Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2012 Nóvember

20.11.2012 19:47

Nokkur orð um lítinn bíl.

Vegna þess að hann Magni á Ísafirði er áhugasamur um litla Isuzu vörubílinn sem ég keypti í febrúar sl. ætla ég að upplýsa eftirfarandi:

Ég kann ekki að taka sumarfrí til annars en að "gera eitthvað". Það þýðir að ef ég bregð mér í ferðalag fer ég í frí tíu mínútum fyrir brottför og er aftur mættur í vinnu tíu mínútum eftir heimkomu - eða þannig. Ég stunda aðallega helgarferðalög sem þýðir að ég þarf ekki sérstök frí til þeirra - sem aftur þýðir að þegar ég er kominn í þetta "nýja" orlofskerfi, þ.e. að fá frí á launum, þá safnast óteknir frídagar upp. Vinnuveitendum mínum finnst betra að þessir frídagar séu teknir, þegar vel stendur á hjá báðum en mér finnst svo gaman í vinnunni að ég tek ógjarnan frí og aldrei til að "gera ekki neitt". Þessvegna átti ég nú í haust þegar hefðbundnum sumarfríatíma var lokið, ótekna daga sem nam hálfu sumarleyfi og vel það. Nú er ég að reyna að lækka þennan kúf og tók frí sl. föstudag og  mánudag. Þessa tvo frídaga notaði ég að hluta til í Isuzu vörubílinn.

Formála lokið.

Dyrnar á plássinu mínu eru 2.6 mtr á breidd en pallurinn á Isuzu er 2.47. Það er því ansi knappt bilið beggja vegna ef taka á bílinn á hús. Fyrsta skrefið var að taka pallinn af bílnum og hluti föstudagsins fór í að skera burtu hjólhlífar úr áli, beyglaðar og snúnar. Þær verða ekki notaðar aftur, svo mikið er víst. Pallurinn er raunar allur úr áli nema aðeins langbitarnir og ekki mikil þyngd í honum. Mér er dálítið í mun að auðvelt verði að kippa pallinum af og á, og þannig ætla ég mér að útbúa hann þegar aftur kemur að ásetningu. Sjálf bílgrindin er talsvert flögnuð og ryðguð, og eftir að hrossadráparinn svarti hafði dregið pallinn af á mánudaginn var ráðist á grindina með vírbursta og ryðhamri. Birtutíminn er stuttur og þegar síðustu ryðflögurnar höfðu verið slegnar af var orðið svo dimmt að varla sá handaskil. Þar með var nýtanlegur tími dagsins liðinn. Það var svo við vinnulok í gærkvöldi, fimmtudag, að við Magnús "bóndi" Jónsson, vinnufélagi minn úr Skeifunni hnýttum palllausa pallbílinn aftan í hrossadráparann og drógum heim að Höfðaborg. Að því afreki unnu var Magga ekið heim en ég lagði hausinn í bleyti við að leysa næsta vandamál - að koma bílnum upp innkeyrsluna og inn á gólf. Fyrir tilviljun átti ég bút af gömlu kerrubeisli með kúlulás áföstum (ef einhver man eftir trillunni Bjartmari þá er þessi beislisbútur afgangur af ónýtri Bjartmarskerru) og þegar ég hafði soðið U-lás á bútinn ( með nýju suðuvélinni sem leysti 22 ára gamla Clarkevél af hólmi) og keðjað hann svo við undirakstursvörnina á vörubílnum var aðeins eftir að skella lásnum á kúluna á hrossadráparanum og bingó!  Tuttugu mínútum síðar var vörubíllinn kominn inn á gólf!

Ég segi ekki að hann sé eins og krækiber í helvíti þarna inni en satt að segja er rýmra um hann en ég bjóst við.

Ég hefði tekið myndir en hafði engan kubb........

 

17.11.2012 08:23

Vetur: "ON"

Nú er ég á því að veturinn sé kominn. Ég hef reynt að vera bjartsýnn og jákvæður, talið mér trú um að enn væru þokkalegir dagar framundan og enn væri von um að ná sjóferð á Stakkanesinu. Ég verð víst að játa mig sigraðan.

Hinn reykvíski vetur er mættur með vindgjóstur, napran kulda, snjó í rennusteinum, svarta hálku og allt annað sem vetri fylgir. Ég hafði vonast eftir þokkalegu veðri nú um helgina en þegar allar spár bentu til annars var Stakkanesið tekið á land og vetrarbúið. Það er nú komið á sama stað og í fyrravetur, gnæfir yfir flest annað á Höfðanum og hefur útsýni til hafs - en þó í nær algeru skjóli fyrir öllum veðrum.

