Ég sagði í morgun að við skyldum sjá hvernig dagurinn þróaðist. Nú er hann kominn að kvöldi og vart hægt að segja annað en allt hafi farið á ágætan máta. Að vísu hefur besti tími kvöldsins farið í að syngja sálumessu yfir japönskum pallbíl sem villtist af leið úti á Granda og varð hart undir. Svo sýnist sem hann hafi runnið þar sitt síðasta skeið og harmi sleginn eigandi þurfti huggunar við.
Nóg um það. Ég vona að þær Henrietta og Merna hafi glatt einhverja, en grunar þó að þær hafi hryggt fleiri - og af því dagurinn fór á þokkalegan veg þá förum við þvert yfir skalann og í hitt hornið - úr horni þeirra sem gera án þess að geta í horn þeirra sem gera AF því þeir geta. Þar eru Henrietta og Merna víðs fjarri og allt annað uppi á teningnum. HÉRer sungið frá hjartanu, á þann hátt sem fær mann til að teygja sig í hornið á borðdúknum....
(Ég mæli með heyrnartólum ef þið eigið, ef ekki þá algerri þögn meðan nokkur tónn lifir)
Enn lifir skíma af jólum og það má skerpa á henni á ýmsan hátt.
Úr eðlisfræðinni kemur kenning sem hljóðar einhvern veginn á þá leið að sérhver aðgerð eigi sér mótaðgerð. Það er hægt að orða þetta á fleiri vegu, en þar sem þetta er minn lærdómur, dreginn af sjónvarpsþáttunum "Science of stupid", þá verð ég að hafa ensku framsetninguna með: "Every action has a reaction"
Svo er hægt að snúa þessu upp á ótalmargt annað. Það mætti til dæmis leggja það út þannig að á móti öllu sem vel er gert sé eitthvað gert afar illa.
Það er einmitt þetta síðara sem mér finnst við hæfi á hvössum rigningarmorgni í Höfðaborg. Þessvegna snýst kenningin við og verður að: "Every reaction has an action". Hið góða fylgir semsagt í kjölfar þess slæma, svona líkt og sagt er á íslensku: "Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott"
Njótið jólarestanna með þeim Henriettu og Mernu ( smellið HÉR).
Ég sé dálítið eftir þessarri peysu. Ég sé líka dálítið eftir rauðu skyrtunni og gallabuxunum - ekki fatnaðinum sjálfum heldur stærðarnúmerunum. Svo sé ég reyndar dálítið líka eftir þessu þykka, dökka hári.
Að öðru leyti legg ég ekki í vana minn að sjá eftir nokkrum einasta hlut. Það er ágætt að reyna að læra af hlutunum og þar sem það er eðli hluta að fara úrskeiðis þýðir sjaldnast að sjá eftir neinu.
Af þessarri mynd má annars lesa það helst að í áranna rás hef ég - miðað við heimavinnu dagsins - ekkert lært.........
Myndin hér að ofan er, eins og sjá má, tekin á gamlársdag fyrir 22 árum. Síðan hefur allt það frosna vatn sem á myndinni sést, runnið til sjávar og nýtt komið í staðinn - aftur og aftur og aftur. Þannig verður það löngu eftir að við báðir, ég sem myndina tók og ólafsfirski tannlæknirinn sem fyrir situr, verðum horfnir. Sýnin yfir Önundarfjarðarfjöllin til suðvesturs á vonandi eftir að lifa margar kynslóðir enn....
...og nú er það svo gott sem búið, þetta yfirstandandi ár, tvöþúsundog sextán.
Mér finnst reyndar óskaplega stutt síðan það hófst. Getur verið að búið
sé, svo lítið beri á, að stytta árin? Mér hefur fundist þetta nokkur undanfarin
ár en hef ekki fundið neina áþreifanlega ástæðu. Kannski er eðlilegt að eftir
því sem árin færast yfir mann sjálfan finnist manni þau líða hraðar. Ég er ekki
viss, því ár hafa verið að færast yfir mig svo lengi sem ég man - eitt í
einu. Nú telja þau fimmtíuogníu og góðu hálfu
betur. Ég verð sextugur eftir fimm mánuði!
