Um leið og ég þakka öllum lesendum liðið ár og öll innlitin og álitin vil ég óska þeim gleðilegs komandi árs og góðs gengis í framtíðinni. Myndin sem fylgir er að þessu sinni ekki af togara heldur flutningaskipi. Það er Tröllafoss sem liggur við Bæjarbryggjuna á Ísafirði. Utan á Tröllafossi liggur Fagranesið gamla og nær landi liggur lóðsbáturinn. Kunnugir mega gjarnan ráða í aldur myndarinnar - hún er ekki ársett.
Enn og aftur: Gleðilegt nýtt (hlaup)ár og bestu þakkir fyrir lestur, leiðréttingar og ábendingar á því sem er að líða!
Það kom fram hér neðar, í pistlinum um Magnús Heinason hinn færeyska, að ég hef verið að grufla í breskum togara- netsíðum undanfarið. Þetta getur verið afar skemmtilegt og fróðlegt föndur, þrátt fyrir að vera á stundum dálítið raunalegt. Þannig hef ég verið að rekast á myndir af skipum sem hafa komið verulega við sögu hér heima án þess að myndir af þeim hafi birst með fréttum, stundum hafa birst illa prentaðar myndir og þá aðeins einu sinni. Bækur sem greina frá skipatengdum atburðum, s.s. "Þrautgóðir á raunastund", innihalda aðeins lítinn fjölda mynda sem tengjast efninu. Ef ég á að taka eitt dæmi er tilvalið að nefna breska togarann Kingston Peridot, sem talinn er hafa farist við Mánáreyjar í janúarlok 1968. Einhverra hluta vegna sá ég þennan togara alltaf fyrir mér með ljósgráan skrokk og háa, tvílita brú, ekki ólíkan Cesari sem strandaði á Arnarnesinu 1971 og flestir Ísfirðingar á miðjum aldri og yfir muna eftir. Ég man ekki til að hafa nokkurn tíma séð mynd af Kingston Peridot og þessi hugmynd var trúlega tengd öðrum Kingston-togurum sem voru tíðir gestir á Ísafirði á árum áður. Síðasti viðkomustaður Kingston Peridot fyrir slysið var Ísafjörður en það er ólíklegt að ég hafi séð skipið þá, hefði svo verið hefði ég strax við fréttir af slysinu munað útlit skipsins. Á netsíðunni -http://hulltrawler.net- má finna ágæta mynd af Kingston Peridot og eins og sjá má líkist skipið ekkert þeirri mynd sem geymst hafði í mínum huga yfir fjörutíu ár:
Annað álíka mál: Árið 1955 fórust tveir breskir togarar í fárviðri norður af Vestfjörðum. Báðir höfðu sent út hjálparbeiðni vegna ísingar, skip í landvari reyndu að snúa til hjálpar en slíkur var veðurhamurinn að ekki varð við neitt ráðið og báðir togararnir fórust með allri áhöfn. Þessi skip hétu Lorella og Roderigo, og voru bæði frá Hull. Ég hafði aldrei séð myndir af þessum skipum en gekk með þá hugmynd að bæði hefðu verið togarar af eldri gerð. Ekki var það nú aldeilis, eins og grams á -hulltrawler.net- leiddi í ljós.
