Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2014 Mars

24.03.2014 20:54

Sjö strauma siglingin. 3.hluti: Í Öxney.


23. ágúst 2011 

Öðrum hluta lauk þegar Stofuvogur opnaðist okkur innan við Mjóanes og íbúðarhúsið gamla í Öxney blasti við. Við sigldum inn Bænhússtraum, sjöunda strauminn í siglingunni - það mátti kannski segja að Bænhússtraumur væri áttundi straumurinn en Geysandasund, sem við höfðum nýlagt að baki er víst ekki talið "straumur" í skilningi eyjamanna þó ekki sé alltaf á því lognmolla. Steinsund er hins vegar ótvíræður straumur, þó það heiti -"sund" og á því heima í hópnum. Við flækjum  málin ekki frekar en höfum straumana sjö.

Nú vorum við í ríki Sturlu Jóhannssonar frá Öxney og hér stjórnaði hann för. Lendingin var valin í vör rétt suðaustan íbúðarhússins, þar skagaði grjóttangi út í sundið og við hann var talsvert dýpi. Í kverkinni ofan og vestan tangans var vör og lítil, hlaðin steinbryggja líkt og í Gvendareyjum. Nú var svo fallið út að ekki flaut að henni svo valið var að leggja við allstóran klett á enda  grjóttangans.





Það gætti nokkuð vinds af austri á þessum stað og Gustur, með sína háu yfirbyggingu tók talsvert á sig. Í botninum var stórvaxinn þaragróður og hald fyrir akkerið var lítið. Um síðir tókst þó að ná festu og með því að nota Bjargfýling, minni og grunnristari, sem landgöngubrú varð auðveldlega gengið á þurrt.

Nú var það Sigurður Bergsveinsson sem gæti bátanna en Sturla hafði leiðsögu. Við gengum frá lendingunni heim til bæjar. Húsið í Öxney er að stofni til norskt timburhús og var flutt til landsins tilsniðið eins og svo mörg svipuð hús frá sama tíma.

 Í áranna rás var svo húsið stækkað og því breytt talsvert í útliti, settir á það kvistir og steypt utan á neðri hæðina. Það má giska á að tilgangurinn með þeirri gjörð hafi verið tvíþættur: Timburhús sem ekki standa á steyptum veggjum heldur nema við jörð hafa tilhneigingu til að fúna neðantil og svo má giska á að steypan hafi þjónað sem músavörn. Til lengri tíma litið hefur það þó sýnt sig að "forskalning" timburhúsa var skammgóður vermir og timbrið fór illa undir slíkri klæðningu. Önnur byggingarefni hafa einnig verið notuð til endurbóta og þéttingar á húsinu, ágæt meðan þeirra tími stóð en standast ekki nútímakröfur.







Eftir að við höfðum litast um utan dyra bauð Sturla okkur til stofu. Hafi ég tekið rétt eftir eru í þessu stóra húsi alls þrettán herbergi. Varla hefur veitt af, enda oft mannmargt í Öxney þegar allt stóð í blóma. Í einu herberginu, sem reyndar er "stásstofa" eins og það var eitt sinn kallað, er mynd á vegg af húsinu eins og það leit út upphaflega:




Hliðarnar sem sjást á myndinni eru þær sömu og á nýju myndunum ofar, og innandyra mátti sjá hvar gömlu útidyrnar höfðu verið. Í sömu stofu hékk einnig uppi máluð mynd af Jónasi Jóhannsyni bónda í Öxney, afa Sturlu Jóhannssonar:




Þau voru vönduð, norsku húsin og þessar renndu súlur í stofuveggnum ásamt fulningum í loftinu báru vitni um það:



 



Andinn í húsinu var annars allur á þann veg að maður gat vel ímyndað sér að heimilisfólkið væri útivið í heyönnum og væri rétt ókomið heim. Maður átti allt eins von á að húsfreyjan birtist í gættinni og kallaði menn í kaffi og heimabakað,  en - þegar betur var að gáð var engin húsfreyja og eldavélin köld ....




Við gengum aftur út í góðviðrið. Kajakræðararnir voru enn að leggja af stað úr Stofuvogi, einhverjir þeirra voru þó á vappi við búðirnar.





Við hlið íbúðarhússins stendur þessi gamla skemma, ótrúlega heilleg og bein þrátt fyrir að ytra byrðið sé orðið lúið. Kannski er hún eftir allt í betra standi en íbúðarhúsið sjálft?





Eftir góða viðdvöl við húsin ákvað Sturla að nú væri Sigurði fullborguð biðin í Ólafsey!  Við gengum til baka niður á grjóttangann þar sem bátarnir lágu og ég myndaði húsið einu sinni enn, nú með viðbyggingunni:





Bænhússtraumur milli Öxneyjar og Seljalands við Brokey er kenndur við bænhús sem fyrr á öldum mun hafa staðið í Öxney. Á hól milli bakka Bænhússtraums og íbúðarhússins stendur lítil skemma, á mæni hennar er negldur  trékross en ég er nokkuð viss um að sá kross á lítið skylt við helgi hússins, jafnvel þótt Sturla bóndi hafi kallað kofann "bænhúsið" um leið og við gengum hjá. Mér sýndist hann reyndar glotta.





Bátarnir voru á sínum stað og við klifruðum um borð. Nokkrum augnablikum síðar vorum við lagðir af stað út Bænhússtraum að nýju, nú í heimátt til Stykkishólms:






Við vorum rétt lagðir af stað þegar þetta "skýjageimfar" sveif yfir okkur, breytti svo um lögun og hvarf í einhverri allt annarri mynd:





Heimferðin var tíðindalaus, enda nokkuð bein sigling vestur um Breiðasund. Áætlunin, þó lausleg væri, hafði staðist í meginatriðum, við höfðum aðfallið með okkur inneftir og nú á heimleiðinni fylgdum við bullandi útfalli sem skilaði okkur aukamílu í ganghraða. Kannski munaði það ekki svo miklu fyrir Gustinn, með sína glænýju 40 hestafla vél, en gerði sitt fyrir Bjargfýling, sem knúinn var af tíu hesta BUKH. Mér fannst líða ótrúlega stuttur tími þar til við vorum komnir útundir Skoreyjar. Þar var  ákveðið að taka krók inn á litla vík sem mun heita Höfn.  Upp af henni er sumarhús, hálffalið bak við kletta og hóla.

