Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2020 Ágúst

31.08.2020 10:16

Vesturferð 4. - 11. júlí 2020

Laugardagur 4. júlí. Lagði af stað úr Reykjavík með kerru og mótorhjól um Dali og Bjarkalund, og um Hálsa í Flókalund. Ferðinni var heitið til Patreksfjarðar, þar sem bílnum skyldi lagt við tjaldsvæðið nokkrar nætur meðan hjólið yrði brúkað til ferðalaga um merkisslóðir í nágrenninu. Ferðin var tíðindalaus í Flókalund, þrátt fyrir leiðinlega malarkafla yfir hálsana, Ódrjúgs-og Hjalla-. Í Gufufirði var aðkoma að brú í botni fjarðar svo mishæðótt að allt ækið, bíll, kerra og hjól, fékk högg og hentist til. Í speglunum var þó ekki annað að sjá en að allt væri á sínum stað svo ég hélt áfram án þess að kanna neitt frekar. Þegar ég svo áði í Flókalundi og hugðist fá mér kvöldmat kom í ljós að gafl kerrunnar hafði  - einhversstaðar á leiðinni - opnast til hálfs, og glerfín, nýsmíðuð rennibraut fyrir hjólið var horfin. Líklegt þótti mér að gaflinn hefði raskast á leið yfir holótta hálsana, en þó enn líklegra að hoppið í Gufufirði væri ástæðan. Allt um það, ekki var um annað að velja en snúa við og aka til baka, svo langt sem þyrfti til að finna rennuna. Einhversstaðar hlaut hún að liggja og ég vonaði tvennt: Að enginn hefði lent í að aka á hana liggjandi á veginum og skemmt bílinn sinn, og svo hitt að sá hinn sami - eða einhver annar - hefði ekki tekið brautina og fleygt henni út fyrir veg. Þá gæti orðið þrautin þyngri að koma auga á hana. Ég ók í fúlu skapi fyrir Vatnsfjörð, Hjarðarnes, Kjálkafjörð, Litlanes og - viti menn! Þegar ég ók inn á brúna yfir Mjóafjörð (inn af Kerlingarfirði) lá þar eitthvað torkennilegt á veginum sem sást talsvert langt að. Þegar nær dró sást að þar var komin rennan mín góða, liggjandi þvert yfir aðra akreinina. Hún reyndist óskemmd með öllu, utan smáhrufl eftir bíl sem greinilega hafði ekið yfir hana. Til allrar hamingju hafði stjóri hans hins vegar ekki stöðvað til að fjarlægja þennan tveggja metra langa aðskotahlut af veginum, og í því lá mín heppni. Ósegjanlega feginn kippti ég rennunni upp á kerruna opg gekk nú betur frá henni en fyrr. Eftir 10-15 mínútna akstur var ég aftur kominn í Flókalund og gat pantað og etið minn hamborgara sáttur og sæll.

Eftir matinn var haldið áfram til Patró og komið þangað á miðju kvöldi. Ég fann ágætan stað fyrir bílinn og kerruna við tjaldsvæðið og við tók gönguferð um bæinn í einmunablíðu. Það var svo afskaplega notalegt að leggja sig um kvöldið því veðurspá sunnudagsins var afar hagstæð til ferðalaga.


Sunnudagurinn 5.júlí heilsaði með sólskini, líkt og lofað hafði verið. Hjólinu var snarlega kippt af kerrunni, svo var snarast í gallann og lagt af stað um níuleytið að morgni. Ég hjólaði/ók fyrir Patreksfjörð með stuttri við komu í Skápadal, þar sem Garðar gamli er óðum að verða ryði að bráð. 