Í því sambandi er kannski rétt að nefna, svona ef einhver annar en ég skyldi hafa áhuga, að frásögn af slysinu í bókinni "Þrautgóðir á raunastund", 5. bnd. bls.75 er mjög á skjön við þá sem birtist á -hulltrawler.net- og ég freistast til að taka sem réttari. Ég ætla ekki að tyggja beint upp úr bókinni, hún er aðgengileg á hverju bókasafni þeim sem ekki eiga ef menn vilja skoða og bera saman. Enska frásögnin er í stuttu máli á þann veg að togarinn Kingston Garnet hafi verið í vandræðum þann 23. janúar 1955 og munu vandræðin hafa tengst veiðarfærum flæktum í skrúfubúnaði. Lorella og Roderigo voru í samfloti á leið í landvar undan síversnandi veðri og Lorella naut aðstoðar Roderigo vegna bilunar í radar. Kingston Garnet sendi út hjálparbeiðni og sneru bæði Lorella og Roderigo við til að aðstoða skipið ef þurfa þætti. Þann 24. tókst skipverjum á K.G. að losa skrúfuna og stefndu skipinu til landvars. Boð um breytinguna virðast ekki hafa náð til Lorella og Roderigo - hafi slík boð verið sent út á annað borð - og bæði skipin sigldu því áfram út í síversnandi veður að uppgefnum ákvörðunarstað. Þegar þangað kom var K.G. löngu farinn í skjól en veðrið hins vegar orðið svo slæmt að skipstjórar Lorella og Roderigo þorðu ekki að snúa skipunum undan storminum í átt til lands. Þeir tóku þann kost að halda skipunum upp í vind og sjó í þeirri von að veðrið lægði. Vonin brást, báðum skipunum hvolfdi vegna yfirísingar og áhafnirnar fórust. Ef marka má bresku netsíðuna hafa aðeins liðið u.þ.b. tvær og hálf klst. milli slysanna sem kostuðu fjörutíu breska sjómenn lífið.
Eins og áður segir er frásögn í bókinni "Þrautgóðir á raunastund" mjög á annan veg, bæði hvað varðar aðdraganda og eins slysið sjálft. Ég reikna með að frásögnin í bókinni sé unnin upp úr skýrslum SVFÍ og eflaust hefur verið vandað til þeirra eins og frekast var unnt, á sínum tíma. Breska frásögnin er hins vegar líklegast unnin eftir viðtölum við sjómennina á þeim togurum sem voru á svæðinu og fylgdust með fjarskiptum þeirra á milli.
Ég set hér tengingu á umfjöllun -hulltrawler.net- um Roderigo, sem eins og sjá má var yfir 800 tonna skip og aðeins fimm ára gamalt:
Að síðustu set ég tengingu á lýsingu togarans Kingston Garnet sem, ef marka má frásögn bresku netsíðunnar, átti nokkra sök á því hversu slysalega tókst til - þ.e. ef menn vilja leita sakar. Eins og sjá má í tækniupplýsingum var togarinn rifinn árið 1968:
Haustið 1973 var ég fátækur námsmaður á Ísafirði. Námsmaður segi ég því mér finnst eiginlega að fólk verði ekki námsfólk fyrr en að lokinni skólaskyldu og framhaldsnám hefst. Mitt framhaldsnám var fólgið í setu við borð í húsi Menntaskólans á Ísafirði. Ég lærði lítið, það litla sem ég þó lærði hefur staðið með mér ótrúlega lengi eins og kannski á síðar eftir að koma fram, en kemur ekki þessarri sögu við. Ég segi líka fátækur því sumarið ´73 hafði ekki skilað mér miklum tekjum. Frá því ég útskrifaðist með letieinkunn Landsprófs frá Gagnfræðaskólanum um vorið hafði ég aflað mér tekna í bæjarvinnunni og starfið, sem fólst aðallega í vélgæslu við gömlu mulningsvélarnar inni á Skeiði var sannarlega ekki hálaunastarf. Ég nennti ekki að vinna þarna (en eftir á að hyggja var þetta mjög gott starf), þoldi ekki Gústa Valda (seinna áttum við eftir að verða prýðilegir mátar og vinnufélagar) og hlakkaði helst til haustsins vegna skólans sem ég hafði innritað mig í af því þess var vænst af mér. Landsprófsveturinn á undan hafði ég náð undraverðum árangri í skrópum, líklega hefði ég verið látinn fara ef skólinn hefði ekki verið skyldubundinn. Ég var búinn að kynna mér skrópkvótann sem gilti við Menntaskólann og leist ágætlega á þann línudans sem ég ætlaði sannarlega að stunda komandi vetur. Lágt kaup og léleg ástundun sumarvinnunnar höfðu semsagt ekki þyngt budduna þegar blásið var til skóla í byrjun september. Það var því næstum eins og himnasending þegar mér var boðið morgunstarf hjá fyrirtæki í bænum, starf sem hefjst skyldi kl. 6 að morgni og ég mátti stunda þar til skóli hæfist, hvenær morguns sem það yrði. Flesta virka morgna hófst skólinn klukkan átta en einhverja nokkru síðar. Mér tókst sæmilega að vakna og standa mína plikt, raunar fór starfið fljótlega að tvinnast saman við skrópkvótalínudansinn og ég fór að reikna út hversu mikið ég gæti þénað með því að teygja mig út á ystu nöf í mætingum.
Fátt af ofanskrifuðu kemur reyndar því við sem ég ætlaði að skrifa um, heldur er það sett fram til að teygja rýrt efni. Snertiflöturinn er aðallega sá að morgunstarfið var hjá Gamlabakaríinu, eigandi þess var Ruth Tryggvason en hún var einnig danskur -og þar með færeyskur- konsúll á Ísafirði .
Komur færeyskra skipa til Ísafjarðar voru nokkuð tíðar á þessum tíma. Aðallega voru þar fiskibátar á ferð, flestir kringum 80-100 tonn og nokkuð gamallegir, enda virtist líkt farið með Færeyingum og Norðmönnum hvað það snerti að halda gömlum eikarbátum vel við. Svo gerðist það öðru hverju að til hafnar komu stærri "Færeyingar", þá helst togarar og meðal þeirra þekkti ég tvo sérstaklega - Sjúrðarberg og Magnus Heinason.
Snemma í október 1973 lagðist Magnús Heinason að bryggju á Ísafirði vegna smávægilegrar vélarbilunar og var ekki áætluð löng viðstaða. Skipið hafði verið að veiðum við landið í nokkra daga og var aflinn unninn í salt. Að venju lagði ég leið mína á höfnina til að sjá þetta mikla skip, Magnús Heinason var yfir þúsund br.tonn að stærð og því talsvert veglegra skip en stærstu bresku togararnir sem fram að 50 mílna stríðinu höfðu verið algengir gestir vestra. Auk þess var mikill munur á útliti og hirðu Magnúsar Heinasonar og bresku kláfanna sem sumir hverjir virtust varla hanga saman nema á ryðinu. Þetta var hreinlega fantaflott skip og gaman að horfa á það við kantinn.
Þegar ég var á leið til vinnu á venjulegum tíma einn morguninn sá ég að eitthvað mikið gekk á á höfninni þar sem Magnús Heinason lá. Í konsúltengda bakaríinu frétti ég að um nóttina hefði komið upp eldur í Magnúsi Heinasyni og slökkvilið væri enn að störfum um borð. Ég vann minn venjulega vinnutíma og að honum loknum lét ég skólann lönd og leið en hljóp þegar niður á höfn til að fylgjast með. Þar höfðu mikil umskipti orðið. Þetta stóra og fallega skip hafði mikla slagsíðu, stór hluti yfirbyggingarinnar (sem mig minnir að hafi verið málaður í ljósum, eiginlega svona ljósdröppuðum lit) var svartur af sóti og stæk brunalyktin lá eins og ský yfir hafnarsvæðinu. Skipið var augljóslega stórskemmt ef ekki ónýtt. Mér fannst þetta sannarlega sorgleg sjón.
Magnús Heinason lá um tíma á Ísafirði meðan verið var að dæla vatni úr skipinu og búa það til dráttar heim á leið. Dælingin sóttist seint því olíutankar skipsins höfðu hitnað svo í eldinum að innihaldið hafði þanist út og flætt út um yfirfalls-og loftrásir þeirra. Þykkt svartolíulag lá yfir vatninu í skipinu og við það þurfti að losna áður en hægt væri að þurrka skipið.
