Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


15.08.2015 09:11

Einu sinni átti ég hest......


Nokkur orð um annað: Við síðustu færslu hafa verið skrifuð þrjú innlegg. Vegna einhverra síðuvandræða sem ég þekki ekki til birtist aðeins eitt þeirra, það nýjasta. Hin tvö eru svohljóðandi:

 Frá Hafst1: "Já þú ert að verða AFI, innilega til hamingju með það"

Frá Kristni: "loksins að verða virðulegur gamli."

 Ég þakka öllum þremur fyrir innleggin og lofa að reyna að standa mig í hlutverkinu, þótt sá pistill sem hér fer á eftir gefi kannski sterka vísbendingu um aðra þróun mála!

.........................................................................................................................

Ég ætla ekki að gera stutta sögu langa - eða þannig. Ég veit að mér verður það stundum á en vegna þess að það er í mörg horn að líta þessa dagana og mér finnst stundum eins og lífið sé á hlaupum þá ætla ég að reyna að fylgja eftir og vera stuttorður.

Ég þarf samt að fara aftur til ársins 1977. Raunar allt til ársins 1971 en það nægir að segja um það að ég, eins og fleiri ungir samtímamenn á Ísafirði, þráði ekkert frekar en að eignast skellinöðru. Sumarið 1971 eignaðist ég eina slíka, þá aðeins fjórtán ára. Þetta var dálítið sérstakt apparat, reimdrifið líkt og vélsleði, franskt að uppruna og árgerðin líklega 1967. Framleiðandinn hét Motobécane, gerðin hét Mobylette og muni ég rétt þá komu aðeins tvö slík hjól til Ísafjarðar. Eitt yngra var svo til á Flateyri í eigu Jóa Snæ...



(mynd af netinu)

 Ég fékk þetta hjól semsagt notað enda uxu menn uppúr skellinöðrum á tveimur árum þá eins og nú. Ég held líka að ég muni það rétt að Daddi Steina bakara hafi fengið þetta hjól nýtt. Hjólið var í ágætu lagi þegar ég fékk það og þokkalega útlítandi. Ég hafði ekki aldur til að aka svona hjóli svo flestum frístundum var eytt í skúrnum hans pabba á Torfnesinu við að laga smálegt, bóna og pússa. Stöku sinnum stalst ég þó út því á þeim tíma fór löggan í hádegismat og Trausti Bjarna, sem þá var bifreiðaeftirlitsmaður, átti líka sinn matartíma. Maður var í rauninni hræddur við alla sem klæddust einkennisbúningi því menn töluðu saman og einkennisklæddir opinberir eftirlitsmenn gátu allir átt það til að kæra mann fjórtán ára á skellinöðru - eða það taldi ég. Einu sinni skaust ég inn í sund í gamla slippnum og faldi mig því ég sá Óla heitinn toll aka hjá einkennisklæddan!

Á endanum seldi ég hjólið en kaupandinn var svo óheppinn að aka því fyrsta kvöldið ofan í skurð úti á Hnífsdalsvegi - hjólið mun hafa verið ljóslaust og myrkrið svart....

Ég færi mig fram um eitt ár. 1972 eignaðist ég nýja skellinöðru af Honda gerð. Þetta var SS50, sú sem var hvað algengust þá og kostaði 48.250 krónur samkvæmt reikningi. Með henni keypti ég bögglabera og eitthvað fleira af smámunum. Þetta var gullfallegur gripur, blár að lit og ég sá hreinlega ekki sólina fyrir hjólinu...... 



(mynd af netinu)

Okkur ungu mönnunum á Ísafirði sem áttum skellinöðrur var margt betur gefið en vandað ökulag og þessir fallegu gripir héldu ljómanum sjaldnast lengi. Fljótlega eftir að ég byrjaði að aka hjólinu kallaði pabbi á mig afsíðis á eintal - pabbi var dálítið gefinn fyrir alvarleg eintöl ef hann þurfti að koma einhverju frá sér. Fimmtán ára tittir eru kannski ekkert alltof gefnir fyrir það að hlusta á fullorðna, og hvað þá að taka mark á þeim en þetta eintal okkar pabba skildi mikið eftir - í raun svo mikið að ég vil meina að ég hafi alla ævi búið að því og muni gera um ókomna tíð.

