Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


06.11.2011 17:11

Af stað í stefnuleysi - annar hluti.

Er ekki rétt að reyna að koma þessarri ferðafrásögn frá fyrstu septemberhelginni eitthvað áfram?

Þegar fyrsta hluta lauk vorum við Bassi staddir við Hreðavatn, þ.e. vatnið sjálft og vegurinn lá fyrir austurenda vatnsins undir háum, trjávöxnum ási. Þessi ás hefur á kortinu mínu ekkert sérstakt nafn, eitthvað hlýtur hann þó að heita. Vegurinn var örmjór en umferð um hann var lítil, a.m.k. var engan bíl að sjá í grennd. Áfram lá vegurinn norðan við vatnið og meðfram því spöl til vesturs en greindist fljótlega í tvennt. Á skilti við þann spottann er lá áfram með vatninu stóð "Jafnaskarðsskógur". Á öðru skilti, við hina leiðina sem lá skáhallt upp hálsinn stóð "Jafnaskarð".

Ég var eiginlega engu nær um hvað Jafnaskarð væri, hvort það væri býli eða skarð í einhverja kletta. Það var aðeins ein leið til að komast að því, við Bassi ákváðum (hann virtist raunar frekar áhugalaus um framhaldið) að velja leiðina sem merkt var því nafni. Við lögðum því af stað upp ásinn, þó ekki án þess að stoppa á góðum útsýnisstað og mynda yfir umhverfið. Þessi mynd er semsagt tekin úr ásnum til suðvesturs yfir Hreðavatn:



Á næstu mynd er horft til baka (til suðausturs, að Grjóthálsi)  frá sama stað og fyrir miðri mynd má sjá til húsa að Bifröst:



Þetta reisulega sumarhús stendur á tanga sem skagar útí Hreðavatn norðanvert:



Eftir þessar myndatökur héldum við áfram brekkuna. Einum bíl mættum við, honum ók kona sem var nægilega fimur ekill til að sneiða nettlega hjá ferðadrekanum við aðstæður sem hefðu fengið flestar kynsystur hennar til að jesúsa sig í bak og fyrir. Þegar svo upp var komið lá vegurinn yfir ásinn í gegnum þessi trjágöng. Mér þótti þessi yfirsýn eitthvað svo "erlendis", að mér fannst eitt augnablik að ég væri kominn aftur til Skotlands. Þar ókum við Elín Huld á svipuðum vegum vorið 2006, en fararskjótinn þá var ekki Ford Econoline 4x4 heldur Ford Focus station.



Gegnum trjágöngin ókum við, þarnæst utan í dálítilli hraunhæð og norður fyrir hana. Þar opnaðist útsýni til vatns sem kortið okkar sagði heita Selvatn. Þetta vatn er ekki stórt og hvergi var veg að sjá við það. Á myndinni hér neðar er austurendi þess:



....og hér er vesturendinn. Þarna uppi í trjágróðrinum var hús, nokkuð stórt. Ekki var það merkt á korti en af máðum og illlæsilegum skiltum við veginn mátti skilja að það væri hluti umfangs Skógræktar ríkisins á þessum slóðum.



Þarna, við vesturenda Selvatns var hlið á veginum. Engin bannskilti sá ég þó við það og giskaði því á að um væri að ræða einhvers konar sauðfjárhlið. Opnaði, ók í gegn og lokaði að baki. Ók áfram og var staddur í einhverri óþekktri náttúruparadís. Þarna var einstaklega fallegt, bæði gróður, klettar, gil og lautir af öllum stærðum, gerðum og lögunum.




Vegurinn lá til vesturs, nokkru norðar en þó eiginlega samsíða þjóðvegi eitt sem sást ekki en mátti þó sjá hvar lá af kennileitum í kring. Dalverpi opnaðist til vesturs og við blasti sveitabær. Ekki sýndist mér, svona séð gegnum kíki, að búið væra þarna fastri búsetu þó húsakostur væri þokkalegur. Upplýsingar á kortinu bentu til að þarna væri býlið Jafnaskarð, og þar með var fengin skýring á vegskiltinu niðri við þjóðveg eitt. Einhvern veginn finnst mér þó að býlið hljóti að heita eftir einhverju náttúrukennileiti, en heiti ekki Jafnaskarð "bara út í loftið". Kannski finnst einhver einhverntíma sem veit þetta betur.



Vegurinn bar okkur að þessu hliði. Ekki var um aðrar leiðir að ræða og því ljóst að öll þessi leið, frá Hreðavatni og hingað var aðeins heimtröð að þessum sveitabæ, Jafnaskarði. Á sínum tíma hefur verið vandað til hliðstólpanna, stillt upp með bárujárni til að fá þetta sérstaka útlit og svo steypt í. Með árunum hafa jarðvegshreyfingar skekkt þessa vönduðu stólpa svo hliðið var orðið þreytulegt. Það var hins vegar ekkert þreytulegt við þetta glæsilega skilti sem fest var á það. Ég las orðin sem brennd voru í viðinn og gat ekki stillt mig um að hlæja upphátt, einn með sjálfum mér þarna úti í "buskanum" (Bassi var sumsé inni í bíl).  Það rifjaðist nefnilega upp fyrir mér tíu ára gömul örmynd af rauðum, tuttugu feta gámi neðan vegar undir Eyjafjöllum. Við hann var gerði, í gerðinu stóðu nokkrar rauðar beljur. Á hlið gámsins var viðvaningslega málað stórum, hvítum stöfum: "RENT A HORSE". Þegar útlendingar eru annars vegar má reyna allt!