 



Síðustu myndir ferðarinnar voru teknar á þessum stað, af vesturströnd Skoreyja.







Klukkan var alveg um hálffimm þegar við bundum bátinn og bárum farangur á land. Öll þessi ógleymanlega ferð hafði aðeins tekið sex klukkustundir - mér fannst það lyginni líkast en ekki varð deilt við klukkuna.





Ég kvaddi ferðafélagana sem höfðu gert þessa ferð svo einstaka - þá sérstaklega sögumennirnir og frændurnir Sigurður Bergsveinsson, Einar Sigurðsson og Sturla Jóhannsson - og endaði heimsóknina í Stykkishólm á sama hátt og hún hófst, þ.e. í kaffi hjá Gunnlaugi Valdimarssyni á Austurgötunni. Nú var margt breytt frá Rúfeyja/Rauðseyjaferðinni okkar í júlíbyrjun, trillan Rúna farin vestur á Ísafjörð og Gulli bátlaus í fyrsta sinn í áraraðir.

Hann sagðist vera hættur......við skulum sjá til!

23.03.2014 15:15

Sjö strauma siglingin. 2.hluti: Örninn.


21. ágúst 2011.


 Fyrsta hluta frásagnar lauk við húsgrunninn í Ólafsey, þar sem fróðir menn upplýstu okkur hina og rifjuðu um leið upp minningar tengdar staðnum.  Meðal annars kom það fram að staðurinn var Einari Sigurðssyni frá Gvendareyjum sérlega hugleikinn, því í íbúðarhúsinu í Ólafsey var aðsetur farskóla sveitarinnar og þar naut Einar sinnar fyrstu skólagöngu.

 

Eins og fram kom var húsið í Ólafsey tekið niður og efni þess flutt út í Stykkishólm. Sigurður Bergsveinsson er hafsjór af fróðleik um ættir, tengsl og staðhætti í Breiðafirði og meðal þess sem hann gaukaði að mér er virðingargjörð hússins í Ólafsey. Kannski er eftirtektarvert að undir liðnum "Þægindi" er talin "Miðstöðvarupphitun". Skyldi upphitun húsa í dag vera talin "þægindi"?




Það gætti vart vinds í Ólafsey meðan við stöldruðum þar við, og Sturla hafði tekið að sér einsamall að halda bátunum kyrrum við steinhleðslu í vörinni. Þó Sturla væri vel að manni þótti honum sögustundin orðin nokkuð löng, þegar við hinir loks snerum til skipa, því það tekur í tvo þunga trébáta þó aðeins sé örlítil gola, þegar straumsúgur sjávarins bætist við.  Við hröðuðum okkur um borð og lögðum frá landi. Nú lá leiðin norður fyrir Ólafsey og þaðan til austurs inn milli eyjanna. Það er réttast að birta aftur kortaklippuna sem sýnir svæðið:

 



Siglingaleið okkar lá milli Ólafseyjar og Stórhólma, á þeim stað sem kallaður er Steinsund. Sundið er mjög þröngt, straumhart og í því miðju er stór steinn sem fellur yfir á flóði. Nú hagaði þannig til að þótt komið væri útfall úti á firðinum gerist allt miklu hægar í þrengslunum milli eyja og skerja, og á þessum stað var sjórinn enn að streyma inn á Hvammsfjörðinn. Það er þessi mismunur sem myndar hörðustu fallastraumana á svæðinu, því þegar "sían" milli hólma og skerja hefur loks hleypt öllum þeim sjó inn á Hvammsfjörðinn sem hún geymir í sér, er farið að falla út utan eyjanna. Á auðum sjó gerist allt hraðar og þess vegna "flýr" sjórinn vestan eyjanna miklu hraðar en sá sem geymdur er innan þeirra. Þegar sjórinn inni á Hvammsfirðinum leggur loks af stað út á milli eyjanna aftur er yfirborðshæðarmunurinn orðinn talsverður - mismikill þó eftir tunglstöðu- og því myndast hreinir beljandar milli eyjanna. Stundum hefur verið talað um allt að tveggja metra hæðarmun yfirborðs og straumhraða 16-18 hnúta í hörðustu röstunum!

Það vill stundum vera ".hægara um að tala en í að komast"  og þannig fór mér þegar við komum í Steinsundið.  Sigurður stýrði Gustinum, Sturla stóð afturí og bandaði hendi til félaganna á Bjargfýlingi til leiðsagnar um sundið. Þegar nær dró steininum í sundinu mátti sjá straumröst af honum og það gerði okkur auðveldara með staðsetningu. Ég tók hins vegar eftir því að straumurinn rann í öfuga átt - ég vissi að farið var að falla út úti á Breiðasundi fyrir góðri stundu en straumurinn sem snerist um steininn í sundinu var á innleið. Ég vakti máls á þessu og fékk ábendinguna strax frá Sturlu - ég eiginlega hálfskammaðist mín fyrir að hafa talað af mér því ég átti að vita þetta þó ég væri að sjá það með eigin augum í fyrsta skipti.

 



Við runnum Steinsundið og innan þess var lygna og hægari straumur. Það var komið fram yfir hádegi og tilvalið að grípa til nestisins á þokkalega auðum sjó. Ég hafði tekið með mér Árbók F.Í. frá 1989, sem er biblía áhugamannsins um Breiðafjarðareyjar og reyndi að átta mig á þeim eyjum og hólmum sem fyrir augu bar. Það var sannarlega ekki auðvelt og mér fannst hughreystandi að heyra að hinir voru ekki hundrað prósent vissir heldur. Sjókortið í GPS tækinu sýndi aðeins örfá eyjanöfn og lítið á því að byggja í þessu kraðaki eyja, hólma og skerja. Svo náðu menn áttum. 

