Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


13.07.2015 12:18

Strandferðaskipið Stakkanes.


 Eins og fram kom í síðustu færslu - þótt í mýflugumynd væri - þá sigldum við tveir, ég og maðurinn sem stundum er kallaður Flakaþefur, á Stakkanesinu út í Stakksey sl. fimmtudagskvöld. Það var líka komið fram að veðrið var ekki alltof gott, norðaustan strekkingur og hitinn kringum sjö gráður - sem saman gerðu hreinlega skítakulda, svo vægt sé orðað. Kvöldflóð skv. töflu var kl. 19 og var smástreymt, við lögðum af stað uppúr kl. 20 og það var varla að Stakkanesið flyti inn á voginn í Stakksey þar sem Tjaldur heitinn liggur í félagsskap enn óþekkts báts, eins og fram kom hér neðar. Þessi mikla fjara gerði meira en að afhjúpa lítt sjáanlegt bátsflak (eða kjölinn á því), hún afhjúpaði líka svartan, gljúpan botnleir sem klíndist undir og á skóna okkar. Við þurftum að reka Stakkanesið upp í þaraklædda fjörusteina til að komast í land og vaða síðan eðjuna í land til að skoða brakið. Það var því ekki sjón að sjá stórskipið að innan þegar við klöngruðumst aftur um borð og prentuðum svarta drulluna innan á hvítar síður!

Frá Stakksey var ætlunin að fara í flakið af Ingólfi gamla, sem flestir kannast við. Svo lágt stóð sjórinn að sundið milli Landeyjar og lands - Landeyjarsund -  var ekki farið að fljóta, og þarf þó lítið til. Við þurftum því að fikra okkur út milli Stakkseyjar og Hjallseyjar, örgrunnt sund þar sem örlaði á stórgrýti og skrúfan tætti upp þarabrúska. Ég hugsaði hlýtt til skrúfuhringsins sem Reykhólamenn settu á Stakkanesið meðan það var þangballadráttarbátur og hét Lalli. Til glöggvunar set ég leiðina inn á kortaklippu. Krossinn er við flakið af Ingólfi:



Leiðin lá svo milli Hjallseyjar og n.a. odda Landeyjar og vestur fyrir Landey. Í sundinu milli eyjanna var allstór selur sem fylgdist af athygli með siglingunni. Hann skaut upp kollinum a.m.k. þrisvar, í eitt skiptið svo rækilega að líkara var höfrungi að stökkva því hann kom nærri allur uppúr.

Vestan við Landey var dálítið kröpp bára enda óbrotinn sjór yfir þveran Hvammsfjörðinn. Við suðvesturoddann var straumröst enda mikið misdýpi. Innan við oddann var svo skjól og ládauður sjór. Við flakið af Ingólfi gamla (sem eitt sinn hét Þorgeir GK) gætti aðeins vinds, vart þó meira en golu enda hafði stór, erlend skúta lagst þar við fast. Svo margar myndir hafa birst af Ingólfi að ég er ekkert að bæta þar í þótt nóg sé til. Það ætti að nægja að benda á ÞESSA og svo ÞESSAR, sem ég tók sjálfur fyrir nokkrum árum.

Þarna innfrá, í skjóli Þórsnessins var aðeins gutlandi með golunni svo við ákváðum að sigla inn að eyjunni Sellóni þar sem flak gamla Baldurs liggur. 




Ég segi "gamla Baldurs" en vissulega eru þeir orðnir nokkrir, flóabátarnir með því nafni sem teljast orðið "gamli".  Sá þeirra sem við Sellón liggur er fyrirrennari þess fyrsta úr stáli, sem seinna var þekktur sem veitingaskipið Árnes. Sá í Sellóni var raunar miklu þekktari bátur hér áður fyrr, meðan hann hét Þorsteinn RE 21 og var í eigu Torfa Halldórssonar. Það var erfitt að komast að flakinu vegna sjávarstöðunnar og aftur þurfti Stakkanesið að fara í "strandferð":




Það var ekki alveg heiglum hent að komast í land og annar okkar endaði á maganum í þaranum. Ekki varð þó tjón af og við gengum yfir að flakinu. Það er merkilega heillegt enn, það sem vantar er eiginlega aðeins það sem búið var að rífa úr bátnum áður en hann kom inn í Sellón og svo einhverjir bitar sem nýttir hafa verið til heimabrúks.



