Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


29.11.2014 09:19

Ég beygi mig.


Ég hef stundum verið kallaður þverhaus. Það getur svo sem vel verið, ekki ætla ég að gerast dómari í eigin sök. Þessi ætlaða þvermóðska hefur samt stundum komið sér vel, og eins hefur hún komið sér illa. Þess er kannski skemmst að minnast að ég gaf upp á bátinn ágætt starf vegna þess að þar var ætlast til að menn dönsuðu línudans í kringum stífar reglur sem giltu um starfið. Þess háttar línudans var - og er - mér ekki að skapi og því fór sem fór.

Síðan eru liðin nær tvö ár og þessi ár hef ég notað ágætlega - allavega að eigin mati. Aðstæðurnar hafa leyft mér að leita í rólegheitum að góðu starfi og líklega er það nú í augsýn. Það var það sem ég átti við þegar ég nefndi væntanlegar breytingar í örpistli á dögunum. Þessi tæpu tvö ár hafa liðið hratt og margt hefur verið brasað. Veturinn finnst mér alltaf vera að styttast - átta stiga hiti í nóvemberlok undirstrikar það að einhverju leyti - en það er ákveðinn galli að sumarið virðist gera það líka. Í það minnsta kem ég sjaldan í verk því sem ég hef ætlað mér að koma í verk yfir sumarið. Ég hef annars um langt árabil haft eina meginreglu. Raunar hef ég margar meginreglur en þessi er ein þeirra sem mér finnst geta átt við um alla sem stefna á að ferðast yfir sumarið. Hún er einföld: Allt sem á að brúka til sumarferða þarf að vera tilbúið ekki síðar en um miðjan apríl. Það sem þá verður eftir skal bíða til hausts.

Þannig er nú það. Þessa reglu setti ég mér þegar ég var vor eftir vor að undirbúa ferðabúnað komandi sumars og réðist gjarnan í stórframkvæmdir í sumarbyrjun sem svo ollu því að ekki varð komist af stað fyrr en miðsumars eða síðar. Vestur á Ísafirði þekkti ég bátseiganda sem aldrei byrjaði á viðhaldsverkefnum fyrr en aðrir fóru að setja á flot. Það stóðst svo á endum að þegar þessu viðhaldi lauk og hann var tilbúinn á flot var sumrinu einnig að ljúka og fyrstu menn að taka báta á land. Til að falla ekki í sömu gryfju setti ég mér þessa einföldu reglu og hef reynt að fylgja henni sem best. 


......og nú er ég á leið út fyrir efnið sem ætlað var í upphafi. Kannski þó ekki. Þannig er að þegar ég flutti hingað í Höfðaborg í mars 2012 kom til tals að setja upp bílalyftu í föndurplássinu. Þar er kannski ekki vítt til veggja en lofthæðin er næg. Fjölskyldan er bílamörg og viðhald flotans situr að mestu á mínum herðum. Því mátti þetta kannski teljast eðlilegt skref. Þó sá ég strax talsverðan annmarka á framkvæmdinni: Með því að setja lyftu í plássið taldi ég þrengjast um of fyrir Stakkanesið, ef taka skyldi það á hús. Eins taldi ég að nær ómögulegt yrði að taka litla Isuzu-vörubílinn minn inn á gólf ef lyfta væri þar að þvælast fyrir. Ég mat semsagt óhagræðið meira en hagræðið og lyftumálinu var sópað út af borðinu. Hingað inn kæmi ekki lyfta!

Síðan eru liðin nær þrjú ár og Stakkanesið hefur aldrei komið inn fyrir dyr, enda ekki átt þangað neitt erindi. Litli vörubíllinn stendur hér utandyra og hefur öðru hverju verið settur inn til dundurs en hann er ekki plássfrekur og tekur alls ekki upp allt rýmið. Reyndin hefur orðið sú að allt viðhald á fjölskyldubílaflotanum hef ég framkvæmt ýmist liggjandi á hnjánum eða á bakinu. Þetta er lýjandi til lengdar þó vel megi þola það skipti og skipti en undanfarna mánuði hef ég hreinlega verið meira láréttur en lóðréttur og nú er mál að linni. Ég hef nefnilega tekið eftir því að ég virðist vera hættur að yngjast og þótt ég hafi hingað til verið nokkuð góður í skrokknum og þolað sitt af hverju er kannski ekki ástæða til að eyðileggja það sem eftir er vegna hreinnar þrjósku.....