Einhvern tíma seint á síðustu öld þegar ég var að reikna aldur minn fram
í tímann fann ég það út að árið 2000 yrði ég 43 ára. Þá þýddi það nokkurn
veginn ævilok. Samt hefur mér tekist að
skrimta sextán og hálft ár þar framyfir.
Þann 10. mars
nk. hef ég búið hér í Höfðaborg í fimm
ár - framanaf einn, svo með Áróru minni um tíma en lengst af með syninum. Hér hefur verið afskaplega gott að búa og ekki
er sjáanleg framundan nein breyting á því, hvað sem öllum
skipulags-verðlaunatillögum borgarstjórnar líður. Húsin hér í kringum mig voru ekki sjáanleg á
þeirri tillögu og eiga þá væntanlega að hverfa með tímanum. Ég treysti því á annað efnahagshrun og að ekki
verði hróflað við neinu í nágrenninu meðan mér hentar að búa hér. Líkurnar virðast allgóðar því mér sýnist hrunarkitektar vera á fullri siglingu í þá
átt.
Þetta
gamlárskvöld verður frábrugðið undanförnum að einu, veigamiklu leyti. Frá gamlárskvöldi 2006 hef ég nefnilega lokað
mig inni með hundinum mínum og reynt að veita honum öryggi í sprengjuregninu.
Fyrsta gamlárskvöldið var ég með Mola minn. Hann varð ekki langlífur og á eftir
honum kom Bassi. Gamlárskvöldin 2007-11 héldum við hvor öðrum selskap á
Lyngbrekkunni í Kópavoginum meðan fjölskyldan sótti brennur og skaut upp dóti
utandyra, en síðan höfum við verið tveir einir hér í Höfðaborg á gamlárskvöld
eftir fjölskyldumatarboð úti í bæ. Síðasta gamlárskvöld var Bassi farinn að
venjast nokkuð og var mun rólegri en áður. Ekki grunaði mig þá að það væri
jafnframt síðasta gamlárskvöldið hans.
Bassi var svæfður svefninum langa þann 17. apríl í vor eftir að hafa
orðið fyrir bíl og meiðst illa. Hann varð tíu og hálfs árs, fæddur þann 22. nóv.
2005. Hann var einstakur félagi og er enn saknað á hverjum degi...af fleirum en
mér.
Fleiri góðir
vinir hafa kvatt á árinu, án þess nöfn séu nefnd. Þeirra er ekki síður saknað -
vinahópurinn hefur ekki verið stór en ákaflega góður og því er mikil eftirsjá
að hverjum og einum.
Af
skemmtilegri viðburðum ársins stendur
Færeyjaferð okkar Ásgeirs Jónssonar í júní, uppúr. Ég á enn eftir að skrifa þá
ferðasögu alla en þykir hæfilegt að láta snjóa aðeins yfir viðburði, svo auðveldara
verði að ljúga hlutina dálítið upp!
Þá ber hátt
gríðarlega skemmtilegt ferðalag vestur til Ísafjarðar, þar sem haldið var upp á
150 ára kaupstaðarafmæli í júlí. Vestur fór ég á bláa hjólinu (sem getur allt) og
fékk að hengja tjaldvagninn aftan í bíl vinafólks á sömu leið. Hátíðarhöldin
fóru þó að mestu fyrir ofan garð og neðan því ég notaði tímann og landsþekkta
ísfirska veðurblíðu til að heimsækja gamla staði utan alfaraleiða og slóða sem
ekki voru öllum farartækjum færir. Að hátíð lokinni hjólaði ég suður aftur en
tjaldvagninn fór sömu leið til baka með sömu vinum.
Tveimur vikum seinna vorum
ég og vagninn komnir til Akureyrar ásamt drjúgum hluta fjölskyldunnar, til rúmrar vikudvalar, sem endaði með Fiskideginum á Dalvík. Þangað fór einnig bláa hjólið en var minna
notað en til stóð. Slóðarnir nyrðra eru
þó enn á sínum stað og það kemur sumar eftir þetta....
Stórskipið
Stakkanes var ekkert sjósett í sumar. Fyrir því voru fleiri en ein ástæða.
Sumarið er stutt og mikið af því var skipulagt fyrirfram, þ.m.t. þessir þrír viðburðir sem nefndir eru hér ofar.