Siglingaleiðin lá (og nú þarf að líta á kortið.) sunnan Ytri-og Innri Helgeyja og um sundið milli þeirra og þar sem heitir Hryggir. Síðan var beygt upp (norður) með Brokey austanverðri og, hafi mér ekki skjátlast, siglt um sundið milli Brokeyjar og Húseyjar. Vaðalseyjar voru næstar og um þær var siglt þegar þessi mynd var tekin til vesturs, í átt til Norðureyjar:

 



Áfram var haldið og ég reyndi allt hvað ég gat að halda þræðinum, lesa í árbókinni, skoða kort og greina eyjar frá skerjum. Ég var niðursokkinn í gruflið þegar einhver kallaði: ÖRN!

 



Og örn var það sannarlega. Hann hafði styggst við bátakomuna, flaug upp úr nærliggjandi eyju - mögulega var það ein Vaðalseyja - og hnitaði stóra hringa yfir bátunum. Myndavélin var munduð og einum tuttugu myndum hleypt af. Flestar urðu ónýtar en þessar lifðu:











Eftir nokkra hringi sannfærðist örninn um að engin hætta stafaði af okkur og settist aftur í hólmann sinn. Við sigldum áfram í hálfgerðum krákustigum vandrataða leið þar sem Sturla og Sigurður báru stöðugt saman bækur sínar.  Við kræktum fyrir Andey og vorum þar með komnir nokkurn veginn á auðan sjó inn á sundið milli Arnareyjar og Gagneyjar.

Fjárbóndinn Sturla hafði tekið með sér riffilinn ef ske kynni að tófa sæist í eyjunum. Engin sást tófan þó skimað væri víða, en skyttan var engu að síður veiðileg með riffilinn:

 



Einn af harðari straumum á þessu svæði er Gagneyingur, milli Gagneyjar og Galtareyjar. Á netsíðu kajakklúbbs  má sjá ágæta mynd af straumi í ham og  m.t.t. staðhátta er myndin líklega tekin við Brattastraum, austan við Gvendareyjar. Kannski má af myndinni ímynda sér Gagneying í góðu formi. Þegar við sigldum inn milli eyjanna tveggja, Arnareyjar og Gagneyjar og litum á strauminn virtist hann samt svona hálf utangátta - það var að vísu fall um hann en þar sem smástreymt var, var straumþunginn ekki nema svipur hjá sjón. Við runnum niður Gagneying á þriggja, fjögurra mílna hraða, muni ég rétt - en reyndar með frákúplað! 



  

Á næstu mynd er siglt meðfram Galtarey, sunnan hennar og til vesturs. Efst á eynni er trjálundur og fyrir miðri mynd má greinilega sjá tóftir, iðgrænar og skera sig úr. Ef gluggað er í Árbókina títtnefndu má lesa á bls. 98 að óvíst sé hvort föst búseta hafi verið í Galtarey eða aðeins selstaða frá Öxney, sem eyjan heyrði áður undir. Hvort sem er hefur verið þarna hús af einhverju tagi og búfé hefur gengið um, ef marka má græna litinn. Í trjálundinum er mér sagt að sé jarðsett  aska Guðrúnar Jónasdóttur úr Öxney, eiganda Galtareyjar. Enginn hvílustaður hæfði þeirri öldnu heiðurskonu betur en þessi, þar sem víðsýnið ríkti.

 


 

Vestarlega á Galtarey hafa eigendur, afkomendur Guðrúnar reist sumarhús við lítinn vog:

 


 

Frá Galtarey var siglt í suðvestur, vestan Akureyjar og til stjórnborða lágu Rifgirðingar. Á siglingunni sáum við þök húsa í Rifgirðingum bera yfir hólmana nær okkur.

 


 

 

Á bakborða blasti svo við reisulegt íbúðarhúsið í Brokey:




Eftir stutta siglingu var snúið til vesturs og stefnan sett á Geysandasund, milli Öxneyjar og Rifgirðinga. Á myndinni sér til húsa í Rifgirðingum:

 


Með því að horfa til vesturs yfir Breiðasund og snúa tökkum á myndavélinni mátti sjá sæmilega til húsa í Hrappsey:

 

 

..og væri horft aðeins lengra til suðurs blasti Bjarnarhafnarfjall við lengst til vinstri og í það bar Helgafell á Þórsnesi. Stykkishólmur er örlítið til vinstri við myndarmiðju:

 

 

 

 

Við höfðum Öxney á bakborða og sigldum meðfram þessu forna ættaróðali Sturlu bónda í Ólafsey. Út úr eynni til SV. gengur Mjóanes eins og fingur sem bendir á Ingeyjar, þar sem fé bóndans hefur vetursetu. Fyrir Mjóanes sigldum við inn á Bænhússtraum, sjöunda straum ferðarinnar. Innan við Mjóanes skerst Stofuvogur inn í Öxney, fyrir botni hans er íbúðarhúsið og má muna sinn fífil fegurri. Í Stofuvog var einnig mættur ræðaraklúbburinn úr Gvendareyjum og hafði reist sér búðir.

 

 

 

Hér ætla ég að láta staðar numið að sinni. Í þriðja og síðasta hluta verður gengið á land í Öxney og litast um við bæjarhúsin. Að því loknu heimsiglingin með krók við Skoreyjar.

 ......................................................................


23.03.2014 09:29

Sjö strauma siglingin. 1.hluti.


 Tilefni pistilsins er, eins og áður var komið fram, að 365 Miðlar hættu rekstri tveggja bloggkerfa og lokuðu þeim. Þar með lokaðist inni gríðarleg a mikið efni frá mér enda um að ræða margra ára færslur um allskonar málefni. Á þá frásögn frá síðsumri 2011 sem titillinn vísar til, var tengt af netsíðu  Bátasafns Breiðafjarðar og við lokunina varð tengillinn óvirkur. Mér tókst með góðri aðstoð að ná hluta efnisins til baka og þó ekki sé ætlunin að endurbirta allt efnið hér - sem varla er vinnandi vegur - þá birtist "Sjö strauma siglingin" þó aftur svo hægt sé að tengja að nýju.