Klukkan er rétt rúmlega hálfníu og ég er að leggja af stað austur fyrir fjall á ferðadrekanum. Hann átti að fá sína huggun heimavið í vetur en það er nokkuð ljóst að hans tími kemur ekki fyrr en undir vor. Fyrirliggjandi verkefni ganga fyrir - eða þannig......

Það er svartamyrkur, kalt og ekki tilhlökkunarefni að aka austur núna, en samt - ég er farinn...............

10.11.2012 18:22

Áfangasigur!

Það er laugardagur, tíundi dagur mánaðarins ef dagatalið mitt er rétt (sem það hlýtur að vera, það er nú einu sinni húsvísk heimilisframleiðsla) og ég er eiginlega dálítið ánægður í dag. Ég var nefnilega til klukkan eitt í nótt að sópa saman síðustu saghrúgunum og rykhaugunum af gólfinu hér á jarðhæðinni í Höfðaborg. Nú má segja að komið sé sæmilegasta "einmenningsverkstæði", þar sem flest má framkvæma sem framkvæma þarf í bílum og bátum. Vinnan hefur tekið margfaldan þann tíma sem ég ætlaði í upphafi, en kannski gleymdi ég að gera ráð fyrir smá "lífi" meðfram. Góður maður sagði eitt sinn að þegar menn áætluðu tíma í verk væri ágætt að ljúka áætluninni með því að margfalda hana með pí - þ.e. 3,14.  Það er ótrúlega nærri lagi í þessu tilfelli.

Það eru reyndar nokkur handtök óunnin enn. Ljós og tenglar eru ekki á réttum stöðum og enn vantar vatnslögn að nýjum vaski. Það er samt nóg af ljósum, nóg af tenglum og vaskur í ágætu lagi en á röngum stað. Ég hef hingað til verið minn eigin pípari og rafvirki, klárað þau verk með góðra manna tilsögn og þannig verður það eflaust líka núna. Eins og fram kom áður tók ég myndir af plássinu áður en ég hófst handa og nú bíð ég eftir að vind lægi og veður hlýni svo ég tími að opna og mynda aftur.

.....það er nefnilega svo andskoti kalt núna.
.......................................................................................................

Þeir þarna á Austur-Indíafélaginu hafa verið með einhvers konar indverska matarhátíð síðan um miðjan október. Einu kynnin sem ég hef af indverskri matargerð eru pakkahrísgrjón og svo textabrot úr laginu "What did you learn in school today"  í óborganlegri útgáfu Eddie Skoller þar sem talað er um "rice and curry". Við Dagný erum ásamt vinafólki á leið á Austur-Indíafélagið að smakka á hrísgrjónum í karrýsósu elduðum upp á indverskan máta.

Vonandi nota þeir samt ekki vatn úr Ganges........

03.11.2012 09:05

Yfir og inn!

Ég lauk ekki við að setja upp aðra tölvu. Plássið var lítið, áhuginn enn minni og orkan bundin í öðrum verkefnum og brýnni. Nú sér fyrir endann á hluta verkanna og það er kominn tími til að taka á hlutunum. Plássið hefur að vísu ekkert aukist en ég stríddi við ákveðið vandamál -auk tölvuvírussins - sem ég held ég hafi fundið lausnina á.

Vandamálið var að ég var orðinn hundleiður á þessum löngu og tímafreku ferðapistlum sem engan enda tók að skrifa. Vinnan bak við hvern og einn gat farið upp í tvo og hálfan, þrjá klukkutíma með myndum og öllu og þegar hlutirnir eru orðnir að kvöð hætta þeir að vera skemmtilegir. Ferðum sumarsins var ekki lokið með þeirri sem síðast var til umfjöllunar en um þær var fátt hægt að skrifa sem ekki hafði komið fram áður, farið var um þaultroðnar slóðir og fátt nýtt gert. Ferðadrekanum var lagt fyrir löngu og hann hefur ekki verið hreyfður í rúma tvo mánuði. Það þýðir þó ekki neina lognmollu því á hverjum degi gerist eitthvað sem ekki er fært í letur vegna þess að meðan eldri frásögnum hefur ekki verið lokið er ótækt að byrja á nýjum. Þessar frásagnir/ferðasögur hafa ekki verið skrifaðar fyrir aðra nema að hluta til,  þær eru fyrst og fremst mínar minningabækur skrifaðar fyrir komandi ár. Mér finnst ómetanlegt að geta flett síðunum mínum allt aftur til ágústmánaðar 2003 og séð frá mánuði til mánaðar hvað ég og fjölskyldan aðhöfðumst frá þeim tíma og til dagsins í dag. Þessvegna er afar slæmt að missa svona þráðinn, því það er alltaf eitthvað að gerast sem ég myndi gjarnan vilja skrásetja og geyma til síðar tíma. 