Ég seldi ferðabílinn haustið ´15 og átti þá aðeins eftir gamlan Benz sem
þarfnaðist ástar og umhyggju. Fyrir slíkt var enginn tími og nú í haust var
hann búinn undir að verða breytt í nagla í einhverri erlendri verksmiðju. Í
stað hans kom annar stærri og öflugri, sem reyndar þarfnast einnig ástar og
umhyggju. Ég geri ekki ráð fyrir að þeir
fjórir mánuðir sem ég hef til að veita honum hvorttveggja, endist svo líklega
verður annað að duga. Ferðabílsleysið kom m.a. í veg fyrir að ég gæti nýtt Stakkanesið sem skyldi. Stórskipið stendur
því enn á vagninum sínum uppi í Stykkishólmi, niðurnjörvað að því ég best veit.
(nema einhvern hafi vantað spotta enn á ný). Á þeirri dvöl eru þó fyrirhugaðar
breytingar....
Stöðugleiki
er nauðsynlegur, og því á ég ekki von á öðru en að eyða gamlárskvöldinu á sama
hátt og áður, hér innandyra í Höfðaborg. Bassi minn heitinn verður þá með mér í
minningunni, og betri félagsskapur fæst ekki.
Þeim sem lásu
til enda óska ég gleðilegra áramóta og alls hins besta á nýju ári!
Ég skammast
mín dálítið fyrir að hafa ekki sinnt síðunni minni betur. Hér eru jú geymdar
bæði gamlar minningar og frásagnir af viðburðum sem síðar meir verða að
minningum. Ég ætla ekki að lofa bót og betrun, því ég hef oft lofað meiru en ég
hef getað staðið við. Mig langar þó að standa mig betur og vona að mér takist
það. Þó Facebook sé einfaldur og þægilegur miðill vilja eldri færslur týnast
fljótt og uppfletting þeirra er að öllu leyti erfiðari en hér - eða það finnst
mér allavega.
Í dag, 24.
des. 2016 hafa 22 litið inn á þessa síðu, aðeins til að sjá það sama og áður. Í
gær voru það 19. Ég veit ekki hvort þessar innlitatölur eru réttar, því ég man
eftir að annað bloggkerfi, sem rekið var af 365 Miðlum hafði þann sið að ýkja
innlitafjölda, líklega í því augnamiði að halda uppi auglýsingaverði. Hér er ekki um neinar auglýsingar að ræða og því vona ég að innlitatölur séu réttar. Þessvegna skammast ég mín dálítið, eins og fyrr segir...svona hálfpartinn eins og ég sé að svíkja þá sem enn kíkja inn.
Hvað sem því
líður hafa þessir 22 sem litið hafa inn í dag aðeins séð sömu færsluna og fyrr.
Ég hef verið að reyna að færa það sem ég hef skrifað á Facebook og langar til
að geyma, hingað yfir á síðuna í nokkurn veginn réttri tímaröð. Þess vegna
hefur færslum getað fjölgað framan við þessa sem alltaf birtist. Færslurnar raðast svo í mánaðaröð eins og sjá má í listanum hér til hægri handar, ofanfrá og niður. Ég ætla mér að
halda þessum flutningi áfram þar til endum er náð saman og flytja þá það sem mér finnst
minnisvert og ég skrifa á Facebook, jafnóðum yfir á þessa síðu.
Að þessu
sögðu óska ég öllum þeim sem enn hafa þolinmæði til að kíkja hingað inn, og
hafa skrifað komment og kveðjur gegnum árin, gleðilegra jóla!
Þann 20. maí
sl. birtist á FB mynd sem ég tók sumarið 1987 á fjörukambi í Unaðsdal á
Snæfjallaströnd. Við vorum þarna þrjú saman, við Elín Huld og sonurinn Arnar Þór (3) á sumarferðalagi með aðsetur í
sumarhúsi Járniðnaðarmannafélagsins í Heydal. Dvöldum viku í húsinu og fórum
vítt og breitt um nágrennið, reyndar talsvert víðar því við fórum alla leið
norður í Bjarnarfjörð og fyrir Kaldrananes og Drangsnes. Til Hólmavíkur fórum
við í innkaupaferð og versluðum í gamla verslunarhúsi Kaupfélags Strandamanna
niðri í þorpinu - verslun sem er löngu horfin.
