Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


18.02.2012 18:26

Ekki bara vinsæll......

Vinsældirnar sem nefndar voru í síðasta pistli hafa heldur betur undið upp á sig. Yfir mig hefur dunið holskefla tilboða af öllu mögulegu tagi, um bílskúrshurðaopnara, heima-loftræstikerfi (ég setti spurningarmerki við það, ætli einhverjum í útlöndum hafi fundist þungt loft heima hjá mér gegnum tölvuna?), einhvers konar netmæli til að mæla hraða nettengingarinnar minnar (mér finnst það raunar bráðnauðsynlegt en treysti engum útlendingum þó til þess) og endalausa fjármála- og fasteignaráðgjöf. Þetta tvennt síðastnefnda kann að verða nytsamlegt í framtíðinni, sýnist mér.

Svo fékk ég tilboð sem ég var eiginlega í vandræðum með að hafna. Það hefur örugglega eitthvað að gera með fjölþjóðlegan hróður minn sem skrifara, kannski vill sú sem tilboðið sendi baða sig í frægðarsólinni og njóta ylsins frá henni (og mér, líklega þá..). Þetta tilboð birtist hér í heild sinni og nú geta menn spáð í spilin:


Halló mín kærust vin.


Ánægja mín að hitta þig, og hvernig ert þú að gera í dag?
Mitt nafn er Zianab Omar Nkaje, einn ung stúlka á 23 ára. Ég er auðvelt að fara, heiðarlegur, umhyggju, kurteis, auðmjúkur, elskandi, rólegt og leita að þroska mann með góða kímnigáfu og kærleika fremur sjá það sem leið til gaman, ég uppsetningu á síðuna á meðan vafrað er og ákveðið að hafa samband við þig. Ég mun eins og okkur að vera vinir. Vinsamlegast hafðu samband við mig með ofangreindum netfang, mun ég upplýsingar meira um sjálfan mig til þín á næsta svari mínu til þín líka. vona að heyra frá þér fljótlega. Takk þér og hafa a ágætur dagur.

Kveðja.
Zianab.........



Þessi Zianab segist vera "auðvelt að fara" en ég er ekki alveg klár á hvað það þýðir. Ef það þýðir að það sé auðvelt að koma henni út þá ætti að vera vandalaust að bjóða henni í stutta heimsókn. Ég set reyndar spurningarmerki við orðin "upplýsingar meira um sjálfan mig" en þar sem hún fullyrðir að vera "einn ung stúlka á 23 ára" þá treysti ég því að kynið sé rétt og ekkert sé svikið í þeim efnum þegar á hólminn er komið - það væri nú verra!

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Það er gott að vera dáður, en enn betra að vera elskaður. Ég nota það orð afar sjaldan en þó var það orðið sem mér kom fyrst í hug á degi heilags Valentínusar sl. þriðjudag. Mér finnst þessum degi ofaukið í íslenskri merkisdagaflóru enda er hann fyrst og fremst dagur kaupmanna, þröngvað upp á íslendinga gegnum útvarpskonu, fyrrum landsþekkta en nú sem betur fer flestum gleymda - nema þegar Valentínus bankar uppá! Það hefur aldrei hvarflað að mér að nýta þennan dag til að gleðja konuna, frekar hef ég notað þann rammíslenska konudag til þess (með litlum árangri reyndar en það er önnur saga, ég er klaufi í þeim efnum). Það mátti samt litlu muna að ég missti eitthvað úr öðrum augnkróknum þegar Áróran mín birtist inni á gólfi skoðunarstöðvarinnar í Skeifunni að áliðnum þriðjudegi með poka í hönd. Ég fékk mikið knús, marga kossa á kinnar og svo pokann afhentan með orðunum: "Gleðilegan Valentínus, pabbi minn". Í pokanum var heljar kleinuhringur með súkkulaðikjarna, og kókómjólkurferna. Áróra hafði verið á búðarápi í nágrenninu, brá sér í bakarí en fannst um leið tilvalið að gauka smá bita í nafni Valentínusar að pabba sínum sem aðeins fær eina skyrdós í hádeginu og svart kaffi utan þess. 

....svo var hún hlaupin út aftur, farin eitthvert annað, fugl og fiðrildi í einu..........   



Ég sæki enn mynd í smiðju nafna míns og frænda frá Suðureyri, Theodórs Barðasonar. Áróra er vinstra megin, söngfuglinn og litla systirin Bergrós Halla er hægra megin.

----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Svo er það lopapeysan! Það kom fram hér rétt neðar að ég hefði á dögunum eignast mína fyrstu lopapeysu frá barnæsku. Ég lofaði myndum og Elín Huld tók að sér hlutverk ljósmyndara í dag. Til að fullkomna myndina klæddi ég mig í nýju ullarsokkana sem fylgdu í kjölfar peysunnar, en við tiltekt í þvottahúsinu í morgun fundum við aðra ullarsokka sem Fríða systir prjónaði á mig fyrir einhverju síðan. Mér fannst tilvalið að hafa þá með á myndunum en þar sem ég er ekki ferfætlingur smeygði ég þeim á hendurnar. Það verður seint frá henni Fríðu systur tekið að hún er ekki bara víkingur til vinnu heldur virkilega flink í höndunum ( mig langar líka að benda á fegurð fyrirsætunnar en af því ég kann mig læt ég það alveg vera )





Gott í bili.
Flettingar í dag: 340
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79167
Samtals gestir: 18489
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 16:21:40


Tenglar