Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


12.12.2014 08:15

Rauða serían.


Í niðurlagi síðasta pistils nefndi ég seríubarning. Haukur Sigtryggur á Dalvík skrifaði stutta athugasemd undir pistilinn og sagðist ekki hafa staðið í neinum barningi við sína seríu - hann hefði einfaldlega hent henni og keypt nýja.

Það var þá sem ég áttaði mig á að seríusagan er eiginlega hálfgerð jólasaga, svona eins og þær voru sagðar í gamla daga.

Þannig var að rétt fyrir síðustu mánaðamót var ég að henda rusli í Sorpu. Það hefur alltaf verið minn veikleiki að sjái ég eitthvað eigulegt í annarra rusli á ég til að reyna að nappa því og smygla því út svo lítið ber á. Þannig hefur margur hluturinn farið heilan hring, þ.e frá eigandanum í Sorpu, þaðan heim með mér og síðan aftur í Sorpu þegar ég er þess fullviss hann sé sannarlega ónýtur......

Um leið og ég fleygði mínu rusli í gám sá ég hvar ofan á öðru lá tuttugu ljósa sería í plastgrind. Þetta var sería með rauðum perum sem voru heldur stærri en aðventuljósaperur, eða s.k. E12 perur. Allar perurnar voru í skorðum í plastgrindinni og frágangur seríunnar eins og hún væri ný og ósnert. Um leið og ég henti rusli með hægri hendi kippti ég seríunni til mín með vinstri og lagði hana inn í bíl. Þetta var nefnilega mjög áhugavert - hver hafði fyrir því að ganga frá ónýtri seríu í plastgrind áður en henni skyldi hent?

Sjálfur hafði ég svo sem engin not fyrir seríuna enda Höfðaborg ekki jólaskreytt að utan. Mig langaði bara að sjá hvað væri að og hvort ekki væri hægt að laga það. Eftir að hafa fjarlægt allar perurnar og mælt þær fann ég sex ónýtar af tuttugu. Þessutan voru nokkrar fatningar illa farnar af spanskgrænu. Þær fjórtán perur sem heilar voru setti ég í box og svo allt saman niður í skúffu. Í byrjun vikunnar átti ég leið í Húsasmiðjuna og rak þá augun í samskonar seríur á útsölu. Á hillunni stóð: Vara hættir - 25% afsláttur.  Ofan við seríurnar voru pakkar með varaperum. Í hverjum pakka voru þrjár perur og útsöluverðið var 599 krónur. Ég leitaði að réttu perunum en fann aðeins einn pakka með rauðum - þeir fáu pakkar sem til voru af E12 innihéldu allir litabland eða glærar. Ég keypti þessar þrjár útsöluperur og hugsaði með mér að hinar þrjár hlyti ég að fá hjá svörnum samkeppnisaðila -  BYKO.

Síðar sama dag átti ég leið í Kópavoginn og kíkti þá eftir perum í BYKO. Jú, þeir áttu fullt af E12 en allar pakkningarnar voru með þremur mislitum perum, glærum eða eingöngu bláum og grænum. Ekki ein pakkning fannst með einungis rauðum perum. Mér þótti illt að kaupa þrjá mislita pakka þar sem ein peran væri rauð, og þurfa þannig að kaupa alls níu perur. Í vangaveltunum fæddist sú hugmynd að kaupa tvær pakkningar með samtals sex grænum perum og blanda saman rauðu og grænu í seríunni. Því meira sem ég leitaði að rauðu perunum fannst mér "græna" hugmyndin betri og endaði því á að kaupa tvo pakka af E12 grænum perum á 599 krónur hvorn - það var engin útsala í BYKO en þó voru perurnar á sama verði og 25% afsláttarperurnar í Húsasmiðjunni. Var ekki líka Húsasmiðjan einhverntíma heimsfræg um allt Ísland fyrir útsölurnar sínar?

Sonurinn er meiri stærðfræðihaus en ég og við komumst að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að ef þriðja hver pera væri græn en endaperurnar undanskildar reglunni fengjum við út blöndu sem gæti t.d. verið rauð endapera, svo tvær rauðar/ein græn, tvær rauðar/ein græn o.s.frv. Við gætum líka haft, auk rauðu endaperunnar, rauða/græna/rauða og þannig koll af kolli. Röðin yrði raunar nánst sú sama því eðlilega myndi hvert þriggja peru kombó byrja og enda með rauðri og því alltaf tvær rauðar saman og ein græn á milli en endarnir yrðu eðlilegri því þeir yrðu þá líka rauð/rauð græn.

Þetta kostaði þónokkrar vangaveltur og enn var óvíst hvort nokkuð ljós kæmi á seríuna yfir höfuð, þrátt fyrir nýjar perur. Eftir að hafa hreinsað nokkur perustæði sem spanskgræna hafði sest í var hafist handa um hina stærðfræðilegu uppröðun, svo var stungið í samband og viti menn: Plastgrindin ljómaði öll af rauðu og grænu!

Degi seinna var farið í að setja seríuna á svalahandrið mæðgnanna í Kópavogi. Ég hafði gert verðkönnun á plast-spennuböndum og komist að því að spennubönd sem kostuðu tvöþúsundkall í Húsó kostuðu 1550 í BYKO. Ég keypti tvær stærðir og mætti svo með allt dótið inn á stofugólf. Ekki var þó björninn unninn því nú tóku við aðrar stærðfræðilegar pælingar - þ.e. lengdarmunur á seríunni og svalahandriðinu. Með því að leggja hálfa seríuna á stofugólfið og mæla lengd hennar fann ég út heildarlengdina. (Það var ekki fyrr en síðar sem ég áttaði mig á að það hefði verið nóg að mæla eitt perubil og margfalda svo. Ég var aldrei stærðfræðiséní...)

Þegar svalahandriðið hafði verið mælt og perufjöldanum jafnað niður á þá lengd var hafist handa um að festa seríuna. Það gekk ljómandi vel og innan skamms ljómuðu rauð/grænu perurnar móti vestri. 

Svo nú eru svalirnar í Ástúni 2 í Kópavogi upplýstar af seríu sem öðlaðist framhaldslíf eftir að hafa verið hent í ruslagám og hirt úr honum aftur. Hún gleður sannarlega íbúana og kannski einhverja þeirra sem leið eiga hjá..................



Herjólfur siglir frá Þorlákshöfn kl. 11:45 og ekki seinna vænna að hafa sig af stað. Ég á eftir að pakka enda morgninum eytt í tilgangslítil skrif um hluti sem flestir þekkja vel - og sumir alltof vel. 

Yfir og út!

Flettingar í dag: 482
Gestir í dag: 54
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79309
Samtals gestir: 18504
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 22:45:06


Tenglar