Það sem pabbi hafði að segja var í raun ofur einfalt. Hann sagðist hafa heyrt mig aka hjólinu á fullri ferð og ef ég héldi uppteknum hætti við að skipta um gír þá myndi ég fyrr eða síðar mölva gírkassann: "Það sem gerist inni í gírkassanum er það að verið er að færa afl milli tveggja tannhjóla. Til að þetta sé hægt er kúplað sundur á meðan færslan verður. Ef þú sleppir kúplingunni of fljótt við skiptingu, áður en skiptingunni er að fullu lokið ertu að hleypa vélaraflinu á hálfar tennurnar á hjólunum. Það leiðir fyrr eða síðar til þess að þau brotna og þá er hjólið ónothæft í langan tíma meðan verið er að gera við"

Þetta voru fræðin hans pabba, kannski ekki orðrétt en um það bil. Að eiga ónothæft hjól í langan tíma var nokkuð sem var algerlega óhugsandi - ég lagði mig fram um að skilja þessa hluti og eftir samtalið vandaði ég allar skiptingar. Önnur umhugsun fylgdi svo í kjölfarið. Ég ætla ekkert að tíunda öll smáatriði en ég átti þetta hjól í góðu lagi og vel útlitandi full tvö ár, eða allt til þess að ég fékk bílpróf, hjólið var selt til Reykjavíkur og andvirðið notað til bílakaupa. Á þeim tíma voru jafnaldrarnir flestir búnir að eyðileggja sín hjól, flestir höfðu brotið gírkassa og sumir oftar en einu sinni.

Stundum ganga hlutir í bylgjum og skellinöðrubylgjan sem reið yfir Ísafjörð árin 1971-3 hjaðnaði smám saman. Þem hjólum sem árlega bættust í flotann fækkaði jafnt og þétt. Aftur á móti reis bylgja stærri hjóla og hófst trúlega með tveimur bláum Kawasaki 500 hjólum sem komu nær samtímis til bæjarins.



(mynd af netinu)

 Annað átti Torfi lögga, hann hafði nokkrum árum áður átt Honda bifhjól, öllu minna. Kawasaki hjólin komu hálfsamsett í kössum frá Sverri Þóroddssyni kappaksturhetju í Reykjavík, sem flutti þau inn. Halli Ingólfs mun hafa sett hjólið hans Torfa saman og sá eftir það um að halda því "volgu". Hitt hjólið fékk Ásberg Pétursson, jafnaldri minn sem auðvitað hafði ekki aldur til að aka því. Hjá Ásberg voru aðstæðurnar hins vegar þannig að hann eignaðist nýja skellinöðru fjórtán ára og var löngu orðinn leiður á henni. Ásberg og félagar settu hjólið saman sjálfir og notuðu svo hádegismatartíma löggunnar til að skjótast út að aka. Annars var Ásberg yfirleitt andskotans sama hvort löggan var úti eða ekki. Þeir fóru svo "heimsfrægt" ferðalag saman til Reykjavíkur á hjólinu, Ásberg og Víkingur heitinn Hermanns. Í Reykjavík fór löggan ekki í hádegismat.......Ég fékk einu sinni að taka í hjólið hans Torfa löggu, auðvitað án hans vitundar en með Halla Ingólfs uppi á Skíðavegi. Sú eina salibuna skildi eitthvað eftir sem ekki slokknaði.......

Enn liðu ár og nú kemur að 1977, sem nefnt var í upphafi. Það var verslunarmannahelgi og ég var staddur á ferðalagi í Reykjavík með vinkonu, í þeim tilgangi að selja bílinn sem við vorum á og kaupa annan í staðinn.



(mynd af netinu)

 Af þessari sölu er mikil saga sem ég segi kannski seinna, en hluti hennar er eftirfarandi: Bíllinn seldist ágætlega, hjá bílasölunni Braut í Skeifunni. Þar innandyra stóð á standara alveg gullfallegt, svart mótorhjól, Suzuki 550GT.



(mynd af netinu)

