Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


06.04.2012 07:32

Dagur vonar...

Það er föstudagsmorgunn og á minn mælikvarða er áliðið - klukkan er orðin hálfátta. Það er einkennileg tilfinning að koma niður í stofuna og heyra ekki Bassa dilla skottinu utan í miðstöðvarofninn sem hann sefur við.

Það er nefnilega enginn Bassi. Hann fór í páskaheimsókn til sinna "gömlu foreldra" í Hafnarfirði og verður þar næstu daga. Lífið hér er dálítið tilbreytingarlaust fyrir hann, sérstaklega þegar dagarnir fara í "heimavinnu" auk snúninga út í bæ þar sem hann verður jafnvel að bíða langtímunum saman í bílnum meðan ég hleyp inn í búðir eða sinni öðrum erindum. Helstu tilbreytinguna fær hann í vinnunni, þar sem hann hittir þó samstarfsfólkið,  þegar engin vinna er er hins vegar fátt um slíkt og lengst af hímir hann úti í horni eða ráfar um gólf í hálfgerðu sinnuleysi og horfir á mig bera kassa, raða dóti, mála, hengja upp myndir og fleira í þeim dúr. Það var því eins og himnasending fyrir hann að fá að fara í Hafnarfjörðinn í nokkra daga, þar sem dekrað er við hann á alla lund.

Veðurlýsingin er sú sama og átti við fyrsta apríl - þokusuddi, hráslagalegt inniveður sem best er nýtt til standsetningar á plássinu. Það verða ekki farnar margar ferðir út fyrir bæinn þessa páskana, sýnist mér. Ætlunin var að renna austur fyrir fjall, líta aðeins í ferðadrekann og reyna jafnvel að gera dálítla skoðunarferð úr túrnum ef viðraði til, jafnvel að kíkja í Sólheima í Grímsnesi. Það er hins vegar lítið gaman að fara austur í sveitir ef maður sér ekki einu sinni Selfoss fyrr en maður keyrir á brúna - eða þannig.

Fríða systir flaug vestur síðdegis í gær, skírdag. Fyrir sunnan var þoka, fyrir vestan var þoka, það vissu allir um þessa andskotans þoku nema Flugfélag Íslands sem vissi ekki rassgat og flaug enn eina útsýnisferðina án útsýnis vestur í Djúp og til baka. Alveg er þessi hringflugsáhugi þeirra F.Í. manna undraverður, það er varla til sú sál vestra sem hefur ekki upplifað þessa einstöku "skemmtun" oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Nú um miðjan morgun á að gera aðra tilraun. Það er enn þoka fyrir vestan ef marka má vefmyndavélar, það er þoka hér fyrir sunnan ef marka má útsýnið úr gluggunum mínum yfir höfuðborgina. Kannski nær systir vestur fyrir heppni, kannski fær hún annað hringflug, hver veit?  Ef hún kemst vestur verður svo annar kapítuli að komast suður aftur, ef marka má Ásdísi Auðunsdóttur. Ég renndi nú áðan yfir veðurspá RUV í gær-kvöldfréttunum og skv. þeirri spá horfir ekki gæfulega með flug í lok páskanna......

Ef mitt hugboð er rétt hverfur neðsti pistill síðunnar aftur fyrir og yfir á næstu síðu þegar þessi birtist. Þeim pistli lýkur með orðunum: "Vor Stakkanessins rennur upp þann fjórtánda apríl n.k." eða það minnir mig. Fjórtándi apríl er næsti laugardagur og það hefur margt breyst frá því þessi orð voru skrifuð seint í haust. Stakkanesið er, held ég, ekki á leið á flot næsta laugardag, það hefur einfaldlega ekkert að gera á flot þegar ekki er tími til að sinna því. Risaþorskarnir sem Sverrir  stýrimaður lýsti um daginn verða ekki veiddir alveg á næstunni - allavega ekki á Stakkanesið. Kannski verða nokkir eftir fyrir okkur, þegar allt er klárt og tími gefst til að sinna útgerðinni.

Lyngbrekkan á að afhendast um mánaðamót maí-júní. Íbúðin sjálf verður þá löngu laus en skúrinn er mitt vandamál og hann er eins og lýst var á dögunum, sléttfullur af verkfærum og verkefnum. Hér á Höfðingjasetrinu verður byrjað að hilluvæða vinnusalinn eftir páska, hreinlætisaðstaða og vinnuborð þurfa að rísa áður en hægt verður að huga að flutningi fyrir alvöru. Allt tekur tíma og vinnuhraðinn takmarkast af tveimur höndum.

.......svo getur Stakkanesið farið á flot.......

Flettingar í dag: 459
Gestir í dag: 52
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79286
Samtals gestir: 18502
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 21:47:34


Tenglar