Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2015 Janúar

25.01.2015 10:23

Kerfið er enn bilað....


.....eða svo sýnist mér því stórir hlutar þess virka illa eða alls ekki. Þessar bilanir hjá -123.is- eru farnar að verða hálf þreytandi og spurning hvernig á að bregðast við. Fyrsta bloggkerfið sem ég notaði og vísað er til í hlekk hér hægra megin ofarlega var erlent, er enn í rekstri og virðist ganga ágætlega. Það hefur einu sinni skipt um eigendur á þeim ellefu árum sem liðin eru frá því ég byrjaði að skrifa en engin teljandi breyting var því samfara - ef þá nokkur breyting. Líklega hefði ég átt að halda mig við það kerfi áfram í stað þess að skipta yfir í íslenska kerfið -blog.central.is- og síðar -blogg.visir.is-. Báðum þessum kerfum var haldið úti af 365.Miðlum sem nú hafa lokað þeim, trúlega í kjölfar stöðugra netárása erlendis frá. Þar með tapaðist stór hluti þess efnis sem, ég hef haft fyrir að skrifa niður um árabil, bæði ferðapistlar og annað.  

Nújæja, það þýðir ekki að gráta Björn bónda.........

Fyrir helgina sat ég á fundi, eins konar kynningu og á þessum fundi var mikið talað. Fyrir talinu stóðu fjórar manneskjur en sú fimmta var fundarstjóri. Þessar fjórar manneskjur héldu hver sinn fyrirlestur um sitthvert efnið en þó voru skaranir á stöku stað - eðlilega, þar sem um var að ræða kynningu á stórfyrirtæki og dótturrekstri þess. Ég á líklega eftir að sitja fleiri slíka fundi í framtíðinni.

Samstarfsmenn mínir yngri höfðu varað mig við þessum fundarsetum og bent mér á að hafa með mér eldspýtur til að nota sem vökustaura. Ég átti engar eldspýtur enda kom á daginn að þeirra var engin þörf. Allir fjórir fyrirlestrarnir voru mjög fróðlegir og skemmtilegir (- að vísu sýndist mér þeim yngri í salnum ekki jafn skemmt og mér en það er önnur saga - ) en meðan ég hlustaði komst ég ekki hjá því að velta fyrir mér misjöfnum hæfileikum fólks til að tala yfir hópi. Þrjár þeirra manneskja sem töluðu (ég tilgreini ekki kyn) höfðu gott lag á að ná til fólks og ein fannst mér skara fram úr. Sá fyrirlesari hélt sína kynningu á afar hnitmiðaðan hátt, talaði í stuttum, meitluðum setningum og setti þær fram á þann hátt að hlustandinn beinlínis VARÐ að hlusta. Það var enda greinilegt að fyrirlesarinn þekkti hvert smáatriði síns efnishluta og þegar úr sal barst ein spurning með handaruppréttingu svaraði hann (eða hún) henni með örfáum orðum sem sem sögðu nákvæmlega það sem segja þurfti - hvorki meira né minna.

Annar fyrirlesari flutti erindi um yfirgripsmikið efni og gerði það á lifandi hátt, skaut inn í töluna örstuttum skemmtiatriðum og brosti þegar við átti. Hann (já, eða hún...) kom máli sínu mjög vel til skila til okkar sem á annað borð komum til að hlusta en ekki drepa tímann með fikti í símum og þessháttar....

Þriðji fyrirlesarinn kynnti afmarkað svið sem hann (eða kannski hún...) starfaði á. Fyrirlesarinn talaði á spjallnótum, krafðist ekki endilega athygli en flutti efnið líkt og um kunningjaspjall væri að ræða. Efnið átti erindi til allra í salnum en ég tók eftir því að ekki voru allir með á nótunum og í einu tilfelli þurfti fundarstjóri að stöðva truflandi tveggja manna tal undir flutningnum. Þessi fyrirlestur var annars mjög fróðlegur og vel fluttur.

Svo var það fjórði fyrirlesarinn. Ég man bara alls ekki um hvað hann (eða hún...) talaði og aðeins óljóst hvernig talarinn leit út. Eins og fram kemur að ofan fannst mér fyrirlesturinn fróðlegur meðan ég hlustaði en efnið man ég bara ekki lengur.....

Svona getur fólk verið misjafnt. Þrír fyrirlesarar fluttu mál sitt á skemmtilegan og lifandi máta. Sá fjórði þarf að æfa sig aðeins betur í að ná til áheyrenda. 

.........................................................................

Þegar þetta er skrifað er sunnudagsmorgunn og veðurspáin gerir ráð fyrir illviðri er líður fram um hádegi. Viðvaranir hafa verið fluttar og ég, sem ætlaði að heimsækja General Bolt-on í Sandgerði hef slegið þá ferð af. Í staðinn ætla ég að halda mig heima í Höfðaborg og horfa á nýju, fallegu bryggjumyndina sem ég fjárfesti í í gær og hengdi upp.

