Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


26.11.2011 10:42

Síðasta veiðiferð Stakkanessins 2011

Hún var óvenju góð, veðurspáin fyrir laugardaginn 12 nóvember sl. Því var ákveðið að nýta daginn í veiðiferð út í sjöbauju, klukkutíma siglingu úr Grafarvogshöfn. Þó það sé að mörgu leyti ágætt að leigja bryggjupláss í Grafarvoginum fylgur því sá ókostur að vilji maður sigla út undir sjöbauju eða lengra er siglingin afar tímafrek fyrir svo hæggengan bát sem Stakkanesið er. Ef ætlunin er hinsvegar að sigla uppundir Lundey, Kjalarnes eða á ámóta staði er fínt að sigla úr Grafarvogi.

En semsagt, það var sjöbaujan þennan dag enda var þunga undiraldan sem legið hefur inn Kollafjörðinn undanfarnar vikur, í lágmarki og þegar áttleysan gekk í lið með sól og hlýindum varð úr einhver besti dagur haustsins. Í þessarri ferð, eins og nokkrum fyrri haustferðum var háseti um borð í Stakkanesinu. Það var Magnús vinnufélagi minn úr Skeifunni sem skipaði það rúm, og ég vil koma því strax að að Magnús er eini maðurinn sem hefur haldist við frammi í lúkar í veltingi - það er ekki fyrir sjóveika að sitja þar þó ágætlega fari um menn annars. Þennan dag kom engum sjóveiki í hug og enginn þurfti að skríða í skjól lúkarsins undan ágjöfum.



Háflóð var uppúr hádegi og við lögðum af stað vel fyrir þann tíma. Það var enn nokkuð í fullfallið þegar við komum að sjöunni og sigldum hring um hana:



Það var kannski ekki sérlega bjart í lofti þarna uppúr hádeginu en birti nokkuð er á leið. Vel mátti þó greina hús á Akranesi bakvið og til hægri við baujuna, og reykurinn úr sementsverksmiðjunni lá skáhallt upp og til vesturs sem benti til að veðrið þarna uppfrá væri ekki mikið síðra en þarna úti á Kollafirðinum. Stutt frá okkur var lítill hraðbátur, í honum voru tveir menn og virtust dorga. Á myndinni er horft inn í Hvalfjarðarmynnið.

  
.....og þegar litið var til austurs í átt að Sundunum mátti sjá gufuna frá Hellisheiðarvirkjun stíga til himins og mynda jarðsamband við lágskýjabakkann sem hékk yfir:



Væri horft suður til Reykjaness mátti sjá skörðóttan tanngarð Sveifluhálsins bera við birtuna og Keili hægra megin við hann. Lengst til vinstri eru Bláfjöllin, slétt og slípuð að ofan.



Við þurftum að bíða dálítið eftir fyrsta fiskinum, en þegar hann loksins beit á var hann ekki af verri endanum. Þetta var stærðar þorskur sem Magnús setti í og varð ekki komið um borð nema með goggnum:



Ekki leið á löngu þar til annar álíka stór beit á og stöngin hans Magga kvartaði sáran. Það var dagsljóst að þrjátíupunda girnið sem sett var á eftir að allt sleit undan hjá okkur báðum við Viðey fyrr í haust, var að borga sig:



Eftir þessa fyrstu tvo þótti ekki annað verjandi en að sækja handfærarúllu og setja á borðstokkinn. Um borð eru tvær slíkar en önnur var látin duga. Nú brá hins vegar svo við að stórþorskurinn hélt sig til hlés en sendi ungliðadeildina til að kanna fyrir sig önglana. Eina ýsu fékk Magnús þó á stöngina en á rúlluna komu aðeins smáþorskar og lýsa.