Í Höfðaborg hefur orðið bylting, neðsta hæðin, sem var nánast full til lofts af dóti er smám saman að breytast í ágætt verkstæði, fyrir utan standa verkefnin í röðum og fjölgar frekar en hitt. Ég hafði þá fyrirhyggju að mynda inn um opnar dyrnar áður en ég hófst handa og get því birt svona fyrir/eftir myndir innan skamms. Þangað til ætla ég að reyna að ljúka frásögninni sem var í vinnslu hér neðar og endaði á því að Jón Bærings kallaði til mín úr húsgarðinum sínum nærri bakaríinu á Sauðárkróki.

Flestir Ísfirðingar á miðjum aldri og þar yfir þekkja Jón Bærings og líklega flestir Sauðkrækingar líka. Ég tók enga mynd af Jóni, einfaldlega vegna þess að það var engin þörf á því - hann hefur nákvæmlega ekkert breyst í tuttugu ár eða meira. Við áttum ágætt spjall þarna yfir girðinguna kringum litla húsið hans við Freyjugötuna, rifjuðum upp gamla daga og bárum saman þá nýrri. Svo var því lokið, við kvöddumst og ferðadrekinn var aftur lagður af stað, nú austur yfir Héraðsvötn og út á Hofsós. Veðrið var óbreytt, brakandi blíða og sólskin, eiginlega ekkert ferðaveður. Það passaði nákvæmlega að skella sér í sundlaugina glæsilegu og láta sólina baka sig góða stund.

Að þeirri stund lokinni lá leiðin hefðbundnar slóðir út í Fljót og til Siglufjarðar. Á Sigló áttum við víst kaffi hjá vinafólki og það var komið fram á kvöld þegar við héldum af stað aftur og nú um Héðinsfjarðargöng til Ólafsfjarðar. Þetta var í fyrsta sinn sem ég fór göngin og þessvegna einnig í fyrsta sinn sem ég sá Héðinsfjörð með eigin augum. Ég er búinn að skoða fjölda mynda frá þessum slóðum, bæði vegna eyðibýlagrúsks og vegna flugslyssins sem þarna varð árið 1947 en engar myndir ná að sýna þennan fallega fjörð í því ljósi sem ég sá hann þarna um kvöldið.











Þessar gangnamyndir lýsa kannski ekki mikilli fegurð, en þær lýsa allavega samgöngubótum sem eiga fáa sína líka á seinni árum. Flestar vegabætur síðari ára á Íslandi hafa verið akkúrat það - vegabætur, í þeim skilningi að bæta vegi sem þegar hafa verið fyrir milli staða. Vegurinn um Þröskulda er eitt dæmið um nýja leið þar sem ekki var vegur áður, þó deilt sé um staðsetninguna og hönnunina. Héðinsfjarðargöngin opnuðu leið sem aldrei hafði verið fær farartækjum áður - nema kannski hestum. Það var einfaldlega ekki hægt að aka milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar áður nema um Fljót og Lágheiði. Kannski má finna líkingu í því að áður fyrr lá leiðin milli Ísafjarðar og Hólmavíkur um vesturheiðar, Barðaströnd og Hálsa allt til Gilsfjarðar þaðan sem aka mátti Tröllatunguheiði yfir á Strandir. Nú er aðeins nokkurra mínútna skutlingur milli fjarða þarna norðurfrá, og að frátalinni myndatökutöfinni í Héðinsfirði liðu aðeins nokkur augnablik þar til við Dagný vorum komin í miðja heimabyggð Lólóar frænku, þorpið þar sem afi og amma bjuggu, þorpið þar sem mamma fæddist...........

......Ólafsfjörð.

Það var ekki verulega tekið að bregða birtu þegar við lögðum drekanum á tjaldsvæðinu undir skíðastökkpallinum í Ólafsfirði. Við völdum góðan stað undir háum bakka og þar var nóg pláss til að tjalda öllu sem til var, þ.e. tveimur skjóltjöldum til að "hýsa" hundana. Þetta var eiginlega prufuuppsetning, við höfðum hugsað okkur að setja hústjald sem meðferðis var, til hliðar við bílinn og tengja það við hann með skjóltjöldunum. Þegar til kom þótti okkur of tímafrekt að tjalda hústjaldinu, það hafði átt að þjóna sem svefntjald fyrir hundana þegar svo bæri undir en það hefur svo sem verið vandræðalaust að hafa þá inni í bílnum og þar sem nú voru "aðeins" tveir en ekki þrír með í för og orðið þetta áliðið slepptum við "sérbýlinu". Við settum hins vegar skjóltjöldin við hvorn enda bílsins og létum þau mætast í skörun sem mátti opna og loka með lítilli fyrirhöfn. Við vorum afar ánægð með þessa tilraun, sem tókst prýðilega þó enn vantaði tjaldræmuna sem ætlað er að loka bilinu undir bílnum endilöngum. Hún kemur næsta sumar en verður eðli málsins samkvæmt nokkru lengri en til stóð - sjúkrabíllinn er jú hálfum metra lengri en sá svarti!



