Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2012 Febrúar

18.02.2012 18:26

Ekki bara vinsæll......

Vinsældirnar sem nefndar voru í síðasta pistli hafa heldur betur undið upp á sig. Yfir mig hefur dunið holskefla tilboða af öllu mögulegu tagi, um bílskúrshurðaopnara, heima-loftræstikerfi (ég setti spurningarmerki við það, ætli einhverjum í útlöndum hafi fundist þungt loft heima hjá mér gegnum tölvuna?), einhvers konar netmæli til að mæla hraða nettengingarinnar minnar (mér finnst það raunar bráðnauðsynlegt en treysti engum útlendingum þó til þess) og endalausa fjármála- og fasteignaráðgjöf. Þetta tvennt síðastnefnda kann að verða nytsamlegt í framtíðinni, sýnist mér.

Svo fékk ég tilboð sem ég var eiginlega í vandræðum með að hafna. Það hefur örugglega eitthvað að gera með fjölþjóðlegan hróður minn sem skrifara, kannski vill sú sem tilboðið sendi baða sig í frægðarsólinni og njóta ylsins frá henni (og mér, líklega þá..). Þetta tilboð birtist hér í heild sinni og nú geta menn spáð í spilin:


Halló mín kærust vin.


Ánægja mín að hitta þig, og hvernig ert þú að gera í dag?
Mitt nafn er Zianab Omar Nkaje, einn ung stúlka á 23 ára. Ég er auðvelt að fara, heiðarlegur, umhyggju, kurteis, auðmjúkur, elskandi, rólegt og leita að þroska mann með góða kímnigáfu og kærleika fremur sjá það sem leið til gaman, ég uppsetningu á síðuna á meðan vafrað er og ákveðið að hafa samband við þig. Ég mun eins og okkur að vera vinir. Vinsamlegast hafðu samband við mig með ofangreindum netfang, mun ég upplýsingar meira um sjálfan mig til þín á næsta svari mínu til þín líka. vona að heyra frá þér fljótlega. Takk þér og hafa a ágætur dagur.

Kveðja.
Zianab.........



Þessi Zianab segist vera "auðvelt að fara" en ég er ekki alveg klár á hvað það þýðir. Ef það þýðir að það sé auðvelt að koma henni út þá ætti að vera vandalaust að bjóða henni í stutta heimsókn. Ég set reyndar spurningarmerki við orðin "upplýsingar meira um sjálfan mig" en þar sem hún fullyrðir að vera "einn ung stúlka á 23 ára" þá treysti ég því að kynið sé rétt og ekkert sé svikið í þeim efnum þegar á hólminn er komið - það væri nú verra!

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Það er gott að vera dáður, en enn betra að vera elskaður. Ég nota það orð afar sjaldan en þó var það orðið sem mér kom fyrst í hug á degi heilags Valentínusar sl. þriðjudag. Mér finnst þessum degi ofaukið í íslenskri merkisdagaflóru enda er hann fyrst og fremst dagur kaupmanna, þröngvað upp á íslendinga gegnum útvarpskonu, fyrrum landsþekkta en nú sem betur fer flestum gleymda - nema þegar Valentínus bankar uppá! Það hefur aldrei hvarflað að mér að nýta þennan dag til að gleðja konuna, frekar hef ég notað þann rammíslenska konudag til þess (með litlum árangri reyndar en það er önnur saga, ég er klaufi í þeim efnum). Það mátti samt litlu muna að ég missti eitthvað úr öðrum augnkróknum þegar Áróran mín birtist inni á gólfi skoðunarstöðvarinnar í Skeifunni að áliðnum þriðjudegi með poka í hönd. Ég fékk mikið knús, marga kossa á kinnar og svo pokann afhentan með orðunum: "Gleðilegan Valentínus, pabbi minn". Í pokanum var heljar kleinuhringur með súkkulaðikjarna, og kókómjólkurferna. Áróra hafði verið á búðarápi í nágrenninu, brá sér í bakarí en fannst um leið tilvalið að gauka smá bita í nafni Valentínusar að pabba sínum sem aðeins fær eina skyrdós í hádeginu og svart kaffi utan þess. 

....svo var hún hlaupin út aftur, farin eitthvert annað, fugl og fiðrildi í einu..........   



Ég sæki enn mynd í smiðju nafna míns og frænda frá Suðureyri, Theodórs Barðasonar. Áróra er vinstra megin, söngfuglinn og litla systirin Bergrós Halla er hægra megin.

----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Svo er það lopapeysan! Það kom fram hér rétt neðar að ég hefði á dögunum eignast mína fyrstu lopapeysu frá barnæsku. Ég lofaði myndum og Elín Huld tók að sér hlutverk ljósmyndara í dag. Til að fullkomna myndina klæddi ég mig í nýju ullarsokkana sem fylgdu í kjölfar peysunnar, en við tiltekt í þvottahúsinu í morgun fundum við aðra ullarsokka sem Fríða systir prjónaði á mig fyrir einhverju síðan. Mér fannst tilvalið að hafa þá með á myndunum en þar sem ég er ekki ferfætlingur smeygði ég þeim á hendurnar. Það verður seint frá henni Fríðu systur tekið að hún er ekki bara víkingur til vinnu heldur virkilega flink í höndunum ( mig langar líka að benda á fegurð fyrirsætunnar en af því ég kann mig læt ég það alveg vera )





Gott í bili.

11.02.2012 21:08

Á alþjóðamarkað!