 Hjólið áttu tveir vinir, höfðu fengið það nýtt haustið áður og aðeins ekið því sumarið ´77. Kílómetratalan var rétt um 1600 og ekki var sjáanleg ein einasta rispa á gripnum. Ég var búinn að ganga marga hringi um gólfið í bílahugleiðingum en staðnæmdist alltaf hjá hjólinu. Nú þegar ég var með fullar heldur fjár eftir að hafa fengið þriggja ára gamlan bíl staðgreiddan stóðst ég ekki mátið og keypti hjólið. Sá böggull fylgdi skammrifi að ég hafði ekki mótorhjólapróf - ég var kominn með meirapróf á vörubíl en hjólapróf hafði ég ekki, annað en skellinöðruprófið sem vitaskuld dugði ekki. Hvorugt okkar (þið munið vinkonuna) hafði klæðnað til hjólaaksturs, hvað þá alla leið til Ísafjarðar. Hér varð úr að bæta. Ég fékk annan seljanda hjólsins til að aka því fyrir mig út á Seltjarnarnes til Barða móðurbróður míns, sem þar bjó og réði yfir flottasta bílskúr landsins - ekkert minna! Barði samþykkti að geyma fyrir mig hjólið um tíma. Næst var að finna bíl, því það var nægur afgangur af peningunum. Ég fann ágætan Sunbeam 1250 árgerð 1972 og keypti hann.



(mynd af netinu)

 Af þeim bíl er mikil saga, ekki síður en þeim nýselda, sem kannski verður sögð síðar. Af henni segir það eitt nú að við vinkonan ókum vestur á Ísafjörð á bílnum að fríi loknu og er hann þar með úr sögunni (og hún líka skömmu síðar)

Vindur nú þessarri "stuttu" sögu fram um tvær vikur. Á þessum tíma var ég að vinna hjá Pósti og Síma á Ísafirði og hjá okkur hafði verið um skamma hríð "lánsmaður" úr Reykjavík sem hafði komið vestur til að taka kúfinn af þeim verkbeiðnum sem við heimamenn komumst ekki yfir. Þessi náungi hét Kalli, mikill öndvegisdrengur og ekki síðri fyrir það að hann ók miklum Jeepster jeppa, talsvert breyttum en slíkt var nokkur nýlunda vestra.



(mynd af netinu)

 Það leið að starfslokum hjá Kalla og leið hans lá aftur suður á Jörfann þar sem P&S höfðu höfuðstöðvar. Það lá því beinast við að grípa tækifærið, fljóta suður með Kalla á jeppanum og aka mótorhjólinu heim. Það var aðeins komið fram um miðjan ágúst og fínt veður til ferðalaga. Vinnufélagi minn hafði mikinn áhuga á koma með og mér fannst ekkert að því að aka tiltölulega óvanur og réttindalaus stóru mótorhjóli frá Reykjavík til Ísafjarðar með mann aftaná!

Það er vægt orðað að segja að Kalli hafi ekið í loftinu suður því orðalagið gefur til kynna að hann hafi "ekið". Kalli ók ekki - hann flaug jeepsternum suður, trúlega á svipuðum tíma og nú tekur að aka leiðina á malbiki og fínu. Við komum suður að kvöldi dags og við vinnufélaginn fengum næturgistingu hjá Barða frænda úti á Nesi. Snemma næsta morgun tókum við saman okkar dót, þökkuðum fyrir okkur, gerðum hjólið ferðaklárt og lögðum af stað. Muni ég rétt var þetta sunnudagur og við höfum líklega verið á ferðinni rétt uppúr átta því götur borgarinnar voru gersamlega tómar. Við höfðum enda gefið okkur að Reykjavíkurlöggan sæti í kaffi um þetta leyti, næturerillinn búinn en dagurinn ekki byrjaður. Ég vildi helst ekki láta nappa mig réttindalausan og eiga á hættu að fyrirgera nýfengnu meiraprófinu!

Það segir svo sem fátt af akstrinum vestur. Veðrið var gott, malbikið náði aðeins upp á Kjalarnes eða þar um bil og nær öll leiðin var því á möl. Það er erfiðara að aka tvímennt, hvað þá á malarvegi svo ekki var um að ræða neinn ofsaakstur á leiðinni. Ég man að hágírað hjólið átti erfitt í Töglunum (kræklunum upp á vestanverða Þorskafjarðarheiði) því þar var að vanda mikil lausamöl, en að öðru leyti gekk ferðin vandalaust. Hjólið var svo til óekið eins og fram var komið og ég hafði ákveðið að þá fyrst yrði tekið út úr því fullt afl þegar við sæum Ísafjörð - kæmum sem sagt fyrir Arnarnesið og á beina kaflann neðan við Arnardalsbæi. Þangað komum við síðla dags og þegar loks kom að því að gefa stóru gjöfina datt út einn strokkur af þremur - þetta var þriggja strokka tvígengisvél en slíkar eru frekar á kerti og það stóðst á endum að þegar gefa átti inn fór það fyrsta! Við ókum inn Kirkjubólshlíð á tveimur strokkum og náðum út í bæ en við innaksturinn í bæinn gaf sig annað kerti og Súkkan gekk síðustu metrana á einum!