Svo lá leiðin um Skersfjall til Rauðasands og út að vestasta bæ, Lambavatni. Þar býr vinafólk sem nauðsynlegt var að heilsa upp á, en að sjálfsögðu voru allir í önnum þótt sunnudagur væri, enda yfirstandandi heyskapur og svo gefa mjólkandi kýr í fjósi engan afslátt af sínum venjum og þörfum! Viðstaðan var því stutt það augnablikið, áður en haldið var áfram áleiðis út að Skaufhól með stefnu á fyrrum býlið að Brekku.
Þangað er greið leið út fyrir Skaufhól en utar liggur slóðin að hluta í sandi og sandur er ekki gott undirlag fyrir mótorhjól. Ég elti hjólför eftir bíl meðan þeirra naut, enda sandurinn stífari í hjólförum. Svo urðu þau ógreinilegri, ég tapaði slóðinni og augnabliki síðar sat hjólið jarðfast í sandinum. 


Til að losa það og snúa varð að leggja það á hliðina og snúa því flötu, sækja svo spýtnabrak ofar á sandinn (þar sem var rönd af rusli eftir síðasta stórbrim á háflóði), leggja timbur undir standara og dekk og reisa hjólið upp aftur. Með því að þjappa með fótunum rönd fyrir framhjólið tókst að komast af stað að nýju og til baka að bílförunum. Þar með var björninn unninn en út að Brekku fór ég ekki í þetta sinn.


Skaufhóll "gnæfir" eina 35 mtr. yfir utanverðan Rauðasand en vegna flatneskjunnar er útsýni af honum stórkostlegt. Ég lagði af stað í fyrstu "fjallgöngu" sumarsins og var hróðugur að komast upp án þess að fá hjartaáfall. Síðast kom ég á Skaufhól árið 1987 en útsýnið var nokkuð það sama og "styttan" af Ólafi heitnum Thors stóð á sínum stað.







Það var komið hádegi þegar ég kom aftur að Lambavatni og þessi "frábæra" tímasetning afturkomunnar færði mér skyr og brauð í hádegismat hjá því öndvegisfólki sem þar býr. 



Eftir kveðjur og þakkir var Hondan ræst og haldið á hinn vegarendann, þ.e. Melanes, innst við Rauðasand. Þar er rekin gistiþjónusta, tjaldsvæði og lítil nestis-  og "gleymskuvöru" verslun þar sem kaupa má kaffi. Ég nýtti mér það og uppskar ágætis spjall við Ástþór bónda og konurnar í afgreiðslunni. Í nesti keypti ég mér svalafernur og pakka af Ritzkexi, sem síðar kemur við sögu. Vegna sólarhitans var ekki mögulegt að geyma neitt á hjólinu sem gat bráðnað og því var súkkulaðikex útilokað.





Svo var enn ræst og lagt af stað í næsta áfanga. Rauðisandur kvaddur og hjólað til baka um Skersfjall og Skápadal að mótum Kleifaheiðar. Þar var beygt upp á heiðina og hjólað sem leið lá yfir á Barðaströnd. Við vegamót sunnan heiðar sem áður voru merkt "Siglunes" en eru nú ómerkt, var beygt út á afleggjarann og haldið lengra út eftir Barðaströnd, þar sem ekki er talin "alfaraleið". Vegurinn liggur fyrir Haukabergsvaðal og vestan við hann í átt til sjávar aftur. Undir Skriðnafellsnúp beygir vegurinn til suð-suðvesturs í átt til Sigluness, sem á myndinni sést í fjarska. Þar var vegarendi og honum skyldi náð.

 

Á Siglunesi var fyrrum búið góðu búi á a.m.k. þremur bæjum. Útræði var einnig mikið enda stutt á góð mið, og haft var á orði að " ...sá sem frá Siglunesi rær, landi nær"  Nú eru á Siglunesi aðeins tóftir og steypt veggjabrot, utan einnar hlöðu sem þokkalega stendur og kofarústar við sjóinn. Við aðkomuna að nesinu hefur verið reist minnismerki um síðustu ábúendur. Á grundunum innan nessins er haganlega hlaðin fjárrétt, eftirtektarverð fyrir þráðbeinar línur. 











Eftir stutta göngu og nesti að Siglunesi var haldið til baka  inn strönd. Farið var hjá eyðibýlinu Hreggstöðum, sem virtist í þokkalegri hirðu, og innan þess stóð stór skemma við veginn. Líklega var hún leifar fyrrum grásleppuvinnslu, en sá tími var greinilega liðinn og þessi verklega bygging grotnaði smám saman, hurðir skakkar og gler sprungið.




