Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


12.07.2014 08:10

Á leið til Færeyja, 3.hl: Brottfarardagur.


 Klukkan var líklega  hálfsjö þegar ég rumskaði í ferðadrekanum á tjaldsvæði Seyðfirðinga. Eins og gengur vöknuðu eyrun nokkru á undan augunum og fyrsta korterinu eyði ég venjulega í að reyna að átta mig á hvað klukkan sé eiginlega, áður en ég leyfi mér að opna annað augað og kíkja á hana. Í framhaldi af þeirri athugun er svo tekin ákvörðun um fótaferð. Þessi seyðfirski morgunn var engin undantekning frá reglunni og það eyrað sem skárra er greindi strax lágvært hark frá svæðinu í kring. Vel mátti heyra að gestir svæðisins voru farnir að taka dót sitt saman en frá götum bæjarins barst ekkert hljóð, sem aftur benti til að gestirnir væru frekar árrisulir. Athugun á öðrum hljóðum og samanburður þeirra leiddi til sömu niðurstöðu. Ég notaði aðeins annað eyrað til greiningarinnar, hitt þarf að liggja klemmt við koddann því eftir að ég fékk bíllykilinn gegnum hljóðhimnuna hér um árið skilar það eyra engu nema stanslausu, háværu væli og er því alls ónothæft til greiningar morguntíma af umhverfishljóðum.

Ég giskaði semsagt á sirka hálfsjö, plús mínus eitthvað (sem er auðvitað mjög frjálsleg ágiskun) og tíminn sem birtist á símanum, loksins þegar ég ákvað að opna annað augað og kíkja, var innan skekkjumarka. Ég var ekkert að ræsa Elínu Huld, heldur renndi mér í fötin, opnaði bílinn og steig út. Rétt við hlið okkar voru svissnesk hjón ( mér skilst að Sviss sé afar kaþólskt land og ætla því að giska á að fólkið hafi verið gift) að taka saman sitt hafurtask á ótrúlega hljóðlegan hátt. Um allt svæðið var fólk við sömu athafnir og það mátti vel giska á hverjir væru á leið í Norrönu og hverjir væru á innanlandsferðalagi - við sumar "gistieiningarnar" var engin hreyfing. 

Að loknum hefðbundnum morgunverkum og rölti um svæðið taldi ég mig kominn í form. Dagurinn lofaði góðu, þokan sem hafði með kvöldinu áður lætt sér niður í miðjar hlíðar var heldur að hopa og á lit hennar mátti skilja að ofan við væri heiður himinn, eða því sem næst. Vart gætti vinds og ekki var merkjanleg nein rekja í rót.(eins og einhver komst einhverntíma svo snilldarlega að orði og átti þá við að ekki hefði verið nein helvítis rigning)

Rétt fyrir háttatíma höfðum við EH gengið um hafnarsvæðið og reynt að átta okkur á öllum þeim línum og strikum sem virtust tilheyra ferjubryggjunni. Lítilli niðurstöðu skiluðu þessar athuganir og lítinn grun höfðum við um hvernig við ættum að bera okkur að við innritun. Við ákváðum að treysta á aðra í þeim efnum. Meðal þess sem bar fyrir augu á röltinu var þessi gamli slökkvibíll:



Fljótlega eftir að ég kom aftur í bílinn kom hreyfing á EH, hún var fljót að sinna sínu og eftir það var töfraður fram morgunmatur. Að honum loknum var tölvan tekin upp og gáð á AIS kerfið, hvar Norröna væri stödd. Norröna reyndist vera  útaf Norðfjarðarflóanum á fullri ferð og að þeim upplýsingum fengnum klóraði ég inn á síðuna mína  stuttan texta, fullan af ambögum og villum enda kolómögulegt að nota lyklaborðið á sjálfri fartölvunni. Það er hægt að hlæja að þessum texta dálítið neðar eða bara HÉR.

