Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


11.04.2014 10:31

Föstudagsmorgunn 11.4. - Uppnám!


Já, ég sagði það! Uppnám! .....og hverjum er það að kenna? Jú, helvískum Norðmönnunum - einu sinni enn! Hafiði séð norsku veðurspána fyrir páskana?

Ekki?

Núnú - kíkið þá á yr.no og sjáið sjálf! Það er spáð hörkugaddi í Hólminum um páskana. Einmitt þegar stórskipið Stakkanes átti loksins að fara uppeftir. Aukinheldur er spáð slyddu eða éljagangi á laugardaginn og ekki langar mig að draga bát á tveimur kerrum yfir Vatnaleiðina í hálku.

Niðurstaðan er einföld: Stakkanesið verður eftir hér syðra en ég fer í Hólminn með kuldagalla, kuldaskó og flestar bækur Bergsveins Skúlasonar, og eyði páskunum við lestur og göngutúra. Jú, og kaffidrykkju hjá Löllu og Gulla!

Þá er hægt að koma sér að efninu.

Ofan við efri myndina í síðasta pistli er lítill svigi. Í honum er vikið nokkrum orðum að lítilli trillu sem ég keypti síðsumars ´94 af Herði heitnum Bjarnasyni skipstjóra á Ísafirði. Hörður hafði verið að dunda við þessa trillu úti í Krók og víðar, og hafði m.a. smíðað á hana laglegt stýrishús og hvalbak. Raunar var hornið svo lítið að vafasamt var hvort Hörður - sem var ekki með lægstu mönnum - kæmist fyrir í stýrishúsinu. Það reyndi hins vegar aldrei á það því eins og fyrr segir eignaðist ég  bátinn síðsumars ´94 og flutti hann inn að steypustöð. Með bátnum fylgdi ágætis tveggja strokka ALBIN bensínvél, á að giska 10-12 hestöfl. Það var ekki mín ætlun að nota bátinn heldur ætlaði ég fyrst og fremst að eiga vélina og stýrishúsið því þá þegar voru hafnar vangaveltur um bátinn hans Gumma Maríasar og hugmyndin var að nota stýrishúsið hans Harðar Bjarna og ALBIN vélina í þann bát. Vélin var sett á bretti inn í hús og stýrishúsið var sömuleiðis sett inn í geymslu. Trilluskrokkurinn frá Herði Bjarna stóð því einn og sér á planinu innan við steypustöðina. Hinu megin við húsið stóð svo trillan hans Gumma Maríasar og beið endurbyggingar.

Einhverntíma um haustið komu menn úr Súðavík í steypustöðina. Með þeim var Hafsteinn Björnsson frá Seljalandi í Álftafirði. Við Hafsteinn vorum kunnugir frá gamalli tíð og upphófst nú spjall, m.a. um litlu trilluna á planinu. Hafstein langaði í bátinn og spjallið spannst útí samningaviðræður. Þegar upp var staðið taldist hann eigandi bátsins en ég fékk í staðinn forláta PERKINS utanborðsmótor með tilheyrandi bensíntanki og einhverju fleiru. Nokkrum dögum síðar fóru skiptin fram og báðir undu glaðir við sitt. Hafsteinn flutti bátinn inn í Súðavík og setti hann inn í bílskúr við húsið sitt í Túngötunni.

Svo kom vetur, sem - eins og segir í síðasta pistli - komandi kynslóðir munu minnast sem mannskaðavetrarins í Súðavík. Það er ekki nákvæmlega vitað hvenær flóðið kom á steypustöðina og svipti burt trillunni hans Gumma Maríasar. Það er hins vegar nákvæmlega vitað hvenær flóðið kom á Súðavík og svipti burt húsinu og bílskúrnum hans Hafsteins Björnssonar með litlu trillunni. Öll sú saga hefur verið sögð..........

Þar með átti ég laglegt stýrishús í geymslu og ágæta ALBIN bensínvél á bretti en engan bát. Þannig stóðu málin lengi vel en loks kom að því að hvorttveggja nýttist. Gunnlaugur Valdimarsson frá Rúfeyjum á Breiðafirði, þá búsettur á Ísafirði var að endurbyggja lítinn súðbyrðing og vantaði í hann vél. Við Gulli vorum ágætlega kunnugir gegnum bátabras og fleira, og það lá beinast við að hann fengi ALBIN vélina frá Herði Bjarnasyni, frænda sínum - enda skildist mér að Hörður væri "ábyrgur" fyrir búferlaflutningi Gulla til Ísafjarðar. Á þann veg var hlutum ráðið, vélin fór í bátinn og báturinn á flot. 

Einn daginn leit Sigurður Ólafsson -Bíi - inn hjá okkur í steypustöðinni. Hann spurði um stýrishúsið og hafði hug á að fá það sem barnaleikfang við sumarbústað í Arnardal. Það fannst mér ágæt nýtingarhugmynd fyrir húsið og lét Bía hafa það. Ekki veit ég hvort stýrishúsið er enn við þennan sumarbústað en áhugasamir gætu athugað það.........

Þá er að segja frá endalokum ALBIN  vélarinnar og þar verð ég að treysta á frásögn annarra því á þeim hluta hafði ég enga hönd. Frá Gulla mun litli súðbyrðingurinn hafa gengið til eins þeirra Kálfavíkurbræðra og borist með honum vestur til Suðureyrar. Þar komst báturinn undir forsjón umboðsmanns almættisins á staðnum. Varla hefur það þó verið guðleg forsjón því báturinn mun hafa sokkið við bryggju vegna skorts á umhirðu. Hann mun hafa verið tekinn upp og settur inn í óupphitaðan bílskúr til lengri hvíldar. Þar skilst mér að vélin hafi hafi mætt sínu skapadægri full af sjó í vetrarfrosti.

PERKINS utanborðsmótorinn frá Hafsteini heitnum Björnssyni er enn í minni eigu og geymslu, og hefur sannarlega ekki sungið sitt síðasta stef. Að öðru leyti lýkur hér með sögu tveggja báta, tveggja véla og eins stýrishúss.

Flettingar í dag: 340
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79167
Samtals gestir: 18489
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 16:21:40


Tenglar