Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2012 Desember

25.12.2012 09:56

Gleðileg jól enn einu sinni!

Þetta verður ekki löng færsla - aðeins svona rétt til að óska öllum gleðilegra jóla. Farsæla komandi árið kemur svo eftir nokkra daga.

Hamfaraveður spárnar sem dengt var yfir okkur hér syðra nú undir jól hafa ekki gengið eftir. Á tímabili var ég að hugsa um að sækja Stakkanesið, setja það niður hér fyrir utan og jólskreyta uppúr og niðurúr. Þorláksmessuspáin hljóðaði uppá tuttuguogeinn meter og slydduhraglanda, aðrir nálægir dagar voru svipaðir og á jóladag átti að vera fárviðri eða því sem næst. Ég ákvað því að láta Stakkanesið kjurt - enda var það eins og við manninn mælt, að önnur eins veðurblíða fyrir og um jól hefur vart þekkst hér á svæðinu. Í gærdag, aðfangadag skrapp ég á Suðurnesin, kíkti á vinafólk í Sandgerði og Keflavík og hafði með mér óhollustu í kassavís. Veðrið þarna suðurfrá hefði vel mátt kallast "heillandi", en því miður var ég myndavélarlaus. Reyndi þó að fanga sólina á símann gegnum bílrúðuna, árangurinn er hér: 







Þannig leit það út og segir kannski ekki mikið annað en að það var sólskin! Það sem ekki sést er að það var líka logn, eða því sem næst. Að vísu tók ég eftir að úti á Stakksfirðinum var farið að hvítna í báru um það leyti sem ég hélt heim til að skipta um föt og kveikja á jólunum, en þess vinds gætti ekki á Brautinni svo kalla mætti.


Það er jólalegt hjá okkur Áróru hér í Höfðaborginni. Ég reyndi að mynda með símanum fyrir nokkrum dögum og kannski eru þær myndir eitthvað skýrari. Myndirnar sem teknar hafa verið á nýja símann minn eru annars miklu betri eftir að ég fattaði að fjarlægja hlífðarplastið yfir linsunni!!









Enn og aftur: Gleðileg jól og farið varlega í konfektinu!

19.12.2012 22:53

Og jólin nálgast.....

Hér í Höfðaborg var tekin pólitísk ákvörðun á dögunum. Hún er nokkurn veginn á þá leið að jólin komi þann 15. desember og standi -reyndar líkt og hjá öðrum- fram yfir þrettándann. Þetta þýðir að frá og með 15. des. er aðeins unnið að því sem lýtur beint að jólaundirbúningi og allt viðgerðarbrölt er lagt til hliðar. Engin regla er án undantekninga og ég þarf örlítið að hugga farartæki fyrir sjúkrahússliggjandi félaga um hátíðirnar en annað ekki.

Svo var víst einhverjum raflögnum ólokið í vinnuplássinu, ljós vantar og tenglar eru á röngum stöðum. Kannski verði gripið í þessháttar verkefni þegar hlé verður á konfektáti og bókalestri. Vörubílskrílinu var ekið -fyrir eigin vélarafli auðvitað- út úr húsi á dögunum. Einn prufuhringur var ekinn um hverfið, ekki langur því apparatið er ekki á númerum en þó nógu langur til að komast að því að allt virkaði nokkurn veginn eðlilega. Bílnum var svo lagt á sama stað og áður, niðri við Stálver í nágrenni Stakkanessins. Þar bíður hann þess að röðin komi að honum aftur. Það eru einhverjar vikur í það.


Það er orðið afar jólalegt hér uppi hjá okkur Áróru. Búið að tjalda því skrauti sem tjaldað verður að jólatrénu slepptu - við ætlum ekki að hafa neitt jólatré í ár. Við höfum heldur enga útiseríu. Eðli málsins samkvæmt erum við ekkert að auglýsa okkur hér, en þetta er þá í fyrsta sinn síðan jólin 1986 að við höfum enga útiseríu. Áróra var reyndar ekki til árið 1986 en þau jól settum við fyrst upp seríu á litla húsinu að Króki 1 á Ísafirði.

Sú hugmynd kom upp að sækja Stakkanesið í geymsluna, planta því hér utan við dyrnar og hengja á það slönguseríuna sem ég notaði tvenn jól heima á Lyngbrekkunni. Svo sá ég jólaveðurspána í kvöld.....

Miðað við þá spá er Stakkanesið best óhreyft.

Eitt að lokum: Ég hef sett inn nýjan tenglaflokk með tengingum á eldri síðurnar. Mig grunar að rannsóknarlögreglumaðurinn sem gerðist fingralangur hér um árið og gerði mitt efni að sínu undir eigin nafni á eigin síðu láti þessháttar athæfi eiga sig framvegis. Þess vegna opna ég tenginguna á milli að nýju ef einhvern langar að fletta upp í eldra efni. Það má gjarnan bæta því við að einhverra hluta vegna þýðir ekki að "gúggla" neitt af því sem skrifað var á Vísisbloggið - það kemur ekki fram. Hins vegar kemur allt fram sem skrifað var á blog.central  og blogger.com. Kannski nennir einhver að gramsa í þessum gömlu skrifum......

05.12.2012 23:02

Desember er dimmur .....

Svei mér þá ef það er ekki kominn desember! Meira að segja fimmti, og það þýðir að sjötti er á morgun og þá á hún Fríða systir afmæli. Hmmm - verð að muna að færa henni eitthvað í tilefni dagsins!

