Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


12.02.2015 09:39

Huglægt eða landlægt?


 Ég er að velta mér fyrir því (eins og Geiri heitinn danski orðaði það) að skipta um skoðun. Eða kannski ekki skipta alveg um skoðun heldur aðlaga skoðunina ríkjandi aðstæðum. Ég sagði nefnilega hér fyrir helgi að veður væri huglægt ástand. Óveðrið í Stykkishólmi um síðustu helgi var síður en svo huglægt - það var ákaflega áþreifanlegt og þetta áþreifanlega gilti í báðar áttir því ef maður hætti sér út fyrir dyr var rifið í mann jafnharðan og manni kastað til og frá.........

Þess vegna held ég að veðurfarið á þessu vindbarða skeri okkar sé ekki lengur bara huglægt heldur landlægt - það linnir ekki lægðunum sem yfir okkur ganga og þegar þetta er skrifað er tæplega sjö stiga frost í Höfðaborg (eða utan við hana). Það snjóaði svo þétt í gærkvöldi þegar ég var á leið úr vinnu að ég fann ekki afreinina úr Ártúnsbrekkunni og áttaði mig ekki á umhverfinu fyrr en ég kom upp að Hvalfjarðargöngum.......

Nújæja, kannski ekki alveg dagsatt en það snjóaði allavega svo mikið að allar akreinar runnu saman í eitt og skyggnið var langt undir ásættanlegu marki. Ég komst þó heim að lokum og hefði gjarnan viljað taka bílinn á hús en möguleikinn var því miður ekki í boði þar sem annar var fyrir. Ég á eftir að athuga hvort þetta hvíta, ólögulega hrúgald utan við gluggann minn er bíllinn sem ég kom á heim í gærkvöldi - það er ekkert bílslegt við þetta klakastykki.

......og nú spá þeir roki og rigningu um helgina! Aftur og nýbúnir!

Ég komst ekki í Hólminn á föstudagskvöld eina og ætlað var því þarfir annarra gengu fyrir mínum, eins og svo oft áður. Auðvitað er sú uppröðun mér að kenna og engum öðrum en þannig er það bara. Ég ætlaði aðeins að rétta hendi í korter eftir vinnu og aka síðan rakleitt uppeftir en þetta korter varð að tveimur og hálfum tíma. Klukkan hálfsjö um kvöldið var komið svartamyrkur auk skítviðrins sem almættið telur svo sjálfsagt að leyfa okkur að njóta sem lengst. Ég verð náttblindari með árunum og á ákaflega erfitt með að aka um óupplýsta vegi í myrkri og illviðri svo brottför var frestað til laugardagsmorguns. Veðrið var þá að vísu hið sama en birtan gerði gæfumuninn. Þegar í Hólminn kom og búið var að "flytja inn" og fylla á ísskápinn var lagst í heitu potta sundlaugarinnar. Það er í fyrsta sinn sem ég hef fundið raunverulega þörf fyrir að hafa húfu í heitapottinum því við lá að hausinn frysi af manni!

Leiðin lá svo til baka eftir hádegi á mánudaginn sl. Aksturinn tók þessa venjulegu tvo tíma og það sýndi sig að leiðindaveðrið sem þá var norðan Ness náði ekki suður fyrir því Mýrarnar voru auðar og þurrar. Þannig var færið alla leið suður og eftir fataskipti og stutta "lagningu" í Höfðaborg var ég mættur í vinnu rétt fyrir kl. 16.

Næsta dvöl í Hólminum er ekki á dagskrá fyrr en um páska en í millitíðinni gæti þurft einn dagskrepp eða svo til að sækja tvo hluti í Stakkanesið, sem þarf að endurnýja fyrir vorið. Það var nefnilega ekki viðlit að athafna sig um borð nú vegna veðurs.....

......en þangað til verður maður að þreyja þorrann og góuna hér syðra.




.............................................

Flettingar í dag: 327
Gestir í dag: 37
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79154
Samtals gestir: 18487
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 15:55:57


Tenglar