Myndina sem
ég tók í Unaðsdal hafði ég áður birt á FB en nú hafði hún verið hent á lofti af
Samúel Sigurjónssyni frá Hrafnabjörgum í Laugardal, sem óskaði frekari skýringa
á henni.
Skýringarnar
komu um hæl, frá Ingólfi Kjartanssyni úr Unaðsdal. Ég bætti svo nokkrum orðum
neðan við. Set texta Ingólfs beint hingað inn eins og hann birtist á FB:
"Þetta
er mb. Uni. Kostafley sem Helgi afi átti og réri á úr Dalssjó. Karl faðir minn
reri eitthvað á honum en ég sá hann aldrei sjósettan svo mig reki minni til.
Hann náði hins vegar í unga konu til Ísafjarðar á honum snemma árs 1949. Sú
hafði komið með Catalinu frá Akureyri. Réði sig sem vinnukonu í Unaðsdal í eitt
ár. Þau urðu 45 þessi ár í Dal."
Minn texti
er svo hér:
"Eftir tæp þrjátíu ár fær maður loks að
vita einhver deili á þessum bát. Kærar þakkir fyrir þetta, félagar. Uni ÍS 65
er sagður smíðaður í Unaðsdal 1931 úr eik og furu, 2.4 brúttólestir. Vél ókunn.
Eigandi Helgi Guðmundsson, Unaðsdal. (Uppl. úr "Íslensk skip-Bátar",
e. Jón Björnsson, 2.bnd. bls. 135)"
Var að koma úr kvöldrúnti út í Grundarfjörð, og eins og kisurnar hans Hauks Sigtryggs Valdimarssonar bjóða alltaf góða nótt, bið ég Bassa minn heitinn að gera það líka:
Blúskvöld í Hólminum......Gömlum myndaalbúmum flett. Mæðgurnar eru á sitthvorum staðnum í Evrópu, önnur vestan til, hin austan og vonandi koma báðar heilar til baka. Bassi minn er í hundaparadís.......hann kemur aldrei til baka, því miður. Samt er hann alltaf svo nálægt. Ég sakna félaga og vinar. Myndirnar eru góðar.....
Flotinn í Höfðaborg var myndaður á laugardaginn áður en lagt var af stað á borgfirskan hátíðisdag hjóla- og fornbílamanna. Bláa var skilið eftir heima, enda er ill- eða ómögulegt fyrir einn að hafa tvö til reiðar. Jens Sigurjónsson mætti svo rétt um tólf og þar með var lagt af stað. Fjöldi hjólamanna var á uppeftirleið og tveimur, þremur bílum á undan okkur var stór hópur, líklega um þrjátíu hjól. Þessi stóri hópur áði á planinu ofan gangnanna og var rétt að leggja af stað
þegar við komum. Röðin snerist við, Jenni varð fremstur, þá ég og síðan Arnar Þór. Bílarnir í miðjunni fóru niður að Grundartanga og þar með fór Jenni fyrir öllum hópnum alla leið í Borgarnes. Það hlýtur að hafa verið tilkomumikið þegar hópurinn renndi í bæinn, líklega sá stærsti sem kom í einu. Veðrið var ágætt þrátt fyrir hvassviðri undir Hafnarfjalli en vindáttin var tiltölulega hrein austanátt og því ekki mjög hviðótt. Borgnesingar höfðu sett upp fína sýningu hjóla og fornbíla í húsakynnum KB í Brákarey, þar sem borgfirskir bíla- og hjólamenn hafa aðstöðu. Hægt var að kaupa sér kaffi og vöfflu með rjóma og sultu og að sjálfsögðu skelltum við einu setti í andlitið. Við fórum af svæðinu um hálfþrjú og bættum í belginn í Geirabakaríi en brúmmuðum síðan suðurávið með hring um Akranes. Leiðir skildi svo á planinu við Höfðaborg um fimmleytið og við Arnar héldum áfram suður í Garðskaga og til Sandgerðis með dálitlu stoppi hjá Ásgeiri Jónssyni. Heima í Höfðaborg vorum við svo rétt fyrir átta um kvöldið. Þar með lauk stórkostlegum hjóladegi...