Þorsteinn RE 21, sem smíðaður var árið 1935 í Reykjavík sem atvinnubótaverkefni borgarstjórnar, var upphaflega mældur 51 tonn og hafði eina 130 ha. Völund-vél. Hann var lengdur árið 1941 og 1945 var skipt um vél í Gautaborg og sett í hann 225 ha. June Munktell vél. Árið 1952 er báturinn seldur til Flateyjar og heldur Þorsteinsnafninu. Árið eftir er hann seldur til Stykkishólms,  verður þá flóabátur og fær nafnið Baldur. Enn ári síðar, eða 1954 er hin níu ára gamla J.M. vél tekin úr og "fundamentum" breytt verulega fyrir tvær 132 ha. Kelvin vélar. Skrúfuholinu var lokað með stáli svo slétt varð aftur að stýrisblaði, en stútar úr eik settir sitt hvoru megin við fyrir stefnisrörin og skrúfurnar. Þeir hafa talið það betra, Hólmarar að hafa "tvöfalt öryggi". 



Þar sem báturinn liggur í fjörunni má vel sjá bæði lenginguna á kilinum og eins er gaman að skoða vélarundirstöðurnar, þar sem sjá má stærðarmuninn á 225 ha. J.M. og svo tveimur 132 ha. Kelvin vélunum, því enn eru tvenns konar undirstöður í bátnum. Það má svo vel geta þess hét að sá bátur sem leysti þennan "Baldur" af hólmi, stálbáturinn sem smíðaður var í Kópavogi 1966, fékk einnig tvær Kelvin vélar, öllu stærri þó eða 320 hö. Þær munu enn hafa verið á sínum stað þegar skipið var rifið í Hafnarfirði fyrir nokkrum mánuðum.

Það er vert að geta þess sem vel er gert og ég bendi á stórskemmtilega færslu Ólafs Ragnarssonar í Vestmannaeyjum um "Borgarstjórnarbátana". Úr þeirri færslu eru einnig fengnar allar helstu ofantaldar upplýsingar um Þorstein/Baldur. Færsluna hans Ólafs má finna HÉR

Að skoðun lokinni tók við talsvert bras við að ná Stakkanesinu af "strandstað". Það var reyndar flotið upp þegar við komum að en ekki var hægt að bakka því skrúfan þvældist í þaranum og norðaustangjólan hélt bátnum stöðugt inni á grynningunum. Að endingu höluðum við hann út með akkerinu, á "áfram" skiptingu spýtti skrúfan úr sér þaranum og þá var leiðin greið. Landeyjarsundið var nú farið að fljóta þokkalega og lóðaði einn komma einn metra þar sem grynnst var. Klukkan var rétt um hálfellefu að kvöldi þegar við, kaldir og forugir bundum við bryggju í Hólminum.

Daginn eftir, föstudaginn 10. júlí var ætlunin að reyna við flakið af Víkingi í Hrappsey en þótt morguninn lofaði góðu með logni og spegilsléttum sjó reyndist þar svikalogn því uppúr kl. níu rauk vindurinn upp aftur og samstundis fór að brjóta báru á Hvammsfirðinum. Frekari sigling var því flautuð af og vestmann´eyski vélstjórinn og skipamyndsmiðurinn fór að hugsa sér til hreyfings heim á leið. Það sama gerðum við á sjúkrabílnum og eftir þrif og frágang á Stakkanesinu var lagt af stað suður á við. 

Fleira var því ekki gert og fundi slitið..........

( Ekki þó alveg, því eftir allt ofanskrifað stóðu eftir nokkrar spurningar: Hvað varð um hina níu ára gömlu 225 ha. June Munktell vél ? Hvar var svo skipt í tvær vélar 1954 og hvað varð um tvær ellefu ára gamlar 132 ha. Kelvin vélarnar þegar Baldri var lagt? Upphaflega Völund-vélin hefur sennilega orðið eftir í Svíþjóð þegar J.M. var sett í í Gautaborg en við hinu væri gaman að fá svar)







.............................................

Flettingar í dag: 25
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 60
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 67322
Samtals gestir: 17107
Tölur uppfærðar: 4.5.2024 04:24:17


Tenglar