Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


02.11.2015 08:36

Mánaðamót.


Mánaðamót hér í Höfðaborg teljast alla jafna ekki merkileg tímamót og nýliðin mót voru ákaflega hefðbundin. Maður þarf jú að gera það sama og aðrir, borga reikninga í heimabankanum, fletta yfir síðu á skipamyndadagatalinu frá honum Hafþóri á Húsavík og kannski einhver smáatriði til viðbótar. Að öðru leyti gengur lífið sinn vanagang og hér heima eru laugardagar og sunnudagar líka vinnudagar svo lengi sem einhver verkefni liggja fyrir. Yfirleitt er enginn hörgull á þeim.......

Veðrið á laugardaginn var hins vegar með slíkum eindæmum að ekki varð unað innandyra við verk heldur kallaði sólskinið og lognið mann bókstaflega út fyrir dyrnar og togaði áfram út fyrir bæjarmörkin. Heiðurshundurinn Edilon Bassi, sem yfirleitt er fastur ferðafélagi þegar land er lagt undir hjól var í þetta sinn skilinn eftir heima því farartækið rúmar ekki ferfætling. Eins og áður var fram komið er rauða skellinaðran lögst í vetrarhíði - og m.a.s. dreifð um stórt svæði - en bláa bifhjólið fær ekki sína vetrarhvíld strax. Laugardagurinn var tilvalinn hjóladagur enda sáust nokkur slík á ferðinni strax um morguninn. Það var þó ekki fyrr en nokkuð var liðið á daginn að því bláa var beitt á bikið og haldið af stað upp á Suðurlandsveg, inná Hafravatnsafleggjarann og þaðan áfram Nesjavallaveginn. Sólin var eilítið farin að síga enda er viðveran á himinhvolfinu stutt á þessum árstíma, og þótt fallegir geislarnir væru kærkomin tilbreyting frá gráma liðinna vikna var ylurinn frá þeim hálf máttleysislegur. Nesjavallavegurinn hafði náð að þorna þar sem hann liggur yfir Mosfellsheiðarflákana en strax og upp í hæðir og dalverpi Hengilsins kom var vegurinn rakur og kuldinn niðri við jörð myndaði varasaman glerung á stöku stað. Ofan við Nesjavallavirkjun er stórt útsýnissvæði með trépalli. Við gatnamót þessa svæðis stoppaði ég og myndaði með símanum út yfir Þingvallavatn meðan ég fylgdist með vegmóðum hjólreiðamanni klífa brekkurnar í svo lágum gír að fæturnir gengu eins og vængir á flugu.......



Gufustrókurinn frá Nesjavöllum gefur góða hugmynd um vindafarið:



Sólin hafði ekki náð að skína á þetta svæði nema örstutt um hádaginn og þegar hún seig niður fyrir hátinda Hengilsins og gaf sig alla í Mosfellsheiðina tók kuldinn aftur völdin við Nesjavelli. Vegurinn niður brekkurnar var því verulega sleipur á köflum og það sem helst varð þessum hjólreiðakappa til hjálpar á uppleiðinni var að malbikið þarna er frekar gróft. Á mótorhjóli varð ekki farið nema fetið niður og þegar þangað kom var vegurinn lítið skárri - rakur og farin að myndast á honum frostskán. Það var því ekki farið lengra en að Nesjavöllum, þótt vilji hafi staðið til að aka upp með vatninu vestanverðu og Mosfellsheiðina undir Skálafelli heim. Kuldinn beit dálítið í hnén, ég hefði mátt vera betur búinn til fótanna. Auk þess hefði ég ekið vestan vatns í skugga og hálkuhættu og þegar ég hefði komið upp á Mosfellsheiði hefði sólin verið sest. Besti kosturinn var því að aka sömu leið til baka. Ég náði brekkuklifraranum á reiðhjólinu norðan til í Hengilsdölum og þegar ég kom vestur fyrir dalina inná heiðarflákann mætti ég öðrum hjólamanni sem var á leið til Nesjavalla. Sá hefur vonandi verið á negldu!

