Sjö strauma siglingin.
20. ágúst 2011.
Mig minnir að klukkan hafi verið um hálfþrjú
föstudaginn fimmta ágúst sl. þegar Sigurður Bergsveinsson hringdi. Hann setti
fram einfalda spurningu: Hvort ég væri búinn að
ráðstafa morgundeginum?
Ég var svo sem ekki búinn að fastnegla neitt, þó við
Elín Huld hefðum talað okkur saman um einhverja ferð á útilegubílnum. Það var
líka eins gott, því þegar Sigurður Bergsveinsson spyr hvort maður sé búinn að
ráðstafa morgundeginum - ja, þá býr eitthvað undir sem vert er að heyra meira
um. Og þannig var það líka. Sigurður og félagar höfðu ráðgert
siglingu frá Stykkishólmi um suðureyjar Breiðafjarðar í blíðunni sem aldrei
bregst á þeim slóðum. Þeir ætluðu á tveimur, jafnvel þremur bátum og hann vildi
gjarnan bjóða mér með á GUSTI sínum. Þegar maður fær svona boð er aðeins eitt
svar til, hvað sem líður öðrum plönum. Ég sagði já, jafn hátt og skýrt og væri
ég kona að játast Sigurði Bergsveinssyni fyrir altari!
Sá hluti Breiðafjarðareyjanna sem í daglegu tali er
kallaður suðureyjar er eyjaklasinn - eða eyjamorið - sem girðir Hvammsfjörðinn
þvert, allt frá Þórsnesi að sunnan að Klofningi að norðan. Ef nefna á helstu og
þekktustu eyjarnar má telja Brokey, eina stærstu eyju Breiðafjarðar, Öxney,
Gvendareyjar, Ólafsey, Purkey, Hrappsey, Klakkeyjar (toppana sem sjást víða að
enda hæstu eyjar í Hvammsfjarðarmynni) og utar liggja svo
Langeyjarnar tvær, efri og fremri, Arney, Bíldsey, Fagurey, Elliðaey og
Vaðstakksey. Mér skildist á Sigurði að ætlunin væri að sigla frá Stykkishólmi
inn undir Gvendareyjar og reyna að ná góðum hring meðan vel stæði á falli.
Siglingar um eyjasvæði Breiðafjarðar ráðast nefnilega meira af sjávarföllum en
nokkru öðru náttúruafli og laugardaginn 6. ágúst var háflóð í Stykkishólmi
klukkan sirka 11.40. Hugmyndin var að sigla af stað vel fyrir háflóð og fylgja
straumnum inn milli eyja. Ef allt gengi sem ætlað væri yrðum við svo á
útfallinu til baka.
Sigurður hafði orðað það að bjóða Gunnlaugi
Valdimarssyni Rúfeyingi með í siglinguna, Gulli er kannski ekki manna
kunnugastur á þessu svæði en kunnugur samt og hann hafði staðið eins og
víkingur við stýrið á RÚNU sinni gegnum Rúfeyjaröstina í byrjun
júlí, þegar Bátasafn Breiðafjarðar hélt sína árlegu hópsiglingu. Þegar ég svo
hringdi í Gulla til að færa honum boð Sigurðar var hann lélegur til
heilsunnar og treystist ekki í förina. Það var miður en varð ekki að gert.
Laugardagsmorgunninn 6. ágúst heilsaði með dýrlegu
veðri. Síðustu hrafnar næturinnar voru á heimleið og blaðberar á stjái þegar
lagt var af stað úr Kópavogi áleiðis í Stykkishólm. Allajafna tekur það
mig um tvo tíma að aka þessa leið, nú var fátt sem tafði og ég var kominn á
leiðarenda mun fyrr en ég hafði áætlað. Ekki þó nógu snemma til að ná Gunnlaugi
Valdimarssyni í bólinu, nei, sá gamli var á fótum og um eldhúsið á
Austurgötunni lagði kaffiilm. Heilsan hafði þó lítið lagast frá deginum áður og
Gulli ákvað endanlega að sitja heima. Þeir Sigurður og félagar höfðu
ákveðið brottför kringum tíu um morguninn og eftir dálítið bryggjuspjall þar
sem menn "hrærðu sig saman" voru bátar ræstir, farangri staflað og
endum sleppt.
(Mynd frá S.B.- Frá vinstri Einar Sigurðsson, Gunnar
Th, Þórarinn Sighvatsson formaður á litla Þyt í eyjasiglingunni 2.7.
sl. og maður sem ég man ekki nafnið á!)
