Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


04.06.2014 08:47

TOY?....


Til mín hringdi maður. Slíkt gerist öðru hverju og er yfirleitt bara skemmtilegt. Sum símtöl eru þó skemmtilegri en önnur og þetta var sannarlega eitt þeirra. Ég var spurður hvort mig langaði ekki til Ísafjarðar. Að sjálfsögðu sagði ég jú, enda langar mig oft til Ísafjarðar - ekki þó til að búa, svo það komi skýrt fram og enn síður til að vinna enda var allt slíkt fullreynt á sínum tíma. Það er hins vegar alltaf gaman að litast um, kíkja á kunningja (þá fáu sem ekki eru fluttir suður) og anda að sér hreinu lofti (sem vissulega er hreinna en hér í Höfðaborg)

Erindi þess sem hringdi var þó ekki að segja brandara þótt mikið hafi verið hlegið í símtalinu. Ég var spurður hvort - af því ég sagði jú - ég væri ekki til í að ferja nýjan sýningarbíl vestur fyrir hvítasunnuhelgina og suður aftur að henni lokinni. Það leist mér vel á. Þess vegna erum við Edilon B. Elínarson Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhof Sandhaug Sóðalöpp á leiðinni til Ísafjarðar nk. föstudag. Norsararnir spá fínu veðri, og það er sko miklu meira að marka þá en íslensku spárnar. (sem raunar virðast alltaf breytast í takt við þær norsku)

Ég hef einu sinni áður ferjað bíl á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur í þessum tilgangi. Í þeirri ferð varð dálítið óhapp sem kostaði nýtt TOY 7 - framnúmer og olli því að sláturtíðin hófst óvenju snemma það árið. Ég hef ekki fleiri orð um þann atburð en annaðhvort hafa stjórnendur fyrirtækisins sem sér um sýninguna fyrirgefið mér eða eru farnir að tapa minni........

Að öðru: Það kom fram í síðasta þætti að mikið stæði fyrir dyrum í Höfðaborg. Þar er engu logið. Það stendur sjúkrabíll fyrir dyrum og hann eigi alllítill!  Í tilefni ferðar sem framundan er, er verið að hægindisvæða sjúkrabílinn. Ég er að umbylta þeim litlu ferðainnréttingum  sem í hann voru komnar og byggja inn í hann náðhús af bestu gerð. Tækjabúnaðurinn er keyptur hjá Húsasmiðjunni, af gerðinni Shitmaster 2000 Pisswell og ætti botninn  ekki að vera suður í Borgarfirði með slíkum búnaði. Ennfremur er bætt í bílinn sérstakri geymslu fyrir regnföt, en mér hefur skilist að á þeim stað sem stefnt er til sé helst þörf á slíkum fatnaði. Öll leiða þessi umbrot til þess að stórskipið Stakkanes hefur verið sett í bið um hríð. Kannski muna einhverjir eftir línum sem ég skrifaði í maíbyrjun, um manninn sem sér um leigu á viðlegubásum í Bryggjuhverfinu. Ég hringdi í hann til að fá bryggjupláss fyrir Stakkanesið, það mun hafa verið um mánaðamót apríl-maí. Hann svaraði, sagðist vera upptekinn á fundi og myndi hringja eftir smástund. Þegar ég svo skrifaði áðurnefndar línur var liðin u.þ.b. vika frá símtalinu og maðurinn enn á fundi (væntanlega). Nú er semsagt liðið á annan mánuð frá því maðurinn lofaði að hringja, en Stakkanesið enn uppi á landi. Þetta hlýtur að vera einhver lengsti fundur sem sögur fara af!  

Nú stendur hins vegar ekki til lengur að sjósetja því Stakkanesinu verður hvort sem er ekkert sinnt fyrr en í júlíbyrjun. Á heilum mánuði getur svo margt breyst og hver veit nema í júlíbyrjun verði eitthvað allt annað uppi á teningnum?

Bassi er kominn úr morgungöngunni og við erum á leið suður að Kópavogshæli. Hvort við hefðum átt að fara þangað fyrir löngu læt ég öðrum eftir að dæma um.....

29.05.2014 08:41

(!!!)......Og ég sem hélt.......


.....að ég væri á leið til Vestmannaeyja á morgun, föstudag og allt fram til mánudagskvölds.  Ekki virðist það nú alveg vera, a.m.k. ekki miðað við veðurspána. Ég hef fylgst nokkuð grannt með spám síðustu daga því ég er ekki búinn að gleyma hvernig hlutirnir gengu fyrir sig í fyrrasumar þegar ég átti pantað far til Eyja fyrir bíl og fólk en veðurspáin hljóðaði uppá "fárviðri". Á síðustu  mínútu var þá tekin ákvörðun um að fara og árangurinn var hálfur þokkalegur dagur af tveimur mögulegum. Nú í morgun sagði norska spáin að auk rigningar yrði vindurinn ýmist "near gale" eða þá alveg "gale" á laugardaginn. Norska veðurspáin mín talar ensku af því ég er skárri í ensku en norsku. Samt má alveg þýða þessa spá svo allir skilji örugglega hvað við er átt. Þeir norsku vilja semsagt meina að veðrið verði svona á bilinu "nærri galið" og til  alveg "galið"!




Þess vegna hringdi ég í afgreiðslu Herjólfs í morgun og afpantaði túrinn. Það var hálffúlt því það stóð mikið til í Eyjum um sjómannadagshelgina, m.a. hjá mótorhjólamönnum. Það gerist hins vegar ekki mikið í gölnu veðri og kannski síst hjá þeim hópi enda mótorhjól best geymd inni í veðri líku því sem spáð er. Mér heyrðist einhvern veginn á dömunni í Herjólfsafgreiðslunni að ég væri ekki einn í þessarri stöðu svo líklega er töluvert um afpantanir vegna veðurspár. Það verður samt farið til Eyja en ekki alveg strax - nú eru aðrir hlutir framundan sem krefjast tíma og undirbúnings. Þeir hlutir tengjast Stakkanesinu hreint ekki neitt, nema þá helst að ýta því alveg út í horn um stundarsakir. 

Það er nú svo..... 


......................

26.05.2014 08:26

Sæfari hinn gamli.




Til mín kom maður færandi hendi. Það sem hann færði mér bar hann raunar á báðum höndum og dugði vart til. Hann var að hætta útgerð, og búinn að selja síðustu fleytuna að eigin sögn. Ég hef nú heyrt svona fullyrðingar áður og er kannski skemmst að minnast hans Gulla í Hólminum þegar hann sendi Rúnu sína vestur á Ísafjörð og sagðist vera hættur. Ég trúði því mátulega enda kom á daginn að Gulli gat ekkert hætt þá. Hann er kannski hættur núna en það eru líka nokkur ár frá Rúnu.....

Þess vegna glotti ég pínulítið svona útí annað - og lét það ekki sjást - þegar þessi vinur minn sagðist hættur. Hvað er það þó menn í sjávarþorpi selji bát og geri ekki út? Menn sem eiga hálft sitt líf á bryggjunni kringum trillur og trillukarla - hverju eru þeir hættir? Þeir eru enn að leggja sitt af mörkunum í formi reynslu, ráða og tillagna. Þeir eru enn þátttakendur í daglegu lífi sjávarþorpsins vestur á fjörðum þótt þeir geri ekki beinlínis út sjálfir. Geiri á Guggunni stjórnar ekki skipi eins og er en hann verður alltaf skipstjóri og það er ekkert sem aftrar honum frá því að starfa við það ef hann bara vill. Hann er á kafi í öllu því sem snertir sjávarútveg enda til enda. Er hann þá hættur einhverju?

Allt ofanritað er aðeins inngangur og skal skoðast sem slíkt. Það kom nefnilega til mín maður sem sagðist vera hættur að eiga bát og vildi gefa mér dót sem hann átti en hafði aldrei notað. Sumt af þessu dóti var nýtt, enn í umbúðum og hafði eflaust verið keypt á einhverju bátleysistímabilinu í því augnamiði að nota það í næsta bát. Svo hefur sá bátur líklega verið með öllum búnaði og engin þörf fyrir þennan nýja í umbúðunum. 

Með tímanum varð svo nýi búnaðurinn ekki lengur nýr, tæknin eltist og afdankaðist. Ég man að gamli maðurinn pabbi geymdi um árabil sex volta háspennukefli, glænýtt í umbúðum. Þegar hann var að "taka til" eins og hann kallaði það en var í rauninni að framkvæma svona nokkurs konar eignakönnun á hálfgleymdu dóti, hampaði hann gjarnan þessu háspennukefli sem hlut " í fullu gildi" svo notuð séu hans eigin orð. Og víst var háspennukeflið " í fullu gildi " í þeirri merkingu að það var nýtt, ónotað og í fullkomnu lagi. Gallinn var bara sá að bílar með sex volta rafkerfi voru helst til á söfnum.