Þegar svo búið var að setja upp útikertastjakana sem eitt sinn voru smíðaðir fyrir sérstaka ferð með félagi  húsbílaeigenda en hafa að mestu legið ónotaðir síðan, var "garðurinn" fullkominn. Það eina sem finna mátti að annars prýðilegri aðstöðu far bölvuð flugan sem þarna lá yfir öllu eins og ský. Ég held ég hafi aldrei á ævinni séð annan eins mökk af smáflugum eins og þarna, og það skipti engu máli hvort bíllinn stóð opinn eða ekki - þær voru bókstaflega allsstaðar! Við gengum um svæðið til að athuga hvort einhversstaðar væri flugulaus blettur. Svo gengum við góðan göngutúr um bæinn í sama tilgangi og mér er nær að halda að helvítis flugnagerið af tjalsdvæðinu hafi fengið sér skreppitúr með okkur - það getur bara ekkki verið að heill bær sé jafn undirlagður af flugu ens og okkur sýndist. Það var alveg sama hvert við fórum, inn að sjoppu eða niður að höfn - allsstaðar var flugan suðandi kringum hausinn á okkur! Þegar við fórum að sofa suðaði sirka ein milljón flugna bak við gardínuna í framglugganum. Við sofnuðum með flugnasuð/flugur í eyrunum.





Með morgninum vöknuðum við og hundarnir í sama félagsskapnum og áður. Flugunum hafði heldur fjölgað og við sáum í kringum okkur að fleiri farfuglar en við voru orðnir verulega pirraðir á ónæðinu. Það var kominn miðvikudagur, síðasti dagur ferðarinnar og ef marka mátti spár var blíðan brátt á enda. Þó sólin skini enn var farið að draga upp á himininn og sýnt að veðrabreyting var í nánd. Meðan við tókum saman dótið okkar féllu nokkrir regndropar, ekki nóg til að bleyta útifarangur en dropar samt.....




Mér fannst ómögulegt að yfirgefa Ólafsfjörð án þess að heilsa upp á frænku. Ég reyni það alltaf þegar ég á leið um og í þetta sinn var frænka heima og tók á móti okkur með sama myndaskap og alltaf áður. Sú breyting var þó orðin að eitt sæti var autt, sem venjulega hefur verið setið þegar ég hef heimsótt Lóló frænku. Kiddi Gísla sat ekki lengur á sínum stað við eldhússgluggann og horfði yfir bæinn sinn. Hans er saknað...

Á Dalvík var allt á fullu í undirbúningi fyrir Fiskidaginn mikla. Reyndar bar talsvert á draghýsaliði sem var þegar mætt með búnað sinn og stillti honum upp til að "tryggja sér stað" í tíma. Það er enda nokkuð ljóst að þeir sem verða með seinni skipunum á Fiskidaginn mikla eiga venjulega í verulegum vandræðum með að finna sér stað fyrir flökkubúnaðinn, svo þéttskipað er á svæðunum. Við renndum einn hring um bæinn og að auki inn að Tjörn í Svarfaðardal þar sem legsteinninn hans langafa á Ingvörum skartar sínu fínasta eftir uppgerð Barða frænda.



Það var komið að því að taka ákvörðun um heimferð. Ég var búinn að hringja suður með nokkrum fyrirvara og tryggja mér aukafrídag ef ske kynni að enn tognaði úr blíðunni. Það var allt opið, eina sem ljóst var, var að Dagný átti að fara í bústað í Fnjóskadal um komandi helgi með sínu fólki. Við fundum góðan stað til að láta hundana hlaupa lausa meðan málið var vegið og metið. Á meðan færðust dökk ský yfir himininn. Það stóðst á endum að um leið og hundarnir voru komnir í búrin að nýju féll fyrsta rigningardemban sem eitthvað kvað að. Við héldum af stað inn með firði og við Rauðuvík ókum við bókstaflega inn í sótsvartan rigningarvegg, studdan stífum vindhviðum. Inn að Möðruvöllum var bókstaflega vitlaust veður og lítið spennandi að heimsækja Akureyri í þessháttar stuði. Við beygðum því inn Þelamörk, tókum stefnuna suður og ókum nær sleitulaust í Kópavoginn - með þurrkur í gangi alla leið!


Punktur.


  • 1
Flettingar í dag: 153
Gestir í dag: 71
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135120
Samtals gestir: 27893
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:59:02


Tenglar