.......skrifaði
velþegin skilaboð undir síðustu færslu og bað um mynd. Ég þekki nokkra með þessu nafni og þar af einn búsettan í Danmörku. Ég giska á að það sé hann sem skrifar og af því að það er bara eitt "k" í textanum: "Mynd, tak" þá giska ég á að hann sé búinn að vera of lengi búsettur þar!
Það er til fullt af myndum af Benzanum sem svo rækilega var kynntur til sögunnar í síðustu færslu. Flestar eru þær þó í eigu bílasölu hér syðra og merktar henni svo ég er ekkert að birta þær. Ég ætlaði sjálfur að búa til myndasögu um verkefnið en svo mikið flýttum við feðgar okkur þegar við sóttum bílinn austur fyrir fjall að okkur láðist alveg að taka "upphafsmynd". Þess vegna voru fyrstu myndir í minni eigu teknar hér utan við Höfðaborg í myrkri, enda fer best á því - svona til að byrja með.
Ég má samt til að nefna nokkur atriði sem komið hafa í ljós við nánari skoðun. Ég tók bílinn á hús um síðustu helgi, svona til að þurrka hann og fara aðeins yfir stöðuna. M.a. þurfti ég að læra á rafkerfið, því maður er illa settur ef maður veit ekki hvernig rafkerfi í svona bíl er uppsett - það er jafn misjafnt og bílsmiðirnir eru margir. Kerfið reyndist einfalt og ágætlega uppsett, skiljanlegt og þokkalega frágengið, einn mikilvægan hlut vantar þó í það svo allt sé eins og á að vera en hann er fáanlegur í fagverslunum.
Svo var það gaskerfið. Það reyndist allt unnið af fagmönnum, allir slönguendar þrykktir og tengdir með nipplum en ekki stútum og hosuklemmum. Í kassanum aftan á bílnum voru tveir fullir gaskútar og annar tengdur við kerfið. Eldavélin svínvirkaði við prófun þótt smástund tæki að kveikja á henni því gas virðist hafa tilhneigingu til að "deyja" við langa stöðu í leiðslum. Ég hef tekið eftir þessu, eftir vetrarstöður virðist oft erfitt að kveikja á gastækjum en eftir að þau hafa kveikt í fyrsta sinn eru þau góð .......Propex-miðstöðin var sömuleiðis erfið í byrjun en kveikti að lokum og funhitaði þá.
Ég var búinn að taka eftir kæliboxi inni í skáp. Ég sá það ekki þegar ég skoðaði bílinn fyrst en á bílasölumyndunum blasti það við. Þetta virtist vera rafmagnskælibox eftir snúrum sem lágu frá því og þar sem ég hef engan áhuga á rafmagnskæliboxum - sem eru hinar verstu orkusugur - þá opnaði ég skápinn til að sækja það og henda í ruslið. Boxið kom hins vegar ekki hlaupandi á móti mér og við athugun var það fast við gasleiðslu! Þetta reyndist semsé vera forláta gasbox og það sem meira var - við prófun reyndist það í fullkomnu lagi og eftir að hafa mallað í tvo og hálfan tíma var hitinn í því kominn úr húshitanum, 24 gráðum niður í 13. Svona box er yfirleitt 6-7 klst að ná fullri kælingu svo þetta var á prýðilegri leið þegar ég slökkti á því og skrúfaði fyrir gasið. Mér skilst að svona kælibox kosti um 60 þús. í búðum hér. Nývirði þess og Propex miðstöðvarinnar mum því samanlagt ríflega kaupverð bílsins.
Í gær var laugardagur og morgunninn var frátekinn fyrir nokkru. Ætlunin var nefnilega að taka Benzann fyrir nesið á mínum gamla vinnustað, þar sem allt er til alls til slíkra hluta. Fyrir kl. 9 vorum við mættir og prófið hófst. Allt var skoðað sem máli skipti og hitt líka. Útkoman var vonum framar - Gamli er óravegu frá því að vera ónýtur, því þótt ytra byrðið sé hrjúft og óhrjálegt er undirvagninn ótrúlega heillegur, bæði lítið ryðgaður og lítið slitinn. Við fundum aðeins tvö skoðunaratriði sem lagfæra þurfti. Að öðru leyti gilti það sama og um útlitið - það þurfti aðallega að snyrta og snurfusa. Ekkert kom fram sem raskaði þeirri ætlun að bílinn verði ferðafær í sumar. Við vorum glaðir með Benzann, við Bassi þegar við ókum heim á leið.
Eitt í viðbót: General Bolt-On í Sandgerði er maður fróður um Benz enda á hann tvo þannig húsbíla. Hann vildi meina að AB-varahlutir í Reykjavík ættu alla boddýhluti í svona bíl. Ég tók því með fyrirvara því AB hefur aðallega selt slithluti en ákvað samt að athuga málið. Ég þekki strákana þar að því að vera bæði liprir og klárir í sínu fagi en varð samt hissa þegar þeir rúlluðu mynd upp á tölvuskjá og spurðu einfaldlega hvaða boddýhluti ég vildi fá! Ég benti, borgaði inná pöntunina og á þessu augnabliki er líklega einhver einhversstaðar úti í heimi að taka til boddýhlutina mína og búa til Íslandssendingar.......
Á svona augnablikum getur maður spurt: "Er ekki lífið einfalt?"
.........og nú koma þær myndir sem ég var búinn að taka, sérstaklega fyrir "Jon":