.....eða svo
sýnist mér því stórir hlutar þess virka illa eða alls ekki. Þessar bilanir hjá -123.is- eru farnar að verða hálf þreytandi og spurning hvernig á að bregðast við. Fyrsta bloggkerfið sem ég notaði og vísað er til í hlekk hér hægra megin ofarlega var erlent, er enn í rekstri og virðist ganga ágætlega. Það hefur einu sinni skipt um eigendur á þeim ellefu árum sem liðin eru frá því ég byrjaði að skrifa en engin teljandi breyting var því samfara - ef þá nokkur breyting. Líklega hefði ég átt að halda mig við það kerfi áfram í stað þess að skipta yfir í íslenska kerfið -blog.central.is- og síðar -blogg.visir.is-. Báðum þessum kerfum var haldið úti af 365.Miðlum sem nú hafa lokað þeim, trúlega í kjölfar stöðugra netárása erlendis frá. Þar með tapaðist stór hluti þess efnis sem, ég hef haft fyrir að skrifa niður um árabil, bæði ferðapistlar og annað.
Nújæja, það þýðir ekki að gráta Björn bónda.........
Fyrir helgina sat ég á fundi, eins konar kynningu og á þessum fundi var mikið talað. Fyrir talinu stóðu fjórar manneskjur en sú fimmta var fundarstjóri. Þessar fjórar manneskjur héldu hver sinn fyrirlestur um sitthvert efnið en þó voru skaranir á stöku stað - eðlilega, þar sem um var að ræða kynningu á stórfyrirtæki og dótturrekstri þess. Ég á líklega eftir að sitja fleiri slíka fundi í framtíðinni.
Samstarfsmenn mínir yngri höfðu varað mig við þessum fundarsetum og bent mér á að hafa með mér eldspýtur til að nota sem vökustaura. Ég átti engar eldspýtur enda kom á daginn að þeirra var engin þörf. Allir fjórir fyrirlestrarnir voru mjög fróðlegir og skemmtilegir (- að vísu sýndist mér þeim yngri í salnum ekki jafn skemmt og mér en það er önnur saga - ) en meðan ég hlustaði komst ég ekki hjá því að velta fyrir mér misjöfnum hæfileikum fólks til að tala yfir hópi. Þrjár þeirra manneskja sem töluðu (ég tilgreini ekki kyn) höfðu gott lag á að ná til fólks og ein fannst mér skara fram úr. Sá fyrirlesari hélt sína kynningu á afar hnitmiðaðan hátt, talaði í stuttum, meitluðum setningum og setti þær fram á þann hátt að hlustandinn beinlínis VARÐ að hlusta. Það var enda greinilegt að fyrirlesarinn þekkti hvert smáatriði síns efnishluta og þegar úr sal barst ein spurning með handaruppréttingu svaraði hann (eða hún) henni með örfáum orðum sem sem sögðu nákvæmlega það sem segja þurfti - hvorki meira né minna.
Annar fyrirlesari flutti erindi um yfirgripsmikið efni og gerði það á lifandi hátt, skaut inn í töluna örstuttum skemmtiatriðum og brosti þegar við átti. Hann (já, eða hún...) kom máli sínu mjög vel til skila til okkar sem á annað borð komum til að hlusta en ekki drepa tímann með fikti í símum og þessháttar....
Þriðji fyrirlesarinn kynnti afmarkað svið sem hann (eða kannski hún...) starfaði á. Fyrirlesarinn talaði á spjallnótum, krafðist ekki endilega athygli en flutti efnið líkt og um kunningjaspjall væri að ræða. Efnið átti erindi til allra í salnum en ég tók eftir því að ekki voru allir með á nótunum og í einu tilfelli þurfti fundarstjóri að stöðva truflandi tveggja manna tal undir flutningnum. Þessi fyrirlestur var annars mjög fróðlegur og vel fluttur.
Svo var það fjórði fyrirlesarinn. Ég man bara alls ekki um hvað hann (eða hún...) talaði og aðeins óljóst hvernig talarinn leit út. Eins og fram kemur að ofan fannst mér fyrirlesturinn fróðlegur meðan ég hlustaði en efnið man ég bara ekki lengur.....
Svona getur fólk verið misjafnt. Þrír fyrirlesarar fluttu mál sitt á skemmtilegan og lifandi máta. Sá fjórði þarf að æfa sig aðeins betur í að ná til áheyrenda.
.........................................................................
Þegar þetta er skrifað er sunnudagsmorgunn og veðurspáin gerir ráð fyrir illviðri er líður fram um hádegi. Viðvaranir hafa verið fluttar og ég, sem ætlaði að heimsækja General Bolt-on í Sandgerði hef slegið þá ferð af. Í staðinn ætla ég að halda mig heima í Höfðaborg og horfa á nýju, fallegu bryggjumyndina sem ég fjárfesti í í gær og hengdi upp.
Það er mikil ró í þeirri mynd: