Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


18.11.2011 08:45

Af stað í stefnuleysi - fjórði og pottþétt síðasti hluti.

Ég lokaði síðustu færslu standandi uppi á gígbarmi austanundir Snæfellsjökli þar sem horfa mátti yfir Faxaflóa og allt suður til Reykjavíkur. Þar lá Elín Huld  í sólbaði á svölunum sínum, líklega ennþá hlæjandi að mér fyrir að þvælast í þokufýlu á fjöllum. Það var þó ekki þokunni fyrir að fara þarna á gígnum við sæluhússrústirnar - öðru nær.
Eftir ágæta dvöl á þessum flotta stað gengum við Bassi til baka niður að bílnum og ókum niður á þjóðveginn um Jökulháls. Eins og sjá má lá þokuslæðan enn yfir fjallgarðinum innar á nesinu og norðan í honum, akkúrat þar sem ég hafði legið og sofið í tvo tíma, fúll yfir skyggninu. Ég varð æ sannfærðari um að svona eftirá að hyggja hefði það verið rétt ákvörðun að bíða þessa tvo tíma í þokunni, því veðrið varð stöðugt bjartara allan tímann sem við dvöldum uppi í vikurhólunum - það var ekki víst að við hefðum fengið jafn einstakt útsýni hefðum við verið tveimur tímum fyrr á ferð!




Eftir að niður á þjóðveginn var komið ókum við hann til suðurs, móti Arnarstapa og Stapafellinu. Ofarlega í hálsinum, suðaustanundir jökulrótunum ókum við meðfram þessarri vikurnámu. Af ýmsum ummerkjum að dæma var þarna annaðhvort aðalnáma vikurnámsins forðum, eða þá safnhaugur sem hlaðið var upp þegar veður leyfði. Ég hallast frekar að því fyrra, því þarna mátti sjá óvenjulega mikið af hraunmolum sem virtust hafa setið eftir þegar vikrinum var skolað ofan af þeim. Þessutan mátti sjá talsvert af timburbraki og leifar af undirstöðum rennanna sem vikrinum var fleytt eftir niður í farveg lækjarins sem aftur bar hann niður að mölunarstöðvunum undir Stapafelli.



Ég fylgdi "vikurlæknum" eins og hægt var niður eftir ásunum. Víða lá hann þó talsvert vestan vegarins, hafi ég skilið rétt. Ég kom að afleggjara sem lá af aðalveginum til vesturs og ók inná hann. Afleggjarinn beygði fljótlega til norðurs og lá um hríð samsíða aðalveginum en tók svo stefnu í átt til jökulsins. Á myndinni hér neðar er horft í suðausturhorn Snæfellsjökuls og það sýndi sig að afleggjarinn sem ég var að aka lá upp að aflögðum skíðalyftumannvirkjum þarna í horninu. Ekki var lengi ekið þegar komið var að "vikurlæknum" en hann hafði verið lagður í ræsi undir veginn. Í einhverjum leysingunum hafði ræsið ekki flutt tilætlað vatnsmagn, flaumurinn hafði runnið yfir veginn, skorið hann sundir og skolað burtu ræsi og jarðvegi. Bakkarnir voru krappari en myndin sýnir og þar sem erindið var ekki brýnt ákváðum við Bassi í sameiningu að láta hér staðar numið og snúa við.





Ef myndin hér að neðan "prentast vel"  má sjá hluta skíðalyftumannvirkjanna neðst til hægri og rönd upp hrygginn hægra megin (upp af litla skúrnum), þar sem lyftustaurar standa. Það sem sýnist vera hvítur skúr lengst til hægri er í raun gámur.



Að neðan er horft af "skíðaveginum" niður til Stapafells og út á Faxaflóa. Hús á Arnarstapa eru eins og litlir dílar vinstra megin við fellið, víkin neðan við Gíslabæ á Hellnum er svo við fjallsbrúnina hægra megin:



Við fetuðum okkur niður af hálsinum, veðurblíðan hafði greinilega heillað fleiri því stöðugt mættum við bílaleigubílum (greinilega) á leið frá Arnarstapa og upp að jökli. Þegar komið var niðurundir Stapafell var dálítið bílaplan ofan vegarins. Við það var nestisborð með bekkjum og skilti sem mig langaði að kanna betur. Ferðadrekanum var því lagt á planinu og umhverfið kannað. Það kom á daginn að áningarstaðurinn hafði ekki verið valinn af handahófi. Þarna undir hraunkömbunum var sumsé Sönghellir. Ég hafði margoft heyrt og lesið um Sönghelli og bergmálið sem hann er frægur fyrir, en aldrei vitað almennilega hvar hann væri. Nú var hann fundinn og sjálfsagt að líta á fyrirbærið. Það gæti verið gaman að vita hvernig almennilegt Bassagelt hljómaði!  Á myndinni hér neðar er stígurinn að Sönghelli sjáanlegur neðst fyrir miðri mynd, sjálfur hellirinn er í skugganum undir hraunnefinu til vinstri.


Ég leyfði Bassa að hlaupa lausum. Ef hann þekkir ekki umhverfið heldur hann sig hjá mér - þ.e.a.s. ef Gimba frænka hans er ekki í grenndinni! Bassi hljóp stíginn eins og hundvanur ferðalangur og staðnæmdist við skiltið líkt og fluglæs væri:



Það var greinilegt að við vorum í Sönghelli. M.a.s. framan við hellinn bergmálaði fótatakið í mölinni með ærandi hávaða innan veggja. Ég tróð mér inn um opið með myndavélina. Inni var kolsvartamyrkur, enda er opið niðri við jörð og minnir um margt á námuopið í brúnkolanámunni að Gili í Bolungarvík. Það skilar sáralítilli birtu inn í hellinn og ég varð að treysta á díóðuvasaljósið sem ég hafði notað í námunni - með slökum árangri. Árangurinn var ekki betri hér og eftir skoðun á Sönghelli er ég litlu nær um stærð hans og lögun, utan þess sem ég sá í flassblossa myndavélarinnar:





Ekki fékk ég Bassa til að gelta fyrir mig, þrátt fyrir tilraunir. Ég ætlaði nefnilega að gera svona smá-hljóðupptöku á símann og setja hér með pistlinum. Það gekk semsagt ekki, hann valsaði móður og másandi út og inn en að öðru leyti hélt hann sig til hlés. Ég reyndi að búa til einhvers konar stærðarmat á hellismunnanum með Bassa sem viðmiðun. Þeim sem ekki hafa séð Bassa kann hinsvegar að reynast erfitt að átta sig á samanburðinum. Bassi er heldur minni en venjulegur BorderCollie fjárhundur. (Hann er svo aftur þúsund sinnum flottari en allir rolluhundar landsins samanlagt, en það er önnur saga...)





Skammt frá Sönghelli eru fleiri hellar. Þeir eru þó allir minni og opnari, eiginlega kannski líkari klettasyllum en hellum. Við klifruðum upp í þá og mynduðum:



Eftir að hafa skoðað nægju okkar af Sönghelli og nánasta umhverfi hans lá leiðin aftur að bílnum þar sem enn var hitað vatn í bollasúpu og kaffi. Eftir hressinguna lá svo fyrir að skoða mannvirkjaleifar vikurvinnslu Jóns Loftssonar og félaga. Svæðið sem virðist hafa verið eins konar höfuðstöðvar vinnslunnar liggur rétt neðan Sönghellis en á milli ber hátt hraunleiti sem blasir við út um vesturgluggatótt eina hússins sem enn stendur uppi. 



Þegar litið var út um gluggatótt á gagnstæðri hlið blasti Breiðavíkin við. Þetta hús er steinsteypt með bjárujárnsklæddu valmaþaki. Stærðin er ca. 3-4 mtr. á hlið og einhvern veginn finnst mér að þetta hljóti að hafa verið íveruhús af einhverju tagi. Kannski ekki beint svefnskáli, frekar eftirlits-eða vélgæsluhús. Á öllum gömlum íveruhúsum sem ég hef skoðað rústir af hafa verið ummerki um kamínu eða annan hitagjafa. Á þessu húsi var ekkert slíkt að sjá.



