Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


13.09.2015 08:33

Enn sunnudagur....



 Það er enn kominn sunnudagur - vika frá síðustu dagbókarfærslu og enn stendur veröldin í stað, eða því sem næst. Nú er dagsljóst að náttúran fer ekki eftir neinni nútímaspátækni heldur fer sínar eigin leiðir. Ég hefði átt að verða afi í gær samkvæmt tölvuspám en það gekk ekki eftir og nú veit ég að sónarinn sem ég er með í trillunni og mælir sjávardýpi er miklu öruggari sónar en þetta hjúkkudót.....

Þannig er nú það. Frá síðasta sunnudegi er liðin heil vinnuvika - hér í Höfðaborg er vinnuvikan yfirleitt sjö dagar - og auk þess að laga vagna og lyftara Óskabarnsins hefur nokkrum vinum og kunningjum verið hjálpað með ólíkustu vandamál. Nú er t.d. verið að mála íbúð sem Elín Huld var að fjárfesta í og ætlar að flytja í á næstunni. Þar með höfum við bæði brotið það loforð sem við forðum gáfum sjálfum okkur og fleirum vestur á Ísafirði, þ.e. að flytja aldrei til Reykjavíkur. Eftir flutninga suður bjuggum við saman í Kópavogi alls tólf ár. Eftir það flutti ég til Reykjavíkur en hún bjó áfram á öðrum stað í Kópavogi. Nú fellur seinna vígið og EH flytur í Árbæinn ásamt trippinu Bergrós Höllu ( sem þessa dagana æfir stíft fyrir afleysingahlutverk með Hinemoa ) og Sultu, sem hefur stækkað umtalsvert síðan þessi mynd var tekin á Þórshöfn í fyrrasumar:



Úti er rigningarúði, ekki mikill en þó nægur til að bleyta allt. Í gær var "loftadagur" í nýju íbúðinni hennar EH og þegar þeirri yfirferð lauk mátti ég til að smessa á generálinn í Sandgerði. Það brast nefnilega í einmunablíðu er leið á gærdaginn, nokkuð sem hefur ekki gerst í tvær vikur eða síðan við fórum Vestmannaeyjareisuna þarsíðustu helgi. Þess vegna var tilvalið að viðra hjólin og ætli klukkan hafi ekki verið rétt rúmlega nítján þegar við hittumst í útjaðri Sandgerðis. Þaðan var svo dólað suður með ströndinni, að Stafnesi, í Hafnir og að Reykjanesvirkjun. Spottinn niður að vita er malarvegur og þótt vissulega hefði verið gaman að fara niður að Valahnjúk var vegurinn forugur eftir rigningartíðina og við vildum ekki ata út krómið........



Myndin að ofan er líklega tekin rétt rúmlega átta (20) og heiðríkjan yfir Reykjavík stóð stutt. Það dró hratt í loft og um leið dimmdi. Það var orðið verulega rökkvað þegar myndin var tekin og ég held hreinlega að myrkið hafi skollið á meðan við ókum til baka - nú til Keflavíkur og ekki á gönguhraða. Fylgdum Reykjanesbrautinni út að flugstöðvarafleggjara og ókum ( eða hjóluðum, eins og sumir segja nútildags....) gegnum Garðinn og út í Garðskagavita. Þar var þessi mynd tekin og þótt myndin sé ekki góð er gamli vitinn fallegur svona upplýstur og himinninn stórkostlegur í ljósaskiptum:



Þótt sumarið sé að líða undir lok var slæðingur af "gistieiningum"  (mér finnst þetta algerlega stórkostlegt nýyrði hjá þeim Dalvíkingum) á tjaldsvæðinu, bæði erlendum og innlendum. Við generállinn höfðum hins vegar hvorugur hugsað okkur að gista því í Sandgerði beið okkar kvöldkaffi og meððí. Það var auk þess farið að kólna talsvert í lofti og þótt Goretexgalli generálsins skýldi vel var leðrið mitt orðið assgoti kalt og þunn ullarpeysan undir náði ekki að halda hita þegar komið var upp í löglegan ferðahraða. Þess vegna var notalegt að koma í ylinn í eldhúsinu í Sandgerði, þegar búið var að taka (perlu)hvítu perluna generálsins á hús.

Klukkan var svo farin að ganga ellefu þegar ég hélt heimleiðis á rauðu skellinöðrunni. Ég átti val um tvennt á Reykjanesbrautinni - að aka undir löglegum hraða svo ullin næði að halda hita undir leðrinu eða slá í og vera snöggur heim. Ég valdi annað.......svo hitt.

Það ýrði dálítið úr lofti um miðja Strandarheiðina en við Straum var orðið þurrt. Þegar heim í Höfðaborg kom var þar sama blíðan og við brottför - mínus sólskinið - og ég hefði vel kosið að halda áfram eitthvert annað, ef kuldinn á bringunni hefði ekki rekið mig inn og hjólið á hús!


Tvennt er enn ósagt. Annað: Vinnufélagi minn - Ísfirðingur -  hélt til útlanda á dögunum ásamt fimm öðrum. Á undan sér sendu þeir jafnmörg mótorhjól og er ferðinni heitið frá Hollandi niður Evrópu og um Alpana til Ítalíu yfir Stelvio skarð -sjá HÉR- . Hafi ég skilið rétt liggur leið þeirra alls um fjögur Alpaskörð en Stelvio mun vera það hæsta. HÉR má einnig sjá áhugavert myndband frá skarðinu en ég giska þó á að hraðinn á sexunni verði aðeins minni.......

Svo er hitt. Kannski mætti ætla að Stakkanesið væri alveg gleymt, þar sem það stendur uppi í Skipavík við Stykkishólm. Ekki er það nú alveg, en annir undanfarinna vikna hafa sett strik í þann reikning ásamt sitthverju öðru. M.a. var ferðabíllinn seldur svo ekki er athvarf að hafa í honum. Þá hefur hús stéttarfélagsins verið nær stöðugt í leigu frá því ég var þar um verslunarmannahelgi og því ekki athvarf þar heldur. Nú er beinlínis unnið að því að koma þessum "athvarfsmálum" í stöðugra horf en það tekur einhvern tíma enn. Það verður líklega ekki fyrr en í október sem næst gefst tækifæri til að sigla Stakkanesinu en eftir það verður gert vetrarklárt.

Gott í bili.........







.................................................

Flettingar í dag: 409
Gestir í dag: 45
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79236
Samtals gestir: 18495
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 19:55:26


Tenglar