Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


15.05.2012 07:06

And-pistill !

Ég ákvað að setja viðbótina ofanvið að þessu sinni. Mér ætlar nefnilega ekki að auðnast að ljúka pistlinum áður en haldið verður til Ísafjarðar. Það er föstudagsmorgunn, átjándi maí, klukkan er sjö fjórtán og eftir vinnu í dag liggur fyrir að keyra vestur með kerru í eftirdragi. Það var komin hánótt þegar búið var að tæma bílskúrinn á Lyngbrekkunni og dótinu hafði verið dreift um öll gólf hér á höfðingjasetrinu. (sem sumir eru raunar farnir að kalla Höfðaborg í höfuðið á síðasta "fátækrahverfi" Reykvíkinga. Ég man vel eftir þeirri Höfðaborg og get alveg sætt mig við það nafn á höfðingjasetrinu mínu!)

Ég á enn eftir nokkur handtök á Brekkunni. Garðskúrinn er fullur af ýmisskonar "útgerðardóti", sumt af því flyst hingað en annað fer væntanlega í endurvinnslu, enda spannar safnið rúm fjörutíu ár og rúmlega þó því hluti þess er frá dögum pabba í Aðalvík á sjötta áratugnum. Þá er strandferðaskipið Fagranes geymt ofan á bílskúrnum og enn á eftir að finna því nýjan geymslustað. Einhverjir muna kannski eftir því skipi frá ferðinni út í Engey, sem tíunduð var með myndum í október 2010.

Vinnan kallar og ferðalag að henni lokinni. Ísafjörður, here we come..........





Þessar línur eru ekki hugsaðar sem eiginlegur pistill, heldur aðeins til að ýta á sjálfan mig. Ég ætlaði fyrir löngu að skrásetja eigin feril þann fyrsta maí sl. en hef ekki komist í verkið vegna ýmisskonar anna. Það er ekki útlit fyrir að erlinum linni fyrr en að lokinni Ísafjarðarferð um komandi helgi svo nú liggur á að finna tíma fyrir skrif. Nikkólína sagði forðum: "Nóttina á ég sjálf" og sennilega verð ég að nýta komandi nætur til að stinga niður stöfum. Það er kalt á Höfðingjasetrinu, uppi undir rjáfri á norðurvegg er gömul lofttúða sem virðist standa opin inn í loftstokk innanhúss. Stokkurinn er ekki þéttur og því blæs hressilegur norðanvindur óheftur um húsakynnin - þá helst um svefnsalina! Afleiðingin er sú að nýja Tempur- dýnan er líkari gangstéttarhellu að leggjast á en mjúku rúmi. Trúlega er því þægilegra að eyða nóttinni niðri í stofu við tölvuna en uppi í herbergi við indversk þægindi.

Fyrsti maí hófst kl. sjö að morgni við undirbúning ferðar upp á Mýrar á Runólfi þeim sem áður var minnst á í fyrri pistlum. Deginum lauk með siglingu frá Akranesi til Reykjavíkur þar sem bundið var við bryggju kl. 10 að kvöldi. Það var ekki mikið um afslöppun þann daginn!

Ef næsta nótt verður ámóta köld og tvær síðastliðnar er von á löngum pistli...........
Flettingar í dag: 376
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79203
Samtals gestir: 18492
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 17:20:03


Tenglar