Þetta hugsaði ég þegar vinur minn bar inn dótið sitt, nýtt, ónotað og í upprunalegum umbúðum. Gamli koparkompásinn með tréspíranum  var reyndar ekki nýr og kannski ekki alveg " í fullu gildi " nema sem safngripur en norður er ennþá norður, suður ennþá suður og segulkompásar eru í eðli sínu alveg eins. Þess vegna var fíni, ónotaði og innpakkaði plast - hálfkúlukompásinn alveg í fullu gildi og hárréttur eftir því sem næst varð komist hér í Höfðaborg. Það var hins vegar hann Sæfari sem vakti mig til umhugsunar um manninn sem ég heyrði eitt sinn að væri að smíða skip suður með sjó. Hann hafði verið lengi að smíða og þegar komið var að því að kaupa siglingatæki var allt slíkt keypt af bestu gerð. Svo var haldið áfram að smíða mörg ár og á meðan fleygði tækni siglingatækja fram. Mér vitanlega er þetta skip enn uppi á landi og hefur aldrei verið sjósett, en sé sagan sönn er um borð dýrindis Loran-C sem líklega kemur seint að notum.......

Ég tók mynd af kassanum utan um Sæfara:




Engum skyldi blandast hugur um að þarna er á ferð hinn nýi, stórkostlegi Sæfari Mk.II, svo snarað sé beint úr "frummálinu" Allavega hefur framleiðandinn verið handviss í sinni sök, miðað við þennan breiða, gula og glaðlega borða á kassanum. Fátt er hins vegar nýtt að eilífu og við skulum athuga hvaða ár Sæfari var " great new ":



Jú, að vísu ógreinilegt en ég hef þá aðstöðu fram yfir lesandann að hafa kassann við hliðina á mér og geta rýnt í stimpilinn. Þarna stendur 31.maí 1972. Það stendur maí en ekki "may" sem þýðir að þetta er íslenskur póststimpill eða þá tollstimpill. Sæfari hinn stórkostlegi nýi var semsagt nýr árið sem ég fékk skellinöðrupróf og eflaust hefur hin stórkostlega nýjung hans verið fólgin í því að vera pappírslaus, því á þeim tíma notuðu flestir meiri háttar dýptarmælar ókjörin öll af pappír á rúllum. Sæfari hefur heldur ekki verið eins meiriháttar og pappírsmælarnir að því leytinu til að hann hefur varla getað sýnt fiskilóðningar. Hann hefur frekar verið svona dýpisteljari, ætlaður í skútur og skemmtibáta þar sem fiskur þykir ófínn og er nánast bannaður vegna óþrifa og ólyktar.

Ég tók Sæfara upp úr kassanum og skoðaði hann í krók og kring. Hann virðist aldrei hafa verið notaður en kannski verið prófaður því rafleiðslurnar eru afeinangraðar og trosnaðar í endann. 



Mín ágiskun er sú að mælirinn hafi ekki fengist til að virka og því farið aftur ofan í kassann til seinni tíma athugunar. Og á hverju skyldi sú ágiskun nú byggjast? Jú, á því að þegar ég lagðist í "gúggl" til að vita hvort alheimsnetið vissi eitthvað um svona "Great New Seafarer" þá fann ég það út að sendirinn/móttakarinn sem sendir og nemur hljóðbylgjur mælisins og á að vera fyrirkomið innanborðs en ekki gegnum bátsskrokkinn, skal liggja í olíubaði og það skal ekki vera nein smurolía - nei, alheimsnetið fullyrti að nota skyldi það sem þar hét "castor oil"



Með áframhaldandi gúggli fann ég út að "castor oil" er jurtaolía - semsagt matarolía. Sendirinn á The Great New Seafarer virðist aldrei hafa komist í snertingu við slíkan metal og því er ólíklegt að nokkuð vit hafi fengist í mælingar hans við prófun. Enginn leiðbeiningabæklingur var í kassanum og ég giska á að sá bæklingur hafi gengið milli manna í tilraunum til að fá Sæfara til að virka en að lokum endað á/í náttborði eigandans og dagað þar uppi. 

Það verður áreiðanlega ekki langt þar til Sæfari verður kominn um borð í stórskipið Stakkanes ásamt smáleka af matarolíu í passandi hylki......


.......og þótt hann sé að sönnu ekki lengur "NEW" þá skal sko allavega koma í ljós hvort hann er "GREAT" eður ei!

............................................................................

24.05.2014 09:01

Nú segir af tveimur hefðarfrúm.



 Þessar tvær hefðarfrúr koma hvor úr sinni áttinni. Upprunaríki þeirra elduðu löngum grátt silfur og gera jafnvel enn. Hefðarfrúrnar tvær láta sér hins vegar fátt um finnast, báðar hafa þær dvalið langdvölum í framandi landi og sinnt sínum skyldum þar. Nú er þeim skyldum lokið og ellin sækir að. Sú kerling leggst misvel - eða misilla á hefðarkonurnar tvær eins og sjá má á myndunum hér neðar.

 Sú fyrri sem við nefnum er hún Kata. Hún hefur á sínum tíma þótt vel vaxin - íturvaxin eins og það var stundum orðað (eða í þessu tilfelli "ýturvaxin" ). Enda hafa henni eflaust verið falin verkefni í samræmi við stærð. Ekkert veit ég um ferðalög hennar innanlands en þau hljóta í áranna rás að hafa verið þónokkur. Á efri árum hefur hún valist til starfa í grjótnámu S.R. undir Þyrli í Hvalfirði og þar hefur hún lokið starfsævinni. Ég efast ekki um að Kata hafi sinnt sínum störfum með meiri sóma en henni sjálfri er sýndur eftir starfslok.




Ég er ekki viss um aldurinn á henni Kötu. Hún er þó líklega smíðuð eitthvað fyrir 1960 því uppúr því komu svona tæki almennt með vökvatjökkum. Kata er hins vegar með allt í vírum, spilum og kúplingum. Þetta risaspil aftaná gegndi því eina hlutverki að hífa ýtutönnina upp og slaka henni niður aftur. Vírinn liggur frá tromlunum um blakkir inn í leiðararör gegnum stýrishúsið og fram eftir vélarhúsinu sitthvoru megin:




Svo er hún auðvitað með þennan einstaka startbúnað sem einkenndi Caterpillar (og kannski fleiri) um árabil: Tveggja strokka bensínvél utan á stóru sex strokka dísilvélinni, sem hafði þann eina tilgang að snúa þeirri stóru í gang. Það má sjá tvö kerti ofan á flatheddinu og magnetubúnað framan á vélinni. Sér loftinntak með olíubaðssíu ofaná og svo er pústið frá litlu vélinni lagt inn í soggöng þeirrar stóru og blandast  þannig inntakslofti dísilsleggjunnar - sannarlega hjálplegt við gangsetningu í köldum vetrarveðrum. Startari þeirrar litlu er ofaná tengigírnum milli vélanna og snýr til hægri:




Startarinn tengdist svo aftur einhverjum stærsta sex volta rafgeymi sem ég man eftir að hafa séð:




Svo þegar kúplað er saman og litla vélin tengd þeirri stóru er auðvitað hægt að hafa "Hæ" og "Ló":




Hún er engin smásmíði, línusexan og ekki undarlegt að þurft hafi talsvert afl til að snúa þessu flykki í gang:





En svo gat auðvitað komið til þess að sex volta rafgeymirinn væri tómur, eða svo slappur að hann orkaði ekki að snúa tveggja strokka hænunni í gang. Kaninn sá auðvitað við því enda menn  þaulvanir að smíða sex volta Willysjeppa. Hvað gerðu menn í svoleiðis tilfellum? Jú, þeir lögðust á sveifina:




Á þessum ræsibúnaði var hálfgerður dúkkubragur,  í hróplegu ósamræmi við stærðina á tækinu öllu - pínulítill bensíntankur við hlið risaolíutanks, pínulítill vatnskassi aftan við annan risastóran, pínulítil loftsía, pínulítið púströr......

Það hefur verið þokkalega rúmt um ýtustjóran sjálfan, en þar með eru þægindin eiginlega upptalin. Enginn hljóðeinangrun, enginn fjaðurstóll, engin "joystick" til að stjórna með, bara stórar og miklar stangir til að toga og ýta ásamt risapedölum í gólfi. Dálítið ólíkt nútímanum - en við erum heldur ekki með hugann í nútímanum heldur fortíðinni:




Til hliðar lá sjálf ýtutönnin og kannski var þar að finna lykilinn að endalokum ýtunnar. Festiauga hægri kjálkans var brotið aftan af kjálkanum sjálfum. Það hefur eflaust ekki verið einfalt að sjóða þesháttar suðu svo vel væri og kannski var það akkúrat þarna sem notkun var hætt:




Þannig var nú það og líklega mun hún Kata hvíla lúin (og fúin) bein í námunni undir Þyrli allt þangað til einhver tekur sig til og færir hana til eyðingar og endurvinnslu. Hver veit nema í framtíðinni eigi einhver eftir að negla saman sólpall eða eitthvert annað smíðaverkefni með nöglum sem gerðir eru úr járninu af henni Kötu gömlu frá Ameríku?

..............................................................................................................

