Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2013 Október

30.10.2013 08:22

Hrúturinn Hreinn.


Eins og fram kom í niðurlagi síðasta pistils höfðum við ekki fengið nóg eftir ferðalagið vestur í Skálmarnesmúla, enn var nóg olía á tanki sjúkrabílsins og eftir einnar nætur viðstöðu á höfuðborgarsvæðinu var enn lagt af stað - í þetta sinn austur fyrir fjall. Veðrið var bæði skárra og verra en við höfðum búist við, veðurspáin fyrir þennan landshluta hafði lengst af verið tvíræð en við höfðum búist við vindbelgingi og þungbúnum himni. Stefnan var sett á Flúðir þar sem fram skyldi fara árleg torfærukeppni dráttarvéla. Við ókum austur undir Selfoss, upp Biskupstungnabraut að Reykholti og yfir nýju brúna á Tungufljóti austur að Flúðum. Við vorum tímanlega á staðnum - eiginlega alltof tímanlega, því enn var hálfur annar tími í keppni.

 

Það var því hellt uppá kaffi og reiddur fram snöggheitahádegisverður meðan beðið var. Smám saman fjölgaði á svæðinu og við, sem höfðum lagt bílnum nokkuð drjúgan spöl frá hringiðunni vorum allt í einu stödd í henni miðri. Í miðjum málsverði var bankað hressilega á dyrnar, úti fyrir stóð Björn Samúelsson á Reykhólum og leitaði upplýsinga um keppnina. Það voru ekki liðnir margir dagar frá því við stóðum á spjalli við Björn á bryggjunni við Staðarhöfn á Reykjanesi vestra og enginn minntist þá á traktorstorfæruna, enda við á vesturleið og hann á leið út í Breiðafjarðareyjar með ferðamenn. En nú var hann semsagt kominn austur á Flúðir með efnilegan afleggjara sinn og sá sýndist verulega áhugasamur um keppnina. Við gátum leiðbeint þeim feðgum eitthvað og þeir hafa örugglega skemmt sér jafn vel og við okkur. Við vorum með myndavélina meðferðis en steingleymdum að nota hana og því vísast til pistils frá 2010 sem finna má HÉR

 

Meðan við dvöldum á Flúðum var þokkalega bjart, allnokkuð skýjafar og stífur vindbelgingur svo laus mold á svæðinu fauk upp og myndaði brúnan hjúp yfir fólk og farartæki. Við töldum því einsýnt að næsta skref ferðarinnar yrði sundlaugarheimsókn og þar sem ekki var viðlit að komast niður í þorpið að Flúðum eftir keppnina sökum umferðar gangandi og akandi fólks fórum við í hina áttina, vestur fyrir Langholtsfjall og þaðan sem leið lá niður Skeiðaveginn á þjóðveg eitt. Eftir honum ókum við svo austur að Landvegamótum, þaðan upp sveitir að Laugalandi í Holtum. Að Laugalandi er skóli sveitarinnar, íþróttahús og sundlaug, sem á mínum kortum er nefnd Marteinslaug. Sundlaugin reyndist full af fólki sem og allt svæðið, því þarna var haldið edrúmót SÁÁ fólks. Okkur gekk samt greiðlega að fá aðgang að lauginni og tókst að smokra okkur niður í heitu pottana þrátt fyrir nokkra þröng enda er aðeins annað okkar fyrirferðarmikið svo einhverju nemi.