Austur í Kína eru menn að smíða ýmislegt dót sem þeir svo selja Vesturlandabúum á verði sem yfirleitt er talsvert undir verði vestlenskrar framleiðslu. Þar á meðal eru bílalyftur. Ég gerði nokkrar athuganir og komst að því að verð á svona lyftuapparötum er gríðarlega mismunandi og þótt fleiri en einn aðili selji lyftur frá Kína getur verðmunur hlaupið á vænni þriggja stafa tölu. Þar ráða líklega álagning og flutningsmáti mestu. Svo virðist hérlendis ekki endilega vera neinn afgerandi verðmunur á evrópskum og amerískum vörumerkjum og þeim kínversku. Það er annars dálítið eftirtektarvert að munur á kínverskri lyftu með lyftigetu upp á tvö komma fimm tonn, þrjú tonn eða fjögur tonn virðist aðallega vera límmiðinn!

Vestur á Reykjanesi - n.t.t. í Njarðvík - voru ungir menn að selja fjögurra ára kínverska DRAGON TOOLS bílalyftu. Ég fór og skoðaði gripinn og ákvað í framhaldinu að kaupa. Í gær, föstudag, fór ég svo vestureftir með stóra kerru aftan í "nýja" fyrrum bílaleigu-Grand Vitara jeppanum sem enginn getur nefnt litinn á og sótti lyftuna. Ég losaði hana sjálfur af festingum og fékk tvo náunga sem litu út eins og opnufyrirsætur í Criminal-Weekly til að hjálpa mér að setja hana á kerruna. Það var ákaflega skemmtilegt að heyra tvo austantjaldsbúa tala saman á bjagaðri ensku - ég hafði í einfeldni minni haldið að austantjaldsmál væru nægilega skyld til að menn gætu nokkurn veginn talað saman. Svona er maður nú einfaldur því auðvitað er langt á milli Litháen, Póllands og Króatíu. M.a.s. Andri á Færeyjaflandri bjargar sér á ensku þar í landi...


 (Slóð á auglýsingu lyftuframleiðandans er HÉR)


Þessir tveir voru annars almennilegustu strákar og við unnum vel saman svo verkið gekk eins og smurt. Viðstaðan var því stutt og rúmum hálftíma eftir komu var ég á heimleið með lyftu á kerru í eftirdragi. Það var hávaðarok á Reykjanessbrautinni en Grandinn stóð sig fínt og sýndi sig draga miklu betur en sá gamli rauði enda með stærri vél og fleiri hestöfl. Rokið fylgdi mér til Reykjavíkur að viðbættri ausandi rigningu. Ækið var dálítið afturþungt og lyfti í jeppann að aftanverðu. Það var ekki viðlit að losa aftanúr við þær aðstæður, lyftan yrði að fara af kerrunni áður en hægt væri að losa kerruna úr bílnum. Vandamálið var hins vegar að engar aukahendur voru tiltækar og þó ég gæti bakkað kerrunni inn í húsið komst ég ekki nógu innarlega til að geta lokað. Rokið og rigningin stóðu upp á hálfopnar dyrnar og bíllinn í þeim miðjum. Leiðin til lausnar var að losa lyftuarmana af stólpunum. Armarnir eru þungir en frekar fljótteknir af og lyftustólparnir voru mun viðráðanlegri eftir að þeir voru frá. Það stóðst á endum að þegar lyftustólparnir færðust úr láréttri stöðu á kerrunni í lóðrétta stöðu á gólfinu birtist sonurinn í dyrunum, heimkominn úr skóla kvöldsins!

Svo nú stendur hér niðri á gólfi tveggja stólpa bílalyfta ættuð frá Kína, skærgul og lýsandi tákn þess að ég hef ákveðið að slaka á þrjóskunni, beygja mig - og hætta að beygja mig.......hér eftir vinn ég uppréttur.


 

Flettingar í dag: 482
Gestir í dag: 54
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79309
Samtals gestir: 18504
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 22:45:06


Tenglar