Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


30.08.2015 21:14

Jú, við fórum....


.....til Eyja í sól og blíðu. Hann hafði reyndar orð á því generállinn þegar hann birtist í Höfðaborg um hálfníu í gærmorgun (laugardag) að það hefði verið djöfullega hvasst á Reykjanessbrautinni en það vantaði ekkert upp á sólina. Við lögðum svo af stað vel uppúr níu og vorum við Guðnabakarí á Selfossi um tíuleytið. Generállinn - Ásgeir Jónsson - er reffilegur í júníforminu.



Í Guðnabakaríi var háð kappát við geitungaher sem var að leggja undir sig glassúrinn í búðarborðinu. Við stoppuðum samt aðeins stutta stund en leyfðum svo öðrum gestum að eiga félagsskapinn fyrir sig. Klukkan var tíu mínútur yfir ellefu þegar við áðum næst stutta stund við Björkina á Hvolsvelli, eftir rólega keyrslu austureftir. Austan fjalls var mun hægari vindur en lýst hafði verið á Reykjanesinu og m.a.s. á Hellisheiðinni var aðeins skapleg gola. Við ákváðum að hvíla ekki lengi á Hvolsvelli en taka þess í stað betra stopp í Landeyjahöfn.



Tvö dýpkunarskip voru að störfum utan við hafnarmynnið og Dísa var við að fylla sig:



Við fylgdumst með Herjólfi sigla inn og losa sig, en skömmu áður en nýr farmur var tekinn um borð birtust tveir hjólamenn af Skaganum. Þeir sögðust alltaf fara til Eyja einu sinni á sumri og gáfu okkur nauðsynleg ráð varðandi bindingar á hjólunum á bíladekkinu. Okkur græningjunum skildist að aðstoð við bindingu byðist um borð en til væru hjólamenn sem svo annt væri um hjólin sín - skiljanlega - að þeir hleyptu engum nærri þeim til að binda og væru jafnvel með eigin bindingar meðferðis.




Skipverjar á bíladekkinu voru hjálplegir við okkur félagana en Skagamenn voru öllum hnútum kunnugir frá fyrri ferðum.





Rauða skellinaðran var súrruð niður til beggja handa og það látið duga enda var rennisléttur sjór.





Eftir landtökuna renndum við beint upp á Stórhöfða. Þar var aðeins hæg gola og sólin nægilega hátt til að ylja vel, þótt farið sé að saxast á sumarið.





Af Stórhöfða var haldið til bæjar að nýju og sest inn á 900 Grillhús til hádegisverðar. Við pöntuðum okkur sitthvora flatbökuna enda orðnir svangir. Það voru raunar mistök því tíminn sem fór í að bíða eftir matnum og borða hann var alltof langur í svo stuttri Eyjaferð. Þau eiga hins vegar heiður skilinn fyrir frábæra pizzu.





Eftir matinn skrapp generállinn að líta á Eldheima en ég renndi í bæinn og leitaði uppi ísbúð. Þegar við svo hittumst að nýju voru eknar hefðbundnar skoðunarleiðir, inn í Herjólfsdal, út á nýja hraun með viðkomu ofan við Skansinn á slóðum gömlu sundlaugarinnar og vatnstanksins, farið út á Flakkarann og út í Gaujulund. Við ókum á malbiksenda austur á hrauni en slepptum mölinni. Litum á dæluna, sýningargripinn um hraunkælinguna frægu í gosinu sem stendur á stalli við veginn. Héldum svo áfram hringinn um Helgafell, litum á minnismerkið um Helliseyjarslysið og Guðlaugssundið, flugvellina og flugstöðina. Það leið hratt á daginn og klukkan var rétt um fimm þegar við stoppuðum við kaffihúsið Vinaminni og skelltum í okkur tveimur bollum á mann eða svo. Mæting á skip var kl. 18 svo það passaði ágætlega að fylla bensíntankana á ÓB áður en heim yrði haldið. Eins og sjá má var búið að aka skellinöðrunni 111 mílur frá því um morguninn - það eru rétt tæpir 180 km.- og á tankinn fóru rúmir átta lítrar.





Nú voru menn færir í flestan sjó og bundu sjálfir sín hjól hjálparlaust. Siglingin til baka upp í Landeyjahöfn var jafn róleg og út og við mynnið lá dýpkunarskipið Perla og jós upp sandi. Þar um borð var kapteinn Óttar Jónsson - Láki Jóns Eggerts frá Ísafirði - sem vissi af ferðum okkar og veifaði af brúarvængnum þegar við sigldum hjá. Það passaði svo að smella af einni mynd fram bíladekkið í Herjólfi áður en ekið var út.






Við höfðum ákveðið með fyrirvara að hinkra til hliðar í Landeyjahöfn og hleypa hersingunni fram fyrir okkur. Það reyndist vel því við ókum langleiðina til Hvolsvallar án þess að hafa bíla á eftir okkur. Stutt kaffiáning var tekin í söluskálanum Björkinni en síðan ekið beint á Selfoss. Þar var stoppað í nokkrar mínútur til að teygja úr skönkunum en svo haldið áfram og ekið um Kambana og Hellisheiði. Til Höfðaborgar komum við réttum tólf tímum eftir að við lögðum af stað að morgni. Generállinn þáði kaffibolla áður en hann hélt aftur út í myrkrið og ók heim til sín suður í Sandgerði.

Þar með var lokið  frábærum ferðadegi.......

.........................................................................................

Flettingar í dag: 433
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79260
Samtals gestir: 18498
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 20:51:07


Tenglar