Myndin hér að ofan er, eins og sjá má, tekin á gamlársdag fyrir 22 árum. Síðan hefur allt það frosna vatn sem á myndinni sést, runnið til sjávar og nýtt komið í staðinn - aftur og aftur og aftur. Þannig verður það löngu eftir að við báðir, ég sem myndina tók og ólafsfirski tannlæknirinn sem fyrir situr, verðum horfnir. Sýnin yfir Önundarfjarðarfjöllin til suðvesturs á vonandi eftir að lifa margar kynslóðir enn....
...og nú er það svo gott sem búið, þetta yfirstandandi ár, tvöþúsundog sextán.
Mér finnst reyndar óskaplega stutt síðan það hófst. Getur verið að búið
sé, svo lítið beri á, að stytta árin? Mér hefur fundist þetta nokkur undanfarin
ár en hef ekki fundið neina áþreifanlega ástæðu. Kannski er eðlilegt að eftir
því sem árin færast yfir mann sjálfan finnist manni þau líða hraðar. Ég er ekki
viss, því ár hafa verið að færast yfir mig svo lengi sem ég man - eitt í
einu. Nú telja þau fimmtíuogníu og góðu hálfu
betur. Ég verð sextugur eftir fimm mánuði!
Einhvern tíma seint á síðustu öld þegar ég var að reikna aldur minn fram
í tímann fann ég það út að árið 2000 yrði ég 43 ára. Þá þýddi það nokkurn
veginn ævilok. Samt hefur mér tekist að
skrimta sextán og hálft ár þar framyfir.
Þann 10. mars
nk. hef ég búið hér í Höfðaborg í fimm
ár - framanaf einn, svo með Áróru minni um tíma en lengst af með syninum. Hér hefur verið afskaplega gott að búa og ekki
er sjáanleg framundan nein breyting á því, hvað sem öllum
skipulags-verðlaunatillögum borgarstjórnar líður. Húsin hér í kringum mig voru ekki sjáanleg á
þeirri tillögu og eiga þá væntanlega að hverfa með tímanum. Ég treysti því á annað efnahagshrun og að ekki
verði hróflað við neinu í nágrenninu meðan mér hentar að búa hér. Líkurnar virðast allgóðar því mér sýnist hrunarkitektar vera á fullri siglingu í þá
átt.
Þetta
gamlárskvöld verður frábrugðið undanförnum að einu, veigamiklu leyti. Frá gamlárskvöldi 2006 hef ég nefnilega lokað
mig inni með hundinum mínum og reynt að veita honum öryggi í sprengjuregninu.
Fyrsta gamlárskvöldið var ég með Mola minn. Hann varð ekki langlífur og á eftir
honum kom Bassi. Gamlárskvöldin 2007-11 héldum við hvor öðrum selskap á
Lyngbrekkunni í Kópavoginum meðan fjölskyldan sótti brennur og skaut upp dóti
utandyra, en síðan höfum við verið tveir einir hér í Höfðaborg á gamlárskvöld
eftir fjölskyldumatarboð úti í bæ. Síðasta gamlárskvöld var Bassi farinn að
venjast nokkuð og var mun rólegri en áður. Ekki grunaði mig þá að það væri
jafnframt síðasta gamlárskvöldið hans.
Bassi var svæfður svefninum langa þann 17. apríl í vor eftir að hafa
orðið fyrir bíl og meiðst illa. Hann varð tíu og hálfs árs, fæddur þann 22. nóv.
2005. Hann var einstakur félagi og er enn saknað á hverjum degi...af fleirum en
mér.
Fleiri góðir
vinir hafa kvatt á árinu, án þess nöfn séu nefnd. Þeirra er ekki síður saknað -
vinahópurinn hefur ekki verið stór en ákaflega góður og því er mikil eftirsjá
að hverjum og einum.
Af
skemmtilegri viðburðum ársins stendur
Færeyjaferð okkar Ásgeirs Jónssonar í júní, uppúr. Ég á enn eftir að skrifa þá
ferðasögu alla en þykir hæfilegt að láta snjóa aðeins yfir viðburði, svo auðveldara
verði að ljúga hlutina dálítið upp!
Þá ber hátt
gríðarlega skemmtilegt ferðalag vestur til Ísafjarðar, þar sem haldið var upp á
150 ára kaupstaðarafmæli í júlí. Vestur fór ég á bláa hjólinu (sem getur allt) og
fékk að hengja tjaldvagninn aftan í bíl vinafólks á sömu leið. Hátíðarhöldin
fóru þó að mestu fyrir ofan garð og neðan því ég notaði tímann og landsþekkta
ísfirska veðurblíðu til að heimsækja gamla staði utan alfaraleiða og slóða sem
ekki voru öllum farartækjum færir. Að hátíð lokinni hjólaði ég suður aftur en
tjaldvagninn fór sömu leið til baka með sömu vinum.
Tveimur vikum seinna vorum
ég og vagninn komnir til Akureyrar ásamt drjúgum hluta fjölskyldunnar, til rúmrar vikudvalar, sem endaði með Fiskideginum á Dalvík. Þangað fór einnig bláa hjólið en var minna
notað en til stóð. Slóðarnir nyrðra eru
þó enn á sínum stað og það kemur sumar eftir þetta....
Stórskipið
Stakkanes var ekkert sjósett í sumar. Fyrir því voru fleiri en ein ástæða.
Sumarið er stutt og mikið af því var skipulagt fyrirfram, þ.m.t. þessir þrír viðburðir sem nefndir eru hér ofar.
Ég seldi ferðabílinn haustið ´15 og átti þá aðeins eftir gamlan Benz sem
þarfnaðist ástar og umhyggju. Fyrir slíkt var enginn tími og nú í haust var
hann búinn undir að verða breytt í nagla í einhverri erlendri verksmiðju. Í
stað hans kom annar stærri og öflugri, sem reyndar þarfnast einnig ástar og
umhyggju. Ég geri ekki ráð fyrir að þeir
fjórir mánuðir sem ég hef til að veita honum hvorttveggja, endist svo líklega
verður annað að duga. Ferðabílsleysið kom m.a. í veg fyrir að ég gæti nýtt Stakkanesið sem skyldi. Stórskipið stendur
því enn á vagninum sínum uppi í Stykkishólmi, niðurnjörvað að því ég best veit.
(nema einhvern hafi vantað spotta enn á ný). Á þeirri dvöl eru þó fyrirhugaðar
breytingar....
Stöðugleiki
er nauðsynlegur, og því á ég ekki von á öðru en að eyða gamlárskvöldinu á sama
hátt og áður, hér innandyra í Höfðaborg. Bassi minn heitinn verður þá með mér í
minningunni, og betri félagsskapur fæst ekki.
Þeim sem lásu
til enda óska ég gleðilegra áramóta og alls hins besta á nýju ári!