.....................................................................................................................................



Sjö strauma siglingin.

20. ágúst 2011.

Mig minnir að klukkan hafi verið um hálfþrjú föstudaginn fimmta ágúst sl. þegar Sigurður Bergsveinsson hringdi. Hann setti fram einfalda spurningu: Hvort ég væri búinn að ráðstafa morgundeginum?

Ég var svo sem ekki búinn að fastnegla neitt, þó við Elín Huld hefðum talað okkur saman um einhverja ferð á útilegubílnum. Það var líka eins gott, því þegar Sigurður Bergsveinsson spyr hvort maður sé búinn að ráðstafa morgundeginum - ja, þá býr eitthvað undir sem vert er að heyra meira um.  Og þannig var það líka. Sigurður og félagar höfðu ráðgert siglingu frá Stykkishólmi um suðureyjar Breiðafjarðar í blíðunni sem aldrei bregst á þeim slóðum. Þeir ætluðu á tveimur, jafnvel þremur bátum og hann vildi gjarnan bjóða mér með á GUSTI sínum. Þegar maður fær svona boð er aðeins eitt svar til, hvað sem líður öðrum plönum. Ég sagði já, jafn hátt og skýrt og væri ég kona að játast Sigurði Bergsveinssyni fyrir altari!

Sá hluti Breiðafjarðareyjanna sem í daglegu tali er kallaður suðureyjar er eyjaklasinn - eða eyjamorið - sem girðir Hvammsfjörðinn þvert, allt frá Þórsnesi að sunnan að Klofningi að norðan. Ef nefna á helstu og þekktustu eyjarnar má telja Brokey, eina stærstu eyju Breiðafjarðar, Öxney, Gvendareyjar, Ólafsey, Purkey, Hrappsey, Klakkeyjar (toppana sem sjást víða að enda hæstu eyjar í Hvammsfjarðarmynni) og utar liggja svo Langeyjarnar tvær, efri og fremri, Arney, Bíldsey, Fagurey, Elliðaey og Vaðstakksey. Mér skildist á Sigurði að ætlunin væri að sigla frá Stykkishólmi inn undir Gvendareyjar og reyna að ná góðum hring meðan vel stæði á falli. Siglingar um eyjasvæði Breiðafjarðar ráðast nefnilega meira af sjávarföllum en nokkru öðru náttúruafli og laugardaginn 6. ágúst var háflóð í Stykkishólmi klukkan sirka 11.40. Hugmyndin var að sigla af stað vel fyrir háflóð og fylgja straumnum inn milli eyja. Ef allt gengi sem ætlað væri yrðum við svo á útfallinu til baka.

Sigurður hafði orðað það að bjóða Gunnlaugi Valdimarssyni Rúfeyingi með í siglinguna, Gulli er kannski ekki manna kunnugastur á þessu svæði en kunnugur samt og hann hafði staðið eins og víkingur við stýrið á RÚNU sinni gegnum Rúfeyjaröstina í byrjun júlí, þegar Bátasafn Breiðafjarðar hélt sína árlegu hópsiglingu. Þegar ég svo hringdi í Gulla til að færa honum boð Sigurðar var hann lélegur til heilsunnar og treystist ekki í förina. Það var miður en varð ekki að gert.

Laugardagsmorgunninn 6. ágúst heilsaði með dýrlegu veðri. Síðustu hrafnar næturinnar voru á heimleið og blaðberar á stjái þegar lagt var af stað úr Kópavogi áleiðis í Stykkishólm. Allajafna tekur það mig um tvo tíma að aka þessa leið, nú var fátt sem tafði og ég var kominn á leiðarenda mun fyrr en ég hafði áætlað. Ekki þó nógu snemma til að ná Gunnlaugi Valdimarssyni í bólinu, nei, sá gamli var á fótum og um eldhúsið á Austurgötunni lagði kaffiilm. Heilsan hafði þó lítið lagast frá deginum áður og Gulli ákvað endanlega að sitja heima.  Þeir Sigurður og félagar höfðu ákveðið brottför kringum tíu um morguninn og eftir dálítið bryggjuspjall þar sem menn "hrærðu sig saman" voru bátar ræstir, farangri staflað og endum sleppt.




(Mynd frá S.B.- Frá vinstri Einar Sigurðsson, Gunnar Th, Þórarinn Sighvatsson formaður á litla Þyt í eyjasiglingunni 2.7. sl. og maður sem ég man ekki nafnið á!) 

Þeir voru tveir, bátarnir sem lögðu upp í eyjasiglinguna þennan laugardagsmorgun. Á Gusti, þeim stærri vorum við fimm: Sigurður Bergsveinsson formaður, ættaður úr Ólafsey og Gvendareyjum,Halldór Bárðarson trésmiður úr Mosfellsbæ, mágur Sigurðar, Sturla Jóhannsson hlunnindabóndi í Ólafsey og strandveiði-trillukarl í Stykkishólmi, ættaður úr Öxney og Gvendareyjum. Þeir Sturla og Sigurður formaður eru systrasynir. Fjórði maðurinn var Einar Sigurðsson, fv. landsbókavörður, fæddur og uppalinn í Gvendareyjum, móðurbróðir Sigurðar og Sturlu. Fimmti maður um borð var ég, alls óskyldur og ótengdur en áhugamaður um allt áhugavert sem tengist Breiðafjarðareyjum og það, ásamt því að vera brúkleg ballest, gerði mig gjaldgengan um borð. 


 

(Mynd frá S.B: Öxneyingurinn og Ólafseyjarbóndinn Sturla Jóhannsson leggur línurnar..)