(Færslan er upphaflega skrifuð á Facebook og ef smellt er á myndirnar hverja fyrir sig opnast tenging á þá síðu. Smellur á "back" píluna flytur síðan aftur hingað á 123.is)
Tekið við Garðskaga eftir frábæran túr á hjóla- og fornbílasýningu í Borgarnesi. .... Arnar Þór Gunnarsson tók myndina.
Í gær nefndi ég myndir af býlinu í Hokinsdal vestra, sem mögulegar "áttundadagsmyndir" í sjö daga syrpu. Þær koma hér að neðan. Myndirnar eru að vísu orðnar rúmlega tuttugu ára gamlar og ég veit ekki um ástand hússins í dag - ef það þá stendur enn. Mér skilst að ábúandinn á Laugabóli norðan ness hafi keypt þessa jörð fyrir nokkrum árum, væntanlega til einhvers konar nytja en meira veit ég ekki. Við félagi minn gerðum ferð þarna úteftir haustið ´94, skoðuðum okkur um og tókum myndir. Vegurinn út nesið var sæmilegur en inn Hokinsdal var hann hreinasta torfæra, bæði vegna úrrennslis og vegna aurskriðu sem fallið hafði á hann löngu áður.
Ég skrifaði ferðasöguna í nokkuð ýtarlegu máli fyrir mörgum árum. Hún mun vera til í einhverjum afkima netsins, þarsem 365Miðlum tókst ekki að farga henni með öllu því efni sem týndist þegar þeir fyrirvaralítið lokuðu tveimur bloggkerfum. Það var illa gert og skömmin lifir.....
Þar kom m.a. fram það sem ég nefndi ekki í gær, að þunni gatkletturinn fremst á Langanesi var kallaður Selamannagatklettur, og gatið sjálft í honum Selamannagat. Líkast til var það komið til af því að veiðimenn gátu legið í skjóli innan við gatið og skotið sel út um það. Þetta er þó aðeins mín ágiskun, byggð á nafninu einu.... Hokinsdalur fór í eyði ´78-´79, síðast bjó þar Hallveig dóttir Sigríðar á Lokinhömrum með manni sínum , eins og fram kemur í Stiklum Ómars Ragnarssonar.
Væntanlegur Færeyjafari fékk að fara út í fína veðrið í dag. ( hvað eru mörg eff í því?)....Sætið endurbyggt af Auðunni bólstrara, ný dekk og HD-slöngur, Michelin aftan og Dunlop framan, Bögglaberi og boxagrindur pólýhúðað, mótor tekinn úr, hreinsaður með ærinni fyrirhöfn og sprautaður, ryðfría hlífðarpannan sýruböðuð ofl. ofl. ofl......bara gaman!
Þessi mynd er varaskeifa. Hún er varaskeifa í því tilliti að ég ætlaði að birta tvennu af allt öðru skipi en finn bara aðra myndina. Hina skannaði ég fyrir mörgum árum og hef svo stungið henni á svo góðan stað að hún finnst ekki aftur. Þessvegna birti ég þessa, þó svo ég hafi áður birt hana - að vísu fyrir löngu og á öðrum vettvangi.
Þetta er gamla Fagranesið, eins og kunnugir sjá. Það eyðilagðist eftir vélarrúmsbruna, nýleg brú var tekin af því og flakinu lagt inni við Reykjafjörð í Djúpi, væntanlega til einhverra nota sem ekki urðu. Myndin er tekin síðsumars 1987 og þá hafði Fagginn legið þarna vel á þriðja áratug og átti talsvert eftir enn, þar til hann var látinn hverfa.
Hann sagði mér hann Pétur andskoti (sem, þrátt fyrir viðurnefnið og hrjúft yfirborð, var gull af manni eins og þeir vita sem best þekkja..) að Fagranesið hefði ekkert þurft að brenna. Hann hafði verið þar vélstjóri og þekkti vel til. Olíufýringin sem var um borð í skipinu var staðsett bak við vélarrúmsstigann. Hún var vangæf og átti til að skjóta út. Af frásögn Péturs mátti skilja að hjörtu hans og olíufýringarinnar hefðu slegið í takti. Svo varð einhver taktbrestur þegar Pétur var ekki um borð, fýringin skaut út meðan vélarrúmið var mannlaust, kveikti í óhreinindum kringum sig og úr varð bál - undir niðurgöngunni svo ekki varð komist niður.......