Svo kom að því að Magnús Heinason var dreginn burtu, tengslin við konsúlatið skiluðu mér vissu um að skipið færi til Færeyja þar sem meta ætti ástand þess. Meira frétti ég ekki fyrr en löngu síðar, þegar ég eignaðist ritröðina "Þrautgóðir á raunastund". Þar má lesa, á bls. 136 í bók nr. 19 (XlX) eftirfarandi klausu:
"Ákveðið var að draga Magnús Heinason til Færeyja til viðgerðar og var björgunarskipið Goðinn fenginn til þess verks. Í Færeyjum var gert við togarann og var það mikið og kostnaðarsamt verk. Magnús Heinason var um 600 lesta síðutogari, smíðaður í Portúgal árið 1962 og var skipið gert út frá Salttangará á Austurey og sem fyrr segir var Dávur Pálsen skipstjóri annar aðaleigandi þess"
Mér, sem áhugamanni þótti gott til þess að vita að þetta mikla skip hefði þó komist í drift að nýju eftir viðgerð. Enga ástæðu hafði ég til að rengja þessa frásögn, jafnvel þótt ég hefði á nokkrum stöðum rekist á misræmi og/eða staðreyndavillur í bókunum. Svo gerðist það fyrir einhverju síðan, eftir að ég hafði eytt nokkrum kvöldstundum á netinu við að fletta upp ferli og örlögum þeirra bresku togara sem til Ísafjarðar vöndu komur sínar á áratugum áður, að mér datt í hug að fletta upp Magnúsi Heinasyni og kanna hver ævi hans hefði orðið eftir uppgerðina miklu í Færeyjum, sem greint var frá í nítjánda bindi "Þrautgóðir á raunastund". Það þarf enga sérstaka enskukunnáttu til að stauta sig í gegnum neðanritað: ...............................................................................................................
MAGNUS HEINASON 550 ore.
Built as side fishing trawler under yard No 189 by Navalis Uniao Fabril, Lisbon for P/F Torshavner Trolarafelag, Torshavn, Faroer Isl. 03 November 1960 launched under the name MAGNUS HEINASON. Tonnage 1.038 grt, 370 net, 907 dwt., dim. 70.04 x 10.57 x 5.60m, length bpp. 63.2m., draught 4.91m. One steam turbine 1.375 ihp, one propeller, speed 13 knots. April 1961 completed.
1972 Sold to P/f M. Heinason, Saltangara, Faroer Isl. 09 October 1973 while lying at Isafjordur, north-western Iceland, she was extensively damaged by fire that started in her engine room. After being towed back to the Faroers, she was declared a "constructive total loss". The gutted wreck was then towed to Troon, Scotland where she arrived on 02 July 1974; she was broken up by the West of Scotland shipbreaking yard at Troon.
Mér fannst, svona í ljósi strembinnar vinnuviku, ég eiga skilið að fá smá upplyftingu....
Á þennan hátt hófst síðasta færsla og það er tilvalið að endurnýta þetta ágæta upphaf. (...er það ekki annars ágætt?)
Upplyfting helgarinnar var fólgin í jólahlaðborði á Fjörukránni. Fyrir ári fórum við í sömu erindagerðum út í Viðey og áttum þar ágæta stund. Hópurinn nú var öllu fámennari en þá, eða aðeins við Elín Huld og Fríða systir. Milli Fjörukráarinnar og tengds hótels er aðeins mjótt sund og málsverðurinn hófst á jarðhæð hótelsins þar sem í boði var Grýlumjöður að hætti hússins. Um skenkingu (segir maður ekki svoleiðis?) sá gulleintak af færeyskum kvenkosti - þeir útlendingar sem hingað hafa komið og dásamað íslenskt kvenfólk hafa greinilega ekki komið við í Færeyjum!