Hinn báturinn var Bjargfýlingur. Báðir þessir bátar, Gustur og Bjargfýlingur voru í Rúfeyja/Rauðseyjasiglingunni þann 3ja júlí sl.  Þá fannst mér eftirtektarvert hvað Bjargfýlingur fór fallega í sjó, sama hvaðan aldan kom. Þessari litlu fleytu, sem eitt sinn hét því stóra nafni "Grettir Ásmundsson"  fataðist hvergi, sama hvaðan aldan kom - ekki frekar en nafna hans forðum á Drangeyjarsundinu.  Í áhöfn á Bjargfýlingi voru þennan laugardag þeir Þorgeir Kristófersson pípulagningameistari í Mosfellsbæ, ættaður úr Skáleyjum og systursonur þeirra Jóhannesar, Eysteins og Ólafs Gíslasona.  Annar var Jón Helgi Jónsson, hlunnindabóndi í Purkey, búsettur í Stykkishólmi og sá þriðji var Ari Björnsson, rafvirkjameistari í Borgarnesi.




Það er rétt að setja hér bút úr korti til að gefa einhverja hugmynd um hvert siglt var. Í upphafi var siglingaleiðin ekki fastákveðin en nokkrar hugmyndir höfðu menn þó til að fylgja.


 


Þegar komið var út úr höfninni í Stykkishólmi var stefnan tekin austur fyrir Súgandisey og inn fjörðinn. Við sigldum rétt norðan við skerið Baulu, og ég mátti til að mynda Bjargfýling á siglingunni:



 


Þórishólma ber í stýrishúsið á Bjargfýlingi, en á stjórnborða stóð Baula upp úr sjónum, sakleysisleg að sjá en þó tengd landi með hraunrana rétt undir yfirborðinu:


 


Frá Baulu var útsýnið svona inn fjörðinn. Álftafjörður gengur inn í Skógarströndina til hægri en á miðri mynd gnæfa Staparnir og Stóristapi þeirra langhæstur og tilkomumestur. Í eyju til vinstri má sjá hús, þar sér til lands í Skákarey:




.....og væri litið um öxl bar Helgafellið í Bjarnarhafnarfjall, þar sem sólin var að ryðja frá sér skýjaþykkninu:


 


Til vinstri handar (nú má ég ekki segja: "Á bakborða", því kannski vita ekki allir hvað er "bak" og hvað er "stjór") runnu Seley og vestan hennar hólminn Fagurey, hjá. Héðan frá séð virðist Fagurey áföst Seley en svo er ekki:




Við renndum inn á leguna í Skákarey en höfðum þar ekki frekari viðdvöl. Einn selur var þarna á bótinni, líklega var hann sjálfskipaður landvörður, því hann stóð oftar en ekki hálfur uppúr sjó og rannsakaði okkur gaumgæfilega. Ekki tókst þó að ná honum á mynd.




 Við sigldum þröngt og grunnt sund sunnan við Skákarey, innundir Stapana:


 


Að stuttri stund liðinni vorum við komnir innundir Stórastapa. Sunnan og austan (innan) við stapann er Stapastraumur og um hann ætluðum við:


 


Stuðlabergið í Stórastapa er hreint magnað, og þá ekki síður stuðlahrúgan undir því:


 


Það sem virðast vera hús á Skákarey eru í raun trjálundir:


 


Það er ekki skrýtið þó maður verði hálf-bergnuminn á siglingunni um Stapastraum:


 


Það mun hafa verið einhversstaðar á þessarri siglingaleið sem Sigurður formaður skipti sambyggðum GPS/dýptarmælinum yfir á heila GPS mynd í þeim tilgangi að sýna mér eldri siglingaferil um þessar slóðir. Ekki höfðum við lengi rýnt þegar skipun barst frá okkar helsta leiðsögumanni, Sturla bónda í Ólafsey: "Hafðu myndina á mælinum!".  Það var auðvelt að átta sig á ástæðunni. Sturla er þaulkunnugur á þessum slóðum og þekkti jafnt landið sem sást og hitt sem ekki sást - þ.e. sjávarbotninn. Hann var ekki síður fjölbreytilegur en þurrlendið og það kom margoft fyrir að mælirinn sýndi 12-18 metra dýpi, síðan kom lóðréttur veggur fram og dýpið varð 1,5 - 2 metrar. Örskömmu seinna kom aftur veggur og dýpið varð kannski 20 metrar eða meira - alveg magnað að sjá. Það gagnaðist okkur því lítið að hafa dýpistölurnar einar á skjánum ef ekki var hægt að lesa botninn. Það sem eftir var ferðar var tækið því stillt á tvískiptan skjá, hálfan GPS og hálfan dýptarmæli.

Væri litið inn í Álftafjörðinn sýndist heldur vera að létta til. Við vorum komnir inn úr Stapastraumi og okkur til hægri handar voru Hrísey og Geitareyjar. Leiðin lá um strauminn Geiteying, milli Geitareyja og Gvendareyja, en við vorum nálægt háflóði og straumsins gætti ekki nema að litlu leyti. Vegalengdir milli eyja og eyjaklasa eru litlar og eftir stutta siglingu um Geiteying vorum við komnir inn undir leguna í Gvendareyjum.

Ásta Eggertsdóttir Fjeldsted, verslunarkona á Ísafirði eignaðist Gvendareyjar um miðjan fimmta áratug síðustu aldar og afkomendur hennar eiga þær enn.  Arngrímur, sonur Ástu og fyrrum blómasali á Ísafirði hefur dvalið þar á sumrum og gerir ýmislegt sér til dægrastyttingar. Þegar við komum undir heimaeyjuna hittum við Arngrím þar sem hann var við smíðar í lítilli vík vestarlega á eynni.


 


Við heilsuðum, kynntum okkur og báðum um leyfi til að ganga á land í vörinni við bæjarhúsin. Það leyfi var auðfengið, en heyra mátti á Arngrími að lítið hefði farið fyrir leyfisbeiðnum hjá stórum hópi kajakræðara sem sjá mátti álengdar við bæjarvörina. Honum var ekki um það gefið að fólk færi valsandi um eyjuna í leyfisleysi - enda skiljanlegt. Við kvöddum svo þennan iðjusama Ísfirðing og héldum innundir vörina, þar sem lítil, hlaðin steinbryggja myndaði gott skjól.