Það þarf ekki mikla visku til að sjá að myndin hér neðanvið er tekin útum vesturgluggann eins og hér rétt ofar. Birtan er þó skárri á henni og hún er sett hér vegna þess að hún sýnir ágætlega hvar vikurhaugurinn sem lækurinn í efri hlíðunum skilaði niður, hefur staðið. Á hraunkambinum hægra megin á myndinni eru leifar af rennubúnaði, lækurinn rennur handan kambsins og í hann hefur verið sett einhvers konar skilja sem skildi vatnið frá vikrinum. Neðsti hluti lækjarins sem nýttur var hefur runnið í manngerðri þró með botni fóðruðum steinsteypuhellum og hliðum úr tré. Skiljubúnaðurinn virðist hafa virkað þannig að vikurinn hafi skilað sér yfir hraunbrúnina en vatnið runnið áfram handan við. Þarna í lautinni sem sjá má út um gluggann hefur líklega verið stór vikurbingur sem skammtað hefur verið úr smám saman niður í valsana sem muldu stærstu vikurmolana niður í æskilega stærð.



Ég rölti upp á hraunkambinn og myndaði það sem eftir er af skiljubúnaðinum. Vel má sjá lækjarbotninn fóðraðan steinplötum, tréhliðarnar og svo sjálfan lækjarfarveginn vinstra megin við. Þar sem læknum sleppti og vatnið úr honum hætti að fleyta vikrinum áfram niður rennurnar tók mannshöndin við, vopnuð sverum "brunaslöngum" sem fengu vatn úr öðrum læk. Farveg hans má sjá við myndjaðarinn til vinstri. Þannig hefur vikrinum verið sprautað áfram síðustu metrana yfir hrygginn í safnbinginn.



Hér fyrir neðan sést svo betur afstaðan milli hraunhryggjarins, vikurbingsins sem verið hefur neðan hans og litla hússins sem verið hefur einhvers konar íveruhús. Neðan þess má sjá leifar vélahússins sem hýsti efri mölunarvélarsamstæðuna.



Úr vikurbingnum virðist hafa verið skammtað niður að vélasamstæðunni sem malaði stærstu molana. Upp úr gólfi hússins, timburhúss sem horfið er með öllu, má sjá fjóra stálbolta. Þeir hafa haldið aflvélinni sem knúði valsana, aflið hefur verið flutt með flatreim frá vélinni á stóra hjólið hægra megin, það er áfast öðru minna sem breytir snúningshraðanum og af því hefur legið flatreim niður á hjólið sem áfast er völsunum. Hvort sem menn trúa því eða ekki þá snúast valsarnir og hjólin léttilega þrátt fyrir áratuga notkunar- og smurningsleysi. Ég er nokkuð viss um að það er einungis vegna þess að forvitnir ferðamenn sem heimsækja staðinn árlega geta ekki stillt sig (frekar en ég) um að prófa að snúa hjólunum. Ískrið sem kveður við myndi sóma sér í hvaða hryllingsmynd sem er......... 





Í gólfinu neðan við valsana er þessi rás, og í henni hefur legið renna sem skilaði vikrinum niður frá húsinu. Enn hefur öllu verið fleytt með vatni (enda engin önnur betri leið til verksins) og neðan mölunarhússins er annað plan með fjórum steyptum undirstöðum. Þær hljóta að hafa borið uppi einhvers konar deiliapparat, því ef ég skil rétt textann á upplýsingaspjöldunum sem ég myndaði í ferðinni með Svenna rakara hefur vikurinn verið leiddur frá þessum stað í lokuðum pípum niður á klettabrúnirnar ofan þorpsins að Arnarstapa.  



Það er kannski rétt, svona til glöggvunar, að setja aftur inn slóðina á ferðina með Svenna rakara. Neðst í pistlinum eru myndir af upplýsingaskiltunum, sem smella má á og stækka. Þannig er kannski auðveldara að átta sig á ferlinu, ef einhver hefur áhuga. Slóðin er HÉR

Á myndinni að neðan sjást þessar steyptu undirstöður betur. Mögulega hefur staðið þarna einhvers konar síló sem mölunarsamstæðan hefur veitt vikri í. Úr því hefur efnið svo verið flutt áfram niður á brúnirnar ofan þorpsins.



