Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


09.12.2014 07:54

"Ekkert ferðaveður".


Þessi tvö orð, "Ekkert ferðaveður" hafa heyrst nokkuð oft undanfarið. M.a.s. hér á suðvesturhorninu, þar sem haustið hefur farið óvenju mjúkum höndum um okkur íbúana, rekur nú hver dagurinn annan þar sem varað er við illviðrum og erfiðri færð - jafnvel innanbæjar.

Það er þriðjudagur og illviðri gærdagsins stendur enn. Mokstur á götum stendur yfir og af fréttum að dæma miðar þokkalega en hryðjur tefja þó verkið. Áfram á að blása kröftuglega, ýmist með eða án ofankomu og loks þegar spár benda til að sloti - þ.e. á föstudag - skiptir yfir í hörkufrost.

Það er einmitt á föstudaginn sem ég á pantað far með Herjólfi til Vestmannaeyja!

Ég pantaði farið gegnum tölvuna og þar er talað um Landeyjahöfn/Eyjar. Nú skilst mér að Landeyjahöfn sé nær gleymd þessa dagana þegar hver sunnanstormurinn af öðrum veltir stórsjóum upp að ströndinni. Allar ferðir Herjólfs undanfarið hafa verið til Þorlákshafnar.

Það verður þá að hafa það. Út vil ek......

Þegar ég kem til baka - ef ég kemst til baka - verða komin jól. Það hefur nefnilega komið rækilega fram á liðnum árum að jólin mín koma þann 15. desember. Ég miða öll jólaverk við þann dag, eftir þann 15. er engu sinnt nema því sem beinlínis lýtur að jólaundirbúningi og  -haldi. Ég hef áður lýst því hvernig ég týndi jólabarninu í mér og fann það svo aftur mörgum árum -jafnvel áratugum - síðar. 

Síðan hefur alltaf verið gaman á jólunum. Gagnstætt því sem einhverjir gætu haldið hafa þau jól sem við Bassi höfum haldið tveir saman hér í Höfðaborg verið í tölu þeirra skemmtilegri, enda hafa hápunktarnir, aðfangadagskvöld og gamlárskvöld verið haldnir sameiginlega með þeim hluta fjölskyldunnar sem annarsstaðar býr. Nú er búið að jólaskreyta Höfðaborgina og þessi jólin erum við þrír í heimili því sonurinn (þ.e. minn, ekki Bassa..) hefur búið hjá okkur undanfarna mánuði.

Meðan ég dvel í Eyjum og rifja upp landsbyggðarjólaundirbúning verður Bassi hjá "hinum" foreldrum sínum í Hafnarfirði. Þangað hefur hann alltaf verið velkominn og það er ómetanlegt fyrir hund að eiga tvær fjölskyldur þegar ferðalög standa fyrir dyrum. 

Fram til föstudagsins er nóg af verkefnum. Ég hef lofað að koma upp jólaseríu á svalirnar hjá mæðgunum í Kópavogi, þeim EH, Áróru og Bergrós Höllu. Við það ætla ég að standa - ef ég fæ seríuna til að virka. Það er semsagt þriðjudagsmorgunn, tíminn líður og verkið bíður........... 

Út að moka og skafa!


Flettingar í dag: 518
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79345
Samtals gestir: 18509
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 23:41:25


Tenglar