 



Við lögðumst að steinbryggjunni og Bjargfýlingur utaná. Í vörinni voru kajakræðarar að búast til brottfarar, þetta var sem fyrr segir nokkuð stór hópur og Sturla bóndi gaf sig á tal við nokkra, hafði enda áður gefið þeim leyfi símleiðis til að slá upp búðum á landareign sinni í Öxney.


 





(Það var vel við hæfi að mynda skipstjórann á breiðfirska súðbyrðingnum Gusti með plastspækjur bakpokaferðalanganna í baksýn. Myndir frá S.B.)


 


Það má sjá af myndunum, hversu stutt er frá Gvendareyjum til lands á Skógarströnd, og hér má einnig sjá haganlega lendinguna í Heimaey Gvendareyja - allra átta skjól:


 


Við gengum upp á eyjuna og lituðumst um, enda útsýnið hreint frábært í blíðviðrinu. Tveir úr áhöfn Bjargfýlings stilltu sér upp til myndatöku, sá þriðji mundaði vélina (og sá fjórði myndaði alla þrjá):


 


Það er töluverð trjárækt í Gvendareyjum, eljuverk genginnar kynslóðar standa lengur en mannfólkið, sem kemur og fer....


 


Einar Sigurðsson, ferðafélagi okkar fæddist í litla, hvíta bæjarhúsinu árið 1933 og þó Einar væri hreint ekkert gamalmenni, hraustur og fótléttur fannst mér hann yngjast um mörg ár við heimsóknina í eyjuna.


 



Þegar við bjuggumst til brottfarar eftir ágæta gönguferð var mættur í vörina Páll bóndi í Brokey. Hann var að sinna erindum við Arngrím og líta eftir öðrum eigum


 


Þessi einstaki klettaveggur ofan við lendinguna í heimaey Gvendareyja er hreinlega eins og hlaðinn - einn eitt furðuverk náttúrunnar sem svo endalaust er af á þessum slóðum.  Myndin er tekin um leið og Gusti var rennt út frá litlu steinbryggjunni og stefnan sett áfram inn eyjasundin.


 


Við sigldum austur fyrir heimaey Gvendareyja. Eyjan endar í háum klettahöfða en rétt austan hans eru Hjallseyjar. Litla-Hjallsey er næst höfðanum og á milli er Brattistraumur, en um hann segir í Árbók F.Í. frá 1989 að hann sé einn harðasti straumurinn í öllu Hvammsfjarðarmynni. Orðrétt: "Hann er þröngur og fremur grunnur með skeri í miðju og myndar á útfalli foss sem er á annan metra að fallhæð"  (bls 85). Á næstu mynd má sjá kajakræðarana leggja upp frá Gvendareyjum og stefna norður Brattastraum:


 

(Mynd S.B.)


Höfðinn austast á  heimaey Gvendareyja, Brattistraumur er að baki vinstra megin á myndinni:

 


..og Bjargfýlingur fylgir á eftir gegnum Brattastraum, sem þennan dag var í óvenju góðum ham enda sléttur liggjandi...


 


Framundan var straumurinn Stóri - Hjallseyingur, grunnur og vandsigldur enda stóðu þarabrúskar uppúr sjónum á bæði borð. Dýptarmælirinn var þó nokkuð stöðugur í hálfum öðrum metra og undir traustri leiðsögn Sturlu runnum við örugglega inn á legu í Ólafsey. 


 



( neðsta mynd S.B.)


Þeir frændur Sturla, Sigurður og Einar eru allir nátengdir Ólafsey og hún varð því nokkuð löng, sögustundin við grunn íbúðarhússins sem þar stóð. Reyndar gætti Sturla bátanna meðan við hinir gengum á land, en þeir Sigurður og Einar uppfræddu okkur hina ásamt því að rifja sjálfir upp liðna tíma:


 


(Neðri mynd S.B.)


Bærinn í Ólafsey hefur verið ágætt hús á sínum tíma, vel byggt og reyndar svo vel að eftir að búsetu lauk var húsið tekið niður og viðir þess notaðir í húsbyggingu úti í Stykkishólmi:

 

(Mynd frá S.B.)


 


Steyptur kjallarinn hafði hins vegar hvergi farið og var ekki á leið neitt:


 


Einar Sigurðsson situr á grunni hússins í Ólafsey. (Mynd S.B.)


Hér fyrir neðan má sjá hversu nálægt Ólafsey nútíminn er kominn. Ætli síðustu ábúendum hefði ekki þótt munur að geta gripið gemsann og hringt eftir hraðbát út í Hólm ef eitthvað vantaði - svosem Þorgeir pípara!

Það má einnig sjá bátana í vörinni í Ólafsey, hægra megin við miðja mynd sjást húsin í Stykkishólmi og vinstra megin sér til húsa í Gvendareyjum. Það er ekki vegalengdunum fyrir að fara, þó leiðir milli eyjanna gætu verið erfiðar eða hreinlega ófærar og lífshættulegar í myrkri og hörðum fallastraumum:


 


Hér ætla ég að slá botninn í fyrsta hluta sögunnar af "Sjö strauma siglingunni", við höfðum lagt að baki Stapastraum, Geiteying, Brattastraum og Stóra-Hjallseying en aðeins um þriðja hluta siglingarinnar. Hafi einhver áhuga á að afla sér frekari upplýsinga um bátana Gust og Bjargfýling má finna ágætar upplýsingar á síðu Ríkarðs Ríkarðssonar, Gustinn HÉR og Bjargfýling HÉR.

Gott í bili..

...........................


21.03.2014 08:45

Örstutt á föstudagsmorgni.