 

Við lágum í bleyti talsvert á annan tíma, enda er það yfirleitt svo að í stórum hópi kannast maður yfirleitt við einhvern og ef ekki þá kynnist maður einhverjum!  Hvorttveggja gilti þarna og dró baðferðina heldur á langinn. Við höfðum enga fastmótaða ferðaáætlun og veðrið var svo sem ekkert að skána, ennþá sami vindbelgingurinn og dökk ský fuku endalaust fyrir sólina svo að öllu samanlögðu var ekkert sem rak á eftir okkur uppúr. Klukkan var rétt um fimm þegar við töldum nóg komið og ákváðum að leita næsta skrefs. Við höfðum einhversstaðar í huganum lausreipaða ferðaáætlun upp að Heklurótum og Selsundi en fannst veðrið ekki fýsilegt í þessháttar túr. Í miðjum vangaveltum á leið út af mótssvæði SÁÁ hringdi síminn. Á hinum endanum var hann Gúndi, sem ég kalla stundum skáfrænda minn. ( til upplýsingar Ísfirðingum af eldri kynslóð sem muna eftir stóra Pettibone krananum sem Bjarni krani stjórnaði og merktur var GT-kranar í bak og fyrir, skal nefnt að G-ið stóð fyrir Gúnda. T-ið stóð svo fyrir Tryggva Bússa).

 

Erindi Gúnda var einfalt - hann vildi vita hvort sjúkrabílstjórinn væri staddur einhversstaðar á suðvesturhorninu og ætti möguleika á að skreppa í mat austur að Ketilsstöðum. Þar væri stóreflis hrútur á teini, yrði tilbúinn með kvöldinu og það vantaði fólk í mat!  Heimatökin voru hæg, ég gat sagt Gúnda að við værum tvö á ferð og værum stödd svo sem tíu mínútna akstur frá Ketilsstöðum!!  Þar með var næsta skref ferðarinnar stigið og tíu sekúndum seinna vorum við á fullri ferð upp Landssveit í átt að hrossabúinu hans Gúnda. Þegar upp að Ketilsstöðum kom reyndist engu logið um hrútinn á grillinu. Hann var sumsé séralinn fyrir árlega grillveislu á staðnum, ættaður af Vatnsleysuströndinni og hafði fengið nafnið Hreinn, eftir þekktri teiknimyndafígúru. Það tók ekki minna en fimm tíma að grilla Hrein, enda vænn skrokkur. Ekki var þó kostur að láta sér leiðast á meðan því að Ketilsstöðum er yfirleitt nóg að starfa og svo var einnig þetta kvöldið. Þegar svo kom að því að Hreinn teldist fullgrillaður var hann borinn á teininum út á skurðarborð og skipt þar í smærri einingar:






Síðan var sest að snæðingi og borðhaldið eins og hjá kóngum í útlandinu:




Sumir þóttust settir hjá garði en það var engan veginn rétt. Hann fékk meira en hann hafði gott af og fýlusvipurinn er bara gerfi:



Svo kom að því að enginn kom meiru niður, og þá tók við sögustund að hætti Gúnda. Ég skal fullyrða að sögurnar hans Gúnda eru allar dagsannar - en kannski dálítið mergjaðar á köflum. Allavega leiddist engum...





Þegar svo kom að háttatíma var ekki við það komandi að gista í sjúkrabílnum. Ketilsstaðir eru útbúnir eins og fínasta hótel, með fjölda gistiherbergja enda oft mannmargt hjá Gúnda. Við gistum því innandyra í þetta sinn. Morguninn eftir voru flestir snemma á fótum enda bíða verkin ekki og nóg þurfti að gera. Það var komið fram yfir hádegi þegar við kvöddum fólkið að Ketilsstöðum og þar með óðalsbóndann Gúnda. (Það er kannski rétt að fram komi að flestir á Ketilsstöðum þessa helgi tengjast föðurfólkinu mínu beint eða óbeint) Sjúkrabíllinn var ræstur og lagt var úr hlaði, stefnan var sett í suður í átt að Þykkvabænum.



