Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


22.08.2015 08:16

Eitt og annað....


Ég missti auga tímabundið - fékk korn frá slípirokk undir andlitshlífina fyrir nokkrum dögum. Það hefur mörgum sinnum gerst áður en þetta var óvenju þrjóskt og vildi ekki úr. Ég hundskaðist svo allt of seint til læknis og árangurinn var illa virkt auga í nær viku - það á að skoða þetta eitthvað betur á mánudaginn. Ég er þessvegna frekar illa sjáandi akkúrat núna ( og á víst helst ekki að sitja fyrir framan tölvu) en hef svo sem ekkert annað að gera......

Einu og öðru var sleppt úr síðasta pistli, sem eflaust hefði mátt koma fram. Það var ekki ætlunin að skrifa sögu mótorhjóla og skellinaðra á Ísafirði og nágrenni, það verða aðrir mér ritfærari að gera. Samt er af nógu að taka vilji maður á annað borð nefna eitthvað sem stendur uppúr í minningunni - Jói heitinn Sím. var t.d. maður sem hugsaði stórt og þegar hann vildi kaupa skellinöðru fyrir soninn úti í Noregi og flytja heim með Bessanum, þá keypti hann Hondu 100, sem var miklu veglegra hjól en skellinöðrutíkurnar Honda 50. Gallinn var bara sá að Honda hundrað var bifhjól og fékkst ekki skráð sem skellinaðra. Löggan var hins vegar ekkert mikið á ferðinni úti á Hlíðarvegsenda......

Það má líka nefna fjörgamalt NSU apparat sem Ómar Gígju átti. Muni ég rétt vorum við búnir að ýta því hjóli lengri vegalengd en því var ekið þegar yfir lauk. Ég var líka búinn að minnast á RIGA hjólið hans Skarpa Gísla á Kirkjubóli (í pistlinum um mótorhjólasafnið á Akureyri) en nefndi ekki fullt af öðrum skemmtilegum gripum sem til voru í bænum. Óli Þór Guðmunds átti t.d. Hondu 50 af árgerð 1967, sem árið 1972 var þegar orðið antik!  Það var nefnilega komið fram að líftími skellinaðra á Ísfirði var frekar stuttur....

Doddi á Essó átti Hondu 50 árgerð 1968, Jón bróðir hans átti Hondu 90 (sem var eins og Honda 50 á sterum), Tóti Högna og Ómar Óla áttu báðir eins hjól, vínrauðar Honda 50 árgerð 1971 (mjög frábrugðnar SS50 hjólunum sem komu 1972)

Það gengu sögur af gömlu Norton hjóli sem lægi í hálffallinni viðbyggingu við húsið hans Stebba stórsmiðs. Ég held að fáir eða enginn hafi séð það hjól og bræðurnir Halli og Deddi urðu mjög dularfullir á svipinn þegar spurt var um hjólið. Inni í netagerð lá lengi gamalt BSA og einhvern tíma kom með skipi til bæjarins ævafornt og ónothæft ARIEL hjól merkt Ella Skafta. Gaman væri að vita hvað varð um það.

Ég er ekkert að teygja þessa upptalningu meira, nefni aðeins þá sem maður hitti á utanbæjarrápi og keyrði með um tíma, Benna Ben. og Kristján Ólafsson í Bolungarvík og þá bræður Pétur og Marner á Suðureyri sem báðir áttu hjól, muni ég rétt. Jú, það er rétt munað og líka að Pétur var ævintýralega fljótur að stúta sínu....

Þessi pistill átti hins vegar ekkert að fjalla um hjól og því síður um auga, þótt hvoru tveggja hafi verið gerð skil. Hann fjallar um mynd sem ég fann í dóti - raunar tvær - og mátti til að skanna. 