Svo lá leiðin til baka um Kleifaheiði til Patreksfjarðar og út Raknadalshlíð út í bæ. Ég átti eftir að ganga frá leigunni á náttstæðinu fyrir bílinn til þriggja nátta og kaupa mér eitthvað í gogginn. Að því frágengnu var enn haldið af stað, nú um Mikladal til Tálknafjarðar þar sem mig hafði um árabil langað að koma út á Suðureyri, sunnan fjarðar. Á Suðureyri eru talsverðar minjar um hvalstöð sem þar stóð á fyrstu áratugum síðustu aldar, og mig hafði lengi langað að skoða þessar minjar. Sjá: https://www.westfjords.is/is/westfjords/index/the-deserted-whaling-station-in-sudureyri-1

Leiðin út með Tálknafirði sunnanverðum er afar falleg. Mikil skógrækt er á jörðinni Hvammeyri og enn utar er jörðin Lambeyri. Þegar þangað var komið tóku á móti mér tveir heimalningar sem komu hlaupandi að hjólinu og vildu gjarnan þiggja eitthvað góðgæti. Því miður átti ég ekkert handa þeim nema Ritzkexið frá Melanesi (sem áður var áminnst) en þegar ég opnaði pakkann, sem eðli málsins samkvæmt var búinn að ferðast frá Melanesi yfir Kleifaheiði, út á Siglunes og til baka á Patró og síðan út ekkialltofgóðan veginn í Tálknafirði, þá reyndist innihaldið aðeins musl. Lömbin hnusuðu, hristu hausinn en sneru sér svo við og gáfu skít í mig í bókstaflegri merkingu. Litskrúðurar landnámshænur í nágrenninu sýndu meiri kurteisi og hámuðu í sig mylsnuna. Ef saltbragð var af eggjunum næstu daga veit ég hverju er um að kenna.....








Þegar út að Suðureyri kom blasti við skilti:



Það hafði tekioð mig mörg ár að manna mig upp í að fara út á Suðureyri og skoða leifar hvalstöðvarinnar - ýmist var tíminn of naumur, farartækið ekki rétt eða eitthvað annað sem hamlaði. Auk þess hef ég alls ekki verið á þessum slóðum á hverju sumri, langt því frá. Svo loksins, þegar allt féll saman, var búið að loka eyrinni fyrir ferðamönnum. Ég settist á stein ofan við keðjuna og át nestið mitt, volgan Svala og rest af Ritzmylsnu.




Það var ekki um annað að velja en að halda til baka með skottið milli lappanna. Á leiðinni til baka myndaði ég safnið hans Stefáns heitins á Innari - Lambeyri (eða svo vildi hann kalla slotið)  Stefán á Innari - Lambeyri vildi gjarnan láta líta á sig sem "sérvitring". Ég var dálítið kunnugur honum og hefði notað annað orð. Stefán lýsti húsið sitt með heimagerðri rafstöð í bæjarlæknum. Þótt hann sjálfur sé genginn virtist rafstöðin ágætlega virk, því á sólbjörtu sumarkvöldi logaði ljós í stofu....




Ég myndaði einnig fleiri kofa á ströndinni, svo og hluta skógræktarinnar að Hvammeyri.





Mér fannst tilvalið að renna aðeins út í þorpið Sveinseyri við Tálknafjörð og athuga opnunartíma sundlaugarinnar. Hann reyndist rúmur svo ég sneri við, skrúfaði frá öllum 37 hestum gulu Hondunnar og þeysti yfir á Patreksfjörð eftir sundfötunum. Síðan aftur um Mikladal til Tálknó og í sundlaugina. Þar náði ég tæpum klukkutíma í pottinum og fróðlegu spjalli við Bílddæling sem um árabil var Ísfirðingur í ábyrgðarstöðu auk þess að sitja á alþingi. Hann er nú kominn á eftirlaun og loks "frjáls" eins og félagi hans á Bíldudal söng og syngur enn.

