Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


28.08.2014 12:51

Afmælisdagur!


 Skrifin mín eiga ellefu ára afmæli í dag! 

Lengi vel hélt ég upp á afmælið með því að endurbirta fyrsta pistilinn. Hann var svo sem ekkert til að monta sig af,  í þá daga þótti mér ágætt að höggva niður setningar, skrifa knappt, stutt og koma kjarnanum til skila í sem fæstum orðum. Nú er öldin önnur og pistlarnir togna út í það óendanlega vegna óstöðvandi kjaftagangs skrifarans.

Samt langar mig að endurbirta eitthvað en þegar þessir stafir eru slegnir er ég ekki búinn að ákveða neitt og á eftir að rýna í þá gömlu og finna eitthvað nothæft - sé eitthvað á annað borð nothæft.........

......Fann þennan og læt hann vaða. Hann er dagsettur 9.júlí 2005 og fjallar um nýafstaðna heimsókn til Ísafjarðar:

 

Auðvitað fer maður á bryggjuna. Það bara tilheyrir! Maður byrjar alla morgna í bakaríinu, síðan á bryggjuna að hitta hina morgunhanana, trillukallana sem enga eirð hafa í sér fyrr en búið er að kíkja á bátana og jafnvel þiggja kaffi hver hjá öðrum.

Á sólríkum morgni þegar konan og dæturnar sváfu sem fastast í hjónasvítu húsbílsins læddist bóndinn framúr (þegar dæturnar eru með í för er bóndanum úthýst úr hjónasvítunni og er settur á pínubekk einn framarlega í húsdrekanum), klæddist, tók reiðhjólið af hjólagrindinni og lagði af stað í bæinn. Fyrsti viðkomustaðurinn var að vanda bakaríið, enda tvær flugur slegnar í einu höggi: heilsað uppá systur og systurdóttur, og verslað nýbakað bakkelsi ásamt rjúkandi kaffi.

Síðan var farið á bryggjuna. Þar var fyrir Óli á Árbæ að líta eftir nýendurbyggðum bát sem sjósettur var aðeins nokkrum dögum fyrr, hreint listaverk eins og von var úr hans hendi. Óla til halds og trausts var Óli málari, mættur bæði til að huga að eigin útgerð og samgleðjast nafna sínum.Fljótlega bættist einn í hópinn, Óli á Gjögri. Nýbúinn að skipta um bát og beið eftir skoðunarmanni. Enn fjölgaði í hópnum á borðstokk Óla á Árbæ þegar Óli Friðbjarnar mætti, einnig til að huga að eigin bát og bíða eftir skoðunarmanni. Ég gerði mér grein fyrir alvöru augnabliksins þegar ég spurði hvort það væri kannski Óli Lyngmó sem kæmi til að skoða. -"Nei, ekki hann. Hann skoðar ekki lengur, þessi heitir Hallgrímur" var svarið.

Mér þótti engu að síður stundin merkileg, þó að Óli Lyngmó kæmi ekki. Hér sat ég með fjórum Ólum. Allir fulltrúar hverfandi kynslóðar þessara gömlu trillukarla sem þraukað hafa hverja sveifluna af annari. Karlar með sitt á þurru, andstæðingar kvótakerfisins í hjarta sínu þó það hafi raunar tryggt mörgum gamlingjanum í trillukarlastétt áhyggjulaust ævikvöld.

Ég naut augnabliksins, spjallaði og hlustaði, deildi og nam. Alveg þangað til Óli (man ekki hver þeirra) leit á klukkuna og kvað upp úr með að nú væri tími til að koma sér í kaffi til Braga Magg. 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Svo fann ég annan pistil og í ljósi þess sem ég hef skrifað undanfarið ákvað ég að láta hann flakka líka:


miðvikudagur, september 08, 2004

Þegar líður á sumarið............. 