 Á AIS- kerfinu sé ég að Vestmannaeyjatogarinn Jón Vídalín var að leggjast að bryggju í heimahöfn fyrir nokkrum mínútum. Þá styttist í að félagi vélstjóri komi heim með sögur úr rallinu. Þeir á J.V. hafa nefnilega tekið þátt í Hafrórallinu undanfarnar vikur og mér skilst að sitthvað hafi gengið á. Þrátt fyrir slæma bilun í spili sem lagfærð var austur á Eskifirði, þá er seigt í þessum gömlu Japanstogurum........alveg lygilega seigt.

Í gærkvöldi komst ég yfir bunka af myndum frá árinu 1994,  teknar við ýmis tækifæri. Þær eru misgóðar en inn á milli eru þónokkrar eigulegar sem ég hreinlega man ekki eftir að hafa tekið. Nú  þarf að ræsa skannann.....

Ég er enn að kljást við "Sjö strauma siglinguna" sem minnst var á síðast. Þegar mér tekst að koma henni frá mér á mannsæmandi hátt mun hún birtast sem ein löng færsla og ætli menn að lesa alla ferðina með myndum í einu er eins gott að hafa nóg kaffi og meððí við hendina - svo er kort af Hvammsfjarðareyjum Breiðafjarðar eiginlega nauðsyn líka.

Hér við Höfðaborg er bjart, dálítið kalt og vindgjóla. Inni er hlýtt eins og venjulega.....

Gott í bili, lífið bíður....... 

08.03.2014 09:15

Höfðaborg að morgni áttunda mars 2014.


Það er strekkingsvindur úti, heyrist mér. Hitastigið er rétt um núllið og það hefur ekki fallið snjór í nótt. Gintaras í næsta húsi er í hefðbundnum barningi við bílinn sinn, sem vegna eldsneytisins lyktar eins og Hamborgarabúllan þegar hann loks fer í gang.

Það er verið að sjóbúa Stakkanesið, og að þessu sinni er það búið undir stórátök. Eftir u.þ.b. mánuð verður það nefnilega sett á vagn og flutt út á land. Ég geri ráð fyrir að það verði komið á áfangastað vel fyrir páska ef veður leyfir. Ég ætla mér nefnilega að eyða páskunum úti á landi og tek Stakkanesið með mér. Þangað til þarf að dytta að einu og öðru. Strákarnir hjá GG-Sjósporti pöntuðu fyrir mig nýjan björgunarhring því sá gamli var kominn til ára sinna og orðinn ljótur. Nýr hringur kallar á nýjar festingar og þær þarf að smíða. Svo varð ég fyrir því óhappi að í fyrravetur lak vatn inn með framglugga stýrishúss og skemmdi beykihillu undir gluggunum. Hana þarf að skipta um nú þegar lekinn hefur veið lagfærður. Frammi í lúkar er 220 v. inverter sem ég hef notað til að hlaða síma og keyra fartölvu. Nú er ætlunin að vera með fartölvuna aftur í stýrishúsi og nota kortagrunninn í henni á siglingu ásamt gps-tækinu. Það kallar á 220 v. lögn frá lúkar aftur í stýrishús og aukahillu fyrir fartölvuna. Þessutan er ég búinn að smíða festingar á afturstefnið og ætlunin er að smíða skriðbretti. Þetta bretti verður stillanlegt á meðan ég er að finna út hvaða halli á því hentar best. Ef þessi tilraun gefur góða raun má af henni áætla sköpulagið á nýjum skut - þ.e.a.s. ef ég fer út í þessháttar stórframkvæmdir. Allar slíkar smíðahugmyndir grundvallast á því að verkið skili tilætluðum árangri í gangi og stöðugleika.

Nú fyrir síðustu jól lokuðu 365 Miðlar tveimur bloggkerfum sem ég hef notað gegnum tíðina, þ.e. Blog-central og Blogg.visir.is.  Þetta var gert án nokkurrar viðvörunar eða ábendingar og olli því að mestallt efni áranna 2005 til hausts 2011 varð óaðgengilegt. Ég hafði samband við starfsfólk hjá 365 sem var allt af vilja gert til að hjálpa mér um efnið og hefur, þegar þetta er ritað útvegað mér allan texta af Blog-central kerfinu á geisladiski. Myndirnar skiluðu sér ekki en þær á ég að eiga til eða get útvegað aftur.  Eitthvað dýpra er á texta og myndum af Vísisblogginu og af því hef ég ekkert fengið frá 365. 

Svo var það í fyrradag (miðvikudag) að ég var snemma morguns að grufla á netinu í leit að ákveðinni mynd. Þá "poppaði upp" mynd úr gamalli bloggfærslu frá mér, sem skrifuð var í Blog-central kerfinu. Ég prófaði því kerfið og viti menn: Það var opið!  Ég ræsti soninn og tölvumeistarann Arnar Þór samstundis út og saman lágum við einhverja klukkutíma yfir því að afrita allt efni af kerfinu, bæði texta og myndir, og færa það yfir á minnislykil. Að því loknu ræsti Arnar eitthvað netapparat sem mér skislt að heiti "Waybackmachine" og geymir afrit af netinu " i det hele.." Eftir augnabliksleit í apparatinu kom fram nokkurskonar bakaðgangur að Vísisblogginu þar sem mátti finna flesta færslur sem skráðar voru í það frá upphafi til enda. Þær færslur voru samstundis afritaðar líka og færðar á kubb. Nú hefur því tekist að endurheimta um 80% af efni þessarra ára sem nefnd voru ofar og nú myndi einhver unglingurinn klykkja út með "Hjúkkit...."

Breiðfirðingurinn / Skáleyingurinn Sigurður Bergsveinsson hringdi til mín á dögunum og spurði hverju það sætti að ekki sæist lengur færsla sem ég skrifaði síðsumars 2011 um siglingu milli suðureyja Breiðafjarðar, þ.e. Hvammsfjarðareyjanna. Á þessa færslu var nefnilega tengt af þekktri bátasíðu en tengillinn var óvirkur. Ég útskýrði fyrir Sigurði þennan óleik sem 365 Miðlar höfðu gert mér og lét fylgja að unnið væri að endurheimt skrifanna.  Meðal þess efnis sem okkur Arnari tókst að ná gegnum "Waybackmachine" var einmitt þessi ferðapistill og það sem næst verður gert er að setja hann hingað inn með haus og hala - en vegna þess að ég geri ekki ráð fyrir að allir nenni að lesa þennan pistil alla leið hingað niður þá set ég stutta skýringu í haus ferðapistilsins þegar hann birtist. 