Heimferðin til Patró eftir pottleguna var tekin rólega enda kvöldblíðan einstök og tækifærið var notað til að líta á gamlan skíðaskála á Mikladal, þar sem fátt var eftir af fyrri tíma fögnuði...




Mánudagurinn 6. júlí hófst og endaði á sólskini. Ég lagði snemma af stað því framundan var löng dagleið. Eins og daginn áður hjólaði ég fyrir Patreksfjörð og um Skápadal að Hvalskeri. Nú var hins vegar ekki beygt upp á Skersfjall heldur haldið áfram út ströndina. Fyrsti viðkomustaður var eyðibýlið að Vatnsdal, innan Örlygshafnar. Ég hafði um árabil ætlað að koma þar við en aldrei orðið úr fyrr en nú. Í Vatnsdal bjó Guðmundur Kristjánsson, áður í Breiðavík og einn þeirra sem tóku þátt í björgunarafrekinu við Látrabjarg 1947. Mikil saga er honum tengd, sem að hluta má lesa um í "Þrautgóðir á raunastund", 3 bnd. bls. 229-232.  Þessi saga dró mig að Vatnsdal og ég myndaði býlið til minningar:

 




Frá Vatnsdal hélt ég áfram um Örlygshöfn ( en sleppti safninu að Hnjóti) og allar götur út í Kollsvík. Þar kannaðist ég við fyrrum ábúendur og eftir að hafa rennt út að hinu býlinu í víkinni, Láganúpi, sem er á vegarenda, þáði ég kaffisopa í Kollsvík.





( Á myndunum hér að ofan er Láginúpur fyrst, þá sýn frá Láganúpi inn eftir víkinni og loks sést til býlisins að Kollsvík. Á hvorugum bænum er lengur veturseta)

Eftir kaffið í Kollsvík hélt ég til baka um Hænuvíkurháls og myndaði yfir samnefnda vík, þar sem sér alla leið inn til Patreksfjarðar, þ.e. þorpsins. Á neðri myndinni sér til Sellátraness og Ólafsvita, sem lesa má nokkur orð um HÉR




Næst á dagskrá var Breiðavík. Þar hafði ég aðeins ekið hjá á leið að og frá Látrabjargi, en aldrei komið við. Nú skyldi úr því bætt og ég renndi í hlað. Gekk frá hjólinu, lagði frá mér þann hluta gallans sem ég gat verið án, þ.e. efri hlutann, og gekk til húss. Mig langaði í kaffi sem var auðfengið, en móttökurnar voru slíkar að ég mátti til að dvelja aðeins lengur og pantaði mér því mat þótt komið væri talsvert fram yfir hádegi. Allt var þarna ákaflega fínt, hreint og snyrtilegt og móttökurnar ekkki ólíkar því sem týndi sonurinn hefði loks ratað heim....





Að "hádegismat" loknum var enn hjólað af stað, um Hvallátra til Bjargtanga. Þar voru nokkrir ferðamenn fyrir, þó eflaust ekki nema lítið brot þess fjölda sem á þessum tíma sækir staðinn í óbreyttu árferði. Ég gerði líkt og í Breiðavík, lagði hjólinu og fleygði frá mér þeim fötum sem ég mátti vera án, því hitinn var nær óbærilegur annars. Á bjargbrúninni stóu nokkrir lundar og virtu fyrir sér mannfólkið af ámóta forvitni og þeir voru sjálfir skoðaðir. Mér fannst líka stórmerkilegt hvað mávarnir (þó aðallega fýllinn) gat haldið sér á litum syllum í berginu, jafnvel með tvo stálpaða unga með sér. Ungarnir virtust reyndar aðallega halda sig undir foreldrinu en fyrirferðin var samt talsverð. Þetta var ótrúlegt að horfa á og ég eyddi talsverðum tíma í vangaveltur um rýmisgreind fugla. Hávaðinn var líka gríðarlegur og það má alveg minnast á "ilminn" sem lagði fyrir vit þegar gengið var nærri brúninni og golan stóð af henni í andlit.