Á dauða mínum átti ég von en því ekki að alheimurinn veitti skrifunum mínum jafn mikla athygli og raun ber vitni. Undanfarið hef ég fengið erindi í tuga- eða hundraðavís frá fólki og fyrirtækjum út um allan heim sem eiga það sameiginlegt að vilja koma einhverju á framfæri við mig.

Ég get ekki neitað því að ég er dálítið -nei, ekkert dálítið, heldur alveg rosalega - upp með mér af þessum mikla áhuga á annars frekar einfeldningslegum skrifum sem ég hef bögglað frá mér á undanförnum árum. Mér sjálfum finnst ekkert sérstaklega merkilegt við þau, þetta hafa verið svona almennar vangaveltur innan um aulafyndni og stöku endurminningar. Nokkrir ferðapistlar hafa slæðst með en varla eru þeir svo merkilegir miðað við allt það landkynningarefni sem unnið hefur verið af hæfu fólki og deilt út til víðlesinna fjölmiðla eða sjónvarpsstöðva erlendis.

Það hefur annars vakið eftirtekt mína að allt þetta áhugasama útlenda fólk hefur talið tvo af pistlunum mínum sérstaklega áhugaverða. Svo áhugaverða raunar, að langflestar eða allar heimsóknir þeirra hafa verið bundnar þessum tveimur pistlum. Þeir eru nokkurra ára gamlir og heita "
Þjófurinn á hlaupahjólinu" frá 16. nóvember 2008  og "Toppur" frá 5. júní 2009.

Það sem þessir nýbökuðu lesendur mínir hafa viljað koma á framfæri við mig er ákaflega margvíslegt. Það geta verið tilboð um kynni af huggulegum stúlkum, tilboð um fasteignalán, tilboð um skuldaráðgjöf (væntalega ætlaða þeim sem hafa farið flatt á fasteignalánum) og svo vangaveltur um stöðu hins óheppna blaðakóngs Ruperts Murdock sem hefur átt í vanda vegna símhlerana eins blaða sinna, "News of the world". Sýnishorn af þessum vangaveltum lítur svona út:

  1. Given the forthcoming legal action against Rupert Murdock's News Corporation in America, the trail gets ever closer to Murdock himself. Is he bothered, I ask myself, is he still capable of remorse or fear after all this time?.

Ég hef raunar enga skoðun á Rupert Murdock eða blaðaútgáfunni hans og skil ekki almennilega hvers vegna einhver úti í heimi finnur samherja í mér!  Þessir sömu lesendur mínir hafa ekki lýst skoðun sinni á því sem fram kemur í pistlunum sem þeir hafa "kommentað" á, enginn hefur til dæmis sýnt áhuga á húsbíls "toppnum" sem pistillinn snýst um, enginn hefur neina sérstaka skoðun á ferðalaginu sem lýst er í pistlinum um Þjófinn á hlaupahjólinu og enginn hefur hrósað myndunum sem fylgja þeim pistli og ég var svo stoltur af - sérstaklega þeirri af gömlu trillunni. Ég hélt að útlendingar kynnu að hafa áhuga á þeirri mynd því ljótustu trillur heims eru í útlöndum og það er því tilbreyting fyrir útlendinga að sjá jafnfallegan bát og þennan þó hann sé löngu kominn úr notkun þegar myndin er tekin.

Í fyrstu fór þessi áhugi útlendinga á pistlunum mínum í taugarnar á mér og vikulega eyddi ég út sirka 50-60 þessháttar heimsóknum. Nú geri ég minna af því, leiði þetta hálfpartinnn hjá mér enda safnar póstforritið þessu sjálfkrafa í ruslasarpinn. Bloggpistlarnir njóta hins vegar nærverunnar eins og sjá má ef hlekkirnir hér ofar eru skoðaðir.  Fleiri pistlar en þeir nefndu hafa hlotið þessa upphefð, s.s. "
Að Folafæti", "Út um eyjar" (ég hef eytt þeim öllum og aðeins eru eftir tilkynningar á póstinum)  og "Absolutely fabulous"

Í seinni tíð hefur mig raunar grunað að þessi óvænta og óverðskuldaða upphefð sé alls ekki öll þar sem hún er séð heldur aðeins ávöxtur einhverrar óværu sem tekið hefur sér bólfestu í bloggkerfum -visir.is- og lifi þar góðu lífi vegna dug- áhuga- eða getuleysis umsjónarmanna vefjarins. Hver veit?

Ég ætlaði að fá einhvern til að taka mynd af mér í fallegu, nýju lopapeysunni sem hún Fríða systir prjónaði handa mér. Það hefur ekki gengið eftir og nú hafa ullarsokkar fylgt peysunni eftir. Ég mun sjá til þess að fljótlega birtist mynd af skrifaranum íklæddum lopapeysu og lopasokkum - og einhverju þar á milli. Ég fann hins vega ágæta mynd af systrunum Rósu (tv) og Fríðu sem frændi minn og nafni, Theodór Barðason tók sl. sumar. Það má vel ylja sér við þessa mynd þangað til. Sá stendur ekki einn sem á þessar að.......

05.02.2012 22:20

Já, ég veit.....

Það er allt frekar slakt þessa dagana. Ekki þó alveg, það er barist á nokkrum vígstöðvum og má kannski helst nefna að í bígerð er sérstakur pallbíll undir stórskipið Stakkanes. Undir útgerð af þeirri stærðargráðu dugar ekki annað en almennilegur bíll, og þar stendur hnífurinn í kúnni - það er fullt til af bílum en fáir eru almennilegir.

..........svo hef ég eignast nýja lopapeysu - þá fyrstu í fjörutíu ár eða meira!
  • 1
Flettingar í dag: 67
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135034
Samtals gestir: 27844
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:37:59


Tenglar