Matur var svo fram borinn handan húsasundsins, í kránni sjálfri. Ég hef aldrei komið þar inn fyrir dyr áður og sannast sagna er um að litast eins og á safni - svona eins og maður gangi um skála sögualdar. Matnum var raðað á stórt borð í miðjum skála, á borðinu miðju var eftirlíking lítils árabáts og nokkrum réttanna sem í boði voru var raðað meðfram borðstokk beggja megin. Úrvalið var fjölbreytt, eldamennskan fín og þjónustan sömuleiðis. Undir borðum var tónlistarflutningur, sem engin ástæða er svo sem til að kvarta yfir þó ég hefði svo sem verið alveg til í að borga "tónlistarmanninn" niður af sviðinu. Drjúgur hluti gestanna virtist nefnilega skemmta sér hið besta, en kannski var tóneyra þeirra slævt af Grýlumiði. Framanaf gengu tveir gítarspilarar um salinn og spiluðu brot úr lögum sem fólk vildi heyra. Er á leið tók annar sér hvíld - ég vil meina að það hafi verið sá skárri, miðað við það sem á eftir fór - og við tók pínleg stund þegar hinn spilarinn kom sér fyrir á sviði og rafmagnaði upp hörmulega metnaðarlausan flutning á enn verra lagavali. Irish Rover er náttúrlega ekki jólalag en í góðum flutningi getur verið hrein unun að hlusta á það. Sá flutningur sem þarna var boðið uppá var klár nauðgun og ekkert annað.
Þegar við vorum alvarlega farin að hugsa okkur til hreyfings úr húsinu kvaddi spilarinn skyndilega og kynnti á svið færeyskan trúbador. Þar kvað við allt annan tón, og það var gaman að heyra Synetu hans Bubba snúið á færeysku ásamt fleiri lögum fluttum af metnaði og vandvirkni.
Ég fyrirgaf Fjörukránni með það sama enda var allt annað en ofannefnt gaul og gítarglamur með miklum ágætum - líka verðið, 6900- á mann. Það var ekki stórt fyrir allan þann mat sem var á boðstólum.
Það er eitt sem ég verð eiginlega að deila með öðrum: Fyrr í haust átti ég einu sinni sem oftar leið niður að Snarfarahöfn. Þetta var nokkuð árla morguns um helgi og fáir á ferli. Í einu horni bílastæðisins stóra var fyrirbæri sem ég mátti til að mynda. Ég hef nú um hríð gengið með þá hugmynd í kollinum að fá mér sérstakan bíl undir Stakkanesið til að geta á auðveldan hátt ferðast með það milli landshluta. Sá ferðamáti er allur mun auðveldari en að draga bátinn á kerru sem einnig er notuð til að sjósetja hann - það er erfitt að samræma langferðakerru sem notuð er í þjóðvegakerfinu og kerru sem reglulega fer á kaf í sjó! Þess vegna fæddist þess hugmynd að sérstökum bátaflutningabíl, hugmynd sem hefur verið í þróun í nokkra mánuði.
Ekkert kemur í veg fyrir að sama hugmyndin skjóti upp kollinum á fleiri en einum stað í einu. Það er sjálfsagt að sem flestir reyni að nýta sér góðar hugmyndir (og mér finnst þetta sannarlega vera góð hugmynd) sjálfum sér til hagræðis. Svo geta menn þurft á mismunandi útfærslum að halda eftir eðli málsins og því, hversu mikla peninga þeir vilja leggja í hugmyndina.
Þarna á Snarfarasvæðinu stóð semsé ein útfærsla þessarrar ágætu hugmyndar. Í þá útfærslu höfðu ekki verið lagðir miklir peningar - raunar allmiklu minni en þurft hefði. Þarna stóð vörubíll, svo lítill að það nafn var eiginlega frekar óverðskuldað, og á honum stóð strandveiðibátur af gerðinni Skel26. Ég veit ekki nákvæmlega hversu þungur svona bátur er en þori að leggja hausinn að veði fyrir því að ekki hafi leift mikið af burðargetu bílsins. Mér er nær að halda að henni hafi verið fyllilega misboðið.....