Þeir voru tveir, bátarnir sem lögðu upp í
eyjasiglinguna þennan laugardagsmorgun. Á Gusti, þeim stærri vorum við fimm: Sigurður
Bergsveinsson formaður, ættaður úr Ólafsey og Gvendareyjum,Halldór Bárðarson trésmiður
úr Mosfellsbæ, mágur Sigurðar, Sturla Jóhannsson hlunnindabóndi
í Ólafsey og strandveiði-trillukarl í Stykkishólmi, ættaður úr Öxney og
Gvendareyjum. Þeir Sturla og Sigurður formaður eru systrasynir. Fjórði maðurinn
var Einar Sigurðsson, fv. landsbókavörður, fæddur og uppalinn í
Gvendareyjum, móðurbróðir Sigurðar og Sturlu. Fimmti maður um borð var ég, alls
óskyldur og ótengdur en áhugamaður um allt áhugavert sem tengist
Breiðafjarðareyjum og það, ásamt því að vera brúkleg ballest, gerði mig
gjaldgengan um borð.
(Mynd frá S.B: Öxneyingurinn og Ólafseyjarbóndinn
Sturla Jóhannsson leggur línurnar..)
Hinn báturinn var Bjargfýlingur. Báðir þessir bátar, Gustur og Bjargfýlingur voru í
Rúfeyja/Rauðseyjasiglingunni þann 3ja júlí sl. Þá fannst mér eftirtektarvert hvað
Bjargfýlingur fór fallega í sjó, sama hvaðan aldan kom. Þessari litlu fleytu,
sem eitt sinn hét því stóra nafni "Grettir Ásmundsson"
fataðist hvergi, sama hvaðan aldan kom - ekki frekar en nafna hans forðum á
Drangeyjarsundinu. Í áhöfn á Bjargfýlingi voru þennan laugardag þeir Þorgeir
Kristófersson pípulagningameistari í Mosfellsbæ, ættaður úr Skáleyjum
og systursonur þeirra Jóhannesar, Eysteins og Ólafs Gíslasona. Annar var Jón
Helgi Jónsson, hlunnindabóndi í Purkey, búsettur í Stykkishólmi og sá
þriðji var Ari Björnsson, rafvirkjameistari í Borgarnesi.
Það er rétt að setja hér bút úr korti til að gefa
einhverja hugmynd um hvert siglt var. Í upphafi var siglingaleiðin ekki
fastákveðin en nokkrar hugmyndir höfðu menn þó til að fylgja.
Þegar komið var út úr höfninni í Stykkishólmi var
stefnan tekin austur fyrir Súgandisey og inn fjörðinn. Við sigldum rétt norðan
við skerið Baulu, og ég mátti til að mynda Bjargfýling á siglingunni:
Þórishólma ber í stýrishúsið á Bjargfýlingi, en á
stjórnborða stóð Baula upp úr sjónum, sakleysisleg að sjá en þó tengd landi með
hraunrana rétt undir yfirborðinu:
Frá Baulu var útsýnið svona inn fjörðinn. Álftafjörður
gengur inn í Skógarströndina til hægri en á miðri mynd gnæfa Staparnir og
Stóristapi þeirra langhæstur og tilkomumestur. Í eyju til vinstri má sjá hús,
þar sér til lands í Skákarey:
.....og væri litið um öxl bar Helgafellið í
Bjarnarhafnarfjall, þar sem sólin var að ryðja frá sér skýjaþykkninu:
Til vinstri handar (nú má ég ekki segja: "Á bakborða",
því kannski vita ekki allir hvað er "bak" og hvað er "stjór") runnu Seley og
vestan hennar hólminn Fagurey, hjá. Héðan frá séð virðist Fagurey áföst Seley
en svo er ekki:
Við renndum inn á leguna í Skákarey en höfðum þar ekki
frekari viðdvöl. Einn selur var þarna á bótinni, líklega var hann sjálfskipaður
landvörður, því hann stóð oftar en ekki hálfur uppúr sjó og rannsakaði okkur
gaumgæfilega. Ekki tókst þó að ná honum á mynd.
