Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


04.02.2013 09:22

Kaupfélagsbíllinn.

Mér skilst að árin uppúr 1960 hafi verið þröngt um atvinnu á Ísafirði. Þegar hafnarbótum var lokið Pollmegin og flugvöllurinn á Skipeyri fullgerður hefur trúlega dregið talsvert úr verkefnum vörubílstjóra og fátt annað að hafa en vegavinnukropp og snatt kringum vöruskipin. Í þessu sem svo mörgu öðru var það síldin sem réði, brygðist hún dró úr tekjum þjóðarbúsins og þar með opinberum framkvæmdum svo sem nýbyggingum og viðhaldi vega. Gæfi síldin sig hins vegar var aukið í á öllum sviðum og þá fylgdu oft stórframkvæmdir í kjölfarið, mann- og tækjafrekar. Það voru byggðar hafnir, lagðir vegir og það var virkjað.

Við fjölskyldan bjuggum í nýbyggðu stórhýsi - á þess tíma mælikvarða - innarlega við Seljalandsveg. Húsið hafði kostað skildinginn og trúlega hefur mest af þeim góðu tekjum sem pabbi vann sér inn við byggingu radarstöðarinnar á Straumnesfjalli farið í bygginguna, auk einhvers hluta andvirðis gamla hússins að Hrannargötu 3.



Samdráttur í vinnu á sama tíma og flutt var í nýja húsið var engin óskastaða og stopul innkoma á Ford F-600 vörubílinn sem keyptur var nýr fyrir verkið á Straumnesfjalli, dugði ekki til að standa straum af skuldum og rekstri heimilisins. Það varð úr að pabbi seldi Fordinn út í Hnífsdal og fékk vinnu á nýbyggðu bílaverkstæði þeirra Halldórs Halldórssonar - Dúdda Hall -  og Jóhanns Péturs Ragnarssonar. Þeir félagar voru stórhuga og reistu veglegt verkstæðishús í hlíðinni inn við Stakkanes eftir að hafa um árabil rekið verkstæðið í lágreistum skúr við Fjarðarstræti. Verkstæðið við Seljalandsveg var raunar tekið í notkun hálfklárað, húsið skyldi verða tvílyft en fyrst um sinn var neðri hæðin látin duga, sú efri var ekki reist fyrr en alllöngu síðar. Ég man eftir þessari vinnuaðstöðu þó ég hafi aðeins verið fimm eða sex ára þegar hún var tekin í notkun - ópússaðir og ómálaðir útveggir, hurðir úr tréflekum, stöku ljósaperur hangandi úr loftum og upphitunin léleg loftmiðstöð. Húsið var nánast eins og fokhelt innan og þessar vinnuaðstæður - að kúldrast í kulda og myrkri undir bílum liggjandi á krossviðarplötu - voru mikil viðbrigði fyrir mann sem lengst af hafði verið sjálfs síns herra. 

Mamma lagði sitt af mörkum og fór að vinna hjá Pósti og Síma. Þar var hún flestum hnútum kunnug, hafði unnið á símanum sem unglingur og líkað ágætlega.

Eftir stutt, vörubílslaust tímabil ( þar sem sá gamli vann á nýja verkstæðinu hjá Dúdda og Jóhanni Pétri - það voru eins og segir ofar verkefnaleysisár fyrir vörubíla eftir 1960)  keypti pabbi annan af Chevrolet-vörubílum Kaupfélagsins, þann yngri sem þá hafði verið lagt í kolaportinu með úrbrædda vél. Sá var svo lagfærður í húsi Vegagerðarinnar við Hjallaveg og fékk nýjan, vínrauðan lit í stað þess ljósbláa sem hann bar áður. Vélin var tekin úr og send til Þ.Jónssonar hf. í viðgerð. Þeir voru reyndar eitthvað kunnugir, pabbi og Þórir Jónsson af fyrri viðskiptum og pabbi vissi Chevroletvélina í góðum höndum syðra.



Það þurfti fleira að gera fyrir Chevroletbílinn, s.s. að smíða ný skjólborð oþh. Eftir mikið klapp og margar strokur var svo bíllinn tekinn í notkun og verkstæðiskúldrinu lauk þar með. Pabbi kunni hvergi betur við sig en undir stýri og hann vildi frekar gera út lítinn, úreltan pakkhússbíl og vera sjálfs síns herra en liggja á bakinu undir druslum með ljósahund í annari og skiptilykil í hinni. Á þessum tíma voru vörubílstjórar vestra óðum að "uppfæra"  atvinnutækin sín. Jafnframt létu bensínbílar undan síga og viku fyrir dísilbílum.  Baldur Sigurlaugs seldi Doddsinn sinn og keypti rauðan Bedford, Halldór Geirmunds einnig.



 Óli Halldórs, sem sést hér á myndinni, seldi gamla bensínfordinn og keypti grænan Bedfort með Perkinsvél.



Halldór Ólafsson, Halli Óla (hér ofar) skipti úr bláhvítum Chevrolet yfir í bláhvítan Benz sem áfram bar númerið Í-210 og Hörður Ingólfs dubbaði gamlan Scanía-flutningabíl upp sem pallbíl. Einhverra hluta vegna gekk sá bíll alltaf undir nafninu Gullkálfurinn.........

Gamli Kaupfélagsbíllinn (já, hann var gamall þrátt fyrir að vera árgerð ´57 og því ekki nema sjö, átta ára) stóð fyrir sínu með nýuppteknu vélina. Hann gat flest sem hinir gátu og skilaði hverju verki prýðilega og án teljandi bilana. Það kom þó að því að Vegagerð Ríkisins, sem var helsti vinnuveitandi  vörubílstjóra yfir sumartímann, tregðaðist við að taka svo litla bíla í vinnu þegar stærri buðust.




Með þetta nýja vandamál í augsýn var tekin kúvending í framtíðaráætlunum fjölskyldunnar í nýbyggða húsinu við Seljalandsveg. Nú skyldi allt selt, bæði bíll og hús. Fyrirheitna landið lá sunnan heiða - Reykjavík.

Húsið seldist fljótlega og varð læknisbústaður um árabil. Chevrolettinn seldist líka, kaupandinn var Eggert Lárusson skipasmiður og verkstjóri í Torfnesslippnum. Eggert átti bílinn mörg ár og líklega var hann síðasti eigandinn. Í öllu falli man ég ekki eftir bílnum í annarra höndum.

Í september 1966 var lagt upp í suðurferðina og Ísafjörður kvaddur. Þar með lauk heilum kafla í vörubílsútgerðarsögu pabba. Sögunni sjálfri var hins vegar hreint ekki lokið. Framhaldið er önnur saga.......
Flettingar í dag: 518
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79345
Samtals gestir: 18509
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 23:41:25


Tenglar