.....og ferðalögum að fækka má ég til að minnast á mismunandi verð á tjaldsvæðum landsins. Nánast allsstaðar er gjald fyrir gistinótt á tjaldsvæði reiknað pr. mann - ekki á gistieininguna sjálfa (tjald,fellihýsi,húsbíl). Nokkrar undantekningar eru þó á þessu, s.s. á Vopnafirði, þar sem í boði er lítið, fallegt og vel staðsett gistisvæði með 2 salernum, sturtu og útivaski með heitu og köldu vatni. Þar voru í sumar teknar 550 kr. fyrir gistieininguna og 250 kr. fyrir hvern fullorðinn. Á Egilsstöðum var gjaldið fyrir fullorðinn hins vegar kr. 750-. Barnagjald var allajafna 250-300 kr. en ég man reyndar ekki hvað það var á Egilsstöðum. Þetta gistisvæði var þó það allra dýrasta sem við spurðum um. Merkilegt nokk, niðri á fjörðum var ekki tekið gjald fyrir gistisvæðin og voru þau þó með allra besta móti hvað snerti búnað, viðhald og daglega hirðu. Við gistum á Seyðisfirði eina nótt, litum á tjaldsvæðið og leist þokkalega á. Gjaldið var 500 kr. á fullorðinn og 300 kr. á barn. Þar sem við þurftum ekki endilega að vera á tjaldsvæði enda ferðabíllinn okkar útbúinn með salerni og rennandi vatni fundum við okkur stað utarlega í bænum norðanvert. Þar var allstórt malarplan og settum við okkur þar niður seint að kvöldi og náttbjuggumst. Ekki höfðum við dvalið nema u.þ.b. 10 mínútur á planinu þegar fólksbíll kemur á fullri ferð, rennir upp að ferðabílnum og út snarast maður. Hann tilkynnir okkur að þetta plan tilheyri tjaldsvæðinu og hér verðum við ekki nema borga! Það fauk dálítið í mig og ég sagði okkur þá einfaldlega færa okkur annað. "Þá verðið þið að fara úr bænum" sagði komumaður. Ég hváði. "jú, það er nefnilega í lögreglusamþykkt bæjarins að bannað er að gista á öðrum stöðum í bænum en á tjaldsvæðunum." Hann kvað þetta hafa verið gert vegna þess vanda sem skapaðist oft á miðvikudögum þegar fólk á leið úr landi með Norrönu streymdi til bæjarins og lagði þá bílum og vögnum nánast inni í görðum hjá íbúum. Hins vegar væri það ljós í myrkrinu að við þyrftum einungis að greiða kr. 500 fyrir gistieininguna á þessum stað því enn skorti jú alla þjónustu á malarplanið, vatn, rafmagn og hreinlætisaðstöðu. Semsagt, ef við vildum nátta á Seyðisfirði yrðum við að borga, að öðrum kosti yfirgefa bæinn. Jamm, ég sem hélt að Seyðfirðingar hefðu verið að kvarta um að ferðamenn stoppuðu ekki á staðnum. Þarna var komin ljóslifandi ein af ástæðunum. Ég sá svo sem ekki eftir fimmhundruðkallinum en fannst peningaplokkið yfirgengilegt. Það var svo eftir öðru að þegar við yfirgáfum bæinn að morgni og klifruðum yfir Fjarðarheiðina sáum við,hvar sem spotti var út af vegkanti eða útskot, allstaðar skilti með yfirstrikuðu tjaldi og áletruninni: No camping-water preservation area. (tjöldun bönnuð-vatnsverndarsvæði). Nú má vel vera að Seyðfirðingum sé annt um vatnsbólin sín en ætli það væri þá ekki rétt að halda sauðkindunum frá vatnsverndarsvæðinu? þeir seyðfirsku sauðir sem þarna ráfuðu um heiðina hafa annaðhvort verið illa læsir (sem er líklegt) eða svo "sauð"þráir að þeir hafi einfaldlega hunzað skiltin (sem er jafn líklegt). Steininn tók þó úr þegar við ókum ofarlega í heiðinni fram hjá mulningsvélum með tilheyrandi vélaskúrum og vinnuvélum, gröfum og vélskóflum. Sem fyrrverandi vinnuvélstjóri og -eigandi veit ég af reynslu að þannig tæki eru sjaldnast laus við olíuleka af einhverju tagi. Og tækin þarna í heiðinni voru hvorki ný né hreinleg. Þar fóru vatnsverndarsjónamiðin fyrir lítið og augljóst að það eitt vakti fyrir því bæjarfélagi sem þessi skilti átti að draga alla gistingu inn á svæði sem síðan væri hægt að plokka ferðamenn fyrir. Meira um þetta síðar 



Flettingar í dag: 423
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79250
Samtals gestir: 18496
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 20:27:22


Tenglar