Hverfum þá  vestur á Mýrar - og um leið heimsálfa á milli, alla leið austur til Rússlands.  Það er ekki löng leið milli Bandaríkjanna og Rússlands, aðeins eitt mjótt sund norður í Íshafi. Samt er óravegur þarna á milli í flestum öðrum skilningi. Lengi vel horfði almenningur þarna austur frá í átt til Bandaríkjanna með stjörnur í augunum og sá þar hið fyrirheitna land frelsis þar sem allt var leyfilegt, allt var fáanlegt og enginn var undir járnhæl valdhafanna eða stöðugu eftirliti þeirra. Ég veit ekki hvernig þessu er háttað í dag en víst er þó að "land frelsisins" hefur færst þó nokkuð í austurátt, a.m.k. hvað varðar stjórnunarhætti valdhafanna. Ég veit ekki hvort hún Raisa var nokkuð að sökkvar sér ofan í svona hápólitískar pælingar þar sem hún stóð og sleikti sólskinið. Ég sá hana þarna fyrir nokkrum árum og eflaust er hún enn einhvers staðar í grenndinni. Ég fór  sömu leið fyrir stuttu og þá var Raisa ekki á þessum bletti lengur. Það er því ekki ólíklegt að þrátt fyrir þreytulegt útlit hafi hún verið gangfær og enn nothæf til síns brúks. Svona babúska eins og hún Raisa gufar nefnilega ekki upp í einu vetfangi.




Sú Raisa sem þessi Mýradrottning dregur nafn af átti (og á líklega enn) mann, rússneska forsetann Mikhail Gorbatsjov og sá hafði valbrá á enninu. Þessi Raisa hefur ekki einungis þegið nafn eiginkonunnar heldur einnig talsvert af valbrá eignimannsins og hún var eiginlega að verða ráðandi í litarafti hinnar rússnesku hefðardömu sem helst virtist hafa það hlutverk að slétta þýfi vestur á íslenskum Mýrum.  Eflaust hefur verið - og er - hlýrra á þeim mýrum en þeim rússnesku freðmýrum sem Raisa hefur verið byggð til að kljást við. Ég veit því ekki hversu mikil þörf hefur verið á þessum upphitunarbúnaði stýrishússins, þ.e.a.s. hafi ég séð og skilið rétt. Ég skoðaði ekki vélina í henni Raisu en miðað við allt og allt þykir mér ekki ólíklegt að hún sé loftkæld og þetta sem horft er á þarna inni í hægra framhorni stýrishússins sé einfaldlega upphitunarbúnaður tengdur afgasi vélarinnar.




...en svo má auðvitað vel vera að þetta sé tómur misskilningur hjá mér, þetta sé einungis lofthreinsari vélarinnar svona staðsettur vegna sandstorma og ryks. Mér fannst bara dularfullur þessi stóri fjögurra bolta flans sem blasir við ofarlega á kútnum og er ekki í neinni líkingu við hefðbundna sogloftslögn. Þetta er eiginlega miklu líkara hljóðkút en loftsíu og mér finnst einhvern veginn líklegt að tæki sem byggt var til að vinna í fimbulkulda austur um hið víðfeðma Rússland hafi verið smíðað loftkælt og öll kælivatnsnotkun hafi þótt fásinna á þeim slóðum. Því þótt það sé auðvitað ekki alltaf kalt í Rússlandi þá verður, þegar almennilega kólnar, hreint andskoti kalt!

Eins og ofar segir var hún Raisa ekki á þessum stað þegar ég átti leið um síðast og þar sem hún flýgur ekki af sjálfsdáðum og Mýramenn virtust lítið láta pirra sig allskonar drasl og rusl sem lá á víðavangi er ólíklegt að hún hafi verið fjarlægð til að fegra umhverfið. Miklu líklegra er að sú gamla sé enn brúkleg og hafi verið flutt á nýjan vinnustað.

...........því nóg er af þýfinu á Mýrunum........


20.05.2014 07:30

Raunir útgerðarmannsins.


Stundum er ekkert grín að vera útgerðarmaður. Raunar skilst manni að útvegsmenn í dag séu einn samfelldur grátkór en það er önnur saga. Það getur hins vegar ekki verið neitt grín að vera útgerðarmaður á stað eins og þessum á myndinni hér  fyrir neðan. Þetta er engin myndagáta enda þekkja flestir eða allir þennan stað.

Það er illmögulegt fyrir þann sem alist hefur upp vestur á fjörðum að skilja svona aðstæður. Ég vissi að útgerð frá þessum stað - eins og systurplássinu - hafði kostað mörg tjónin, bæði mannslíf og eignatjón en ég gerði mér samt enga grein fyrir því að aðstæðurnar hefðu getað orðið svona. Það fjarar jú tvisvar á sólarhring og á myndinni er líklega stórstraumsfjara en maður kemst ekki hjá því að hugsa um afleiðingarnar ef skyndilega hvessti nú af einhverri suðlægri átt. Þá hefur verið undir hælinn lagt hvort var á undan - menn út í bátana eða bátarnir upp í fjöru!  Ekki hefur verið hættulaust að róa út í mótorbátana í vaxandi hviku -  eins og bitur reynsla sýndi. Björninn var heldur ekki unninn þótt komist yrði um borð því það hefur ekki verið auðvelt að hemja mótorbátana á þessum pollum meðan beðið var eftir að nóg félli að til að flyti yfir skerin framanvið - en úti fyrir sívaxandi brim!

Þetta eru hreint ótrúlegar aðstæður og með ólíkindum hversu lengi menn þrjóskuðust við útgerð frá þessum tveimur þorpum við ströndina. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, myndin talar sínu máli og svo má hver og einn hugleiða fyrir sig......



.................................

18.05.2014 10:18

Það er að bresta á með blíðu ....


.....og ég er farinn til Vestmannaeyja!

--------------------------------------------------------------------------------------------------

.....og nú er klukkan að verða tólf á miðnætti og u.þ.b. hálftími síðan ég kom  aftur heim í Höfðaborg frá Eyjum. Ekki var nú sól í allan dag en ágætt samt. Fínn dagur í Eyjum og margt að skoða eins og alltaf.

15.05.2014 17:19

Það er spurning....


Ég sagði frá því um páskana að mér áskotnaðist allstór bunki af Sjómannablaðinu Víkingi frá sjöunda áratug síðustu aldar. Meðal efnis eru margir óborganlegir gullmolar eins og á eftir að koma í ljós. Eins eru margar forsíðurnar hreinn fjársjóður og af því það er til siðs á sumum skipasíðum að hafa getraunir ætla ég ekki að láta mitt eftir liggja og skella inn einni slíkri getraun. Hún tengist að vísu ekki bátum eða skipum nema óbeint en spurningin er: Hvar er þessi staður? Við sjáum bryggjustaur í forgrunni auk einhverskonar steyptra kanta sem gætu verið uppsátur. Einnig eru á myndinni árabátur með tvo unga menn undir árum og vélbátur, líklega um tuttugu tonn eða svo.  Nú þarf að leggja hausinn í bleyti og koma svo með alla þá visku sem finnanleg er. Ég ætla að taka fram í upphafi að ég er ( eða held ég sé..) búinn að finna út hver staðurinn er. Ég er hins vegar enginn gúrú og kannski veit einhver betur. Nú kemur myndin:

( Ég ætlaði að setja hér slóð á myndirnar hans Mats Wibe Lund úr firðinum en það virðist ekki ganga. Myndin er semsagt úr Grundarfirði og horft er inn þar sem heitir Grundarbotn. Ef lukkast að setja hlekk þá er hann HÉR )



Myndtextinn í blaðinu segir einungis: "Kyrrlátt inni á fögrum firði og vor í lofti". Nú er um að gera að spreyta sig.......

Ath: Ef farið er í "Myndaalbúm" efst á forsíðunni má finna albúm sem heitir "Sjómannablaðið Víkingur". Þar má skoða stærri útgáfu af myndinni ef einhver vill.
........................................

13.05.2014 08:11

Ég veit vel að það er sumar....


......og allt það en samt má ég til að birta þessar vetrarmyndir. Það er nefnilega afar sjaldgæft að hægt sé að baða sig í sólskini vestur við Ísafjörð á gamlársdegi. Satt að segja er það ómögulegt - nema menn gangi á fjöll eða hífi sig í átt til himins eftir einhverjum öðrum gildum leiðum. Á þeim árstíma sér nefnilega ekki til sólar nema sem mjórrar randar á fjallabrúnum en íbúar bæjarins njóta hennar ekki frá síðhausti til loka janúar. Þá loks nær sólin að skína á eyrina fögru og "lyfta geði tregu" eins og eitt sinn var kveðið. Myndirnar eru semsagt teknar á gamlársdegi 1994 og við vorum tveir á ferð. Förunautur er maðurinn sem norður í Ólafsfirði er þekktur sem Viddi Konn. Tveir eða þrír Vestfirðingar munu líka þekkja hann.......

Umhverfið er Engidalsfjöllin og leiðin lá um fjallaskarð niður í Þverdal í norðanverðum Korpudal í Önundarfirði. Þegar af fjöllum kom var ekið út með Tannanesi og Veðraá, þar sem neðsta myndin er tekin. Að henni tekinni var brunað sem leið lá um Breiðadal og Þverfjall heim í áramótasteikina og flugeldana .




Það er kominn dagur og þar með tími til að gera eitthvað. Ferðabíllinn á að fara á númer nú í vikunni ef tími vinnst til, í gær var svo fallegur og sólríkur dagur hér syðra og hluti hans var nýttur til að renna austur í Grímsnes til að sækja sækja litla (ljóta) landbátinn frá stórskipinu Stakkanesi, sem þar var í vetrargeymslu. 

Og hvað ætli hún heiti nú aftur, þessi litla, ljóta landferja?


Jú:  "Fagranes"

.........

 


08.05.2014 22:00

Hanagal.