Eftir gönguferð um bjargbrúnina lagðist ég í sólbað dálitla stund, því ég bókstaflega kveið því að klæðasta gallanum að nýju og halda af stað. Það kom þó að því að ekki mátti dvelja lengur, dagurinn flaug áfram og enn var margt eftir að skoða. Ég lagði af stað að nýju en milli Hvallátra og Breiðavíkur beygði ég inn á afleggjara sem liggur 12 km. til suðausturs, til Keflavíkur yst á Rauðasandi. Vestan Keflavíkur er Keflavíkurbjarg sem einnig er austasti hluti samstæðunnar sem í daglegu tali er kölluð Látrabjarg. Í Keflavík er mikil náttúrufegurð, þar var áður býli og útræði. Nú er þar ágætt björgunarskýli, Guðrúnarbúð. Vegurinn liggur um heiði, þar sem heita Stæður og var ágætur framan af en versnaði til muna er nær dró brúnum Keflavíkur. Niður í sjálfa víkina og að skýlinu var hálfgerð torfæra en gekk þó ágætlega. Göngufólk var við skýlið en hvarf fljótlega til heiða og eftir það átti ég heiminn einn.....












( Mér fannst útrunni súpupakkinn sérstaklega skemmtilegur, ekki vegna ártalsins heldur dagsetningarinnar, sem var afmælisdagurinn minn. Þennan dag átti ég sextugsafmæli)

Á leiðinni til baka um Stæður, tók ég eftir skilti sem vísaði með afleggjara til suðurs og stóð á "Geldingsskorardalur" Ég vissi að sá dalur hafði komið mikið við sögu við björgunarafrekið 1947 og mátti til að líta þangað. Kaflinn er innan við tveir kílómetrar og vegurinn þokkalegur en upplifunin - þ.e. fyrir þann sem einhvern áhuga hefur á sögunni - var einstök.






Svo lá leiðin til baka til Breiðavíkur, um Örlygshöfn og Hafnarmúla ( þar sem ég leit aðeins á leifarnar af Sargon, sem enn sjást) og allar götur til Patreksfjarðar. Það var farið að halla frábærum degi og hungrið farið að sverfa að. Ég skellti mér í heita pottinn í sundlauginni og pantaði mér svo pizzu á veitingastaðnum "Vestur" sem stendur nærri tjaldsvæðinu. Ég gat því lagst til svefns í sjúkrabílnum saddur og sæll með enn einn vel heppnaðan ferðadag. Á morgun tæki annar við....

Þriðjudagur 7. júlí.  Veðrið á Patró var ekki það sama þennan morguninn. Það var lágskýjað, hálfkuldalegt og hann blés stíft inn fjörðinn. Hjólið var komið á kerruna, allt var ferðbúið. Ekki átti þó að ferðast langt í fyrsta áfanga, heldur aðeins yfir Mikladal, um Tálknafjörð og Hálfdán til Bíldudals. Þar skyldi hjólið tekið af og hjólað um Ketildali út í Selárdal. Þegar til Bíldudals kom varð strax ljóst hvert Patreksrjarðarsólin hafði farið. Hún hafði aðeins verið árrisulli en ég og var þegar komin á undan mér til Bíldudals. Ég bjóst til ferðar í Spánarveðri.



Frá Bíldudal eru aðeins 25 km. út í Selárdal, allt á malarvegi og þótt hann væri ágætur á köflum voru aðrir kaflar hans aðeins þeim mun verri, holóttir og ósléttir. Hjólið finnur sem betur fer ekki mikið fyrir slíku og það leið ekki á löngu þar til ég stöðvaði á kambinum neðan ysta bæjar í Selárdal, Króks. Næsti bær innan við Krók er Skeið, eða Kolbeinsskeið. Ég skoðaði bæinn árið 2012 því þá voru uppi áform um að endurbyggja hann. Nú var því lokið, en reyndar skilst mér að gamli bærinn hafi verið svo illa farinn að ekki hafi þótt gerandi að byggja hann upp. Húsið sem nú standi sé því endurgerð þess gamla á sama grunni. Hvort sem er, er sómi að húsinu. Það gamla má m.a. sjá HÉR. Ég má svo til að setja hér fyrst myndir sem ég tók af húsinu sumarið 2012:




