggða eyju veit ég ekki, því hvorki hefur efnið átt að nýtast til girðinga eða eldiviðar. Það rifjaðist upp fyrir mér að fyrir allmörgum árum hafði þetta flak verið mun sýnilegra af Reitaveginum í Stykkishólmi. Þá hafði skuturinn staðið hærra og meira borið á honum. Á fáum árum hefur flakið hrunið svo saman að það er vart sýnilegt úr bænum.
Sundurryðgaðir og samanfallnir olíutankar lágu innan um spýtnabrakið:
...og olíueldavélin úr lúkarnum lá þarna í brotum. Ekki ornar hún neinum lengur...
Í myndbandinu sem finnanlegt er í síðuhausnum undir samnefndum kafla tók ég skýrt fram að á á línuspilinu stæði "A.Bjerrum - Frederikshamn" með "M-i". Það er ekki rétt og sást við betri skoðun að "V"-ið í nafninu er á hvolfi. Það stendur því "Frederikshavn" á spilinu eins og lætur nærri en ég leiðrétti ekki myndbandið og því stendur villan.
Ofar í fjörunni liggja hlutar af rekkverki ásamt öðru járnavirki:
Eftir upplýsingum sem ég aflaði mér heimkominn hét þessi bátur upphaflega Tjaldur VE 225 og var smíðaður í Eyjum 1919. Frekari upplýsingar er að finna á netsíðu Tryggva Sigurðssonar "Flakaþefs" í Eyjum, "Bátar og skip" og vísast til þeirra upplýsinga HÉR. Myndin að neðan er fengin að láni úr ritverki Jóns heitins Björnssonar," Íslensk skip" 4bnd. bls. 149.
Í Stakksey er mikið fuglalíf og þegar ég kíkti upp á grasbakkann ofan fjörunnar flaug óðara æðarkolla af hreiðri. Ekki vildi ég raska ró fuglanna frekar og lét því duga að ganga fjöruna aftur að kajaknum. Ýtti á flot og réri af stað en ákvað að þar sem ekki var meiri ylgja en raun bar vitni væri gaman að róa umhverfis eyjuna.
Stakksey er ekki stór og róðurinn ekki langur en ég er óreyndur kajakræðari og hafði endalaust gaman af siglingunni. Myndin að neðan er tekin ofan (norðan) Stakkseyjar og sér næst til Súgandiseyjar en innar til Hvítabjarnareyjar og Skoreyja.
Allsstaðar er fugl, bæði æðarfugl, tjaldur og mávar.......
Svo var skipið tekið á land og gengið frá farangri:
Eftir róðurinn var tilvalið að skella sér í heita pottinn í sundlauginni. Yngri dóttirin hafði boðað komu sína í Hólminn og ætlaði að dvelja næturlangt. Við höfðum áætlaðan ferðatíma hennar og það stóðst á endum að þegar við gengum út úr sundlauginni var hún að renna framhjá Helgafelli. Augnabliki síðar var hún með okkur.
Þegar leið að kvöldi var ákveðið að renna út með Nesi allt til Hellissands. Úti í Grundarfirði lá þetta myndarskip og lá straumur farþega milli þess og lands. Skipinu svipaði nokkuð til ólánsskipsins Costa Concordia enda með sama fornafn og frá sama útgerðarfélagi í Genúa á Ítalíu.
Við ókum til Hellissands og litum þar á þéttskipað tjaldsvæðið og tókum nokkra hringi í bænum. Héldum því næst til baka inn að Rifi þar sem við hittum skrautfugla sem sýnt höfðu áhuga á að kaupa sjúkrabílinn. Lítið kom út úr þeim viðræðum en fuglarnir voru skemmtilegir engu að síður. Þegar hungur fór svo að sverfa að settum við okkur niður á kambi Sveinsstaðafjöru og grilluðum síðbúinn kvöldmat.
Flakið hér að neðan mun vera af Bervík SH 43 sem fórst undan Rifi fyrir réttum þrjátíu árum. Í Sjómannadagsblaði Snæfellsbæjar 2015 er þessa atburðar minnst nokkuð ýtarlega í myndum og máli. Báturinn náðist upp enda á grunnu vatni og flakið var dregið inn í Sveinsstaðafjöru.