Það þarf öllu öflugri bíl undir þessa stærð af bát. Af útliti bílsins og skoðunarmiða mátti ráða að hann hefði ekki verið í notkun um allnokkra hríð og allt sem eftir var af pallinum voru nokkrir ryðgaðir þverbitar. Í stað afturbretta voru lagðir stubbar af Dokaflekum yfir hjólin. Sjálft ekilshúsið hafði líklega upphaflega verið hvítt að lit en mátt þola eina hálfþekjandi umferð af einhverju sem helst líktist grænni botnmálningu. Mér fannst flest benda til að bíllinn/báturinn hefðu komið um nóttina utan af landi og bátinn ætti að geyma á Snarfarasvæðinu eftir strandveiðivertíðina, sem var þá nýlokið. Væri þessi tilgáta rétt var líklegt (og eðlilegt) að nóttin hefði verið valin til farar því myrkrið hylur allt......
Samt sem áður: Þarna var einhver búinn að útfæra þessa hugmynd mína á ágætan, en frekar öfgakenndan máta. Þessi gamli bíll var, þrátt fyrir að vera lélegur og lúinn, og þrátt fyrir að vera alltof lítill til að burðast með Skel26 á bakinu, nákvæmlega rétta stærðin undir Stakkanesið!
Haldið´að það væri munur að geta skotist á þennan hátt með Stakkanesið norður í Skagafjörð? Eyjafjörð? Skjálfanda, Náttfaravíkur og Fjörður?
Mér fannst, svona í ljósi strembinnar vinnuviku, ég eiga skilið að fá smá upplyftingu. Veðrið var með besta móti, bjart, sólarglampi og hvíti liturinn sem yfir öllu lá, setti hreinleikasvip á útsýnið frá Lyngbrekkunni til Esjunnar og Akrafjalls. Ég bauð konunni í bíltúr eftir hádegið. Hún fussaði og sveiaði, sagðist hafa öðrum og mikilvægari hnöppum að hneppa og það hefði ég einnig. Auðvitað vissi ég það ofurvel, mér fannst bara að þegar maður á allt lífið framundan skipti einn bíltúr í blíðuveðri engu máli.
Það var því engin kona með í túrnum. Bassi átti hins vegar sitt fasta sæti afturí og sat þar sem fastast. Hugmyndin var að aka fyrir Hvalfjörðinn og ég ók upp Kjalarnes og um Tíðaskarð en við vegamótin að Miðdal langaði mig að aka þá leið enda fer ég hana alltof sjaldan. Það var snjór yfir öllu, allt frá föli uppí þæfingsfærð á stöku stað. Hrossadráparinn er ýmsu vanur og át skaflana með bestu lyst enda var þetta enginn Vestfjarðasnjór þó höfuðborgarbúum þætti eflaust kappnóg. Við ókum inn með Kiðafelli og Morastöðum - það má alveg nefna það ef einhver man eftir heiðgulri Hólmavíkurvél sem varð að umtalsefni fyrir nokkrum árum, að trillan Mori (sjá HÉR) sem ég eignaðist á Hólmavík um árið var smíðuð hér á Morastöðum og dró af þeim nafn sitt. Trillan sú var að endingu gefin Bátasafni Breiðafjarðar og stendur nú á Reykhólum. Næst komum við að býlinu Miðdal, og þarnæst að Elífsdal. Við sumarbýlið Bæ var nokkuð mikill snjór á veginum, ekki þó hamlandi fyrir ofurjeppa eins og þann svarta. Þaðan var stutt leið niður að þjóðveginum um Kjósina og leiðin lá fyrir hana. Þar sem sprænan Skorá þverar veginn er lítil brú, handan hennar eru mót vegarins fram að Meðalfellsvatni og við vegamótin var skilti sem auglýsti opnunartíma litla kaffihússins við vatnið. Það var tilvalið að fá sér kaffi og kökubita í Kaffi Kjós og ég beygði inná Meðalfellsveg. Meðfram vatninu standa sumarhús í einfaldri röð neðan vegar, mér fannst ég kannast við húsið hans Jóns Ásgeirs af myndum. Ofan vegar býr Bubbi Morthens í fallegu timburhúsi á frábærum útsýnisstað. Frá því er stuttur spölur að litla, vinalega kaffihúsinu Kaffi Kjós. Húsið stendur einnig á fallegum útsýnisstað ofan vegarins og þegar viðrar eins og í gær verður vart komist nær paradís en að sitja í ylnum innan við stóra gluggana með kakóbolla og kökubita og virða fyrir sér ísilagt vatnið og snyrtileg sumarhúsin á bökkum þess.