Á sölusíðunni "Haninn.is"  undir liðnum "Bátar og búnaður" er auglýstur Færeyingur.  Ef einhvern langar að skoða auglýsinguna þá er bein leið að henni HÉR. Ég þurfti ekki að lesa lengi til að kannast við bátinn. Þarna er nefnilega klárlega verið að auglýsa hann SÓLÓ minn fyrrverandi. Að vísu er vélin sögð ´98 (eða það skil ég af auglýsingunni) og má svo sem vel vera að skipt hafi verið um vél frá því ég seldi, en allavega er sögð í honum 70 ha. Mermaid eins og ég setti í hann. Sú vél var raunar árgerð 1987 og kom úr Sólbjörtu KE, sem seinna hét Kofri ÍS og enn seinna Lea RE.

Ég veit ekki hvernig Sóló lítur út í dag. Ég sá hann fyrir tveimur árum eða svo, við bryggju í Vogunum og þá leit hann prýðilega út. Miðað við auglýsinguna á Hananum nú hefur hann fengið talsvert klapp og ætti því jafnvel að vera enn fínni.

Hins vegar hefur hann Sóló ekki alltaf verið fínn og það veit ég öðrum betur. Ástandið á honum var vægast sagt sorglegt þegar ég eignaðist hann á Suðureyri vorið 1997. Þá hét hann Sigurörn ÍS 36,  hafði verið kvótabátur í togarakerfinu og þegar kvótinn hafði verið rýrður niður í einhver fimm tonn var enginn grundvöllur fyrir útgerðinni lengur. Sína síðustu róðra fór hann með ónýta vél, dreginn út á færaslóðina að morgni af línubátum og hirtur upp aftur á landleiðinni! Það haust  var hann svo rúinn öllu, kvótarestinni, veiðiheimildinni og rúmmetrafjöldanum - semsagt úreltur sem fiskibátur. Hann var tekinn á land í vagninn sinn og fleygt til hliðar sem hverju öðru drasli á uppfyllingunni innst í þorpinu. Í illviðri fauk vagninn á hliðina með bátnum í og hvorttveggja skemmdist nokkuð. Á þessum tíma var ég að vinna talsvert á Suðureyri og ók nær daglega framhjá þessarri sorglegu fleytu. Einhvern veginn kom það til að ég fór að velta fyrir mér möguleikum á að eignast bátinn, eftir stuttar samningaviðræður gekk það eftir og ég gaf sjálfum mér Sigurörn í fyrirfram - fertugsafmælisgjöf. 

Vélin ónýta hafði verið tekin úr bátnum og flutt á Suðurnesin, þar sem eigandinn var búsettur. Hún var send vestur í fiskikari og látin fylgja bátnum við söluna. Þetta reyndist vera 33ja hestafla Volkswagen Golf/Passat dísilvél, "marineruð" einhversstaðar í Evrópu og fékk eftir það nafnið PIRANHA.  Ekki leist mér gripurinn traustvekjandi og á endanum var hún gefin Stefáni á Innari - Lambeyri í Tálknafirði. Einhverjir munu þekkja til Stefáns og vita að þar fer maður sem ekki hnýtir sína bagga sömu hnútum og aðrir og er þá varlega orðað! Aðrir minnast hans kannski af heimsókn Gísla Einarssonar í þættinum "Út og suður".

Ég á því miður ekki margar myndir af Sigurerni / Sóló, hvorki "fyrir né eftir". Þessar sem hér fylgja á eftir tók ég þegar kaupin höfðu verið gerð:





Að innan var aðkoman eins og búast mátti við. Þar var allt á tjá og tundri og öllu ægði saman, varahlutum og veiðarfærum og allur hrærigrautirinn var svo baðaður hráolíu úr Sóló-eldavélinni - eða það hélt ég allavega.







Um leið og ég hafði eignast Sóló var hann dreginn út að athvarfinu sem ég átti á Suðureyri og stillt upp undir vegg. Þar var allt lauslegt tekið úr honum og því ónýta hent. Annað var þrifið upp og sett í geymslu. Síðan var farið í "föstu" hlutina, talstöð, kompás og olíueldavélina. Ég hafði prófað að kveikja upp í henni með þeim árangri að litlu munaði að bæði bátur og nærstandandi hús yrðu eldi að bráð. Ég hét því að svona lífshættulegt apparat yrði ekki um borð í MÍNUM bát og seldi því eldavélina sumarbústaðseiganda inni í Djúpi. Sá sumarbústaður stendur enn... 

Það þurfti á skrá bátinn á mitt nafn og það var gert hjá sýslumanni á Ísafirði og gjörningnum þinglýst eins og vera bar. Báturinn átti ekki að heita Sigurörn áfram, þó það væri í sjálfu sér ágætt nafn. Hann átti að heita Stakkanes en á einhverju tímabili ákvað ég að geyma það nafn til betri tíma. Þegar einhverjar frístundir gáfust frá brauðstriti og áhugamálum lá ég í bókum og á þessum tíma (og raunar enn) voru mínar helstu biblíur Grunnvíkingabók, Hornstrendingabók og Árbók F.Í. frá 1994, "Ystu strandir norðan Djúps". Ég hafði heillast af frásögnum um útgerð norðanmanna á árum áður og las mér talsvert til um þau mál.  Það mun hafa verið á öðrum áratug nýliðinnar aldar að Eiríkur Benjamínsson frá Marðareyri í Veiðileysufirði gerði út bát frá Hesteyri sem hét Sóló. Ekki veit ég hvort á þeim tíma var farið að framleiða samnefndar olíueldavélar eða hvaðan Eiríkur Benjamínsson hafði þetta nafn. Mér fannst það gott, bæði vegna þess að það var stutt og skýrt, og eins vegna þess að ég stóð einn í öllu þessu brasi kringum Færeyinginn minn á Suðureyri - þar áttu aðrir engan hlut og komu ekki nærri. Færeyingurinn Sigurörn ÍS 36, áður Elín ÍS 2 fékk því nafnið Sóló ÍS - án tölustafa enda réttlaus með öllu og því skráður skemmtibátur.

Það er svosem óþarfi að tíunda hvert smáatriði sem gert var við bátinn. Það nægir að segja að hvergi var lófastór blettur látinn ósnertur. Samt má nefna að þó olíueldavélin væri fjarlægð þá hélst olíulyktin í bátnum enda kom á daginn að brennsluolíutankurinn lak. Hann var úr trefjaplasti, innsteyptur sem þröskuldur í stýrishúsið og vonlaust reyndist að finna lekann. Ég smíðaði því nýjan tank úr ryðfríu stáli, skar upp plasttankinn og kom þeim nýja fyrir innan í honum. Hann var eðlilega allmiklu minni en ég taldi það ekki koma að sök - ég ætlaði ekki að sigla til Grænlands á fyllingunni! Í stað olíueldavélarinnar kom svo glerfínn viðarskápur og ofan á hann tveggja hellu gaseldavél.

Vestur á Flateyri var Eggert Jónsson að skipta um vél í Fífunni sinni. Fífan var Færeyingur af eldri/minni gerð og úr honum kom 33 ha. Mitsubishi/Vetus vél. Mér var bent á þessa vél og það var auðsótt mál að fá hana. Mig minnir m.a.s. að Eggert hafi gefið mér hana - eða þá selt fyrir sáralítinn pening. Hann talaði um gangtruflun í henni, líklega vegna olíuverks eða óhreinna spíssa. Að öðru leyti var vélin ágæt. Hún var sótt til Flateyrar á kerru, drifin heim í athvarf og hreinsuð upp. 

Þegar búið var að lagfæra bátsskrokkinn utan og innan var komið að því að mála. Það rigndi "dálítið" sumarið  1997 og ég fékk inni í Vélsmiðju Suðureyrar hjá Guðmundi Karvel, til að mála bátinn. 





Þegar málverkinu var lokið var Sóló dreginn til baka út að athvarfinu og lagt í stæðið sitt. Þar var hafist handa við að koma Mitsubishi- vélinni hans Eggerts fyrir og mikil vinna lögð í hvert smáatriði. Þegar öllu var lokið sem ljúka þurfti kringum vélina var talsvert liðið á vorið 1998 og  farið að hilla undir sjósetningu. Þegar "nýja" vélin var prófuð kom hins vegar í ljós að hún gekk mjög illa og greinilegt var að hun yrði ekki notuð án gagngerðrar yfirhalningar á olíukerfi. Til þess hafði ég hvorki tíma né afgangs peninga og sjósetningu var slegið á frest.