Hjólið var svo sett inn í skúr á Urðarveginum hjá pabba og mömmu. Þar var það hreinsað hátt og lágt með tuskum og tannbursta. Það varð svo að venju og þeir gátu endalaust hlegið að tannburstanum, hinir hjólavitleysingarnir ............

Haustið ´77 var með eindæmum gott. Ég man reyndar ekkert eftir veðrinu og fullyrði því um það eins og "elstu mönnum" er tamt. Mín forsenda fyrir fullyrðingunni er einfaldlega sú að við félagarnir ókum mótorhjólum langt fram á vetur. Þetta haust var fjöldi stórra hjóla í bænum, fleiri en nokkru sinni áður. Þrjú hjól samskonar og mitt höfðu verið áður í bænum og a.m.k. tvö þeirra voru þar enn - tvö af þessum þremur áttu Vinaminnisbræður, Gunnar og Hjalti Þórðarsynir, það þriðja átti Jón Grímsson (Jónssonar) Um svipað leyti og ég kom með mitt í bæinn bættist enn eitt við þegar Sigurður Axel (Bóbó) Gunnarsson keypti glænýtt. Þess utan voru nokkur torfæru/götuhjól.

Um hjólamenninguna í bænum þetta tímabil mætti skrifa langan pistil því margir af þessum drengjum voru hreinir ævintýramenn . Ég ætla hins vegar ekki að skrifa meira um það efni því ég ætlaði að vera stuttorður - þið munið.

Veturinn leið og ég vann mér það helst til afreka að aka á milljón kílómetra hraða út Hnífsdalsveg á sólbjörtum, snjólausum síðvetrardegi - illa klæddur í tíu stiga frosti. Frostið fór þannig með hálsinn á mér að næstu mánuði þurfti ég að sækja læknishjálp a.m.k. tvisvar suður til Reykjavíkur auk ótalinna skipta heima við. Ég mátti helst ekki anda að mér köldu og hjólið var því lítið notað þótt oft gæfist tækifæri. Tuskan, bónið og tannburstinn voru hins vegar í stöðugri notkun. Svo sá ég auglýsingu í einu Reykjavíkurblaðanna þar sem óskað var eftir sambærilegu hjóli. Ég hringdi og bauð hjólið. Væntanlegur kaupandi vildi fá myndir og fékk þær. Eftir það voru kaupin ákveðin og kaupandinn kom fljúgandi vestur að sækja hjólið. Hann ætlaði sumsé að aka því suður - eftir öll þrifin! 

Ég man enn þá - nákvæmlega  - eftir því þegar Ægir Bjarnason rennismiður gekk inn í skúrinn á Urðarveginum og sagði eitt -VÁ-. Svo kom löng þögn. Nú máttu þeir hlæja, vitleysingarnir að tannburstanum...........

Ægir Bjarnason vildi fá að vita hvort mögulega væru fleiri hjól sömu tegundar til sölu, og hafði þá vin sinn syðra í huga. Ég vissi að Bóbó Gunnars var farinn að nefna sölu og hringdi í hann. Hann greip tækifærið og seldi Ægi sitt hjól. Það hafði látið töluvert á sjá eftir nokkrar bommertur hjá Bóbó og eina stóra flugferð inn á sjúkrahústún þar sem Pétur Sig. hafði fengið að prófa með hrikalegum afleiðingum. Pétur var annars þaulvanur hjólamaður af Hondu SL350 en lenti í leiðindskriki í rennusteininum og flaug......

Eftir kaupin af Bóbó kom ekki annað til greina að Ægir æki því hjóli suður. Svarta Súkkan var pökkuð rækilega inn í pappa og plast og sett í flutning. Ægir lagði svo af stað eftir einnar nætur gistingu vestra. Það var vor, vegirnir voru blautir og forugir og þegar ég hitti Ægi seinna sagðist hann hafa komist næst almættinu í suðurferðinni - svo blautur og kaldur sem hann var orðinn þegar hann loks náði heim! 

Myndin hér að neðan er önnur tveggja sem teknar voru af hjólinu mínu og varðveist hafa. Hin finnst ekki í augnablikinu en er til ....



Þar með var ég orðinn hjóllaus. Ég var líka "hálslaus" eða þannig og varð að fara mjög varlega í kulda. Í sumarbyrjun keypti ég svo mína fyrstu trillu fyrir mótorhjólspeningana. Af henni er einnig mikil saga sem sögð var í löngu máli fyrir mörgum árum....