Eftir að hafa reynt að átta okkur á ferli vikursins uppi við Stapafellið og flutningi hans lengra niðurávið færðum við Bassi bílinn niður að þjóðvegi, lögðum honum þar og gengum niður hraunið að klettabrúninni þar sem neðri mölunarvélasamstæðan hefur verið. Það þurfti ekki miklar vangaveltur til að átta sig á hvar vikurstokkurinn hafði staðið - með reglulegu millibili mátti sjá spýtnabrak í smáhrúgum og víða mátti sjá dálitlar vikurrendur í lynginu, þar sem stokkurinn hafði lekið.  





Á þessum hraunkambi sem sést hér að neðan, hafði stokkurinn staðið og lekið talsvert eins og sjá mátti. Röndin náði nokkuð langt niðureftir og var samfelld, að kalla mátti.



Þarna á klettabrúninni stendur svo neðri mölunarvalsinn. Einhverra hluta vegna hefur þótt nauðsyn að mala vikurinn enn smærra þarna, kannski var erfiðara að fleyta fíngerðum vikri langa leið og því tilvalið að nýta síðasta hluta fallhæðarinnar til þess verks. Neðst á myndinni má sjá hluta steingólfs vélaskúrsins, jarðvegurinn hefur með tímanum skriðið inná það og hulið að hálfu. Til hliðar er sveifarás vélarinnar sem knúði valsinn, líklega hefur vélin einhvern tíma brætt úr sér og þurft að skipta um ás. Hér hefur það sama gilt og efra, aflvélin hefur verið fjarlægð en valsarnir ekki. Hversvegna skyldi það hafa verið? Voru einhver not fyrir þessar vélar við önnur verk? Hver veit, kannski voru einhverjir bátar með samskonar vélar, kannski rafstöðvar í sveitum.....



Ég reyndi að gefa einhverja mynd af stærð svinghjólsins á sveifarásnum með því að stilla Bassa upp við hlið þess. Enn er vandamálið það sama, þ.e.  ekki vita allir hversu stór (eða smár) Bassi er. Ég get allavega fullyrt að ég treysti mér ekki til að koma þessum sveifarási um langan veg með handaflinu einu og er þó enginn væskill.

Kennslustund í vélfræði 101: Lengst til vinstri á ásnum er reimahjólið, sem sneri drifreiminni á valshjólið. Þarnæst kemur tímahjól með kömbum sem stjórnuðu olíuinnspýtingu og inn / útblástursventlum. Þá höfuðleguhluti ássins, sveifin fyrir stimpilstöngina (þetta hefur verið eins strokks vél og ásinn hvílt í tveimur höfuðlegum), aftari höfuðleguhlutinn og svo svinghjólið sjálft.



Frá neðri mölunarsamstæðunni má sjá á landinu hvar stokkurinn hefur staðið. Í höfnina á Arnarstapa ber stórt sumarhús með ljósgráu, lítið hallandi þaki. Að því liggur röndin og húsið stendur í raun í miðri flutningsleiðinni, enda seinni tíma smíð. Við vinstra húshornið má sjá nokkuð háan steinvegg sem ber í grjótgarð hafnarinnar. Þetta er hluti þróarinnar sem geymdi unninn vikurinn og úr þrónni var honum dælt um slöngur út í flutningaskip sem lögðust við ból skammt undan ströndinni. Um borð í þeim var skilja sem skildi vatn frá vikri, vatnið rann fyrir borð en vikurinn í lestina. Skipin fluttu svo vikurinn til Reykjavíkur þar sem úr honum var unnið byggingaefni, hleðslusteinar og milliveggjaplötur. 



Þessum valsi, sem eitt sinn fínmalaði byggingarefni úr Snæfellsjökli svo tonnum skipti, snýr enginn lengur. Hann er algerlega fastur. Ástæða þess er aðeins ein: Að þessum stað liggur enginn slóði, engin gönguleið. Hingað koma fáir og líklega er afar sjaldgæft að nokkur leggi hönd á þennan vals til að prófa..........

....hvað þá framloppu!



Að síðustu má geta þess, ef einhvern langar að fræðast frekar um vikurvinnsluna, að á flestum bókasöfnum má fá bók sem heitir: "Veröld stríð og vikurnám undir Jökli". Bókin er eftir Kristin Kristjánsson og inniheldur, eins og titillinn ber með sér, afar fróðlegan kafla um efnið.

Sjá nánar HÉR  og HÉR
Flettingar í dag: 316
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79143
Samtals gestir: 18486
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 15:33:15


Tenglar