Svo gerðist það að ég sat einu sinni sem oftar í kaffi hjá Viðari tannlækni á Ísafirði. Þar var einnig Sverrir Pétursson í Súðavík, þá trilluútgerðarmaður á Kofra ÍS sem var fimm tonna 700-Viking bátur. Eitthvað bárust vélarvandræðin í tal og Sverrir, snöggur upp á lagið eins og venjulega, spurði: "Vantar þig vél? Þú getur fengið vél. Bara sækja hana sem fyrst"

Þannig var að Kofri ÍS lá við bryggju í Súðavík eftir vetrarvertíð á línuveiðum og fyrir dyrum stóðu miklar breytingar á bátnum, m.a. lenging, útsláttur og vélarskipti. Allt átti þetta að vinnast suður á Akranesi, muni ég rétt og báturinn átti að fara suður landleiðina. Skv. verksamningi átti Sverrir að vera búinn að fjarlægja gamla vélbúnaðinn úr bátnum áður og þarna var komin leið til að losna við allt batteríið í einu. Auðvitað þáði ég gott boð því í Kofra var sjötíu hestafla Ford Mermaid vél og vökvagír - í raun alltof öflugur búnaður fyrir Færeying eins og Sóló sem átti einungis að verða skemmtibátur en það var nóg pláss og nægur burður í bátnum. Okkur Sverri talaðist til um ákveðinn dag til að taka vélina úr Kofra inni í Súðavík og á þeim degi mætti ég inneftir með verkfæri og kerru í eftirdragi.  Þegar ég kom á bryggjuna var Kofri í gangi og tekinn var einn hringur út á fjörð á fullri ferð. Síðan var lagt að og ráðist til atlögu við vélina. Verkið vannst vel og innan stundar dinglaði vélin í löndunarkrananum. Þegar hún var lögð á bretti á kerrunni var hún enn snarpheit!!

Ég dró svo Sóló inn á bryggju á Suðureyri og notaði löndunarkrana þar til að hífa Mitsubishivélina frá borði. Næst lá leiðin inn í hús Bátasmiðju Vestfjarða við Suðureyrarhöfn þar sem Friggi Jó. (Grunnvíkingur m.m.) steypti nýjar og endurbættar undirstöður undir Mermaid vélina. Í leiðinni var sett skriðbretti á bátinn.





Að þessu loknu var Mermaid vélin, nýþrifin og máluð, sótt á kerru og hífð um borð með löndunarkrananum. Báturinn var svo enn einu sinni dreginn út að athvarfinu og lagt þar undir vegg.



Mitsubishi vélina fór ég með niður í smiðju til Guðmundar Karvels því á þessum tíma var Óli heitinn Olsen með bát sinn HARRY HF-86 á handfærum vestra og í þeim bát var samskonar vél, reyndar undir merkjum SABB. Mér fannst sjálfsagt að Óli eða einhver annar fengi að nýta vélina í varahluti ef þyrfti.

Veturinn ´98-99 var notaður til að ganga frá Ford Mermaid vélinni í Sóló og þegar leið að vori var allt að verða tilbúið. Ég var nokkuð sáttur við verkið, og það voru aðeins þrjú atriði sem ég hafði þurft að fá aðstoð við á smíðatímanum. Fyrst skal nefna Frigga og hans hjálp, sem var ómetanleg við vélarundirstöður og skriðbrettið. Þá hafði Eyjólfur Tryggvason rafvirki frá Lambavatni á Rauðasandi smíðað fyrir mig hleðslustýringu milli rafgeymanna. Að síðustu fékk ég rafvirkja á staðnum til að yfirfara fyrir mig startarann.

Loks var allt tilbúið og um mánaðamótin apríl-maí 1999 var Sóló sjósettur í fyrsta sinn eftir tveggja ára gagngera yfirhalningu í vörinni á Suðureyri. Þegar báturinn flaut átti að setja í gang en þá virkaði startarinn nýyfirfarni, alls ekki. Þetta var fyrsta startið frá því vélin var tekin úr Kofra í Súðavík árið áður og endilega skyldi það bregðast! Báturinn var dreginn að bryggju, ég tók startarann úr og fór með hann út í athvarf. Tók hann sundur og þá blasti við að það hafði hreinlega ekkert verið litið á hann! Það varð því lítið úr þeirri hjálpinni og ég mátti taka startarann sjálfur í gegn með varahlutum frá Pólnum hf. á Ísafirði. Eftir það vann allt eins og skyldi, endum var sleppt og Sóló sigldi reynsluhring út á Súgandafjörðinn. Allt reyndist í lagi og báturinn var bundinn við bryggju að nýju. Nú var ekkert að vanbúnaði og snemma næsta morgun  tók ég með mér gamlan björgunarbát yfir á Suðureyri, setti í gang og þar með kvaddi gamli Sigurörninn hans Morten Holm Suðureyri í síðasta sinn.

Það var fallegt veður þennan vordag en þótt myndavélin væri með í för tók ég aðeins eina mynd. Ég var með hugann við vélina og allt henni tengt, hvort allt myndi nú virka eins og til stóð því prufusiglingin hafði verið stutt. Bátnum miðaði vel áfram og eftir stutta stund var beygt fyrir Göltinn:



Allt gekk vel og það var eggsléttur sjór fyrir Keflavíkina, Öskubak, Skálavík og Deildina. Nú var ekkert sýnilegt lengur af flaki Hafrúnar ÍS - áður Eldborgar GK, fyrsta íslensksmíðaða tveggja þilfara skipsins sem strandaði innan til við Deildina í vetrarlok 1983. Sóló rann inn með Stigahlíðinni og það var ekkert sjáanlegt framundan sem gat orsakað það risahögg sem allt í einu kom á bátinn! Hann hreinlega kastaðist til og hentist úr stólnum niður á gólf. Frammi í lúkar hentust sessur úr bekkjum, dýptarmælirinn skekktist í festingunni og nýja gaseldavélin hoppaði úr skorðum sínum. Það fyrsta sem mér datt í hug var flúð, að ég hefði farið of nærri landi og lent á flötum kletti. Ekkert benti þó til þess en ég stýrði bátnum samt beint út til öryggis, kúplaði þar frá og fór afturí til að athuga vélina. Enginn leki var sjáanlegur og ekkert rask nema plitti framan við vél hafði aflagast. Hann var settur á sinn stað og sigldur einn hringur um svæðið til að leita að mögulegu rekaldi. Ekkert var að sjá en samt fannst mér líklegast að ég hefði lent á trjábol marandi í sjóskorpunni þó ekkert sæist í fljótu bragði. 

(Ég spurði menn sem kunnugir eru á þessum slóðum um mögulegar grynningar útaf radarstöðinni á Bolafjalli en enginn kannaðist við neitt slíkt þar. Ég hef allar götur síðan haldið mig við trjábolinn.....)

Þegar siglt var inn með Óshlíð fór að bera á gangtruflunum í vélinni. Hún fór að "regulera" öðru hverju, fyrst með talsvert löngu millibili en síðar örar. Ég fór aftur í, leit á vélina og sá litlar loftbólur í gruggkúlu hráolíunnar. Við því var ekkert að gera annað en að handdæla öðru hverju og vona að vélin gengi alla leið til Ísafjarðar. Út af Hnífsdalsbryggjunni var gangurinn orðinn verulega slæmur og það stóðst  á endum að um leið og ég renndi fyrir olíumúlann í Sundahöfninni á Ísafirði drap vélin á sér og Sóló rann síðustu metrana að bryggju.




Loftlekinn reyndist vera í bakrennslislögn vélarinnar en hún var frá framleiðanda lögð inn á aðallögnina. Það þurfti því að leggja nýja bakrennslislögn og útbúa aukastút á olíutankinn fyrir hana. Þetta tók dálítinn tíma með öðrum verkum en hafðist á nokkrum kvöldum. Eftir það var Sóló í toppformi. Um leið og olíulögnin var komin í lag var báturinn tekinn í vagn og botninn skoðaður ef vera kynni að eitthvað sæi á honum eftir höggið. Þar var ekkert að sjá utan smáskráma á kjöljárni og ljóst að höggið hafði eingöngu komið beint undir stefnið eða kjölinn framanverðan. 

Mér fannst gangurinn á bátnum mega vera mýkri, stillti honum því upp framan við Vélsmiðju Ísafjarðar og fékk Jóa heitinn Þorsteins til að renna á hann nýja fjögurra blaða skrúfu sem áður hafði verið við 130 ha. Mermaid vél í Berta G. ÍS. Einhverju munaði en engu þó afgerandi.

Það skyggði kannski dálítið á hamingjuna að sumarið ´97, ekki löngu eftir að Sóló var keyptur, hafði verið tekin ákvörðun um að flytja búferlum suður á við, enda áttum við ágæta íbúð í Kópavogi. Sú ákvörðun stóð óhögguð og það var ekki alveg ljóst hvað yrði um Sóló eftir alla vinnuna. Ekki stóð þó til að selja hann en framtíðin var mjög óljós......