....og svo þær sem ég tók í sumar. Eins og sjá má er vel að verki staðið:




Að Brautarholti, listasafni Samúels Jónssonar bónda og listamanns, hafði mikið starf verið unnið. Sumarið 2012 var útlitið svona:




Í sumar hafði risið þarna endurbyggt hús, nær fullbúið utan sem innan. Í því var upplýsingamiðstöð og kaffisala, sem ég nýtti mér auðvitað:






Mér var sagt að næst lægi fyrir að endurnýja næpuna á kirkjunni, þar sem hún væri orðin illa farin af fúa. Ekki þarf að efast um að það verði gert af sama myndarskapnum og annað sem unnið hefur verið á staðnum, í sjálfboðavinnu og fyrir frjáls framlög.
Ég fór ekki fram að Uppsölum í sumar. Þangað fór ég sumarið 2012 og þá var húsið opið forvitnum ferðalöngum. Að Brautarholti var mér sagt að þar hefði ekkert breyst utan hvað húsið væri nú læst. Ég átti því þangað ekkert erindi heldur dólaði til baka inn strönd. Næst á dagskrá var að líta á eyðibýlið að Austmannadal. Á leið úteftir hafði ég hitt þar tvær konur og í stuttu spjalli sögðu þær mér að húsið væri ákaflega áhugaverð bygging. Húsið stendur niðri á sjávarbökkum, talsvert neðan vegar svo ég lagði Hondunni og gallanum neðan vegarkantsins og rölti niðureftir. Þær höfðu síst dregið úr, konurnar. Húsið er ekki beinlínis steypt, heldur hlaðið úr óreglulegu grjóti sem límt er saman með steypu. Yfir dyrum og gluggum var flatjárn til styrktar og neðri hæð hafði verið vel manngeng enda vistarverur þar að sjá. Kjallaraveggirnir voru hlaðnir þykkri en ofar og á þykktarmuninum hafði hvílt fótstykki gólfsins á efri hæð. Svo var einnig að sjá að sitthvor hleðslumeistarinn hefði hlaðið langveggi og gafla, því langveggir voru næsta sléttir að innan meðan gaflarir voru mjög hrjúfir og ójafnir. Allt húsið hefur svo verið þiljað innan með timbri og klappað utan með steypulagi líkt og pússning væri. 












Eitthvert nesti átti ég í töskunni og að lokinni skoðunarferð um þetta sérkennilega býli var gott að svala sér aðeins. Svo var enn haldið af stað og næst var myndað eyðibýlið að Bakka í Bakkadal, dálitlu innar en Austmannadalur:



Þegar inn á Bíldudal kom var enn sami hitinn og lognið. Ég gekk frá hjólinu á kerruna, hafði fataskipti og rölti upp í bæ. Talsvert var af ferðafólki og það var biðröð eftir hressingu í búðinni. Allt hafðist þó með þolinmæðinni og ég settist út á verönd með nestið mitt:


 


Svo var rölt til bíls og á leiðinni teknar nokkrar myndir af bænum...






Það var farið að síga á daginn þegar ég lagði af stað á ný. Nú var förinni heitið á fyrrum heimaslóðir, til Ísafjarðar. Þar voru Áróra mín og afaskottið Emma Karen í heimsókn og ég hugðist heilsa upp á þær. Á leiðinni til baka var litið um öxl af Hrafnseyrarheiði sem brátt heyrir sögunni til.



Klukkan var farin að nálgast kvöldmat þegar ég renndi í bæinn "heima". Á Ísafirði skyldi hvílst tvo sólarhringa áður en ekið yrði um Djúp og Steingrímsfjarðarheiði til Drangsness. Þar skyldi bíllinn standa meðan ég þræddi norður Strandir á Hondunni. Sú saga kemur næst.

  • 1
Flettingar í dag: 67
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135034
Samtals gestir: 27844
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:37:59


Tenglar