Við sigldum þröngt og grunnt sund sunnan við Skákarey,
innundir Stapana:
Að stuttri stund liðinni vorum við komnir innundir
Stórastapa. Sunnan og austan (innan) við stapann er Stapastraumur og um hann
ætluðum við:
Stuðlabergið í Stórastapa er hreint magnað, og þá ekki
síður stuðlahrúgan undir því:
Það sem virðast vera hús á Skákarey eru í raun
trjálundir:
Það er ekki skrýtið þó maður verði hálf-bergnuminn á
siglingunni um Stapastraum:
Það mun hafa verið einhversstaðar á þessarri
siglingaleið sem Sigurður formaður skipti sambyggðum GPS/dýptarmælinum yfir á
heila GPS mynd í þeim tilgangi að sýna mér eldri siglingaferil um þessar
slóðir. Ekki höfðum við lengi rýnt þegar skipun barst frá okkar helsta
leiðsögumanni, Sturla bónda í Ólafsey: "Hafðu myndina á mælinum!". Það
var auðvelt að átta sig á ástæðunni. Sturla er þaulkunnugur á þessum slóðum og
þekkti jafnt landið sem sást og hitt sem ekki sást - þ.e. sjávarbotninn. Hann
var ekki síður fjölbreytilegur en þurrlendið og það kom margoft fyrir að
mælirinn sýndi 12-18 metra dýpi, síðan kom lóðréttur veggur fram og dýpið varð
1,5 - 2 metrar. Örskömmu seinna kom aftur veggur og dýpið varð kannski 20
metrar eða meira - alveg magnað að sjá. Það gagnaðist okkur því lítið að hafa
dýpistölurnar einar á skjánum ef ekki var hægt að lesa botninn. Það sem eftir
var ferðar var tækið því stillt á tvískiptan skjá, hálfan GPS og hálfan
dýptarmæli.
Væri litið inn í Álftafjörðinn sýndist heldur vera að
létta til. Við vorum komnir inn úr Stapastraumi og okkur til hægri handar voru
Hrísey og Geitareyjar. Leiðin lá um strauminn Geiteying, milli Geitareyja og
Gvendareyja, en við vorum nálægt háflóði og straumsins gætti ekki nema að litlu
leyti. Vegalengdir milli eyja og eyjaklasa eru litlar og eftir stutta siglingu
um Geiteying vorum við komnir inn undir leguna í Gvendareyjum.
Ásta Eggertsdóttir Fjeldsted, verslunarkona á
Ísafirði eignaðist Gvendareyjar um miðjan fimmta áratug síðustu aldar og
afkomendur hennar eiga þær enn. Arngrímur, sonur Ástu og fyrrum blómasali
á Ísafirði hefur dvalið þar á sumrum og gerir ýmislegt sér til dægrastyttingar.
Þegar við komum undir heimaeyjuna hittum við Arngrím þar sem hann var við
smíðar í lítilli vík vestarlega á eynni.
Við heilsuðum, kynntum okkur og báðum um leyfi til að
ganga á land í vörinni við bæjarhúsin. Það leyfi var auðfengið, en heyra mátti
á Arngrími að lítið hefði farið fyrir leyfisbeiðnum hjá stórum hópi kajakræðara
sem sjá mátti álengdar við bæjarvörina. Honum var ekki um það gefið að fólk
færi valsandi um eyjuna í leyfisleysi - enda skiljanlegt. Við kvöddum svo
þennan iðjusama Ísfirðing og héldum innundir vörina, þar sem lítil, hlaðin
steinbryggja myndaði gott skjól.
Við lögðumst að steinbryggjunni og Bjargfýlingur
utaná. Í vörinni voru kajakræðarar að búast til brottfarar, þetta var sem fyrr
segir nokkuð stór hópur og Sturla bóndi gaf sig á tal við nokkra, hafði enda
áður gefið þeim leyfi símleiðis til að slá upp búðum á landareign sinni í
Öxney.
(Það var vel við
hæfi að mynda skipstjórann á breiðfirska súðbyrðingnum Gusti með plastspækjur
bakpokaferðalanganna í baksýn. Myndir frá S.B.)
Það má sjá af myndunum, hversu stutt er frá
Gvendareyjum til lands á Skógarströnd, og hér má einnig sjá haganlega
lendinguna í Heimaey Gvendareyja - allra átta skjól:
Við gengum upp á eyjuna og lituðumst um, enda útsýnið
hreint frábært í blíðviðrinu. Tveir úr áhöfn Bjargfýlings stilltu sér upp til
myndatöku, sá þriðji mundaði vélina (og sá fjórði myndaði alla þrjá):
Það er töluverð trjárækt í Gvendareyjum, eljuverk
genginnar kynslóðar standa lengur en mannfólkið, sem kemur og fer....