Vegna anna við vinnu og undirbúning flutninganna var ekki mikill tími til að nota bátinn um sumarið. Lengst af lá hann við bryggju en ein helgarferð var þó farin á honum norður í Jökulfirði. Ekki fór ég hana sjálfur heldur vinafólk, þau Guðmundur og Kolbrún, sem áður höfðu verið vitaverðir á Galtarvita en voru nú búsett á Ísafirði. Ágústmánuður fór allur í flutningana og á meðan var Sóló tekinn á land. Þegar öllu hafði verið fyrirkomið syðra og börnin komin í skóla fór ég aftur vestur, leigði húskrílið Amsterdam af Frigga Jó, félaga mínum og vann af mér tveggja mánaða uppsagnarfrest auk uppsafnaðra loforða vestur á Suðureyri. Sóló var settur aftur á flot og ég fór a.m.k. eina ferð norður í Grunnavík auk nokkurra veiðiferða þar sem aflinn var hengdur upp í hjall úti á Hnífsdalsvegi. Siginn fiskur varð svo mín aðalfæða þá tvo mánuði sem ég átti enn eftir að búa á Ísafirði. September leið og það saxaðist á október. Ég lofaði krílinu Bergrós Höllu að vera kominn suður á fjögurra ára afmælinu hennar þann 27. október og viku áður var Sóló tekinn á land og búið um hann á vagninum. Umbúnaðurinn tók mið af því að engan veginn var ljóst hvort báturinn yrði eitt ár á landi, tvö ár eða tíu. Framtíðin var algerlega óráðin. Áður en báturinn var tekinn upp sigldi ég honum nokkra "myndavélarhringi" í Sundunum og það var Sigurbjörn Karlsson, Bjössi í Bílatanga sem myndaði:










Ég má til að setja hér á eftir þessum siglingamyndum, tvær sem teknar voru við bryggju sumarið ´99. Þar liggur Sóló við hlið Bússa, eldri gerðar af Færeyingi í eigu Erlings Tryggvasonar. Á þessum myndum kemur glögglega fram stærðarmunurinn á eldri og yngri Færeyingunum og sést vel hve Sóló er miklu þróttmeiri skrokkur en Bússi, sá hvíti:





---------------------------------------------------------------------------------------------

Hálft annað ár lá Sóló innpakkaður í vagninum vestra. Þá loks gafst mér sjóflutningur á hagstæðu verði og bátnum var snarað um borð í flutningaskip. Til Reykjavíkur kom hann vorið 2001 og var þá dreginn suður í Hafnarfjörð að húsnæði gömlu bæjarútgerðarinnar á Norðurgarði sem nú er horfið. Þar hafði Kjartan Hauksson kafari frá Ísafirði bækistöðvar og hjá honum fékk ég aðstöðu til að sjóbúa Sóló að nýju. Að því loknu var hann sjósettur við Fornubúðir og lagt við bryggju. Tvisvar sinnum gerði ég tilraun til að fara á sjó en sneri við í bæði skiptin rétt utan við skipa-flotkvíarnar. Ég fann enga löngun til að fara út á sjó þar sem ekkert var fyrir stafni nema Grænland í fjarska - ekki Grænahlíð! Skömmu síðar auglýsti maður í blöðum eftir bát. Ég hringdi, bauð Sóló og samdægurs voru kaup gerð. 

Þannig fór nú með bátinn sem mig hafði dreymt um árum saman, eytt tveimur árum í að endurbyggja, haft fjóra og hálfan mánuð á floti eftir það og notað sáralítið......

Næsta árið lá  Sóló neðan við Kaffivagninn í Reykjavík og drabbaðist niður. Síðan fór hann upp á Akranes og var þar í allmörg ár. Þaðan fór hann í Vogana og var þar, eins og í upphafi segir, í ágætri hirðu. Nú er hann semsagt í Garðinum og enn til sölu........

Það er alveg í góðu lagi. Ég á nefnilega Stakkanesið............


................................................................

04.05.2014 07:49

Lundi færist um set


 Hann Lundi ST 11 lagði af stað í sína árlegu langferð nú í morgun. Lundi hefur nefnilega vetursetu á Höfðanum í Reykjavík og þiggur klapp eiganda síns og útgerðarmanns. Svo þegar líður að strandveiðitímabili leggur Lundi land undir kjöl (hjól) og ferðast um landveg norður til Hólmavíkur. Þaðan er honum svo siglt til Norðurfjarðar því í Norðurfirði á hann sína löndunarhöfn og þegar Lundi er hvorki á sjó né að landa afla hvílir eigandinn/útgerðarmaðurinn/skipstjórinn lúin bein í fjölskylduhöllinni á Gjögri. Strandveiðitímabilið 2014 hefst frá og með morgundeginum, mánudeginum 5.maí og ekki seinna vænna að drífa sig norður.



Það var æðar- og rekabóndinn Pétur Guðmundsson í Ófeigsfirði sem dró Lunda ST 11 úr vetrarhíði í morgunsárið og skilar honum norðureftir ekki seinna en um hádegi ef þokkalega gengur.







Það er ekki laust við að stórskipið Stakkanes minnki örlítið í samanburðinum. En kannski er það bara svona hnípið yfir að missa félagsskapinn. Lundi og Stakkanes hafa snúið stöfnum saman í vetur og hvað veit maður hvað gamlir bátar með sál hafa að spjalla? Hver veit nema handfærabáturinn Lundi ST 11 hafi getað sagt gamla síldarleitar - og þangdráttarbátnum Stakkanesi nokkrar góðar veiðisögur frá síðustu sumrum.



Stakkanesið þarf hins vegar ekki að híma lengi eitt niðri við Stálver. Nú líður senn að sjósetningu og allt er tilbúið nema bryggjan. Ég hringdi nefnilega í þá hjá Bátavör um daginn til að tryggja mér pláss. Sá sem sér um þau mál var upptekinn og lofaði að hringja "eftir augnablik"

Það augnablik er orðið rúmlega vikugamalt.....

...................................................................

29.04.2014 07:33

Yfir Grjótháls.


Svei mér þá, ég hélt ég væri löngu búinn að gera þessu efni skil. Við tiltekt á "desktoppnum" fann ég svo myndaalbúm sem átti að nota í verkið en hefur aldrei verið sett inn. Þá er bara að vinda sér í verkið.
............................................................................

 Þetta var nú samt ekkert merkileg ferð, svona þannig séð. Eiginlega bara sunnudagsbíltúr í góðu veðri. Satt að segja er fátt merkilegt við ferðina nema ef vera skyldi góða veðrið - það heyrði nefnilega til undantekninga sl. sumar og haust að fá almennilegt ferðaveður. Fararskjótinn var, eins og oft áður, svarti Hrossadráparinn af Skeiðunum og í föruneytinu voru mæðginin Elín Huld og Arnar Þór ásamt eðalhundinum Edilon B. Breiðfjörð o.s.frv.  Við ókum hefðbundna leið upp í Borgarnes og áðum að vanda í Geirabakaríi. Þaðan var haldið að söluskálanum við Baulu og beygt til hægri að Stafholtstungum. Við fyrra vegskiltið sem á stendur "Þverárhlíð" var beygt upp til vinstri í átt að litlu kirkjunni í Hjarðarholti. Ekki var þó ekið þangað heim heldur áfram upp sveitina hjá stórbýlinu Arnbjargarlæk, einhverju alfallegasta býli í sveit á Íslandi. Við vegamót rétt ofan Höfða ( þar sem damatíulömbin eru "ræktuð") beygðum við aftur til vinstri þar sem skilti segir "Sigmundarstaðir". Eiginlega er samt ekki beygt þarna, vegurinn liggur aðeins í hlykk en afleiddur vegur til hægri liggur áfram um sveitina, greinist til þriggja dalbotna og síðan í átt að kirkjustaðnum Norðtungu. Við semsagt héldum í átt að Sigmundarstöðum og nokkurn veginn um miðja leið stendur eyðibýlið Grjót. Við það liggur afleiddur vegur upp til vinstri (hánorðurs) á ská upp þennan áðurnefnda Grjótháls. Ég hafði nokkrum sinnum farið þennan veg en ferðafélagarnir aldrei. 

Grjótháls er ekki fjallvegur í almennum skilningi, til þess er hann alltof lágur. Hann nýtur þess samt að landið umhverfis er frekar flatt og þess vegna má hafa af hálsinum hreint stórkostlegt útsýni bæði til suðurs yfir Þverárhlíð, Skaftártungur og til Reykholtsdals, niður allar syðri Borgarfjarðarsveitir að Hafnarfjalli. Þegar komið er upp á hálsinn má taka stutta gönguferð til austurs að undirstöðum fallins raflínumasturs - það eru varla nema svona hundraðogfimmtíu skref - og þá blasir Norðurárdalurinn við, allt frá Hreðavatni og Bifröst upp að kirkjustaðnum Hvammi. Beint á móti er svo vegamótabýlið Dalsmynni og einkennisfjall Borgarfjarðar, Baula. 

(Ég ætla að endurnýta hér fyrir neðan mynd frá síðsumri 2011 þegar ég var einn á ferð á Econoline ferðavagninum. Svo koma þær nýrri)





 Líklega hefur raflínumastrið sem þarna stóð fallið vegna ísingar í illviðri. Það hafa allavega verið gífurlegir kraftar sem sveigðu þetta svera stál í vinkil og undu uppá það eins og tusku:


 Arnar Þór reyndi ítrekað að rétta stúfana upp aftur án árangurs og er hann þó vel að manni. Að endingu gafst hann upp, tók kortabókina og lyfti henni léttilega:


Gamli sýndi drengnum hins vegar muninn á að vera fullsterkur og hálfsterkur:




Elín Huld, sem venjulega heldur á myndavélinni fékk af sér eina mynd með Bassann í bandi. Venjulega fær Bassi að hlaupa laus við svona kringumstæður en við höfðum komið auga á nokkrar náfrænkur hans á beit í grenndinni og hann hafði óskað samneytis við þær á kröftugan hátt. Bitur reynsla hefur kennt okkur að hann á ekki skap við þessar frænkur sínar.




Á þessum árstíma eru dagarnir orðnir stuttir og  sólin fljót að lækka. Skuggarnir voru farnir að lengjast þegar við héldum loks áfram yfir hálsinn til norðurs. 