Isuzu vörubílskrílið hér undir fótunum á mér er að skríða saman. Hann hefur fengið nýja kúplingu og auk þess hefur verið kroppað í ýmislegt fleira sem betur mátti fara kringum gírkassann - svona af því það var í leiðinni. Gírskiptingin var samanmixuð með stálvír, drifskaftshandbremsan var í rusli, mótorbremsan föst, hraðamælisdrifið líka og gírkassapúðarnir rifnir. Þetta er allt að koma enda eitthvað kroppað á hverjum degi.

Stakkanesið var heimsótt í gærkvöldi.Það er, eins og áður var fram komið, naustað á sama stað og í fyrra, við vélsmiðjuna Stálver á Ártúnshöfða. Þar er allt í ágætu standi enda var þokkalega búið um það til vetrarins. Þeir félagarnir í Stálveri eru lítið að sýsla með stál í augnablikinu en því meira með trefjaplast því Lundi ST er í stóryfirhalningu. Á honum er verið að hækka alla yfirbygginguna um eina 30 sentimetra svo Kristmundur frá Gjögri geti staðið uppréttur á stjórnpalli. Lundakofinn hefur nefnilega verið helvíti lágreistur og ekki gott fyrir menn eins og Kristmund, sem sannarlega er af lengri gerðinni, að bogra mikið þar inni. Menn eiga að geta hvílt sig við stjórntækin, þó sumum hafi jú að vísu orðið skeinuhætt á því að hvíla sig þar um of, eins og nýleg dæmi sanna.

Hann Magni á Ísafirði sendi mér myndir á dögunum. Þetta eru fínar myndir, teknar í ísfirskri blíðu og á þeim má sjá skip. Það er ekki stórt skip, ekki frekar en Stakkanesið, en af því lífshamingjan er ekki mæld í lengdarmetrum eða brúttótonnum skiptir engu máli þótt skipið sé lítið. Það er samt skip. Að halda öðru fram er svona álíka og að halda því fram að Chihuahua sé ekki hundur. Reyniði bara að halda því fram við Chihuahua eiganda að hann eigi ekki hund!

Ég ætla að reyna að birta myndirnar hans Magna hér fyrir neðan. 



Þessi mynd hér að ofan er tekin utan af Djúpi og það er horft inn á Skutulsfjörðinn. Fyrir miðri mynd er Ísafjarðarkaupstaður og lengst til hægri má sjá Hraðfrystihúsið í Hnífsdal, en eins og allir sem þekkja til, vita, þá er Hraðfrystihúsið í Hnífsdal ekkert í Hnífsdal heldur langt fyrir innan dalinn - eiginlega svona þriðjung úr leiðinni inn á Ísafjörð.Þess vegna sést Hnífsdalur ekki á myndinni. Vinstra megin við mastrið sér til húsa í Arnardal og við myndjaðar vinstra megin er svo Arnarnesið og sést vitinn uppi á því greinilega, svo og radíóendurvarpshúsið. Það hefur hreint ekki verið leiðinlegt að dugga Djúpið þennan daginn..........



Hér er Fauinn kominn alla leið inn á Prestabugtina og harðfiskhjallarnir við Hnífsdalsveginn í baksýn. Á Prestabugtinni liggja þau skemmtiferðaskip sem ekki komast að viðlegukanti í Ísafjarðarhöfn. Fauinn er auðvitað skemmtiferðaskip - hvað annað? Það er skemmtilegt að eiga svona skip og hafa tækifæri til að njóta þess í svona umhverfi. Það er reyndar ekki bara skemmtilegt - það eru hrein forréttindi!




Það má alveg ímynda sér að siglingin hér að ofan hafi verið sú síðasta það árið. Fauinn er naustaður við Netagerð Vestfjarða og það liggur því beinast við að taka hann á land inni við fjarðarbotninn. Á þessari mynd er reyndar dálítið mikið útfiri en sjórinn hefur þann eiginleika að koma alltaf aftur þótt hann bregði sér frá tímabundið og af því Fauinn fer ekkert sérstaklega hratt yfir en að sama skapi fellur tiltölulega hratt yfir flatan fjarðarbotninn má líka alveg ímynda sér að þegar Fauinn hafði lagt Prestabugtina að baki, sömuleiðis Sundin og allan Pollinn frá Suðurtanga inn undir Kofraskemmuna hafi verið komið nægileg aðfall til að hann hafi flotið beint upp í vagninn sinn. Í öllu falli er hann á leiðinni út að Netagerðinni á síðustu myndinni, fyrir ækið er beitt japönskum bróður hrossadráparans svarta sem marga fjöruna hefur sopið í vagndrætti. Þær eru seigar, Súkkurnar....



Í baksýn stendur Seljaland, óðalið þeirra Magna og Svönu. Það má alveg vera dálítið stoltur af svona þrenningu, Seljaland er afar sérstakt hús á sérstökum stað, það er svona hálfgildings kennileiti fyrir bæinn og ég hugsa að flestir sem gist hafa Ísafjörð til lengri eða skemri tíma hafi tekið eftir þessu húsi og muni eftir því. Ég hef haft þetta hús fyrir augunum frá því ég man fyrst eftir mér og get eiginlega ekki hugsað mér staðinn án þess. Enda er ég handviss um að Seljaland verður þarna löngu eftir að Súkkan er orðin að mold og Fauinn að fúaspreki........

Takk fyrir fínar myndir, Magni og Svana!
  • 1
Flettingar í dag: 153
Gestir í dag: 71
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135120
Samtals gestir: 27893
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:59:02


Tenglar