Jújú - það
gekk þokkalega austur í Hrífunes í gærmorgun, takk fyrir! Veðrið var líka ágætt, eiginlega hálfgert vorveður þannig séð.
....og hvað var svo verið að þvælast austur í Hrífunes um hávetur?
Það skal ég opinbera. Kunningi minn til allmargra ára stundar hlunnindabúskap austur þar og til búskaparins brúkar hann vélar og tæki. Eitt þeirra tækja var komið á viðhald og fyrir lágu nokkrar aðkallandi viðgerðir. Þarna fyrir austan hníf og gaffal en hins vegar lítið hægt að gera nema menn séu hreinlega með heilt verkstæði með sér og vantar þó venjulega eitthvað uppá. Því skyldi hálfhaltrandi apparatinu komið til höfuðborgarinnar með einhverju móti. Eftir að hafa þegið góðra manna ráð varð úr að við leigðum kerru á stærð við strætisvagn, hengdum aftan í Patroljeppa og lögðum af stað rétt fyrir tíu í gærmorgun.
Myndavélin mín er illa fallin til myndatöku í myrkri eins og þeir kannski muna sem sáu myndirnar úr Rauðfeldargjá á sínum tíma. Það verður því að taka viljann fyrir verkið. Patroljeppinn dró strætóinn nokkuð auðveldlega og við runnum vandalaust inná Suðurlandsveginn. Í Lögbergsbrekkunni lá stór jeppi á hliðinni talsvert langt utan vegar - mér sýndist það vera líka Patrol - og yfir honum stóðu nokkrir menn. Allt virtist þó slysalaust en atvikið gaf ástæðu til að varast launhálku á stöku stað.
Þegar kom yfir heiði var bjart að sjá austur eftir og sú birta náði allt að Eyjafjöllum. Þar dró heldur í loft og við Pétursey var ljósaskilti sem varaði við vindhviðum á Reynisfjalli. Það var dálítið skrýtið því lengst af höfðum við ekið í stafalogni en skiltið laug ekki og á fjallinu var krappur vindur og regnskúrir. Vindbelgingurinn entist austur á Mýrdalssand og oftar en ekki fylgdi regnfruss með. Öllu slíku lauk þó snarlega þegar beygt var upp að Hrífunesi enda fullyrti hlunnindabóndinn að á þeim slóðum ríkti eilífðar veðurblíða hvað sem á gengi annarsstaðar.
Þegar ekið var í hlað tók sjúklingurinn kyrrlátlega á móti okkur enda kom á daginn að hann gat sig hvergi hreyft - var hreinlega dauður með öllu!
Annað apparat átti bóndi frammi á heiði og vildi nálgast það áður en farið yrði í aðrar athafnir. Það var þrettán tonna beltagrafa sem átti nú að taka á hús, og ef ekki vildi betur verkast, nota til að ýta sjúklingnum upp á kerruna. Við ókum upp að gömlu vegasjoppunni í Hrífunesi, sem nú er verið að breyta í sumarhús, og tókum stöðuna þar. Myndin er tekin frá því húsi og rauða örin á að benda á gröfuna upp í heiði. Beltagröfur ferðast ekki hratt og það var ljóst að það myndi taka talsverðan tíma að koma vélinni alla leið niður að húsum.
( á milli myndanna eru tæpar 180 gráður - sú efri norður, sú neðri suður )
Það var ekki seinna vænna að leggja af stað og eftir skamma stund var komin hreyfing á hlutina. Á næstu mynd er horft niður yfir Hrífunes í átt að Meðallandi:
Á meðan beltavélinni var ekið niðureftir var reynt að koma lífi í sjúklinginn. Ekki vildi það ganga í fyrstu tilraun og það var í rauninni fyrst þegar eigandinn kom lötrandi á beltavélinni til byggða að sjúkrasagan fékkst fram óslitin og í smáatriðum. Eftir það var hægt að sinna endurlífguninni á rökrænan hátt - vélin var semsé olíulaus og þeir sem höfðu lent í vandræðum með hana í haust höfðu ekki getað komið henni í gang með venjulegum ráðum. Vélin hafði staðið inni í hlöðu aftan við beltagröfuna og þegar grípa átti til gröfunnar voru góð ráð dýr. Hún hafði því verið dregin með jeppa úr hýði sínu í hlöðunni og sett þarna út á grasblett. Nú fóru hlutir að skýrast!