Einar Sigurðsson, ferðafélagi okkar fæddist í litla,
hvíta bæjarhúsinu árið 1933 og þó Einar væri hreint ekkert gamalmenni, hraustur
og fótléttur fannst mér hann yngjast um mörg ár við heimsóknina í eyjuna.
Þegar við
bjuggumst til brottfarar eftir ágæta gönguferð var mættur í vörina Páll bóndi í
Brokey. Hann var að sinna erindum við Arngrím og líta eftir öðrum eigum
Þessi einstaki klettaveggur ofan við lendinguna í
heimaey Gvendareyja er hreinlega eins og hlaðinn - einn eitt furðuverk
náttúrunnar sem svo endalaust er af á þessum slóðum. Myndin er tekin um
leið og Gusti var rennt út frá litlu steinbryggjunni og stefnan sett áfram inn
eyjasundin.
Við sigldum austur fyrir heimaey Gvendareyja. Eyjan
endar í háum klettahöfða en rétt austan hans eru Hjallseyjar. Litla-Hjallsey er
næst höfðanum og á milli er Brattistraumur, en um hann segir í Árbók F.Í. frá
1989 að hann sé einn harðasti straumurinn í öllu Hvammsfjarðarmynni. Orðrétt: "Hann
er þröngur og fremur grunnur með skeri í miðju og myndar á útfalli foss sem er
á annan metra að fallhæð" (bls 85). Á næstu mynd má sjá
kajakræðarana leggja upp frá Gvendareyjum og stefna norður Brattastraum:
(Mynd S.B.)
Höfðinn austast á heimaey Gvendareyja,
Brattistraumur er að baki vinstra megin á myndinni:
..og Bjargfýlingur fylgir á eftir gegnum Brattastraum,
sem þennan dag var í óvenju góðum ham enda sléttur liggjandi...
Framundan var straumurinn Stóri - Hjallseyingur,
grunnur og vandsigldur enda stóðu þarabrúskar uppúr sjónum á bæði borð.
Dýptarmælirinn var þó nokkuð stöðugur í hálfum öðrum metra og undir traustri
leiðsögn Sturlu runnum við örugglega inn á legu í Ólafsey.
( neðsta mynd S.B.)
Þeir frændur Sturla, Sigurður og Einar eru allir
nátengdir Ólafsey og hún varð því nokkuð löng, sögustundin við grunn
íbúðarhússins sem þar stóð. Reyndar gætti Sturla bátanna meðan við hinir gengum
á land, en þeir Sigurður og Einar uppfræddu okkur hina ásamt því að rifja
sjálfir upp liðna tíma:
(Neðri mynd S.B.)
Bærinn í Ólafsey hefur verið ágætt hús á sínum tíma,
vel byggt og reyndar svo vel að eftir að búsetu lauk var húsið tekið niður og
viðir þess notaðir í húsbyggingu úti í Stykkishólmi:
(Mynd frá S.B.)
Steyptur kjallarinn hafði hins vegar hvergi farið og
var ekki á leið neitt:
Einar Sigurðsson situr á grunni hússins í Ólafsey.
(Mynd S.B.)
Hér fyrir neðan má sjá hversu nálægt Ólafsey nútíminn
er kominn. Ætli síðustu ábúendum hefði ekki þótt munur að geta gripið gemsann
og hringt eftir hraðbát út í Hólm ef eitthvað vantaði - svosem Þorgeir pípara!
Það má einnig sjá bátana í vörinni í Ólafsey, hægra
megin við miðja mynd sjást húsin í Stykkishólmi og vinstra megin sér til húsa í
Gvendareyjum. Það er ekki vegalengdunum fyrir að fara, þó leiðir milli eyjanna
gætu verið erfiðar eða hreinlega ófærar og lífshættulegar í myrkri og
hörðum fallastraumum:
Hér ætla ég að slá botninn í fyrsta hluta sögunnar af
"Sjö strauma siglingunni", við höfðum lagt að baki Stapastraum, Geiteying,
Brattastraum og Stóra-Hjallseying en aðeins um þriðja hluta siglingarinnar.
Hafi einhver áhuga á að afla sér frekari upplýsinga um bátana Gust og
Bjargfýling má finna ágætar upplýsingar á síðu Ríkarðs Ríkarðssonar, Gustinn HÉR og Bjargfýling HÉR.
Gott í bili..
...........................