Ég hafði aðeins einu sinni áður komið niður í Þykkvabæ og líklega eru ein ellefu ár síðan. Ekki tók ég eftir þessum virðulega herramanni þá en vissulega var hann flottur. Fleira var þarna eftirtektarvert og eitt af því var tjaldsvæðið, mjög fín flöt í miðju þorpinu. Á henni voru nokkrir ferðavagnar og mátti marka af uppröðun þeirra að þar færi samferðahópur. Eftir stutta viðdvöl héldum við í vesturátt meðfram ströndinni allar götur þangað sem vegurinn beygði uppmeð Þjórsá. Á þeim slóðum var farið niður í fjöruna að Víkartindi sáluga og þar sem slóðinn lá af aðalveginum niður á sandinn mátti ennþá sjá sundurskorna lestarhlera úr skipinu, sem líklega hafa verið notaðir sem brýr yfir læki meðan á björgun farmsins úr skipinu stóð og síðar niðurrifi þess. Við ókum niður á sandinn erurðum þess fljótlega vör að grófur sandurinn þjappaðist ekki heldur spýttist undan hjólum bílsins. Sjúkrabíllinn er blýþungur að framan og gróf sig fljótlega niður. Lengra varð því ekki komist á honum, við bundum á okkur gönguskóna og héldum í átt til sjávar.




Það var talsverður vindsperringur þarna á söndunum og dálítið sérstakt að sjá hvernig vindurinn hafði sveiflað stráunum í hringi og myndað feril með þeim:





Við fórum ekki alla leið niður að sjó. Sandurinn var grófur og erfitt að ganga í honum, og þessutan hafði ég heyrt að ekki væri arða eftir af Víkartindi. Við létum því nægja að slaka á þarna í sandhólunum dálitla stund.







Það var komið fram um kvöldmat þegar við héldum til baka og kom sér nú vel að eiga fjórhjóladrifið inni. Ef það hefði ekki verið ættum við trúlega hvítan, rauðan og gulgrænan sumarbústað á söndunum vestan við Þykkvabæinn! Það var enginn leikur að ná sjúkrabílnum til baka upp á veginn og hestöflin máttu sín lítils gegn öllum aukakílóunum á framöxulinn. Allt hafðist þó á endanum og fljótlega vorum við aftur í Þykkvabænum. Við höfðum ætlað okkur að aka veginn um Sandhólaferju til baka og fara þannig hring en hann reyndist lokaður og því héldum við sömu leið til baka um Þykkvabæ og upp á þjóðveg eitt við Landvegamótin. Reyndar höfðum við stutta viðdvöl í Þykkvabænum til að skoða fleiri hús og mannvirki, en aðallega þó til að heyra af tveimur eldri börnunum, sem bæði voru stödd á þjóðhátíð í Eyjum. Ekki náðist samband við fiðrildið Áróru en Arnar þór svaraði strax og spurði um veður hjá okkur. Hann fékk fréttir af vindbelgingnum og svaraði með þessarri eftirminnilegu setningu: "Ég veit þið trúið því ekki en ég er staddur hæst uppi á Heimakletti og það er dauðalogn. Þetta hélt ég að gerðist ekki í Eyjum!"

 

Það var Arnari líkt að klífa Heimaklett meðan aðrir staupuðu sig á hátíðasvæðinu........

 

Frá Landvegamótum  var spanað beint á Selfoss í dýrindis pizzu á veitingastaðnum Kaktus, sem er í sérstöku uppáhaldi fyrir frábærar pizzur (þetta er ekki auglýsing og ég fæ engan afslátt - ennþá).

 

Heima á Höfðanum vorum við á miðju kvöldi og hver fór til síns heima. Enn lifði þó einn dagur af verslunarmannahelginni og þar sem stubbuskottið Bergrós Halla hafði verið að vinna bæði laugardag og sunnudag var ákveðið að gefa henni mánudaginn. Hann gæti svo verið efni í enn einn pistil....

14.10.2013 22:14

Um Gilsfjörð og Ólafsdal suður á bóginn.


Hér kemur sjötti og síðasti hluti ferðasögunnar sem upphaflega bar titilinn Skálmarnesmúli. Það hefur tognað úr skrifunum en nú hafa ferðinni verið gerð full skil og þar með er samnefnt myndaalbúm opið og allar myndir sýnilegar í fullri stærð ef óskað er.