Það var nefnilega boðið uppá kakó í kaffihúsinu og ekki skemmdi fyrir að skammtur uppá einn stóran kakóbolla, jólakökusneið og rúllaða pönnuköku kostaði 750 krónur. Ég hef einhverntíma verið rukkaður um nær tvöfalda þá upphæð fyrir ámóta skammt á fjölsóttari ferðamannastöðum....
Þrátt fyrir að klukkan væri aðeins rétt um þrjú og þrátt fyrir blámann í loftinu var merkjanlega farið að bregða birtu þegar ég kom út úr kaffihúsinu. Eftir bíltúr gegnum sumarhúshverfið að býlinu Flekkudal og til baka var stefnan tekin fram Kjósina og ekið hjá býlinu Möðruvöllum að vegamótum nærri Vindáshlíð þar sem vegurinn sunnan Meðalfells tengist þeim sem liggur norðan fellsins framhjá Vindási, Reynivöllum og Valdastöðum að brúnni yfir Laxá í Kjós. Við vegamótin gafst val um að aka nyrðri leiðina hjá ofannefndum bæjum og til baka niður að Laxá eða fram sveitina hjá Írafelli (man einhver eftir Írafells-Móra? ) Hækingsdal, Fremra-Hálsi, Stíflisdal, Fellsenda og inná þjóðveginn um Mosfellsheiði. Sú leið var valin og dólað fram sveitina í fallandi birtu. Það var orðið dálítið skuggsýnt þegar við komum inná Mosfellsheiðina og tókum stefnu niður í Mosfellsdal.
Haustið 2008 ( sjá HÉR ) fórum við félagi minn á hrossadráparanum, rétt nýviðgerðum eftir alltof náin kynni af Skeiðahrossunum, upp að endurvarpsstöðinni á Skálafelli. Þá áðum við um stund við gamla KR- skíðaskálann sem reistur var 1956-9 og vígður það vor. ( sjá HÉR ) Þetta reisulega hús stóð þegar okkur bar að, lokað og læst enda aflagt sem skíðaskáli og lyfturnar í nágrenni þess ónýtar.
Mér fannst tilvalið að renna Skálafellsafleggjarann og nota síðustu geisla dagsbirtunnar til að kíkja á skíðasvæðið. Satt að segja hélt ég að Skálafell væri núorðið aflagt sem skíðasvæði vegna uppbyggingar í Bláfjöllum. Ekki virtist það þó vera því enn virðast öll mannvirki þar starfhæf og a.m.k. undir einni lyftu var nægur snjór til starfrækslu. Það voru hins vegar engir skíðamenn á svæðinu, heldur aðeins tveir jeppar sem spóluðu þvers og kruss neðarlega í brekkunum. Mér datt í hug að aka vegstubbinn sem liggur í átt að gamla KR- skálanum sem stendur nokkuð afsíðis frá núverandi skíðasvæði. Mig langaði að sjá hvort þar væri allt með sömu ummerkjum og haustið 2008.
Það má kannski orða það svo að nú sé hún Snorrabúð stekkur......vissulega var skálinn aflagður 2008 og þó einhverju fyrr. Það haust var hann þó lokaður veðri og vindum og þokkalega heillegur að sjá. Nú var annað uppi á teningnum. Óþjóðalýður hefur riðið húsum, hver einasta rúða er brotin, hurðir eru brotnar, í stuttu máli er eiginlega allt eyðilagt sem hægt er að eyðileggja.
Ég fetaði mig inn um brotnar dyr og lýsti mér leið með símanum. Svö rökkvað var orðið að ég átti erfitt með að greina skil innanhúss í því litla ljósi sem síminn gaf. Myndavélin var í vasanum og flassblossarnir lýstu eitt augnablik upp það sem fyrir augu bar:
Einhvern tíma hefur hér verið aðalanddyri hússins og frá forstofu gengið upp nokkar tröppur í skála. Allt er brotið og bramlað og snjórinn á greiða leið inn.