Myndin hér að neðan er einnig fengin að láni úr riti Jóns Björnssonar frá Bólstaðarhlíð í Vestmannaeyjum, Íslensk skip" 2.bnd.bls.46. Þar kemur fram að vélbáturinn Bervík SH 43 var Ísafjarðarsmíði frá árinu 1954 fyrir Súgfirðinga og hét upphaflega Friðbert Guðmundsson ÍS 400:
Það leið á kvöldið og eftir steikina var dólað áleiðis inn í Hólm. Dóttirin átti von á vini sínum úr Reykjavík undir miðnættið og allt gekk það eftir.
Það var svo ætlunin að taka sunnudaginn snemma og sigla með parið á Stakkanesinu eitthvert út um eyjar. Um nóttina gerði hins vegar spænurok sem lítt slotaði með morgninum. Framan af var því dagurinn tekinn rólega, m.a. í sundlauginni en þegar á leið var þó ákveðið að reyna siglingu. Við fórum aðeins þrjú, Elín Huld ákvað að verða eftir í landi. Unglingarnir gölluðu sig upp og svo var lagt af stað. Höfnin var lygn en utan við Súgandisey tók við þung alda svo gaf á Stakkanesið. Það stefndi í að parið yrði gegnblautt á augnabliki svo snarlega var snúið undan og stefnan tekin inn Landeyjasund. Harða-aðfall var og rétt um hálffallið svo sundið flaut þokkalega. Stakkanesið ristir um 60cm tómt og dýptarmælirinn sýndi 1,1mtr í sundinu þar sem grynnst var, sem þýddi þá góðan hálfan annan metra. Við sigldum inn að flakinu af Ingólfi gamla sem liggur í Landey og flestir þekkja, og þaðan inn að Bænhúshólma. Við hann var snúið og haldið sömu leið til baka. Þessi sigling tók ekki langan tíma, kannski hálftíma eða svo en á þeim tíma hafði bætt svo í sjó að þegar norður úr Landeyjasundi kom mætti okkur kröpp vindbára svo gaf á. Unglingarnir skriðu því fram í lúkar í skjól og Stakkanesið seig í stefnið. Ekki minnkaði ágjöfin við það enda mátti þá sigla fulla ferð þegar mannkapurinn var kominn í skjól. Eftir á saknaði ég þess að hafa ekki látið myndavélina taka upp myndband út um framgluggana. Það hefði ekki verið leiðinlegt því fram að horfa var útsýnið ekki ósvipað ÞESSU HÉR þótt stærðarhlutföllin séu að vísu önnur!
Þetta var mesti veltingur sem ég hef lent í á Stakkanesinu frá því skriðbrettið var sett aftan á bátinn í fyrrasumar. Ég var búinn að sigla honum í krappri báru úti á Viðeyjarflaki hér syðra án brettisins og hann valt eins og tunna auk þess að vera mjög erfiður á lensi. Munurinn er mikill því auk þess að vera stöðugri á hlið og á ská bæði undan og á móti er báturinn talsvert rásfastari á lensi - það þurfti ekki lengri siglingu en þetta til að finna muninn. Það er ekkert flot í brettinu og sjór ofan á það á lensi virðist halda bátnum frekar niðri en að lyfta honum upp. Ég hef ekki sérstaka þekkingu á þessum hlutum, aðeins tilfinninguna og samanburðinn við það sem áður var, og mér virðist útkoman vera að öllu leyti til bóta....
Ætlunin var að taka Stakkanesið á land í helgarlok en vegna veðurs var slíkt ómögulegt. Báturinn var því bundinn við bryggju að nýju, kajakinn settur aftur upp í rúmið í sjúkrabílnum og sigið af stað suður á bóginn. Sunnan Borgarness var ekið á fljótandi malbikskafla (í bókstaflegri merkingu) og frá Hafnarfjalli var samfelld bílalest allt til Reykjavíkur. Það skipti okkur engu máli því tíminn var nægur og við renndum í hlað í Höfðaborg rétt uppúr miðju kvöldi.
...................................