Síðsumars ´78 átti ég leið suður. Aðalerindið var ferð til hálssérfræðings en suðurkominn leitaði ég Ægi uppi til að heilsa uppá hjólið. Hann gerði mér þann greiða að fá lánað hjólið (Bóbós) hjá vini sínum og saman tókum við kvöldrúnt um miðbæ Reykjavíkur. Það var í fyrsta og eina skiptið sem ég hef ekið mótorhjóli um miðbæinn og upplifunin var einstök. Svo leið kvöldið, ég kvaddi, þakkaði fyrir mig og lokaði bókinni.........

Fjórtán ár liðu. Árið 1992 - þetta er raunar ágiskun, ég er ekki alveg með það á hreinu en ár til eða frá skiptir engu - var ég að vinna hjá Steiniðjunni hf.á Ísafirði með manni sem ekki kallaði allt ömmu sína. Guðmundur Matthíasson var einstakur vinnufélagi enda með alskemmtilegustu mönnum - og þegar Gumma datt í hug að fá sér mótorhjól þá bara fékk hann sér mótorhjól. 



(mynd af netinu)

Þetta var gullfallegt Suzuki (hvað annað?) Intruder 700, stelpulega vínrautt og krómað. Einstaklega fallegur gripur og vel með farinn. Ég fann svo sem alveg hversu grunnt var á dellunni hjá mér en tókst vel að bæla niður enda fjölskyldumaður í stífri lífsbaráttu og lítið pláss fyrir þann fíflagang sem mótorhjól þóttu - ennþá árið 1992. Ég fékk einu sinni að prófa Súkkuna og þótti gaman en líka gott að komast heill og óskemmdur til baka!

Enn liðu mörg ár án þess að ég svo mikið sem hugsaði um mótorhjól. Ég vissi að margir af mínum gömlu félögum höfðu fengið sér hjól "í ellinni", bílskúrsmublur sem sjaldan voru hreyfðar nema í albestu veðrum. Ég spurði einn þeirra hjóllausan hvort hann hygði á kaup. Hann svaraði: "Nei, ég slapp óskaddaður í gegnum þetta tímabil og þakka guði fyrir það"  Það leið svo ekki langur tími þar til þessi skoðun breyttist, hann fékk sér hjól og setti almættið í aftursætið. Ég veit ekki hvort Mazzi á ennþá það hjól.....

Gamall vinur og félagi hefur í pistlunum mínum stundum verið kallaður General Bolt-on, og veit sjálfur vel hvers vegna. Fyrst ég er hins vegar farinn að nefna nöfn held ég því áfram. Ásgeir Jónsson í Sandgerði átti mótorhjól hér í eina tíð og honum fór líkt og mörgum, bakterían sat föst og hvarf ekki þótt árin liðu. Ásgeir horfði hins vegar ekki til Japan þegar hjól voru annars vegar heldur til Þýskalands. Þegar hann frétti af einhverjum náunga í Hafnarfirði sem átti BMW 650 torfæru/ferðahjól linnti hann ekki látum fyrr en hann hafði fengið hjólið keypt. Þetta var fyrir einum tíu árum eða svo. Það kom í minn hlut að aka hjólinu frá Hafnarfirði suður í Sandgerði. Þegar þangað kom vildi Ásgeir fá að vita hvernig mér hefði líkað. Mig grunaði nefnilega að hálfur tilgangur ferðarinnar hefði verið að kveikja á bakteríunni hjá mér.

Ég reyndi að vanda orðavalið og komast hjá því að segja Ásgeiri að þvílíka andskotans jarðvegsþjöppu hefði ég aldrei keyrt og ef einhver arða hafi verið eftir að mótorhjólabakteríunni væri hún pottþétt endanlega dauð. Svo feginn væri ég að ferðin væri á enda. BMW hlyti hreinlega að hafa eignast þetta viðrini einhversstaðar langt utan hjónabands......

Ásgeir var nú samt ánægður með hjólið sitt en ók því ekki mikið, einhverra hluta vegna heldur gerði meira af að mála og bóna. Hjólið fékk m.a.s. sinn eiginn upphitaða garðskúr og breyttist smátt og smátt úr því að vera notað Enduro-hjól í klára mublu. Árin liðu og Ásgeir hélt  áfram að skoða hjólaauglýsingar - allt þar til maður í smáþorpi á Suðurlandi auglýsti álitlegt hjól - reyndar japanskt - til sölu og var eftir samtal jafnvel tilbúinn að skipta á þýskri jarðvegsþjöppu. Ásgeir fór að skoða og ég fékk að fljóta með. Í skúr hjá seljandanum stóðu nokkur hjól af ýmsum gerðum ásamt því sem átti að selja - og nú vorum við að tala saman!