Hér hefur verið hið veglegasta eldhús og eflaust hafa verið reiddar fram vel þegnar veitingar handa lúnum skíðamönnum. Sú tíð er liðin...
Hér að ofan er staðið í miðju skálans ofan við tröppur aðalinngangsins og horft í átt til fjalls. Opið í baksýn er ekki dyraop heldur gluggi sem sagað hefur verið niðurúr í einhverjum tilgangi. Ílanga opið til hægri er úr eldhúsinu, og um það hafa krásirnar verið réttar þeim þurfandi.
Á gólfinu lá þetta skilti. Í myrkrinu varð ekki lesið á það en myndavélin afhjúpaði letrið.
Þessi torkennilega persóna sem birtist á myndinni þegar heim var komið og myndavélin var tengd við tölvu, sást ekki berum augum í myrkrinu. Eflaust er þarna á ferð einhver fyrrum skálabúi sem heldur tryggð við staðinn þrátt fyrir niðurlægingu og eyðileggingu.
Loftklæðingin virtist ekki hafa verið af verri endanum, mér sýndist þetta vera einhvers konar harðviðarlistar eða -panill. Ljósið er enn á sínum stað en Sogsvirkjun miðlar því ekki lengur neinu rafmagni. Það lýsir aldrei meira.........
Þarna hefur verið myndarlegasta hreinlætisaðstaða. Veggurinn er ekki svartur af sóti, eins og virðast mætti við fyrstu sýn, heldur rakamyglu.
Í norðausturhorni hússins er þetta herbergi, nokkuð stórt miðað við aðrar vistarverur. Líklega hefur þarna verið aðstaða þess eða þeirra sem unnu við skálann, og þá kannski líka norðurherbergið þar sem sagað hafði verið niður úr glugganum. Í því herbergi var koja og símatengill, sá eini sem ég sá í húsinu.
........................
Upp á efri hæð hússins lá snúinn stigi. Ég fetaði mig upp hann og þar kvað við nokkuð annan tón en niðri. Á neðri hæð voru viðarlitir allsráðandi, en blossar myndavélarinnar afhjúpuðu allt annað litaval á efri hæðinni. Þar hefur eingöngu verið svefnpláss, stórir rúmbálkar fyrir dýnur á tveimur hæðum taka mest af gólfplássinu :
Mér fannst ömurlegt að sjá hvernig farið hefur verið með þetta veglega hús, sem eflaust hefur veitt mörgum ánægju gegnum tíðina. Ég veit ekki hvenær notkun þess var hætt, en ég veit eins og áður segir, að haustið 2008 var það lokað, allar rúður heilar og dyr læstar. Einhvern tíma á þessum þremur árum hafa krumpaðar sálir átt leið þarna um og fundið sér fróun og afþreyingu í eyðileggingu húss sem ötulir menn eitt sinn strituðu við að byggja sjálfum sér og öðrum til heilbrigðrar gleði og ánægju. Eyðileggingarárátta er undarleg tilhneiging og ill- eða óskiljanleg öðrum en þeim sem hafa hana til að bera - ef þeir þá skilja nokkurn skapaðan hlut.....
Það var komið að því að yfirgefa þennan sorglega stað. Í myrkrinu sem nú mátti heita skollið á myndaði ég bakhlið hússins, þar sem sagað hefur verið niður úr glugga. Kannski voru menn á sínum tíma byrjaðir endurbætur og breytingar á húsinu - steinullareinangrun í opnum útveggjum gat bent til þess - en kannski hafði opið einungis verið sagað til að koma þungum og fyrirferðarmiklum hlutum út úr húsinu. Píanóinu??
Jepparnir tveir voru enn spólandi neðst í skíðabrekkunum þegar við renndum hjá. Vonandi fengu ökumenn þeirra og eigendur sína ánægju út úr þessum fallega en fallandi degi.