Þegar komið er fram á brúnir norðanvert opnast útsýn uppeftir Norðurárdalnum að Hvammi. Undir rótum Grjótháls stendur gamalt eyðibýli og þessi mynd er tekin af bæjarhlaðinu:



Hér fyrir neðan er útsýni af sama stað til bæja handan Norðurárdals og Baulunnar:




 Íbúðarhúsið á þessu eyðibýli hefur fyrir margt löngu verið stækkað til muna svo nærri lætur að eldra húsið sé aðeins þriðji hluti af heildinni. Ekki hefur framkvæmdum þó verið lokið þegar hætt var við þær - eða svo virðist vera því þannig hefur þetta hús staðið í áraraðir. Húsið stendur opið og einhverjir virtust hafa haldið nokkurs konar hrekkjavökuhátið innandyra ef marka mátti verksummerki:






Á vegg í einu herbergjanna var mynd af þessum "huggulegu" brúðhjónum:




Það var eiginlega hálfóhugnanlegt þarna innadyra svo við gengum bara aftur út í sólskinið. Úti á túni stóð þessi gamli FORD vörubíll - líklega er þetta eftirstríðsbíll af F-1 gerð - og ryðgaði hægt niður í svörðinn. Ég hélt í einfeldni minni að fornbílasafnarar létu ekki svona heillega átta gata flathedd vél liggja á víðavangi en svo virðist nú samt vera:








Við ókum áfram niður Skarðshamarsveg og þar sem leiðin liggur um þveran dalinn  náðist þessi fallega sýn á Bauluna í lygnri hliðarlænu frá Norðurá:




Eitt tillit til baka í lokin:  Horft er heim að bænum Glitstöðum og í baksýn er sjálfur Grjótháls. Rétt neðan við Glitstaði beygir vegurinn um þveran dal og tengist þjóðvegi eitt rétt ofan Grábrókar. Að þessari mynd tekinni lá leiðin heim og var stórtíðindalaus.




Gott í bili.
....................................................................

27.04.2014 09:11

Síðasti sunnudagur aprílmánaðar.


Þeir verða ekki fleiri, sunnudagarnir í apríl þetta árið. Þarna um daginn var pálmasunnudagur, svo kom páskasunnudagur og þessi sunnudagur getur svo sem vel heitið eitthvað án þess að ég hafi hugmynd um það. Ég veit allavega að það er ekki Fomúlusunnudagur. Sá næsti með því heiti er ellefti maí og þann dag átti ég að vera á áhorfendabekk úti í Barcelóna að horfa og hlusta. Formúlan hefur hins vegar þróast þannig í ár að það er fátt að sjá og enn minna að heyra. Svo er maímánuður einn besti tími ársins og þegar allt er reiknað saman þá tímdi ég ekki að eyða tveimur vikum af uppáhaldsárstímanum til að horfa á keppni sem ekkert er varið í að horfa á - svo ég sleppti ferðinni og ákvað að fara frekar í fermingarveislu hjá General Bolt-on þessa helgi, enda veit ég að það verður miklu meira gaman. Ekki orð um það meir!

Þetta verður ekki langur pistill. Við Bassi erum á leið út í sólskinið til að líta á stórskipið Stakkanes og gera lauslega áætlun um sjósetningu. Svo þurfum við að líta aðeins á ferðabílinn því nú styttist í að hann verði settur á númer. Eftir hádegið er áætlað að fara til Keflavíkur í smá könnunarleiðangur sem ekki er ólíklegt að tengist bátum á einhvern hátt. Mér þykir heldur ekki ólíklegt að leiðin gæti legið á vélasafnið úti í  Garðskaga. Þar er nefnilega prýðilegt kaffihús og ef veðrið helst eins og það er núna er rjómapönnukaka vel við hæfi.

Hún Sigrún Sigurgeirsdóttir átti stórafmæli sl. miðvikudag. Hún vildi reyndar lítið gera úr því sjálf, segist eiga enn stærra afmæli næsta ár og vissulega er það rétt. Ég veit að þá verður mikið um dýrðir enda á hún Lalla allt það besta skilið:


Það bregst aldrei að hjá þeim hjónum er manni alltaf tekið eins og týnda syninum. Svo má ekki gleyma henni Emmu, sem alltaf geltir fyrst þegar maður mætir en er svo fljót að venjast að við aðra eða þriðju heimsókn er hún farin að þekkja mann og fagnar einungis á rólegan og virðulegan máta. Ég mátti til að mynda Emmu við einhvern samanburð, því hún er einn minnsti hundur sem ég hef séð, ef ekki sá alminnsti:


Svo má ekki gleyma því að hann Gulli á líka afmæli á næstunni. Hafi ég ekki reiknað rangt verður hann 87 ára þann 20. maí nk. Þó hann segist sjálfur vera orðinn óttalega lélegur fær maður á tilfinninguna að það sé mest í nösunum á honum! Af manni sem er að nálgast nírætt er hann ótrúlega brattur og þótt eljan sé kannski farin að minnka - sem eðlilegt er - þá er áhuginn alltaf jafn brennandi þegar um er að ræða báta, veiðar og eyjalíf við Breiðafjörð. Manni hlýnar alltaf dálítið við að heimsækja þessi heiðurshjón.


Ég ætla að enda þessa syrpu á þremur Skagstrendingum. Þeir voru allir myndaðir í Stykkishólmi um páskana.




Ég hef ekki gefið mér tíma til að grafa upp skipaskrárnúmer "Jómfrúarinnar" á efstu myndinni. Þessir bátagerð er rétt yfir sex metrunum - skráningarskyldunni - og allnokkrir þeirra hafa verið styttir eilítið til að komast undan peningaplokki ríkisins og tengdra aðila. Líklega er því þannig varið með Jómfrúna. Sá drappliti á miðmyndinni er Litli vin SH6. Litli vin hefur alltaf átt heima í Hólminum og borið sama nafn. Honum hefur verið breytt nokkuð frá upphafi, m.a. skipt út 30ha BMW vélinni sem sett var í hann nýjan. Ég hef séð hann á siglingu með sinni áttatíu hestafla Yanmarvél og þvílíkur gangur, maður lifandi.........
Sá guli er svo Lundi SH54, eins og vel sést. Lundi risti sitt fyrsta kjölfar á Skagafirði sem Hrönn SK, þá knúinn 23ha Volvo Pentu sem enn er í honum ef marka má nýlegar skrár.

Gott í bili.....
..............................................

25.04.2014 09:45

Undir lok.

 
 Tvo síðustu daga páskadvalar í Stykkishólmi var veðrið orðið skaplegt og að morgni annars í páskum renndum við á litla bláa bílnum út í Bjarnarhöfn. Þar var fátt um manninn og lítið um að vera enda ferðamannavertíðin ekki hafin. Okkur langaði að skoða kirkjuna (fyrsta tilraun mín til að skoða kirkjuna í Bjarnarhöfn var gerð fyrir fjórtán árum. Þá hafði fólkið ekki tíma til að sýna mér hana) og töluðum við unga dömu sem var á gangi á bæjarhlaðinu. Hún sagði okkur að kirkjan væri lokuð og aðeins til sýnis fyrir hópa. Okkur væri hins vegar frjálst að aka niður að henni. Því miður vorum við ekki með neinn hóp með okkur, við vorum aðeins tvö en auðvitað þótti okkur stórkostlegt að fá að aka bílnum niður vegspottann að kirkjunni og ganga kringum kirkjugarðinn - hliðið var nefnilega bundið aftur. Það besta var auðvitað að aksturinn og gangan var hvorttveggja endurgjaldslaust!





Við höfðum ekki lengri viðdvöl í Bjarnarhöfn enda hóplaus og því varla velkomin. Áfram var haldið út í Grundarfjörð. Þar byrjuðum við á að heimsækja ísbúðina - það átti vel við að enda páskaeggjasukkið á ís með dýfu - og á sjoppunni var okkur ákaflega vel tekið, þrátt fyrir að við værum aðeins tveggja manna hópur. Við fengum fínan ís og með hann í hendi lögðum við í skoðunarferð um bæinn. Eðlið sagði til sín og það sem mér fannst helst skoðunarvert voru bátarnir. Það var greinilegt að strandveiðimenn voru að búa sig. Í forgrunni er (6112) Lilla SH, sem upphaflega hét Pollý SK og var frá Sauðárkróki, sá rauði er (6024) Brasi SH, sem upphaflega var Jón EA og hefur víða farið síðan. Uppi á bakkanum er svo (6283) grunndönsk Akureyrarsmíð sem eitt sinn hét Hafbjörg ÞH og var afturbyggð með þennan fína drottningarskut. Nú er öldin önnur og búið að "uppfæra" fleyið verulega.





Svo var þessi timbraða furðufleyta milli húsa og virtist albúin til hvers sem var af rauðu Atlanterrúllunni að dæma. Báturinn er raunar skrokkfallegur en stýrishúsið hefur eflaust meira notagildi en fegurðar-. 





Þessi bátur hét upphaflega Svanur GK 205, smíðaður í Hafnarfirði 1979 og var þá ólíkt fallegri en nú. Ég tók mér það bessaleyfi að skanna þessa mynd upp úr stórvirki Jóns Björnssonar, "Íslensk skip - bátar" 1sta bnd.bls 238.