....og nú ætla ég að fara að gera eitthvað af viti...........

(E.S: Hún Sigurbjörg, stóra systir mín sem stödd er á Ísafirði þessa helgina, á afmæli í dag. Ég veit hún fær köku.....) 

04.03.2014 08:40

Dálítið um bókvit, aska og Justin Timberlake.


Ég hef ákveðið að hafa efnið í öfugri röð við fyrisögnina og byrja á Justin Timberlake. Ég vil taka fram að það eina sem ég veit um þennan Justin er að hann er tónlistarmaður á leið til Íslands og mun halda hér tónleika. Af því tilefni skilst mér að einhver útvarpsstöð (trúlega ein þeirra sem ekki er svona "öldungamiðuð" eins og Saga og Retro...) hafi efnt til samkeppni þar sem hlustendur áttu að skila inn sinni útgáfu af einhverju JT-lagi. Í vinning var svo upptökutími, geisladiskur og - ef ég fer rétt með - miðar á tónleikana.

Verslódaman mín, hún Bergrós Halla er JT aðdáandi nr. eitt - að eigin sögn - og hún settist niður með gítarinn og röddina sína. Með aðstoð vinkonu og gsm-síma tók hún upp lag sem mér skilst (það er margt í þessu sambandi sem ég verð að láta mér "skiljast") að sé vel þekkt. Upptökuna sendi hún svo inn á viðkomandi útvarpsstöð - og vann!

Ef tæknin bregst mér ekki má finna þessa upptöku  "HÉR".

...............................................................................................

"Ekki verður bókvitið í askana látið"

Ég var örugglega ekki gamall þegar ég las þetta máltæki í fyrsta sinn. Mörgum sinnum síðan hef ég séð það og heyrt en með árunum hefur mér sýnst að skilningurinn sem lagður er í máltækið sé nokkuð á reiki.  

Þó nokkrum sinnum hef ég rekist á þá útleggingu að menntun sé varanlegri en matur og sé því að öllu leyti betri. Það verði aldrei hægt að éta góða menntun. Matur hverfi en menntun ekki. Ég hef ekki séð þessa útleggingu máltækisins útskýrða beinlínis á þann hátt heldur hef ég skilið hana af samhenginu - og það er ekki flókið að skilja samhengi jafn einfaldra hluta. 

Sá skilningur sem ég hafði á þessu einfalda - og þó ekki - máltæki er sá að menntun, þ.e. bókvit, sé eitthvað sem enginn geti lifað á og því sé meira virði að leggja sig fram um öflun lífsviðurværis en að liggja í bókum. M.ö.o.: Þeir sem láta bækur lönd og leið en beita sér fyrir mataröflun, þeir muni lifa. Þeir sem liggi í bókum en gleymi hinu líkamlega fóðri muni þá væntanlega veslast upp og deyja drottni sínum - því ekki verði bókvitið étið til viðurværis. 

Íslensk þjóð hefur lifað marga hörmungartíma. Það má nefna jarðelda, hafísár, jarðbönn af snjó og frosti, gæfta-og fiskleysi og þessutan allar sjúkdómaplágurnar sem gengið hafa yfir. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá hvað þeir sem börðust fyrir lífi sínu á þessum tímum settu í fyrsta sæti. Það var sannarlega ekki bóklestur!!

Ég er að ljúka lestri "Skútualdarinnar" eftir Gils Guðmundsson. Efst á bls. 202 í fimmta og síðasta bindi má lesa eftirfarandi: 

"Aðaláherzlan var lögð á það, strax og börnin fóru að skríða á legg, að þau lærðu að vinna. Þau voru látin ganga að störfum með fullorðna fólkinu, strax og þau voru fær um að halda á áhöldunum, stúlkubörn jafnt og drengir; þær lærðu að slá sem þeir, og yfirleitt að ganga að hvaða verki sem var. Skóla heyrðu börnin ekki nefndan, og lærdómur var ekki að jafnaði gylltur fyrir þeim; en viðkvæðið hjá gamla fólkinu: "Bókvitið verður ekki látið í askana", heyrðu þau því oftar. Yfirleitt var þó börnum kennt að lesa; skrift og reikning var minna hirt um; kverið, altarisgöngubænir og nokkra sálma urðu öll börn að læra, ef þau áttu að ná fermingu. Eftir að börnin höfðu lært að lesa, var ábyrgðin þeirra að standa sig við ferminguna. Kverið gátu þau lært í hjásetunni á sumrin og við gegningar á vetrum"  (tilv.l.)

Þessi texti hér að ofan er skrifaður upp veturinn 1943 eftir Sigurði Hrólfssyni skipstjóra frá Draflastöðum í Fnjóskadal. Sigurður var fæddur árið 1866, sama ár og Ísafjörður fékk kaupstaðarréttindi. Síðan er liðin hálf önnur öld og það má efalítið treysta því að sá skilningur sem Sigurður Hrólfsson lýsir á máltækinu sé sá upphaflegi og rétti.

......enda ætla ég að halda mig við hann, leggja frá mér Skútuöldina og nýta daginn í eitthvað skynsamlegt!

Hún Áróra mín hefur skráð nýja kveðju frá Mexíkó. Ef einhver vill heimsækja hana á síðuna þá er slóð bæði HÉR og svo í  dálknum hægra megin undir neðsta liðnum: "Úrvals skrifarar"

....yfir og út!

  • 1
Flettingar í dag: 153
Gestir í dag: 71
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135120
Samtals gestir: 27893
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:59:02


Tenglar