Myndirnar eru teknar í Dýrafirði og aftan á þeim er framköllunardagsetningin júlí 1991. Augljóslega eru þetta ekki júlímyndir og á þessum tíma vildi brenna við að filmur lægju svo og svo lengi heima við án framköllunar. Ég veðja því á haustið ´90. Horft er frá þjóðveginum sunnan til í firðinum (Þingeyrarmegin) niður að Ketilseyri, en bærinn sjálfur er utan sjónmáls vinstra megin. Miðað við jarðraskið er verið að gera landfyllingu við Dýrafjarðarbrúna eða því nýlokið. Það er hins vegar báturinn í fjörunni sem er myndefnið:





Þetta er, eins og sjá má, Fjölnir ÍS 177. Þetta var s.k. Svíþjóðarbátur sem hét upphaflega Eldey EA 110 og kom nýr til Hríseyjar árið 1946. Hann var mældur 89 brl. og knúinn 225 ha. June-Munktell vél. Þeir sem lesa þennan hrærigraut minn öðru hverju taka kannski eftir að það er samskonar vél og sett var í Þorstein RE 21 árið 1945 í Gautaborg, og ég skrifaði nokkur orð um á dögunum - sjá HÉR. 

Báturinn gekk svo dálítið milli eigenda eins og títt var, skráningar voru sitt á hvað, í Hrísey, Reykjavík og á Akureyri og um tíma hét báturinn Andey RE. Það var svo árið 1955 að Sæbjörg hf. á Þingeyri kaupir bátinn og honum er gefið nafnið Fjölnir ÍS 177. 1959 vék June-Munktell sleggjan fyrir 350 ha. Alpha vél. 

Fjölnir var talinn ónýtur og tekinn af skrá 29. nóvember 1972, skv. bókinni "Íslensk skip" e. Jón Björnsson (sjá. 1.bindi bls.96).

Ég man vel eftir þessum bát því hann kom þónokkrum sinnum til Ísafjarðar. Eins sá ég hann stundum þegar farið var í bíltúra til Þingeyrar, og ég man að mér þótti nafnið Fjölnir alveg sérstaklega flott bátsnafn - þetta voru líka flottir bátar, Svíþjóðarbátarnir þótt deilt væri um sjóhæfnina. Fjölnir varð þó allavega 26 ára og alltaf sneri stýrishúsið upp! 
Svo  er Fjölnir minnisstæður fyrir annað: Þegar gamla Fagranesið (sjá HÉR) brann, líklega 1962, var Fjölnir tekinn á leigu til að annast bílaflutninga um Djúpið. Ég man þetta sérstaklega vel því ég fór með honum ásamt fjölskyldunni í ferðalag og er sérstaklega minnisstæður hífivírinn sem lá frá togspilinu - sem var aftur undir brú - fram í mastur og bómu. Þetta var sver, feitisborinn vír og alveg sérstaklega áhugaverður fyrir gutta sem hafði yndi af að kanna nýja hluti. Á máli fullorðinna hét það að maka sig út í skít!

Ég veit ekki hver ætlunin var með Fjölni þarna í fjörunni við Ketilseyri, en get mér þess til að Sigurður Friðfinnsson bóndi hafi ætlað að nýta eitthvað tréverk úr honum. Hvort það varð veit ég ekki en flakið var síðar brennt í svipuðu ásigkomulagi og það er á myndunum.

Svíþjóðarbátarnir munu hafa haft tvenns konar brú - á Fjölni situr brúin ofan á bátapallinum en á Flateyri var systurskipið Hinrik Guðmundsson (áður Valþór NS 10) og á þeim bát sat brúin mun neðar. Ekki veit ég hvað réði þessarri tilhögun en Borgey SF 57, sem sökk nýbyggð  utan við Hornafjarðarós með hörmulegum afleiðingum, hafði samskonar brú og Fjölnir ÍS. Hinrik Guðmundsson ÍS 124 var tekinn af skrá sama dag og Fjölnir ÍS 177, skv. "Íslensk skip"  (sjá 2.bnd. bls. 204) og var síðar brenndur í fjörunni á Ingjaldssandi.

Ég vil koma því að, fyrst ég er að nefna Borgey SF, að skv. bátasíðu Tryggva Sig. í Vestmannaeyjum var Borgey annarrar gerðar en þeir tveir sem að ofan eru nefndir þótt útlitið hafi verið svipað. Ég vísa beint í skrif Tryggva HÉR.





Gott í bili.....




Flettingar í dag: 532
Gestir í dag: 217
Flettingar í gær: 1205
Gestir í gær: 620
Samtals flettingar: 139373
Samtals gestir: 29414
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 18:13:26


Tenglar