Það er mikil ró í þeirri mynd:


23.01.2015 00:07

Kerfið er bilað.....


....og því enginn tilgangur í að setja neitt inn að sinni.

11.01.2015 10:03

Bara svona dagur......


Dagatalið hér í Höfðaborg segir að það sé sunnudagur. Þetta er fínasta dagatal, skreytt skipamyndum enda ættað úr smiðju landsþekkts skipaljósmyndara á Húsavík. Ég sé því enga ástæðu til að rengja það sem á því stendur.

Sunnudagar eru í eðli sínu frídagar. Ég er ekki svo svakalega gamall en man þó þá tíð að venjulegri vinnuviku lauk ekki fyrr en á hádegi laugardags. Vinnudagurinn hófst klukkan átta að morgni, kaffi var hálftíu til tíu, matur tólf til eitt og seinna kaffi hálffjögur til fjögur. Klukkan fimm hófst eftirvinna og vinnudegi lauk kl. sjö. Þannig var það. Fjórir tímar fyrir hádegi, fjórir tímar eftir hádegi auk tveggja eftirvinnutíma gerði tíu tíma vinnudag. Vinnuvikan fimm heilir dagar og einn hálfur. Vinna utan þessa tíma hét nætur- og helgidagavinna og var greidd með 80 prósenta álagi á dagvinnutímakaup - eftirvinnutímarnir tveir voru greiddir með 40 prósenta álagi á tímalaunin en gátu, eðli málsins samkvæmt aldrei orðið fleiri en átta um vikuna. Svo, á einhverjum tímapunkti var eftirvinnutaxtinn lagður niður og öll vinna umfram átta tímana nefnd yfirvinna og greidd með 80% álagi. 

Kannski var þetta í eina skiptið í samtímasögunni sem tókst að einfalda eitthvað kerfi í stað þess að flækja það!

Svo hafa auðvitað alla tíð verið til störf sem spyrja hvorki að því hvað klukkan er né hvaða dagur er. Ég nefni aðeins umönnunarstörf á spítölum og löggæslu af því þau störf eru samfélaginu líklega mikilvægust af öllum. 

Eftirspurn myndar venjulega framboð. Trúlega er sú regla algild. Hitt er líka vel þekkt að framboð getur myndað eftirspurn - ef einhver snjall sölumaður lætur sér detta í hug eitthvað sem almenningur "verður" að eignast og auglýsir það rækilega þá eru meiri líkur en minni á því að almenningur bíti á agnið og úr verði metsala út á einhverja tilbúna gerfiþörf. Má nokkuð nefna fótanuddtæki og röndótta blómavasa?

Svo er allt hitt sem hægt er að klóra sér í kollinum yfir: Er t.d. hægt að segja að það hafi verið eftirspurn eftir sjónvörpum áður en þau voru fundin upp? Við getum einfaldað dæmið og sett það upp þannig að einhver hafi smíðað sjónvarp, sett það á markað og allir hafi samstundis þurft að eignast eitt slíkt. Daginn áður vissi engin að það væri til. Auðvitað þurfti útsendingu sjónvarpsefnis til að tækið virkaði, svo heildarmyndin er auðvitað stærri en dæmið er samt rétt og hægt að sanna það með því að minna á manninn vestur á Ísafirði sem keypti sér sjónvarp og stillti því upp sem stofudjásni löngu áður en slík tækni náði til Ísafjarðar. Hann hlaut fyrir vikið nafnbót sem mörgum eldri Ísfirðingum er enn í fersku minni.

----------------------------------

Allt ofannefnt eru fabúleringar sem urðu til út úr því sem ég ætlaði raunverulega að segja. Það sem ég ætlaði að koma á framfæri er einfaldlega það að þótt það sé sunnudagur hér í Höfðaborg þá er ekki frídagur. Þegar maður lagar eitthvað fyrir frænda eða frænku (framboð) spretta fram frændur og frænkur úr öllum hornum og þurfa líka að fá lagað (eftirspurn). Þegar eftirspurnin er farin að keyra úr hófi og ekki er hægt að auka framleiðnina/framboðið þarf að grípa til einhverra ráða. Eitt þeirra gæti t.d. verið að skrúfa smám saman niður eftirspurnina með því að miðla þörfinni í aðrar áttir. Þar með minnkar framleiðnin smátt og smátt og bein afleiðing er að vinnutími "framleiðandans" styttist. Á einhverju þurfa menn þó að lifa og því var gott að skríða undir væng "Óskabarns þjóðarinnar" þar sem í boði voru bæði reglulegur vinnutími, úrvals aðstaða og öndvegis vinnufélagar - að ógleymdum þokkalegum launum. Það tekur hins vegar dálítinn tíma að skrúfa niður í öllum frændunum og frænkunum og þess vegna er sunnudagur hér í Höfðaborg aðeins til á fallega skipadagatalinu mínu.