Eftir talsverða stund þyngdi verulega á hjá Magga. Við töldum allar líkur á að nú hefði "sá stóri" loksins skilað sér á öngulinn, samt var dálítið undarlegt hversu rólegur fiskurinn var. Hann kippti ekkert, lá bara stöðugt í og var verulega þungur í drætti. Það tók dálítinn tíma að draga upp af þrjátíu metra dýpi en þegar upp kom var skýringin á undarlegheitunum augljós: það sem hékk á önglinum hans Magga var stærðar hraunmoli, með einhvers konar fléttugróðri og fínheitum. Veiðin vakti litla gleði, reyndar svo litla að áður en ég náði að kveikja á myndavélinni var molinn horfinn í hafið aftur og fylgdu kaldar kveðjur.

Næsti dráttur hjá Magga var lifandi, þó ekki spriklaði hann mikið. Það sem dinglaði á önglinum var vænsti krossfiskur. Nú var myndavélinni beitt óspart áður en fengurinn hvarf í hafði að nýju. Við vorum nokkuð vissir um að í einhverju heimshorni hefði þessi krossfiskur farið beint á matborðið og þótt lostæti. Það þýddi hins vegar ekki að bjóða áhöfninni á aflaskipinu Stakkanesi slíkar trakteringar og því var Krossi sendur aftur í sína sveit eftir myndatökurnar:







Það saxaðist hratt á daginn og sólin var allt í einu farin að síga niðurundir skörðóttan tanngarðinn í suðvestrinu. Um leið kólnaði mikið og meðan Hafsúlan kom siglandi utan af Faxaflóa með sína túrista tókum við Magnús saman veiðarfærin og snerum heim á leið með aflann hausaðan og slægðan í kar. Um borð í Stakkanesnu er nefnilega gengið frá öllum afla í kör, en körin eru þessir líka fínu plastkassar með loki frá RL-design. (...sem í daglegu tali kallast Rúmfatalagerinn...)

Það var farið að bregða birtu þegar sett var í gang og stefnan tekin inn með Engey:







Heimsiglingin var tíðindalaus, blíðan hélst alla leið og svona var útsýnið síðasta hluta siglingarinnar, þegar rennt var fyrir Elliðavoginn áleiðis í Grafarvogshöfn:



Þetta reyndist, eins og fram kom í titlinum, síðasta veiðiferð ársins. Laugardaginn 19. nóv. sl. var enn látið úr höfn en nú var enginn Magnús og kapteinninn einn í áhöfn. Það var vindgjóla þegar lagt var af stað og nokkrar skútur sáust inn um eyjar, enda hver síðastur að nýta haustblíðuna sem farið var að sjá fyrir endann á. Stefnan var tekin norður fyrir Viðey og nú var undiraldan af Faxaflóanum sem legið hafði niðri helgina áður, komin aftur á sinn stað og braut við Lundey með löðri. Þegar NA- vindsperringurinn bættist við varð úr ruglandi sem þarna norðan Viðeyjar gerði stöðu við veiðarfæri hreint ómögulega. Stakkanesinu var snúið vestur fyrir eyjuna á lens undan stífri báru og valt mikið. Inni við Hjallaskerin var stilltara en gallinn var sá að þar var engan fisk að finna þó reynt væri talsvert. Rekið var svo mikið í átt að Engey að línan af veiðistönginni lá nær beint út. Stakkanesið er létt og hátt á sjó, og í tilfelli þess er vart hægt að tala um rek, miklu réttara væri að tala um fjúk!

Eftir tvö eða þrjú rek án þess að vart yrði við kipp var dregið upp og siglt innundir Gufunes. Þar voru veiðarfærin tekin saman og búin til flutnings frá borði. Það var farið að skyggja þegar rennt var að bryggju og bundið. Út Grafarvoginn var harður útfallsstraumur og hann, ásamt vindinum og fallandi birtu gerði ómögulegt að taka bátinn á land þennan dag. Það varð að bíða sunnudagsins, og um hádegisbil þann 20. nóv. var Stakkanesið tekið í vagn, botnhreinsað, vetrarbúið og flutt upp að vélsmiðjunni Stálveri, þar sem það mun bíða vors.

Vor Stakkanessins rennur upp þann fjórtánda apríl 2012........

Flettingar í dag: 376
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79203
Samtals gestir: 18492
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 17:20:03


Tenglar