(Hér verður eiginlega að koma fram, þeim til skýringar sem ekki eru staðkunnugir að allur heiðarflákinn milli Mosfellsdals og Hengils er á mínum kortum nefndur Mosfellsheiði. Heiðin rennur norður að Þingvallavatni og suður að Sandskeiði / Lækjarbotnum. Þess vegna liggja bæði Þingvallaleiðin um Mosfellsdal (upp hjá Gljúfrasteini) og Nesjavallaleiðin um Mosfellsheiði, þótt talsvert landsvæði liggi milli veganna)

Það var örlítið farið að bregða birtu þegar ég renndi í hlað í Höfðaborg, tók hjólið á hús og kom mér inn í ylinn.......

Veðurblíðan undanfarna daga hefur eflaust létt mörgum verkin. Kvöldvaktirnar í vinnunni hafa alla jafna verið frekar rólegar, nýttar til viðhaldsverka og annars sem fyrir liggur en síður til stórátaka nema mikið liggi við. Á mánudagskvöld þurfti að stíga út úr þægindarammanum þegar annar hjólakraninn á Sundahöfninni bilaði. Kranarnir eru tveir, því þegar Eimskip á Reyðarfirði fékk nýjan krana í sumar var sá gamli fluttur til Reykjavíkur þar sem hann skyldi þjóna meðan stóri brautarkraninn, Jakinn, fengi stórviðgerð. Allt hefur það gengið eftir stórslysalaust og meðan Jakinn hefur staðið úti í horni hafa hjólakranarnir tveir runnið fram og aftur eftir höfninni án þess að þurfa að beygja. Nú er Jakinn aftur kominn í gagnið og Reyðfirðingurinn "Jarlinn" út á ytri hafnarendann í biðstöðu. Þar með er aftur kominn upp sú staða að sá hjólakraninn sem "á heima" á Sundahöfninni, Jötunn er hann nefndur, þarf öðru hverju að krækja út fyrir Jakann. Jakinn er margfalt afkastameiri en hjólakranarnir og er því aðalkraninn við losun og lestun skipa. Hann rennur fram og aftur á beinu spori en Jötunn vinnur svo þeim megin við hann sem henta þykir. Þessum tilfærslum Jötuns, sem er trúlega kringum fjögur hundruð tonn að þyngd með öllu, fylgja gríðarleg átök og síðdegis á mánudag þegar verið var að krækja fyrir Jakann  brotnaði einn af vökvatjökkunum sem beygja ferlíkinu.  Á hvorri hlið eru sjö hjólapör og á hverju pari er beygjubúnaður. Allt er þetta í yfirstærð og það tók okkur allt kvöldið fram yfir miðnætti að skipta um búnaðinn. Trúlega hefur hátt í helmingur tímans farið í að ná tilheyrandi hjólapari af og setja á aftur. Í gærkvöldi voru svo aftur brettar upp ermar þegar skipt var um öll fjögur framhjól stóra bómulyftarans í Hafnarfirði. Hafnfirðingarnir fengu "nýjan" bómulyftara á dögunum og sá sem fyrir var var sendur vestur á Ísafjörð. Þangað fórum við svo tveir félagar til að setja hann saman og á það er minnst hér neðar. Hafnfirðingarnir fengu "nýja" lyftarann hins vegar á ónýtum dekkjum þar sem ný voru ekki komin til landsins. Nú í gærkvöldi var allt orðið klárt til skiptanna og ákveðið að nota þessa einmuna veðurblíðu til verksins. Það tók fjóra menn alls fimm klukkustundir að skipta um öll fjögur framdekkin og var hvergi slakað á nema rétt til að gleypa í sig pizzur í kvöldmat!

Það er víðar fjör en í Eyjum.........



........................................................................................................................................

Flettingar í dag: 459
Gestir í dag: 52
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79286
Samtals gestir: 18502
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 21:47:34


Tenglar