Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


01.02.2013 21:37

Líkbíllinn.

Lengi vel mun ekki hafa verið til neinn líkbíll á Ísafirði. Þegar flytja þurfti kistur milli staða var notast við pallbíla, og þá jafnan reynt að velja bíla sem litu áberandi vel út - voru nýlegir eða betur hirtir en gekk og gerðist. 

Það var að vísu ekki löng leið milli líkhússins (í kjallara gamla sjúkrahússins), kirkjunnar og garðsins og kannski ekki þörf á  sérstökum bíl í þann akstur. Hins vegar voru húskveðjur algengar hér áður fyrr og þá var kista þess látna flutt heim til kveðjunnar og að henni lokinni á næsta áfangastað - væntanlega þá til kirkju. Þetta gat allt eins verið talsverð leið og á engan leggjandi að bera kistu á höndum um þann veg. 

Hann þótti jafnan vel hirtur Volvo vörubíllinn sem bar númerið Í-140, og ósjaldan var gripið til hans af ofangreindu tilefni. Þá þótti hæfa að festa fánastöng eða-stangir fremst á pallinn, en sjálfur pallurinn var svo klæddur sérstökum dúk. Myndin hér að neðan er tekin fyrir eða eftir slíkan akstur. Myndin er tekin ofan við Sólbrekku á Stakkanesi og húsið í baksýn er Seljalandsvegur 84a. Takið eftir skjólborðinu sem liggur í forgrunni og ofan á því festiboltarnir við framgaflinn:


Það má vel birta aðra mynd af þessum fallega Volvo, fyrsta vörubílnum sem pabbi eignaðist. Myndin er flott uppstilling, bíll og bílstjóri báðir í sínu fínasta. Sem fyrrverandi skoðunarmaður farartækja geri ég þó alvarlegar athugasemdir við skermun hjóla að aftan en telst varla marktækur þar sem ég er aðeins fyrrverandi.....



Opinn vörubílspallur er kannski ekki hentugasti flutningsmáti á líkkistu í misjöfnum veðrum og með árunum var farið að nota yfirbyggðan Ford pickup sem Bjössi Guðmunds (pabbi Jónasar á dekkjaverkstæðinu) átti. Sá bíll var ekki svartur að lit heldur tvílitur, vínrauður og drapplitur. Seinna eignaðist sóknarnefndin bílinn og þá var hann dubbaður upp sem almennilegur líkbíll, málaður svartur og merktur með krossum. Muni ég rétt var hann geymdur milli athafna, í skúr við Fjarðarstræti neðanvert. 

Ekkert er eilíft, ekki einu sinni líkbílar. Þegar nýi grafreiturinn inni við Engidal var tekinn í notkun hefur gamli átta gata Fordinn (sem var þá raunverulega orðinn fornbíll) líklega þótt bæði frekur á fóður og eins fúinn til ferðalaga. Hann var því leystur af hólmi með stórum, svörtum International dreka, einhvers konar viðameiri útgáfu af Scoutjeppa og síðar -ef ég man rétt- japönskum hrísgrjónabrennara sem satt að segja var ákaflega lítið sjarmatröll og stóðst í þeim skilningi engan samanburð við ameríska bensínhákinn. Fordinn var seldur og kaupandinn var fyrrum vinnufélagi minn, Jón Elíasson frá Reykjavík. Nonni Ella skrattaðist á líkbílnum um götur Ísafjarðar í einhvern tíma en hvarf svo til fyrri heimkynna syðra og Fordinn með. Er hann þar með úr sögunni.

Eða hvað............????

Nei ekki alveg!  Árið 2011 var ég á ferðinni inn með Akrafjalli norðanverðu á öðrum svörtum Ford, líka amerísku sjarmatrölli þó annars eðlis væri. Ég stöðvaði úti í vegkanti til að taka myndir yfir Melasveitina og Leirárvoginn en tók um leið eftir ólögulegri ryðhrúgu innan girðingar fjallmegin við veginn. Forvitnin var vakin og ég klifraði yfir girðinguna til að skoða betur það sem þarna lá og hafði auðsjáanlega eitt sinn verið bíll. Ekki þurfti ég lengi að líta til að þekkja gamlan kunningja - ísfirska líkbílinn Ford F-1. Nonni Ella var hvergi nálægur enda hafði lík bílsins greinilega legið þarna svo árum skipti.

Hvað ætli eilífðin sé annars löng??






Ég var búinn að birta færsluna þegar Ásgeir Jónsson í Sandgerði minnti mig á Nallann sem var líkbíll næst eftir Fordinn. Ég tróð honum því inn í textann eftirá.
 Eitt að lokum um síðustu færslu: Vitarajeppinn framan við ameríska "hjólhýsið" er ekki hrossadráparinn minn heldur einhver alókunnugur jeppi. Ég rak augun í þetta myndefni af tilviljun fyrir nokkrum árum, fannst það hreint stórkostlegt dæmi um endalausa bjartsýni - og tók mynd!
Flettingar í dag: 449
Gestir í dag: 50
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79276
Samtals gestir: 18500
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 21:23:03


Tenglar