Endalokin
nálgast óðfluga. Það er átjándi febrúar og ekki lifa nema tíu dagar af þessum stysta mánuði ársins. Hér í Höfðaborg gerist fátt markvert, það er helst að einhver líti inn í kaffi fyrri hluta dags en þrátt fyrir stopul innlit flýgur tíminn og endalok þessa febrúarmánaðar nálgast semsé óðfluga. "Skútuöldin" hans Gils Guðmundssonar telur fimm bindi og ég er hálfnaður með það síðasta. Ég ætlaði líka að ljúka "Íslenskum sjávarháttum" Lúðvíks í vetur en það er risaverkefni og verður því úr þessu að bíða næsta vetrar.
Af því síðasti pistill snerist að miklu leyti um neytendamál, þann ósið framleiðenda að merkja matvöru með síðasta neyslu/söludegi löngu fyrir raunverulegan "lokadag" og ég lofaði sögunni af sprauturjómanum í næsta pistli þá ætla ég að standa við loforðið og skrifa mig um leið frá því.
Síðla árs 2012 keypti ég þetta fína vöfflumix í Bónusbúð og bætti um betur með rabarbarasultu og sprauturjóma. Heim kominn skellti ég svo í eina hræru og bauð Bassa með mér, enda kunna fáir betur að meta vöfflur með sultu og rjóma en Edilon Bassi. Eftir baksturinn og eftirfarandi veislu áttaði ég mig á því að allt húsið angaði af smjörlíkis - vöfflubrælu og hét því með það sama að hér um sali yrðu ekki bakaðar fleiri vöfflur. Sultukrukkan tæmdist með tímanum þegar brauð rak á fjörur okkar Bassa en þrýstibrúsinn með rjómanum lá ósnertur inni í ísskáp. Á botni hans stóð "best before...." og dagsetningin 18.11.2012.
Ég vissi að hún Elín Huld var vön að henda svona brúsum fljótlega eftir að dagsetningin á botninum rann upp, alveg burtséð frá því hvort innihaldið var raunverulega ónýtt. Talan gilti hvað sem tautaði og raulaði. Þess vegna datt mér í hug að geyma nú brúsann eins lengi og ég gæti heyrt innihaldið hristast. Trúr tekinni ákvörðun hristi ég brúsann á tveggja, þriggja mánaða fresti og alltaf hreyfðist innihaldið. Ég gætti þess þó að taka hann aldrei út úr ísskápnum nema bara það augnablik sem hristan tók.
............................................................................................................
Uppi á vegg í Höfðaborg hékk til skamms tíma afar falleg mynd, að mér fannst. Þetta var stór mynd úr IKEA, meter sinnum einnogfjörutíu að stærð og myndefnið var ísjaki á suðurskautslandinu. Nágranni minn sá þessa mynd eitt sinn hjá mér og dáðist að henni. Þessi granni minn er góður maður og því lofaði ég honum að að yfirstöðnum skipulagsbreytingum í Höfðaborg skyldi hann fá myndina að gjöf, þar sem hún samrýmdist ekki nýjum arkitektúr staðarins. Tíminn leið og í fyllingu hans færði ég granna myndina og fékk að launum köku eina heilmikla, kringlótta með þykku brúnu kremi og fleira skrauti. Kökuna átti granni í frysti enda var líkt á komið með henni og þrýstirjómabrúsanum - hinsti dagur var upp runninn fyrir nokkru síðan. Ég setti kökuna í frystinn minn enda áleit ég hvorugum okkar Bassa hollt að hakka í okkur heila súkkulaðitertu í einu. Þegar súkkulaðitertur eru annarsvegar erum við nefnilega jafn óstöðvandi báðir tveir. Allir hafa jú sína veikleika!
.....................................................................................................................
Svo kom fólk í heimsókn. Það var engin forsetaheimsókn, bara svona venjuleg kunningjaheimsókn en þeir voru semsagt fleiri en einn og fleiri en tveir í það skiptið. Ég sótti súkkulaðibombuna í frystinn og þíddi hana í örbylgjuofninum. Skellti henni á borðið ásamt tilheyrandi amboðum fyrir mannskapinn og sótti þrýstirjómabrúsann sem samkvæmt áletrun á botni hafði mætt sínu skapadægri fjórtán mánuðum áður. Ég bað nærstadda að rétta fram fingur, sprautaði ögn á hvern og spurði um leið með tilhlýðilegum áhyggjusvip: "Ereddeggi í lagi?" Jú, allir luku lofsorði á sprauturjómann enda hélt ég brúsanum fyrir mig og þar með "skapadægrinu".
Þegar yfir lauk lágu tveir þriðju hlutar kökunnar í valnum og meginhluti rjómans einnig. Þegar gestirnir höfðu lokið tilætluðu lofsorði á veitingarnar áræddi ég að sýna botninn á brúsanum. Þá var enda of seint að snúa við blaðinu, fjölskipaður dómurinn hafði jú eftir bragðprófun dæmt rjómann í fínu lagi - sem hann jú var.
Aftur fór brúsinn inn í ísskáp til áframhaldandi geymslu en aðeins í nokkra daga þar sem við Bassi stóðumst ekki mátið, vitandi líka af kökuþriðjungi á diski í skápnum. Næst þegar andinn kom yfir okkur renndum við í okkur bitanum vel "rjómuðum" og það stóðst á endum að þegar kökudiskurinn var hroðinn var aðeins lögg eftir í þrýstibrúsanum. Þar með fór hann í ruslið, hálfum fimmtánda mánuði eftir merkt skapadægur, en að manni sótti enn og aftur þessi hugsun um heil og óskemmd matvæli sem hent er á haugana til að hægt sé að selja auðtrúa sálum meira og meira og meira..........
Áróruengillinn minn er nú búin að vera heilan mánuð í Mexíkó. Nýkomin út setti hún upp bloggsíðu til að leyfa þeim sem heima sitja að fylgjst ögn með því sem á dagana drífur. Hún vinnur sjálfboðastarf á barnaheimili og er, að mér sýnist, í essinu sínu á þeim vettvangi. Meðal þeirra sem heima sitja er kærastinn Stefán og það var alveg eftir henni Áróru að velja -ÞESSA- slóð á síðuna sína.
Endilega heimsækið Áróru á síðuna hennar. Hún hefur bara gaman af því!