Ástæðan fyrir því að ekki gekk að koma vélinni í gang var fljótfundin - handdælan fyrir hráolíuna dældi engu, eða öllu heldur dældi hún afturábak og áfram. Í farangrinum voru nokkur verkfæri og ekki annað að gera en taka dæluna úr vélinni og hluta í sundur. Það kom á daginn að dælan var full af óhreinindum úr tanknum, nokkuð sem er býsna algengt þegar verið er að dæla hráolíu úr gömlum, ryðguðum ílátum á tanka vinnuvéla. Við þeystum með dæluna upp í sumarhúsið þar sem hún var vandlega hreinsuð í eldhúsvaskinum.
Eftir lagfæringar, þrif og samsetningu varð þetta hin ásjálegasta dæla:
Þess var heldur ekki langt að bíða að dráttarvélin vaknaði til lífsins og nú loks fóru hjólin að snúast! Það er Bergendal sjálfur sem spáir þarna í framskófluhraðtengið sem var, líkt og margt annað, úr lagi gengið:
Skóflan sjálf átti að verða eftir, hún hafði ekkert til Reykjavíkur að gera svo eftir að hafa lagt hana út í gras var stillt upp og mátað við kerruna:
....svo var prjónað:
..og svo, eftir að hafa lyft afturenda Patroljeppans á loft, var hún inná - og sat svona líka flott!
Þriggja öxla kerran með 3,5 tonna burðargetuna virtist hvergi barma sér og lagðist ekki svo merkjanlegt væri. Næst þurfti að strappa vélina niður á sem öruggastan hátt:
Þá var fátt að vanbúnaði og lítið eftir nema taka beltavélina á hús.
Svo var lokað, gengið frá og lagt af stað. Fyrstu metrarnir lofuðu góðu, dráttarvélin sat vel á kerrunni, hemlarnir á kerrunni virtust virka á viðunandi hátt og jeppinn réð þokkalega við hlassið. Spölkorni neðan við Hólmsárbrúna þurftum við þó að taka "viðgerðarhlé" þar sem planki undir ámoksturstækjunum losnaði.
Lagfæringin tók augnablik og nú lá leiðin heim. Hraðinn var ekki nema um 60 km og það var komið myrkur þegar við náðum að Vík. Enn logaði rauð vindaðvörun fyrir Reynisfjall en nú var vindurinn með okkur og hjálpaði til upp brekkurnar. Það þarf líka dálítið sterkan vind til að hrista CASE 895!
Ferðin gekk vandræðalaust, við litum á festingar og hjólbarða á Hvolsvelli og síðan á Selfossi þar sem snæddur var síðbúinn kvöldmatur (sem vegna anna dagsins var raunar líka enn síðbúnari hádegismatur). Af praktískum ástæðum völdum við Þrengslin og ókum því til Hveragerðis og niður Ölfus. Lofthitinn í Þrengslunum var ekki nema um 2 gráður en vegurinn var þurr og hálkulaus með öllu. Klukkan var rétt um hálftíu að kvöldi þegar við renndum í hlað við N1 á Réttarhálsi. Þar var vélin tekin af og kerrunni skilað í stæði:
Við ókum kerrulausir heimleiðis frá N1 klukkan 21.52. Ég leit á klukkuna um morguninn þegar við lögðum af stað með kerruna frá sama stað og hún var þá 9.46. Við höfðum verið slétta tólf tíma að sækja þennan níðþunga Lazarus austur í Hrífunes og koma honum heim vandræðalaust - og það var miður janúar!
Þetta voru ekki leiðinlegustu tólf tímar ævinnar.............