Síðustu færslu lauk á nokkrum spurningum varðandi björgunarbátana risastóru í Króksfjarðarnesi. Enn hafa engin viðbrögð komið og ég er því alveg jafn nær um tilurð og tilveru þessarra báta á staðnum og hvaða hlutverki þeim er ætlað að gegna. 

Þar sem veðrið var enn óbreytt, sólskin og blíða var ákveðið að aka fyrir Gilsfjörðinn en ekki venjulega leið yfir brúna. Þegar ég ók Steinadalsheiði (eða Steinadalsveg) í hittifyrra og kom niður við eyðibýlið Gilsfjarðarbrekku í botni fjarðarins ók ég út með Gilsfirði norðan(vestan) verðum og þar út á þjóðveginn suður Dali. Það var hins vegar ár og dagur síðan ég hafði ekið fjörðinn hinumegin og Elín Huld mundi hreinlega ekki til þess að hafa farið hann (sem reyndar hlýtur þó að hafa verið). Við ákváðum því eins og fyrr segir, að aka fyrir fjörðinn og staldra við að fyrrum stórbýlinu og búnaðarskólanum að Ólafsdal. Á myndinni hér að neðan er fyrsta býlið sem komið var að er Króksfjarðarnesi sleppti. Þetta eru Gróustaðir og þar var eitt og annað að sjá. Ekki hætti ég mér í návígi við allt þetta myndefni en þarna ægði öllu saman, gömlum vélum, gömlum bílum og misgömlum byggingum í misjöfnu ástandi:



Það var dálítið önnur sýn heim að Garpsdal, sem stendur nokkru innar við fjörðinn. Þarna var allt yfirbragð hið snyrtilegasta. Ekki gáfum við okkur tíma til að skoða kirkjuna og garðinn að sinni en settum það á  listann  sem hæglega gæti borið yfirskriftina: "Hvað næst?"  





Inn af botni Gilsfjarðar eru tvö býli, að norðan er eyðibýlið Gilsfjarðarbrekka, að sunnan eru Kleifar. Ekki veit ég hvort heilsárs búseta er að Kleifum en það var ekkert eyðilegt við heimsýnina. Allt umhverfi bæjarins er einstaklega fallegt, eins og  sést á myndunum:





Mig langar að bæta hér við fyrir neðan tveimur myndum sem ég tók síðsumars 2011 þegar ég ók um Steinadalsheiði til vesturs. Á efri myndinni er horft heim að Gilsfjarðarbrekku, á þeirri neðri heim að Kleifum:





Við ókum svo fyrir botninn og áleiðis útmeð firði að sunnanverðu. Innarlega við sunnanverðan Gilsfjörðinn er brú yfir ársprænu í dálitlu gili. Þetta er ekki stór brú enda vatnsfallið ekki stórt, en hún er samt dálítið sérstök og kemur þar tvennt til. Vegna þess hve gilið er bratt er brúin á háum stöplum neðanvert og virkar því eins og risamannvirki séð norðan frá, þ.e. þvert yfir fjörðinn. Hún lætur hins vegar lítið yfir sér þegar ekið er yfir hana enda sjást þá ekki þessir háu stöplar. Svo er hitt, að þessi brú var alltaf máluð skjannahvít hér í eina tíð og mynd hennar er föst í mínu barnsminni sem "hvíta brúin". Þegar ekið var milli Ísafjarðar og Reykjavíkur í "gamla daga" fannst mér alltaf þessi brú álíka mikill áfangi og Dalsmynni í Norðurárdal í Borgarfirði - manni fannst alltaf að nú væri Reykjavík á næsta leiti þegar komið var niður að Dalsmynni, því þá voru allar heiðar að baki. Nú liggur þjóðbrautin ekki lengur um Gilsfjörð og  vegagerðarmennirnir sem voru stoltir af  sinni brú og héldu henni vel við, eru líklega horfnir af sjónarsviðinu. Enn má þó sjá nokkuð af hvíta litnum á brúnni, ef vel er gáð. Því miður tókum við enga mynd af hvítu brúnni í þetta sinn en ég áttaði mig þegar ég ók yfir hana og setti myndatöku á listann sem hér að ofan fékk nafnið "Hvað næst?". Hins vegar má sjá hana á mynd frá 2011 og ég nota hana hér "til bráðabirgða":