Tjaldsvæðisvörðurinn hafði kvöldið áður, hafandi fengið að vita hvert för okkar væri heitið, sagt að við þyrftum ekki að flýta okkur svo mjög í innritun. Færeyjafarar væru hafðir aftast í skipinu (sem ég skildi ekki alveg) og þriggja tíma innritunarfyrirvari væri eitthvað sem við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af. Hann bað okkur svo að hafa sig ekki fyrir þeim upplýsingum! Ég er vanur að treysta mér vitrara fólki  (mitt fall er svo stundum fólgið í að treysta þeim sem þykjast aðeins vita betur....) og við vorum því alveg slök þegar aðrir fóru að hópast til innritunar. Við gerðum ráð fyrir að þeir á Norrönu gerðu ráð fyrir okkur og við ættum því okkar pláss. Mér var samt hulið hvers vegna Færeyjabílar áttu að vera aftast, því ég hef oft farið með bæði Baldri og Herjólfi og þar eru hinir síðustu inn líka síðastir út. Reynslan hefur líka kennt mér að hinir flóknustu hlutir skýrast venjulega á endanum og á það treysti ég. Þegar við svo mættum í röðina til innritunar gekk allt eins og smurt og okkur var vísað í Færeyjaröðina. Eðlilega vorum við þar aftast en það leið langur tími þar til einhver kom fyrir aftan okkur. Kannski höfðum við verið alltof sein? Eða allt of snemma? Það skipti engu úr þessu, við höfðum okkar brottfararspjöld í höndunum og nú treystum við bara á leiðsögn starfsmanna. Klukkan var rúmlega hálfníu þegar Norröna birtist fyrir beygju í firðinum. Hún kom norðarlega inn og af því ferjubryggjan er sunnanvert velti ég fyrir mér hvort hún væri að krækja fyrir El Grillo! Ekki átti þess þó að þurfa, heldur var greinilegt að skipið átti að bakka að bryggju. Þetta fannst mér furðulegt því ég hafði séð myndir af skipinu í Færeyjum og þar lá það líka með skutinn við bryggju. Þegar Norröna nálgaðist sá ég svo skýringuna og þótti hún furðuleg: Norröna opnar ekki stefnið!

Hvurslags andskotans hönnun gat það nú verið, að vera stöðugt að bakka og snúa, snúa og bakka um borð? Hvað með alla gámana? Afturábak og áfram? Kommon! Hver búði þetta til? Hver smeið þetta skip eiginlega (svo notað sé orðfæri góðs vinar míns á Ísafirði)

Þar með var augljós skýringin á því hvers vegna okkur hafði verið bent á að Færeyjaförum lægi ekkert á að tékka inn. Við hlytum að vera aftast í skipinu og þeir öftustu færu fyrstir út í Þórshöfn. Þetta fór strax að líta betur út því séð með augum keppnismanns vorum við öftust í röðinni, fyrst út í Þórshöfn og fengjum því nokkrum sekúndum lengri tíma í Færeyjum en aðrir. Tíminn er dýr og það skiptir máli að fullnýta það sem maður kaupir. Vestur á Ísafirði þekkti ég mann sem aldrei tók svo bensín að hann héldi ekki slöngunni hátt upp að lokinni dælingu, svo þeir dropar sem í henni væru rynnu í tankinn en ekki til baka.

Þetta var útúrdúr. Norröna lagðist að og á meðan tók Elín Huld myndir:





Þessum tveimur myndum, efri og neðri er ekki eingöngu ætlað að sýna afturenda Norrönu. Þeim er líka ætlað að sýna veðrið, sem varla gat betra verið og svo snjóinn í fjöllunum. Ég nefndi áður fannirnar á Fjarðarheiðinni og Oddsskarðinu og það má hafa í huga að þetta er tekið að morgni þess 19. júní!



Þarna fyrir framan okkur var hann Hreinn frá Vopnafirði á fínum Transit. Hreinn átti færeyska konu og mér skildist að þau væru á leið á hennar heimaslóðir í Sandey. Fyrir aftan okkur voru svo Hornfirðingar á svipuðum Transit/Hobby. Það voru þau Gréta og Sverrir, vélstjóri á Ásgrími Halldórssyni SF. Öll þessi lína stórra bíla ásamt þeim smærri til beggja handa var á leið til Færeyja og merkt skv. því með skilti í glugga.



Framar í röðinni var svo Rollsinn frá Djúpavogi. Á græna miðanum í framrúðu hans stóð: "DENMARK". Áhöfn hans hugðist semsagt ekki hafa viðdvöl í Færeyjum á útleið: 





Á öðrum stað gat að líta mótorhjólahópinn frá Djúpavogi og Stöðvarfirði. Þau voru þá líka á leið út með skipinu. Í samtölum við kunnuga kom fram að hópurinn sem væri á útleið núna væri ekki sérstaklega stór. Einhvern veginn fannst mér nú samt að varla yrði mikill afgangur af plássi um borð þegar búið væri að pakka öllum þessum fjölda sem beið á bryggjunni, um borð. 

