Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


20.11.2012 19:47

Nokkur orð um lítinn bíl.

Vegna þess að hann Magni á Ísafirði er áhugasamur um litla Isuzu vörubílinn sem ég keypti í febrúar sl. ætla ég að upplýsa eftirfarandi:

Ég kann ekki að taka sumarfrí til annars en að "gera eitthvað". Það þýðir að ef ég bregð mér í ferðalag fer ég í frí tíu mínútum fyrir brottför og er aftur mættur í vinnu tíu mínútum eftir heimkomu - eða þannig. Ég stunda aðallega helgarferðalög sem þýðir að ég þarf ekki sérstök frí til þeirra - sem aftur þýðir að þegar ég er kominn í þetta "nýja" orlofskerfi, þ.e. að fá frí á launum, þá safnast óteknir frídagar upp. Vinnuveitendum mínum finnst betra að þessir frídagar séu teknir, þegar vel stendur á hjá báðum en mér finnst svo gaman í vinnunni að ég tek ógjarnan frí og aldrei til að "gera ekki neitt". Þessvegna átti ég nú í haust þegar hefðbundnum sumarfríatíma var lokið, ótekna daga sem nam hálfu sumarleyfi og vel það. Nú er ég að reyna að lækka þennan kúf og tók frí sl. föstudag og  mánudag. Þessa tvo frídaga notaði ég að hluta til í Isuzu vörubílinn.

Formála lokið.

Dyrnar á plássinu mínu eru 2.6 mtr á breidd en pallurinn á Isuzu er 2.47. Það er því ansi knappt bilið beggja vegna ef taka á bílinn á hús. Fyrsta skrefið var að taka pallinn af bílnum og hluti föstudagsins fór í að skera burtu hjólhlífar úr áli, beyglaðar og snúnar. Þær verða ekki notaðar aftur, svo mikið er víst. Pallurinn er raunar allur úr áli nema aðeins langbitarnir og ekki mikil þyngd í honum. Mér er dálítið í mun að auðvelt verði að kippa pallinum af og á, og þannig ætla ég mér að útbúa hann þegar aftur kemur að ásetningu. Sjálf bílgrindin er talsvert flögnuð og ryðguð, og eftir að hrossadráparinn svarti hafði dregið pallinn af á mánudaginn var ráðist á grindina með vírbursta og ryðhamri. Birtutíminn er stuttur og þegar síðustu ryðflögurnar höfðu verið slegnar af var orðið svo dimmt að varla sá handaskil. Þar með var nýtanlegur tími dagsins liðinn. Það var svo við vinnulok í gærkvöldi, fimmtudag, að við Magnús "bóndi" Jónsson, vinnufélagi minn úr Skeifunni hnýttum palllausa pallbílinn aftan í hrossadráparann og drógum heim að Höfðaborg. Að því afreki unnu var Magga ekið heim en ég lagði hausinn í bleyti við að leysa næsta vandamál - að koma bílnum upp innkeyrsluna og inn á gólf. Fyrir tilviljun átti ég bút af gömlu kerrubeisli með kúlulás áföstum (ef einhver man eftir trillunni Bjartmari þá er þessi beislisbútur afgangur af ónýtri Bjartmarskerru) og þegar ég hafði soðið U-lás á bútinn ( með nýju suðuvélinni sem leysti 22 ára gamla Clarkevél af hólmi) og keðjað hann svo við undirakstursvörnina á vörubílnum var aðeins eftir að skella lásnum á kúluna á hrossadráparanum og bingó!  Tuttugu mínútum síðar var vörubíllinn kominn inn á gólf!

Ég segi ekki að hann sé eins og krækiber í helvíti þarna inni en satt að segja er rýmra um hann en ég bjóst við.

Ég hefði tekið myndir en hafði engan kubb........

 

Flettingar í dag: 340
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79167
Samtals gestir: 18489
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 16:21:40


Tenglar