....og nokkrum mínútum síðar vorum við heima á hlaði í Ólafsdal. Það var ekki mannmargt á staðnum, aðeins ein fjölskylda var þar auk okkar og safnvarðarins, sem reyndist vera Svavar Gestsson, fv. ráð- og sendiherra. Við byrjuðum á því að mynda styttuna af hjónunum sem ráku búnaðarskólann í Ólafsdal og stjórnuðu á sama tíma stórbúi á staðnum, Torfa Bjarnasyni og Guðlaugu Sakaríasdóttur:



Svo var gengið til húss og skoðað. Ekki mynduðum við innandyra en þar er sannarlega margt að sjá. Vinnu við húsið er ekki lokið þó vel hafi miðað og verður gaman að sjá og skoða þegar allt er fullgert. Sjálft húsið er hið reisulegasta og hefur áreiðanlega verið með stærstu húsum í sveit á sínum tíma.   (Meira HÉR)



Ekki stóð íbúðarhúsið í Ólafsdal eitt alla tíð. Á staðnum voru fjölmargar byggingar, bæði íveruhús vinnufólks, framleiðsluhús og að sjálfsögðu gripahús ýmisskonar. Þetta eru rústir af einu framleiðsluhúsinu:



Þetta útihús hefur verið vandað á sínum tíma, hlaðið úr tilhöggnu grjóti enda stendur það enn þótt tréverkið sé farið.



Nei, ekki alveg rétt.....tréverkið er ekki alveg farið!



Okkur langaði eiginlega ekkert að fara frá Ólafsdal, veðrið var einstakt og útsýnið líka, og þar sem engir ferðalangar lögðu leið upp að staðnum meðan við dvöldum var friðurinn alger. Samt er það svo að líf flestra stjórnast af klukkunni og við ætluðum okkur að vera komin suður að kvöldi. Það var nú einu sinni föstudagur fyrir verslunarmannahelgi og gríðarleg umferð á aðalvegum, en við töldum okkur til tekna að vera á suðurleið og þar með gegnt aðalumferðinni. Svavar Gestsson var kvaddur og þökkuð góð leiðsögn og fróðleikur. 



Síðan var sjúkrabíllinn ræstur og ekið það sem eftir var af Gilsfirðinum út í Saurbæ. Þaðan lá leiðin til Búðardals og nú brá svo við að Járntjaldið gamla sem var myndað í upphafi ferðar við hlið sjúkrabílsins og hafði þá staðið á sama stað í heilt ár, var horfið. Ég ók stuttan hring um bæinn og fann það loks innan girðingar við eitthvert fyrirtæki. Jæja, því hafði þá allavega ekki verið hent - a.m.k. ekki að sinni. 

Blíðan hélst og vart sá ský á lofti sunnan Búðardals. Þegar komið var suður í Borgarfjörð mátti sjá eitt og eitt háský, að öðru leyti var sama veðurblíðan sunnan Bröttubrekku. Umferðin var þung í norður- og vesturátt, greinilega margir á leið til Akureyrar og á mýrarboltamótið á Ísafirði. Við vorum hins vegar á leið heim, en eins og áður hefur komið fram lætur okkur illa að aka beint og því beygðum við af þjóðveginum við Bifröst og ókum Hreðavatnsleið. Ég hafði farið þetta áður, Elín aldrei og nú var tækifæri. Til glöggvunar ætla ég að reyna að skella kortaklippu hér neðanvið:



Myndin hér að neðan er tekin til suðurs/suðausturs, nokkurn veginn frá staðnum sem merktur er með "Selvatn" á kortinu. Þar sér yfir Hreðavatn  en Hrísey er ekki farin að sjást enn. Lengst til hægri, bak við hríslurnar sér í átt til Skarðsheiðar.