Út úr nálægu iðnaðarhúsi stóð þetta "geimfar".  Það er líklega eitthvað verið að glíma við þennan nýja Sómabát innandyra:



Á öðrum stað stóð  snyrtilegur Færeyingur, nýmálaður og tilbúinn í strandveiðislaginn. Hann virðist lengst af hafa átt heima á Nesinu, upphaflega Minna SH í Ólafsvík:



Svo var það hún Sigríður blessunin. Hún skartaði engu skipaskrárnúmeri en það er nú til engu að síður og mun vera 6250. Hún leynir ekki sínum dansk/norska uppruna enda ekta NOR/DAN fleyta. Sigríður hét áður Gunnar RE 108 og var um árabil gerð út frá Reykjavík af Jóni Trausta heitnum Jónssyni frá Deildará í Múlasveit vestra:



Kannski ég láti fljóta með eina mynd af Deildará í Múlasveit, svona í minningu duglegs manns:



Upp við gám í horni iðnaðarsvæðis stóð hún Auður. Mér fannst hún hálf hnípin og ekki líkleg til að hafa verið á sjó alveg í gær eða fyrradag.  Auður mun upphaflega hafa heitið Vega (ekki misritun) RE 500 og það var dálítið eftirtektarvert að hún er aðeins tveimur númerum frá fyrsta bátnum á myndunum hér ofar, Lillu SH, sem er 6112. Það hafa aðeins liðið dagar milli skráninga þessara tveggja báta - ef þá svo mikið - og sýnir kannski hversu hratt endurnýjun trilluflotans gekk fyrir sig þegar tréð var að víkja fyrir plastinu á árunum uppúr 1977:



Svo mátti alveg snúa sér aðeins og horfa til Kirkjufellsins frá hvílustað Auðar. Sýnin er frekar kuldaleg:



Hún Elín Huld var ótrúlega þolinmóð meðan bátarnir voru myndaðir. Þegar hún svo rak augun í þennan gamla Volvo Amazon vildi hún endilega mynda hann - enda flottur bíll:



Svo var það ein klassísk kirkjumynd en þessari myndatöku fylgdu talsverðar vangaveltur um það hvernig kirkjan sneri. Miðað við hefðina "austur/vestur" þá hlýtur þetta að vera annar gafl kirkjuskipsins. Altarið myndi þá vera í austurendanum:



Loka pistlinum með mynd af þessum höfðingja, sem var eini Grundfirðingurinn sem við sáum á fæti þennan annan páskadagsmorgun - fyrir utan jú konuna í ísbúðinni.



Punktur.
....................................................

23.04.2014 16:20

Sagan öll!


Það fór svo á endanum að á síðasta augnabliki kom kaupandi hlaupandi og keypti fyrrverandi póstbát Mjólkárvirkjunar, Bjartmar ÍS fyrir verð sem ég held að allir getir verið sáttir við. Öll fyrri skrif (síðustu daga) óskast því virt að vettugi og ekki orð um það meir!

Mánudaginn annan í páskum var hið skaplegasta veður á nesinu og þá var tilvalið að skella sér í bíltúr út í Grundarfjörð. Bærinn er enn að koma undan snjó en það styttist óðum í sumarið og gleggsta merkið um það eru strandveiðikallarnir sem eru að sjóbúa báta sína og búnað. Myndavélin var með í för og með henni var skotið ótt og títt í allar áttir. 

Ég er hins vegar ekki með myndavélina í augnablikinu. Konan sem eldaði páskalambið mitt fékk hana með sér til að afrita páskamyndirnar. Ég ætla í staðinn að birta myndir sem teknar voru sl. sumar um borð í stórskipinu Stakkanesi. Það er ferðafélaginn Edilon B. E. Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhof ( af virðingu við hann sleppi ég viljandi Sandhaug Sóðalöpp)  sem er fyrirsætan. Eins og sjá má væsir ekki um áhöfnina í yfirmannamessanum í Stakkanesinu:





Bassa finnst alveg ágætt að liggja á fótum manns, þegar tekin er kría í "messanum" Svo má velta því fyrir sér hvernig tveggja metra legubekkur rúmast í bát sem er fimm og sjötíu að lengd án þess að vélin lendi aftan við bátinn. Það er nefnilega allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Það má líka alveg skjóta inn einni staðreynd, vegna þess að ég hef einu sinni reynt að fá að sigla Stakkanesinu í hópsiglingu með súðbyrðingunum sem tengjast Bátasafni Breiðafjarðar. NEI - ið sem ég fékk var svo stórt að svarandanum lá við hjartaáfalli!  Staðreyndin er sú að Bjartmar heitinn - sem var sannarlega súðbyrðingur - var smíðaður árið 1966 úr eik og furu í Hafnarfirði. Stórskipið Stakkanes er að öllum líkindum smíðað kringum 1960 - 62 í Noregi og er því mun eldra en Bjartmar.

Hér með legg ég til að yfirskrift næstu hópsiglingar verði einfaldlega "FORNBÁTASIGLING"  og aldurstakmarkið verði fimmtíu ár!
...............................

22.04.2014 09:46

Að morgni þriðjudags - eftir páska.


Þetta er að verða búið!  Vikulöng  páskadvöl í Stykkishólmi er senn á enda og leiðin liggur suður. Ekki verður þó staldrað í Reykjavík mikið lengur en viku því fyrir liggur önnur ferð upp í Hólm innan skamms. Þá verður farið með öðrum formerkjum, í vinnugalla á jeppa með kerru og verkfæri. Það á nefnilega að taka vélina úr honum Bjartmari og flytja hana suður til yfirferðar og gangsetningar. Báturinn sjálfur verður settur upp á kamb og búinn þar til geymslu.

Það hýrnaði yfir veðrinu á páskadag, svo úr varð sæmilegasta gönguveður. Það var auðvitað gripið um leið, enda hefur ekki viðrað fyrir göngutúra lengst af. Fyrsti áfangastaður "gönguhópsins" var klettabríkin við kirkjuna og þaðan var myndað ótt og títt. Á þeirri fyrstu er horft inn Hvammsfjörðinn og Skógarströndin sést til hægri. Í forgrunni er Flatahverfið: 



Hvítabjarnarey með skarðið sitt og skessusteininn er fyrir miðju, t.h. Bauluhólmi og við hægri myndjaðar eru Skoreyjar. Horft til norðausturs:



Svo var myndað í hina áttina, til vesturs. Efst á myndinni er gamla skólahúsið og hægra megin við það dvalarheimilið þar sem þau Gulli og Lalla búa. Í forgrunni er hluti Skúlagötu og  Maðkavíkin (sem á hátíðisdögum heitir Gullhólmavík). Þarna var um árabil eitt aðal uppsátur smábáta í Stykkishólmi og enn er víkin notuð sem slík. Það er sjálfur gullkálfurinn Bjartmar sem liggur þarna aftast og flýtur upp á hverju flóði:



Gulli var búinn að segja mér að Bjartmar læki ekki dropa. Ekki rengi ég það en þar sem ekki kemur vatn inn fer heldur ekkert vatn út! Það reyndist vera allmikið vatn í bátnum og í stað þess að gera eins og Gulli, sem röltir niður í vík á fjörunni og tekur negluna úr, klifraði ég um borð og tók mér stöðu við lensidæluna. Ég var nefnilega í spariúlpunni og ekki búinn til að skríða undir bátinn til að "hleypa af". 





Svo þegar þurrausið var, fékk myndasmiðurinn eina mynd af sér með kirkjuskip og tréskip í baksýn. Þessi kirkja er annars ekki ólík geimskipi, svona frá þessu sjónarhorni:



Þau eru allmörg, húsin í Hólminum sem standa á alveg einstaklega fallegum stöðum. Þessi hús, sem standa á klettanefi fram í Maðkavíkina, eru þar engin undantekning. Það hlýtur að vera stórkostlegt að búa á svona stað:



Hér eru "sjávarlóðirnar við Skúlagötuna og fjárflutningabátur þeirra Öxneyinga við einkabryggju framan við aðsetur þeirra:



Það er ætlunin að draga Bjartmar upp á kambinn í félagsskap þeirra Þyts, Farsæls og Hrímnis (næst á mynd).  Ál - fjárflutningabáturinn fjarst á myndinni hefur ekki nafn svo ég viti en telst auðvitað merkisbátur samt.



Eftir gönguna um víkina lá leiðin upp á Súgandisey en þar hafa verið teknar fleiri myndir en góðu hófi gegnir og því var myndatökum þar sleppt. Við litum aðeins á hafnarbætur sem verið er að gera í tilefni komu nýs "Baldurs", en sá mun vera helmingi stærri en sá sem nú er og er væntanlegur á næstu vikum.  Hleðsludyrum á þeim nýja mun vera öðruvísi fyrir komið og því þarf að gera breytingar á bryggjumannvirkjum.

Eftir hafnargönguna skipti "hópurinn" liði og helmingur hans hélt heim á Borgarbrautina að steikja páskalambið. Hinn hlutinn arkaði í kaffi til Gulla og Löllu. Þar var svo setið fram eftir degi en þegar nálgast fór kvöldmat og veislan beið þeirra á dvalarheimilinu rölti "helmingurinn"  inn á Borgarbraut til að taka út eldamennskuna. Þar stóð kokkurinn glaðbeittur yfir steikinni sem sveik ekki frekar en venjulega á þeim bæ.








.....................................................................

Flettingar í dag: 67
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135034
Samtals gestir: 27844
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:37:59


Tenglar