Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


28.09.2015 21:22

Enn mánudagur, að þessu sinni sá tuttugastiogáttundi...


 Það sér fyrir endann á honum septa - mánaðamótin sem svo margir bíða eftir eru um miðja viku og í upphafi nýs mánaðar er stefnan sett á Stykkishólm. Nú á að vetrarbúa Stórskipið Stakkanes með stroffum, köðlum og öðru því sem að gagni má koma í vályndum vetrarstormum.

Tuttugasti og annar dagur þessa mánaðar verður lengi hafður í minnum. Ég mun allavega muna hann til lokadags því klukkan sautján fimmtán þann dag fæddist lítil dama - sem ég á þónokkur prósent í - uppi á Akranesi. Þegar komið var eina átta eða níu daga fram yfir áætlaðan lendingartíma storksins var talað við "konu að vestan" en eins og allir þekkja vita konur að vestan lengra nefi sínu. Þessi kona að vestan hefur starfsstöð á spítalanum uppi á Akranesi og tók skottuna mína undir sinn verndarvæng. Árangurinn varð ofannefnd dama, hraust og heilbrigð en dálítið hávær eins og gengur (og genin bjóða). Skottunni minni, sem nú er orðin mamma, gekk fæðingin vel og átakalítið - og ég, sem var bara pabbi fram til kl. sautján fimmtán varð afi á sama augnabliki. Svona breytist heimurinn hratt og þarf ekki Golfstrauminn til.

Ég á enga mynd ennþá en á eflaust eftir að eignast nokkrar.


Í síðustu færslu þóttist ég vera á leið niður í bæ að skoða sumardót. Jújú, ég skoðaði svo sem sumardót en mér er hins vegar farið að lítast illa á blikuna hvað varðar veðurfarið. Ef eitthvað er eftir af þessu örstutta sumri þá mætti það alveg fara að sýna sig, svona áður en búðirnar byrja á jólaauglýsingunum. IKEA hefur undanfarið boðið upp á steiktan lambaskanka og ég er búinn að fara þangað í þónokkrar veislur. Ef mér skjátlast ekki verður fljótlega farið að bjóða upp á hangikjöt þar og allir vita hvað það þýðir. Þess vegna held ég að allar vangaveltur um sumardót verði settar í kælinn að sinni - ekki er það þó alveg víst en skýrist á næstu dögum.

Ég skrifaði hér ofar að til stæði að vetrarbúa Stakkanesið. Það er dálítið skrýtin tilhugsun því ég ól von um að geta notað bátinn mun meira á þessu sumri en raun varð. Aðstöðuleysið þarna uppfrá háir mér mikið og þegar ferðabíllinn var seldur og stéttarfélagsíbúðin stöðugt í útleigu var fátt til ráða um gistingu. Ég er með hálfgerða "neyðarreddingu" í undirbúningi en þarf að leita varanlegri lausnar ef báturinn á að vera áfram þarna uppfrá. Frá áramótum og fram yfir verslunarmannahelgi varði ég drjúgum tíma í Hólminum en ef litið er yfir skrif sumarsins sést að Stakkanesið var ekki mikið notað þann tíma þótt það væri mikið á floti. Ástæðan var aðallega stöðugur og stífur vindur og þvert á það sem halda mætti þá gladdi það mig um daginn að heyra þrautsjóaðan Breiðfirðing tala um líðandi sumar sem "hundleiðinlegt". Það staðfesti þá það sem mér hafði fundist en hafði svo sem ekki stóran reynslubanka að sækja í. Nú er semsagt mín skoðun staðfest - sumarið var hundleiðinlegt!  M.a.s. kajakinn sem keyptur var snemmsumars hefur lítið verið notaður og ekkert er á leið. Hann hangir bara inni í geymslu ásamt tvíbura sínum og bíður betri tíma.

Frá því síðast var hamrað á lykla hefur ekkert verið (bif)hjólað enda tíðin ekki uppáþaðbjóðandi.....

Mig langar að vera fúll en sem nýbakaður afi get ég það ómögulega. Klukkan er 22.03 á þessu mánudagskvöldi og við Edilon Bassi erum farnir út að fá okkur ís!




Flettingar í dag: 482
Gestir í dag: 54
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79309
Samtals gestir: 18504
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 22:45:06


Tenglar