Þegar komið er yfir hálsinn vestan Hreðavatns blasir Selvatn við. Kannski ætti það frekar að heita Svanavatn, því talsvert var af álftum á og við vatnið. Þarna við vatnið er land óskemmt  af vegum og öðrum mannvirkjum, s.s. sumarhúsum. Hrein náttúruparadís!



Hálsinn milli Hreðavatns og Selvatns hefur ekkert nafn á kortinu mínu en gæti sem best heitið Jafnaskarðsháls, eftir eyðibýlinu Jafnaskarði vestan hans. Á hálsinum er örnefnið Miðmorgunsborg (eða Miðsmorgunsborg, -s-ið virðist vera falið undir vegmerkingu), tæplega tvö hundrum metra há klettaborg sem er afgerandi í landslaginu. Skógrækt ríkisins hefur um árabil haft svæðið  undir sínum verndarvæng og sér þess m.a. merki í háum og miklum trjágróðri meðfram veginum, svo minnir víða á útlönd þegar ekið er um. Ekki spillir þó trjágróður útsýni á næstu mynd. Hér er horft af hálsinum austur yfir enda Hreðavatns til Bifrastar og Grábrókar. Enn lengra má sjá allt inn á Langjökul og Eiríksjökul:



Ef kortið hér ofar er skoðað og fylgt veginum inn að Jafnaskarði er bugða á veginum nokkurn veginn milli "ell" -anna í orðinu Náttmálafell og -m-sins í orðinu (Mið) morgunsborg. Þessi bugða á veginum er í lítilli laut sem um rennur lækur. Lækurinn kemur úr vatni litlu ofar og sameinast sprænu sem að endingu rennur í Hreðavatn. Rétt við lækinn er hlið á heimtröðinni að Jafnaskarði og við hliðið er gamall sumarbústaður, líklega ekki notaður lengur. Á myndinni er hliðið, sumarbústaðurinn og lækjarfarvegurinn. Horft er í átt til Skarðsheiðar og hún sést greinilega í fjarska:



Að lokum má ég til að birta eina mynd af sjúkrabílnum í lautinni. Þetta er síðasta myndin í þessarri afar löngu sex hluta syrpu sem hófst með myndum af Járntjaldinu sáluga í Búðardal og tók síðan stefnu um Reykhóla útí Skálmarnesmúla og þaðan heim á leið. Þessi ferð var, þrátt fyrir að vera aðeins tveir sólarhringar, einhver stærsta og viðburðaríkasta ferð sem ég hef farið um árabil, bæði yfirferðin sjálf og allt það sem skoðað var. Það var komið föstudagskvöld þegar sjúkrabíllinn var stöðvaður utan við Höfðaborgina hér í Reykjavík, og klukkan farin að ganga ellefu. Hver fór til síns heima og það var notalegt að halla sér í eigin rúmi enda hvíldin kærkomin eftir stíft ferðalag.



Svo rann laugardagurinn upp og ekki var langt liðið á hann þegar Elín Huld var mætt aftur á Höfðann. Svo var enn haldið úr bænum og nú í gagnstæða átt, austur fyrir fjall. Stoppið heima var því nokkurn veginn tólf tímar! Í þeirri ferð var legið í heita pottinum í Marteinslaug, að Laugalandi í Holtum í ágætum félagsskap SÁÁ fólks sem hélt mót á staðnum, hrúturinn Hreinn snæddur beint af grillteininum hjá Gúnda á Ketilstöðum og kíkt um Þykkvabæ niður í Háfsfjöru í árangurslausri leit að leifum Víkartinds. 

.......það gæti svo aftur verið efni í næsta pistil........

  • 1
Flettingar í dag: 67
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135034
Samtals gestir: 27844
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:37:59


Tenglar