 Þetta var Yamaha V-Star, perluhvítt og leðurskreytt, alveg hrikalega fallegt hjól. Það var augljóst að Ásgeir, sem jaðrar við að vera meiri pervert en ég þegar kemur að mótorhjólanostri, gæti hér engu bætt við. Að liðnum einhverjum dögum voru kaupin gerð, seljandinn skilaði Yamaha hjólinu í garðskúrinn suður í Sandgerði og ók burt á jarðvegsþjöppunni. Er hann þar með eðlilega úr sögunni.

Ekki þó alveg, því einu er við að bæta: Þessi mótorhjólamaður var með fyrir utan hjá sér gamlan númerslausan Benz húsbíl, ákaflega framlágan og lúinn. Þegar ég fann að ég var farinn að hafa meiri áhuga á hjólunum í skúrnum en góðu hófi gegndi þá gekk ég út á hlað og vorkenndi Benzanum. Kannski var það svona hálfgerður ástarblossi, ég veit það ekki. Kannski má lesa eitthvað út úr ÞESSU HÉR? 

Nú líður að sögulokum, enda átti þetta bara að vera stuttur pistill, eins og fram kom í upphafi. Ég hef oft komið í heimsókn til generálsins eftir að hann fékk perluhvíta Yamaha hjólið og nokkrum sinnum litið í skúrinn. Hjólið er ekki mikið notað, svipað og hjá mörgum sem hafa verið að fá sér hjól á "seinni hlutanum". Hins vegar er ólíkt meira gaman að aka því en BMW undanvillingnum og dekrið kringum það er algert....sjálfur hef ég gaman af að skoða auglýsingar, aðallega þó bátaauglýsingar en þegar ég var búinn að lesa sömu auglýsingarnar þúsund sinnum langaði mig að breyta til og fór að skoða hjólaauglýsingar. Fljótlega rak ég augun í auglýsingu um hjól með nafni úr fortíðinni - gamlan Breta sem þó er ekki Breti lengur heldur smíðaður á Indlandi með litlum breytingum frá sjötta áratugnum. Semsagt ekki gamall Breti í þeim skilningi heldur Indverji árgerð 2007 en samt gamall Breti - eða þannig. Þetta hjól gat ég hugsað mér að eiga, ekki endilega til að aka því heldur frekar sem stofustáss. Ég hafði samband við eigandann og vildi semja. Hann var ófáanlegur til að slá meira af verðinu en sem nam kóki og pulsu. Það voru slæm mistök því þegar bakterían kviknar eftir þrjátíu og sjö ára dvala er hún margfalt öflugri en fyrr. Ég var ákveðinn í að kaupa hjól og lagðist því yfir allar upplýsingar um þessa tegund sem ég gat fundið á netinu. Útkoman var sú að ég fann aðra gerð áhugaverðari en þetta auglýsta hjól og ákvað að horfa ekki frekar til þess. Sú sem ég vildi fá er illfáanleg hér heima og ég verð líklega að flytja slíkt hjól inn sjálfur í framtíðinni, vilji ég eignast það. Eintak af þeirri gerð sá ég á Flugsafninu á Akureyri á dögunum og það stóð fyllilega undir væntingum. 




Ákvörðunin var hins vegar tekin og ég ákvað að fyrst ég væri að falla fyrir freistingunni skyldi ég falla með sæmd - og það gerði ég!




Svo er alltaf spurning hvort menn séu ekki orðnir of gamlir þegar þeir vita varla hvað snýr fram og hvað snýr aftur á mótorhjóli:




Þessar síðustu línur eru skrifaðar á sunnudagsmogni þann 16 ágúst. Í morgun stóð til hjólaferð með Ásgeiri Jónssyni á perluhvíta Yamaha hjólinu eitthvert austur fyrir fjall. Það rignir hins vegar eldi og brennisteini og í slíku veðri eru mublur geymdar inni. Þessum "stutta" pistli lýkur því hér.

.................................................................................................




Flettingar í dag: 393
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79220
Samtals gestir: 18493
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 19:17:22


Tenglar