Svo opnaðist skuturinn á Norrönu með sírennuvæli og hlemmurinn var varla lagstur á bryggjuna þegar darraðardansinn hófst. Dráttar"töggar" drógu gámavagna út úr skipinu og jafnframt streymdu út rútur og flutningabílar sem verið höfðu aftast. Sumir komu bakkandi og sneru á rampinum, aðrir sneru inni í skipinu og komu réttir út. Furðulegt fyrirkomulag en samt virtist allt ganga sem smurt. Þeir höfðu líklega gert þetta áður, kallarnir á Norönu...

Röðin út var endalaus og klukkan tifaði. Loks var farið að kalla inn í skip og fyrst voru það mótorhjólin sem inn fóru. Ég sá íslenska hópnum bregða fyrir, annars virtust mótorhjól hreinlega spretta upp úr jörðinni - þau skiptu mörgum tugum, hjólin sem inn fóru. Síðan fóru inn fólksbílar á leið til Danmerkur, síðan stærri bílar á sömu leið. Mér var hætt að lítast á þetta - það var útlit fyrir að þeir yrðu að sigla með opinn hlerann og við sem aftastir værum í Færeyjaröðinni yrðum líklega að standa á honum! Röðin mjakaðist og þar kom að Elín Huld - sem ekki mátti sitja í bílnum um borð heldur skyldi nota landganginn - tók sitt hafurtask og kvaddi. Við Sverrir Hornfirðingur mjökuðumst nær skipinu og það var alveg stórmerkilegt að fylgjast með farartækjum mjakast inn um opið meðan gámatöggarnir þeyttust afturábak og áfram rekandi 40 feta gáma ýmist inn eða út við hlið bílanna. Manni fannst ekki mega mikið útaf bera en allt gekk snurðulaust. Enn tifaði klukkan og ég sendi EH sms-skeyti af höfninni upp í skipið. Skilaboðin voru á þá leið að það væri útilokað að Norröna héldi áætlun. Bryggjan var enn full af farartækjum en klukkan var ellefu að morgni og brottför skv. áætlun kl. 11:30. Vonlaust mál!

Stundum hættir manni við að miða hluti út frá eigin getu og kunnáttu. Ég kunni hvorki að ferma né afferma Norrönu. Það kunnu hins vegar þeir sem þar unnu og kunnu það vel. Örfáum mínútum síðar var sjúkrabíllinn staddur við rampinn og þeir voru eitthvað að sýsla með gáma fyrir framan. Svo var veifað: Aka inn! Þeir bentu mér inn eftir bíladekkinu stjórnborðsmegin. Bíladekkinu er skipt langsum í miðju með eyju sem nær upp á efri þilför. Í henni eru bæði stigar og lyftur milli þilfara og bakborðsmegin við þessa eyju voru gámaraðir. Stjórnborðsmegin, þar sem ég skyldi aka inn var hins vegar - eiginlega ekki neitt!!  Hvar voru öll farartækin sem ég hafði horft á eftir inn í skipið, svo hundruðum skipti? Fólksbílarnir? Mótorhjólin? Ég var næstum því einn þarna stjórnborðsmegin - eða svo að segja. Fyrir framan mig úti við síðuna var Hreinn Vopnfirðingur, svo kom ég, Ísfirðingurinn og loks Sverrir Hornfirðingur. Við vorum með þeim síðustu um borð. Ég hafði margfarið yfir það sem gera átti um leið og ég gengi frá bílnum og nú tók það aðeins sekúndur. Bakpoki og taska, lykilinn úr sviss, út úr bílnum, samlæsingunni skellt á, rafmagninu slegið út og skellt. Héðan í frá yrði engu hreyft þar til í Þórshöfn. Ég hljóp yfir hálftómt bíladekkið, inn um dyr á eyjunni áðurnefndu og upp í stiga. Það var langur stigi. Mjög langur. Eiginlega svo langur að mér lá við hjartaáfalli þegar ég kom upp á áttunda þilfar, þar sem EH hafði sent mér sms um að hún væri. Áttunda dekk var eiginlega efst á helvítis kláfnum! Ég beið eftir áfallinu. Það kom ekki. EH spurði: Ó, fórstu stigann? Af hverju notaðirðu ekki lyftuna? Hvaða helvítis lyftu? Ég sá enga lyftu! Kannski hefði ég átt að skipuleggja minna og hugsa meira - það var svo sem ekki eins og maður væri að hlaupa undan skógareldi þarna niðri. Ég hélt bara að maður ætti að vera svo eldfljótur út og í burt til að tefja ekki hina...........