Í sviga hér ofar nefndi ég að Bassi hefði beðið inni í bíl. Á því er sú skýring að innan sjónmáls voru nokkrar kindur. Þegar kindur eru annars vegar er ekki ráðlegt að hafa Bassa í grennd við þær, hvorki bundinn né óbundinn. Óbundinn hyrfi hann geltandi út í buskann með kindahóp á undan sér, bundinn gæti hann fengið hjartaáfall af æsingi. Ég veit ekki hvers vegna þetta er svona, hvort hann finnur til skyldleika (kindurnar eru jú krullaðar eins og hann) eða hvað það er, bitur reynsla hefur kennt mér að hafa hann innilokaðan þega kindur eru annars vegar.

Þarna við "rent a horse" hliðið snerum við ferðadrekanum og ókum til baka að Hreðavatni. Þar sem vegurinn klofnaði beygðum við inná hlutann sem merktur var "Jafnaskarðsskógur" og ókum vestur með vatninu, framhjá sumarhúsinu reisulega sem áður var myndað og sem leið lá inná lítið bílaplan. Þar endaði akfær slóð en merktar gönguleiðir lágu útífrá. Nokkrir bílar voru fyrir á stæðinu og mátti sjá fólk í berjamó milli hávaxinna trjáa. Þarna var tilvalið að borða nesti og ég reiddi fram krásir úr kælinum fyrir okkur Bassa. Að þeim loknum gengum við um skóginn, heilsuðum uppá fólk, tíndum ber (aðallega annar okkar þó) og sprændum utan í tré (aðallega hinn þó).



Það saxaðist á daginn og enn var ekki að sjá neina gleði yfir Baulu. Þar var sama þokufýlan og mátti eiginlega afskrifa Haukadalsskarðið þessa helgina. Ekki vildum við Bassi þó keyra alla leið heim, vildum frekar reyna að nýta ferðina eitthvað betur. Við vangavelturnar skaut upp kollinum ferðaplan sem hljómaði hreint ekki illa - þ.e. að aka upp sveitir, yfir Bröttubrekku og um Skógarströnd út í Stykkishólm. Heimsækja Löllu og Gulla eins og oftast er gert þegar leiðin liggur í Hólminn, aka síðan út í Grundarfjörð undir nóttina og gista þar á tjaldsvæðinu aðfararnótt sunnudags. Svæðið í Grundarfirði er innan Útilegukortsins og því upplagt að nýta það. Nota svo sunnudagsmorguninn í rannsókn á líki Econoline-húsbíls sem liggur þar undir húsvegg og innihélt nokkra álitlega húsbílshluti. Aka síðan út í Ólafsvík og þaðan yfir Jökulháls ef veður leyfði, annars yfir Fróðárheiði og heim.

Ég bar þessa áætlun undir Bassa sem horfði á mig sínum hundsaugum og hallaði undir flatt. Hann hreyfði engum mótmælum, enda minn uppáhalds ferðafélagi. Honum þótti ágætt að leggja sig á leiðinni yfir Bröttubrekku, enda þokan rétt í þakhæð og engar kindur að sjá, og rumskaði ekki fyrr en beygt var út á Skógarströnd. Hann sat svo eins og herforingi í aftursætinu við gluggann allt þar til ég stöðvaði bílinn á kvöldmatartíma nærri kirkjustaðum Breiðabólstað. Þaðan var ágætt útsýni til arnarslóðanna sem ég sigldi um í haust með Sigurði Bergsveinssyni og greint var frá í ÞESSUM pistli.  Við þetta útsýni hituðum við Bassi vatn í bollasúpu og kaffi,  og smurðum brauð með kjötáleggi - uppáhald okkar beggja.

Eftir ágætan kvöldverð var ekið í Hólminn og meira kaffi drukkið yfir bátaspjalli hjá Gunnlaugi Valdimarssyni Rúfeyingi, þúsundþjalasmið með meiru. Það var komið svartamyrkur þegar ferðadrekanum var á ný beint út Snæfellsnes og nú í átt til Grundarfjarðar. Þar var tjaldsvæðið óupplýst og þrátt fyrir nokkra leit fann ég ekki hreinlætisaðstöðuna. Á svæðið kom einnig GrandCherokee jeppi sem hringsólaði, kannski í sömu erindagerðum, kannski var ekill hans bara að kanna hvað þessi ókunni Econoline væri að sýsla. Allavega fannst ekki aðstaðan og þegar ég ætlaði að hafa tal af Cherokee-eklinum hvarf hann skyndilega af vettvangi og sást ekki meira. Það var því ekki margt um að velja. Við Bassi ákváðum að aka út í Ólafsvík og freista þess að komast þar í brúklega aðstöðu á tjaldsvæðinu, sem einnig var innan Útilegukortsins. Econoline-flakskoðun morgundagsins var því slegið á frest að sinni. Í Ólafsvík var allt í standi, og fyrir á svæðinu var eitt útlent par í tjaldi og einn Yaris bílaleigubíll því tilheyrandi. Það fór vel um okkur Bassa um nóttina, veðrið var milt og þokkalega kyrrt og Bassi nýtti sér þau forréttindi sín - þ.e. þegar konan er ekki með í för - að skríða hálfur undir teppið mitt og kúra þar næturlangt. 



Sunnudagurinn bar svo með sér ævintýri sem ekki verður sagt frá fyrr en í þriðja og  síðasta pistli....

Flettingar í dag: 376
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79203
Samtals gestir: 18492
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 17:20:03


Tenglar