Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


23.12.2014 07:49

Þoddlákur.


 Það er Þorláksmessumorgunn, í Höfðaborg er stilla og hlýtt miðað við veðurspár undanfarinna daga. Þegar við feðgar gengum til náða í gærkvöldi hvein óvenjulega mikið í vatnskerfinu og ég gekk um allt til að leita að leka. Ekki fannst hann hjá mér. Í morgun var ég vakinn eldsnemma af veghefli sem fór hér um götuna og fræsti upp þykkan klaka. Þá tók ég eftir því að enn hvein í vatninu. Bassi bað um sína venjubundnu morgungöngu og fékk hana. Þá tók ég eftir vatnstaum eftir götunni. Þar með var skýringin komin. Nágranni minn hefur sumsé vakað í alla nótt við að bræða klaka úr stæðinu sínu og er enn að. Við götubrúnina er nú um 20 cm skör framan við stæði okkar hinna þar sem þykkast er og hefillinn fór um.......

Það hefur lítill tími gefist til jólaundirbúnings er þó er flestu lokið og það sem eftir er telst smálegt. Nú er einblínt á veðurspá "millidaganna" því stefnan hefur verið sett á Stykkishólm þar sem stórskipið Stakkanes á að fá dálítið jólaklapp.

Klukkan er að verða átta og leiðin liggur niður í Suzuki umboðið í Skeifunni. Ég er með smáverkefni í höndunum sem þarfnast úrlausnar fyrir jól. Það á að hafast ef vel gengur....

.....og nú er komið fram um hádegi og ég má til að bæta örlitlu við pistilinn: Á miðjum morgni, þegar ég stóð hér utan við Höfðaborgina með hendur í vösum, nefið upp í loftið og andaði að mér veðurblíðunni, rak ég augun í tvo starfsmenn Orkuveitunnar sem voru að hita upp hlemm í götunni - líklega til að geta opnað hann. Þeir voru svona tuttugu metra frá mér á aðra hönd en á hina höndina í sömu fjarlægð var nágranninn enn með heitavatnsslönguna að bræða klakann úr innkeyrslunni sinni (sem er nokkuð stór). Ég fylgdist með þeim hvorum í sínu lagi stutta stund en brá mér svo af bæ álíka stutta stund. Þegar ég kom aftur var granni á tali við Orkuveitumennina. Ég gerðist fluga á vegg og komst að því að einhver neðar í hverfinu hafði í morgun látið vita um heitavatnsleka, þar sem ylvolgt vatn rann í taum undan klakaskör. Ekki hafði sá reynt að finna upptök lekans heldur hringdi beint í Orkuveituna og tilkynnti bilun. Orkuveitan sendi tvo algallaða sérsveitarmenn á bíl (einum bíl þó) á staðinn og þeir hófust handa við að losa áðurnefndan hlemm í götunni - taumurinn rennandi tvo metra frá þeim og granni með slönguna í 35-40 mtr. fjarlægð að bræða klakann!

Sérfræðingarnir virtust því hafa eytt drjúgum tíma í vangaveltur um upptök lekans þegar þeim hugkvæmdist að snúa höfðinu örlítið og "uppsprettan" blasti við.

Líklega hefði sá sem tilkynnti lekann getað sparað OR útkallið ef hann hefði lagt á sig svo sem tuttugu metra labb upp á móti brekkunni til að leita upptakanna.

........en til þess þarf bæði líkamsorku og það sem sjaldgæfara er: Hugmyndaflug!



Flettingar í dag: 518
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79345
Samtals gestir: 18509
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 23:41:25


Tenglar