Klukkan var ellefu þrjátíu og eitthvað mjög lítið þegar Norröna seig frá bakkanum og flautaði til brottfarar. Ég var á leið til útlanda eftir fimm ára hlé - ef Færeyjar voru þá útlönd........



Eins og fyrst sagði voru teknar um 1000 myndir í ferðinni og á siglingunni út Seyðisfjörð voru teknar allnokkrar. Þessi hér að ofan er ein þeirra og sýnir einfaldlega hvar þessum langa firði sleppir. Þetta er Skálanesbjarg í sunnanverðum firðinum. Að neðan er horft til Dalatanga. Að honum slepptum fjarlægðist landið og Barðsnesið, við sunnanverðan Norðfjarðarflóann tók á sig bláan lit. Nokkrar trillur lágu við handfæri á þessum slóðum, svo hurfu þær einnig og alheimurinn tók við..... 



Þegar Ísland seig afturfyrir var næst að máta sig við barinn. Eins og venjulega var þó aðeins drukkið kaffi, enda allra drykkja best. Á meðan fór EH í "fríhöfnina" og keypti súkkulaði, sem auðvitað er ómissandi með góðu kaffi.





Ég valdi þessa mynd hér að neðan vegna þess að hún er ein örfárra sem sýna sjóinn á leiðinni út. Það var eiginlega ekki greinanlegt hvenær Seyðisfirði sleppti og úthafið tók við, svo lítil var hreyfingin á skipinu. Öll siglingin var í sama dúr.



Auðvitað var heimsmeistarakeppnin á skjánum í kaffiteríunni:



Við höfðum þennan ágæta klefa á leiðinni út. Þetta var gluggalaus klefi miðskips en loftræstingin var óaðfinnanleg og það fór vel um okkur þarna. Tækifærið var notað til að hlaða síma og tölvu.



Það var tekið fram í plöggunum okkar að klefa skyldi tæma og skila tveimur tímum fyrir komu til Þórshafnar. Áætluð koma þangað var kl. 03.00 og þegar fótboltaleiknum lauk var skriðið í koju. Ég náði ágætri kríu og rétt um miðnættið var ég á fótum aftur og ákvað að fara upp á áttunda og gá til Færeyja. 




Mér fannst merkilegt hversu fólki lá á að losa klefana og moka dótinu sínu út á gangana - það var jú enn klukkutími í losun. Á leiðinni upp á áttunda tók ég eftir upplýsingum á vegg um opnunartíma veitingastaða um borð. Undir upplýsingunum stóð: "All times are ship times". Ég spáði ekkert frekar í það. Í fjarska mátti greina Færeyjar og fljótt á litið virtist ekki sérstaklega bjart yfir þeim. Ég ákvað að fara aftur niður í klefa og ýta við Elínu Huld. Á leiðinni sá ég aftur þetta "Ship times" og fór að gruna að kannski væri skipið ekki á sama tíma og ég!. Klukkan mín var tíu mínútur yfir tólf á miðnætti og niðri á klefagangi var allt á fullu - þrifagengi mætt og allir klefar opnir nema einn: Okkar!  Ég spurði um tímann og einn "þrífarinn" sýndi mér armbandsúrið sitt. Klukkan var tíu mínútur yfir eitt! Andskotinn!

Ég þeyttist inn í klefann og það var óþarfi að ræsa Elínu því þrífararnir voru þegar búnir að koma inn í klefann og ræsa! Skapið var því ekki í neinum gullflokki, eðlilega en hún var eldsnögg að taka sig til og nokkrum mínútum síðar vorum við frammi í kaffiteríunni með allt okkar dót. Við stilltum klukkuna í símunum okkar og hún stillti armbandsúrið sitt klukkutíma fram. "Ship time" var auðvitað færeyskur tími. Þar með var það vísindalega staðfest að Færeyjar eru útlönd.