Á þessa leið var saga Péturs, sögð með því orðfæri sem honum var tamast og þeir þekkja sem þekkja.....
Fagranesið, sem ekki var kannski beysið fyrir enda komið vel til ára sinna, varð ónýtt og Fjölnir frá Þingeyri hljóp í skarðið um tíma. Síðan kom nýsmíðin frá Florö í Noregi sem seinna varð þekkt hér syðra sem Fjörunes eða Moby Dick. Það mun nú komið til Danmerkur, eftir nokkuð harða viðkomu í Færeyjum. Florö - Fagranesið var svo sem ekki óvant hörðum viðkomum við Djúp, svona eins og þegar það ætlaði að ryðja Arnarnesinu úr vegi. Það er hins vegar önnur saga - eða aðrar sögur......
Stúfurinn á myndinni hefur stækkað mér talsvert yfir höfuð.....
Við Samúel á Hrafnabjörgum rákumst nýlega saman á einni skipasíðu FB. Úr varð skemmtileg upprifjun. Þessi hér kemur þar við sögu. Hann ( þ.e. bíllinn) átti nokkuð skrautlega sögu fyrir vestan, en við hana komu aðallega Jón Helgi Karlsson Birnustaðabóndi, Samúel og ég sjálfur. Bíllinn var seldur til Rvk haustið ´90 og að sjálfsögðu eyðilagður þar eins og margt annað....
Líklega var það vorið 1990 sem ég lagði mína leið til Þingeyrar til að skoða báta. Hafði þá verið trillulaus allar götur frá 1985 þegar sú sem ég hafði þá keypt þrisvar var að síðustu seld til Reykhóla. Um hana hefur verið fjallað í löngu máli hér á síðunni stakkanes.123.is.
Á Þingeyri var margt bátakyns að sjá en sú trilla sem helst fangaði augað ( og virtist henta hálftómri buddu) var Æsa ÍS. Hún lá umkomulaus uppi á kambi og ástandið á henni var þannig að mér leist hún vænleg til eignar fyrir skikkanlegt verð. Ég aflaði mér upplýsinga og komst að því að Æsa væri sænsksmíðuð, innflutt notuð til Vestmannaeyja og þessi furðulega vél sem í henni var væri ættuð frá Ferguson. Ég fann eigandann, hann tók ekki illa í að selja og lofaði að athuga málið. Bað mig hafa samband litlu síðar. Hann stóð við sitt og athugaði málið. Í Æsunni, sem hafði verið skráð fiskiskip, leyndust sumsé ónotaðir rúmmetrar. Þar með varð hún að gulli, líkt og Fífan sem ég birti bílstjóraspegils- myndina af á dögunum. Við þessu var ekkert að segja eða gera, svona var kerfið á þeim tíma. Rúmmetrar í fiskibát voru gulls ígildi þegar úrelda þurfti á móti hverri stækkun annars. Æsan fór úr því að vera svona jafnvirði kók og pylsu upp í rétt um milljón, muni ég rétt. Þórður heitinn Júlíusson á Ísafirði keypti rúmmetrana enda var mín milljón eyrnamerkt húsakaupum árið eftir og þar gilti "business before pleasure" eins og sagt er á alheimsmálinu!
Allt um það. Rúmmetrarnir fóru til Ísafjarðar en Æsa fór út á dauðadeildina á tanganum utan við Vélsmiðju Þingeyrar. Þannig fór um þá sjóferð þá - hún var aldrei farin. Næst þegar ég vissi var Æsa farin á bálið og ekkert eftir nema myndir og minning.....
Fyrsta myndin með pistlinum er skönnuð úr stórvirki Jóns Björnssonar, "Íslensk skip - Bátar", 4bnd. bls.99. Hún sýnir bátinn þegar hann hét Æsa og bar einkennisstafina EA-48. Skrár segja Æsu hafa verið endurbyggða 1986-7 en varla hefur það verið mikil endurbygging því þegar ég myndaði hana á Þingeyri 1990 vantaði a.m.k. tvö borð í aðra síðuna. Annað var í þokkalegu lagi. Myndinar sem á eftir fara eru mína eigin, sú síðasta er tekin þegar ekkert var eftir nema að veita náðarhöggið......