......og það var nú allt og sumt sem ég ætlaði í upphafi að segja...........

08.01.2015 18:50

Neinei - ekki lokað!


.......heldur klaufagangur í smábreytingum á síðunni sem fóru úr böndunum svo ég ákvað að loka meðan allt var í rugli. Nú á allt að vera í lagi - eða það vona ég.

Það var stormur og snjókoma í Höfðaborg þennan fimmtudagsmorgun og Bassa langaði ekki út í morgungöngu. Hann lét sig þó hafa það.  Svo lygndi og tuttugu metrarnir sem veðurstofan hafði lofað létu ekki sjá sig - a.m.k. ekki innan míns sjónmáls.

Klukkan tifar......

05.01.2015 22:46

Skrýtilegt.....


Það er mánudagskvöld og fyrsti vinnudagur vikunnar að baki. Hann var eðlilega dálítið skrýtinn því manni bregður við að fara aftur í "venjulega" vinnu eftir tveggja ára velþegið hlé frá þesslags. Ég er nú samt ekki frá því að þetta gæti vanist - aftur. Maður sér til.....

Það voru allar aðalleiðir orðnar marauðar þegar við ókum suður síðdegis í gær eftir helgi í Hólminum. Undir Hafnarfjalli var hávaðarok, svo mikið að bíllinn sviptist til hliðar í verstu hviðunum - enda rúmir þrjátíu metrar á skiltunum. Það er slæm tilfinning að finnast maður ekki hafa stjórn á aðstæðum. Allt gekk þó vel og við vorum hér heima rétt fyrir kl. 18.

Ég er ekki með myndavélina og get því ekki sett inn síðustu myndirnar sem teknar voru uppfrá en þær koma fyrr en síðar. Nú þarf ég að þrauka mánuð hér syðra en þann 6. febrúar liggur leiðin enn í helgarfrí í Hólminum.

Maður hefur alltaf eitthvað til að hlakka til........ 

03.01.2015 12:13

Hólmurinn.


(Viðbætur settar neðan við kl. 18.40)


Það var assgoti sleipt á leiðinni uppeftir í gærkvöldi enda var sú litla umferð sem þó var, mun hægari en vanalega. Ofan við Borgarnes gekk yfir eitt stutt él en eftir það var stjörnubjart og brá fyrir norðurljósum. Veðrið í Hólminum við þangaðkomu  um kl. 21 var einstaklega fallegt. Við komum okkar dóti fyrir í leiguhúsinu, sópuðum snjó úr innkeyrslunni og héldum svo beint í sundlaugina - þ.e.a.s. í heita pottinn. Það stóðst á endum að þegar við komum út úr sundlauginni var farið að élja og þunnt, hvítt teppi lagðist að nýju yfir nýsópaða innkeyrsluna við húsið.

Eftir pottinn var litið á stórskipið Stakkanes sem  hvílir sig veturlangt í Skipavík. Allt var þar óhreyft og í besta standi. Kvöldinu var svo lokað með einhverri skandinaviskri bíómynd á RUV. 

Snemma í morgun fór að blása dálítið og snjórinn frá gærkvöldinu þyrlaðist upp í hvirfla milli húsanna. Fljótlega gekk þó niður og nú þegar þetta er skrifað, um hádegi á laugardegi, er fallegasta veður - hversu lengi sem það nú helst!

Það er þriðji janúar og aðeins rúmar tvær vikur frá því við komum heim frá því að skoða jólaskreytingar í Vestmannaeyjum. Kannski eru einhverjir  búnir að slökkva á skreytingunum hér í Hólminum, allavega er talsverður munur á fjölda útiskreytinga hér og þar.

Stykkishólmur og Vestmannaeyjabær eiga það hins vegar sameiginlegt að þurfa ekki jólaskreytingar til að vera fallegir að vetri.................





Myndir teknar á göngu í dag:

Er eldgos í Kerlingarskarði?




Stauraskreytingar:




P - 51:




Tunglið stígur upp fyrir Fellsströndina uppúr kl. hálffjögur:





Krossinn á kaþólsku kapellunni og tunglið í harðri keppni um athygli:





Svo vatt Máni sér milli trúarbragða og skein næst á útibú þjóðkirkjunnar:






Ég vil að það komi skýrt fram að ég tók þessa mynd hér að neðan. Þótt myndavélin ráði ekki við léleg birtuskilyrði - sjá Vestmannaeyjasyrpuna - og EH taki yfirleitt betri myndir þá náði ég þessari frá heimreiðinni að Hótel Stykkishólmi. Ég þurfti að halda myndavélinni langt uppyfir haus og sá aðeins á skjáinn með hornauganu en það dugði.





Það er komið kvöld og hangikjötinu hafa verið gerð skil. Ég leggst á meltuna.......


...................................







  • 1
Flettingar í dag: 153
Gestir í dag: 71
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135120
Samtals gestir: 27893
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:59:02


Tenglar