Nú risu Færeyjar hratt og það kom betur í ljós að veðrið var ekki svo djöfullegt. Það var að vísu þungbúið en það var þurrt, logn og alls ekki kalt þó væri mið nótt. Myndin hér að neðan er ekki tekin með flassi og ég minnist þess ekki að það hafi verið svona dimmt yfir. Neðri myndin er betri en ég læt báðar flakka. Við erum á siglingu rétt út af Leirvík og það er Kalsoy sem er fyrir miðju afturút: 





Þegar tími var kominn til að mæta niður á bíladekk skildi með okkur Elínu og ég tók lyftuna í þetta sinn. Ekki tókst mér þó að hitta á þriðja þilfar - aðalbíladekkið  - heldur kom út á fjórða og öðlaðist um leið skilning á því hvar allir hinir voru: Af aðaldekkinu er ekið upp lyftanlegan ramp bakborðsmegin upp á næsta dekk fyrir ofan - það fjórða. Á fjórða dekki er svo lyfta fyrir lægstu farartækin og heitir þilfarið sem þar myndast, 4-A og er mjög svipað því sem er í Herjólfi.  Uppi á lyftunni voru bílar sem aðeins handarþykkt var frá toppi á og upp í stálbita loftsins. Á sjálfu fjórða dekki voru svo "millihá" farartæki og þar kom ég semsagt út úr fólkslyftunni. Á sjálfu aðal-bíladekkinu vou ekki fleiri farartæki eða gámar en svo að rampurinn var enn á gólfinu og hafði ekki verið lyft. Ég hljóp því niður hann, aftur fyrir eyjuna og yfir í sjúkrabílinn. Örfáum augnablikum seinna fylltist dekkið af fólki sem kom beint út úr lyftum og hafði því fundið niðurleiðina sem mér var hulin. Meðan á þessu stóð myndaði Elín Huld Þórshöfn ofan af áttunda. Klukkan var að detta í þrjú að staðartíma - tvö að okkar tíma og við höfðum verið á siglingu síðan hálftólf daginn áður. Reikni nú hver sem vill. 



Þegar lagt hafði verið að, skuturinn opnaður með sama sírennuvælinu (mikið held ég það sé gaman að sofa í miðbæ Þórshafnar þegar Norröna leggur að og frá að nóttu til) og ég hafði fengið bendingu um að hypja mig út var sjúkrabílnum snúið í snarhasti inni á gólfi og staðið flatt út. Ég ók markaða leið yfir planið, gegnum græna hliðið og var um leið stöðvaður af tollvörðum. Inn í skúr, takk!

Þau voru tvö, maður og kona á besta aldri. Vildu fá að vita hvaðan ég kæmi. Spurningin var furðuleg í því ljósi að skipið var að koma frá Íslandi. Þau vildu vita á hvaða ferðalagi ég væri og hvort ég væri einn. Ég útskýrði á blöndu af íslensku, dönsku og ensku að ég væri að koma í vikuferðalag til Færeyja og væri ekki einn, við værum tvö og Elín Huld  hefði farið landganginn eins og ætlast væri til. Þeim þótti bíllinn skrýtinn. Ég útskýrði að hann væri fyrrum sjúkrabíll og að hluta til enn í þeim litum. Þeim þótti númerið skrýtið og spurðu hvaðan það væri. Þá rann upp fyrir mér ljós: Það var ekkert landsmerki á einkanúmerinu Í-140 og ómögulegt að sjá heimaland bílsins. Það var málið! Ég útskýrði íslensk einkanúmer og hafði á tilfinningunni að þau vissu allt um málið en vildu samt láta mig tala. Á meðan fór annað þeirra inn í bílinn og potaði til málamynda í töskur og rúmföt. Allt var þetta ágætis skemmtun en þegar mér var loksins hleypt út beið EH fyrir utan og var orðin óþolinmóð - hún vissi hreint ekkert hvað af mér hafði orðið síðan hún sá mig aka frá borði. Við tókum nokkrar mínútur í að átta okkur þarna á bryggjunni og það sama gerði mótorhjólahópurinn frá Íslandi.





Klukkan var rúmlega hálf fjögur og því eiginlega hvorki nótt né dagur. Okkur fannst ekki taka því að fara inn á tjaldsvæðið í Þórshöfn til að sofa, en vildum þó fá okkur smá hvíld fyrir daginn, sem hvort eð væri yrði tekinn snemma. Við renndum því norður fyrir bæinn og fundum hentugan blett neðan vegar, þar sem stóð kofi með torræðu skilti. Þarna var sæmilegur friður þó alltaf bærist öðru hverju niður farartækja á leið að og frá Þórshöfn. Þar voru líklega einhverjir samferðamenn okkar á ferð. Við náðum þarna ágætis kríublundi, og þar til við vöknum að morgni þess 20. júní má sá sem les ráða í skiltið:




............................................................................................................................

Flettingar í dag: 473
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 71
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 156715
Samtals gestir: 32393
Tölur uppfærðar: 1.7.2025 13:05:11


Tenglar