Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


02.11.2020 16:53

Austurferð 9 -18. ágúst ´20. Síðari hluti.


Upp var runninn föstudagur 14 ágúst og það skein sól í heiði - þ.e. Fjarðarheiði - þegar ég vaknaði í ferðabílnum á tjaldsvæðinu á Egilsstöðum. Eins og áður var fram komið var ferð dagsins heitið til Loðmundarfjarðar. Hjólið stóð ferðbúið og fullt af bensíni við hlið bílsins, gallinn var orðinn þurr að mestu eftir úða fimmtudagskvöldsins í Geitdal og því var ekkert að vanbúnaði. Ég henti í mig litlum skammti af morgunmat með því fyrirheiti að styrkja verslunina á Borgarfirði eystri rausnarlega þegar þangað kæmi. Svo var brúmmað af stað á bláa hjólinu sem leið lá niður Hérað. Það var hægur vindur sem á köflum lægði alveg og dýrðin var svo mikil að ég var farinn að hjóla á u.þ.b. 70 km. hraða þegar komið var niðurfyrir Eiða. Ég var líka einn á ferðinni, ekki fyrir neinum enda klukkan rétt að verða níu og ég naut þess í botn að eiga allan heiminn ........eða a.m.k. þennan hluta hans.

Svo sleppti flatlendinu og við tóku brekkurnar upp í skarðið milli fjallanna sem á mínu korti heita Sönghofsfjall (austar) og Geldingafjall (vestar). Í brekkunum var verið að endurnýja veginn og sú vinna var í fullum gangi þegar ég kom að. Eftir dálítið klöngur yfir ófæru var komið upp í skarðið og Njarðvík blasti við. Malbikið tók við að nýju neðan eystri gönguleiðarinnar að Stórurð og afgangurinn af leiðinni til Bakkagerðis var eins og hraðbraut. 

Milli Egilsstaða og Bakkagerðis / Borgarfjarðar eystri eru um 70 km. Það þýddi að ég var búinn með þriðjung heildardrægis hjólsins af bensíni og fyllti því á N1 sjálfsalanum. Svo var það búðin, morgunmaturinn og nestið til ferðarinnar.

Nei takk! Klukkan mín var rúmlega hálftíu en á miða í búðarglugga var kynntur opnunartími kl. 10:00. Sem snöggvast íhugaði ég hvort betra væri að bíða eða láta slag standa og hjóla af stað nestislaus. Árangurslausar samningaviðræður við almættið um að stöðva tímann í hálftíma svo dagurinn hlypi ekki frá mér, leiddu til seinni niðurstöðunnar. Ég lagði á dalinn frameftir og síðan á heiðina sem liggur yfir í Húsavík.



Í sárabætur fyrir að hafa ekki viljað stöðva tímann bauð almættið upp á svona ferðaveður.



Ég bjó til kortaklippu yfir fyrsta hluta leiðarinnar, sem liggur frameftir þar sem á mínu korti heitir Afrétt. Þegar honum sleppir er farið um skarð undir náttúruperlunni Hvítserk, um Vetrarbrekkur niður Gunnhildardal og komið niður í ofanverða Húsavík. Þar greinist vegurinn til tveggja átta, annarsvegar niður til byggðar í Húsavík og hins vegar upp í afar brattan háls þar sem farið er um krókóttan veg til Loðmundarfjarðar. U.þ.b. þar sem lagt er á hálsinn er skáli F.Í. veglegt hús, merkt með rauðum punkti.



Á myndinni að neðan er horft frá Vetrarbrekkum til Hvítserks. Ljóst líparítið er áberandi enda dregur fjallið nafn af því.




Myndin hér að neðan er tekin niður yfir Húsavík, nokkurn veginn frá þeim stað þar sem ég fór flatur á hjólinu í of krappri beygju. Ég vil að það komi skýrt og greinilega fram að ég réði við beygjuna-hjólið ekki. emoticon  Bláa hjólið er með hækkað gírhlutfall og ræður illa við mjög lítinn hraða í kröppum beygjum upp á móti. 
Bæir í Húsavík eru næst kverkinni vinstra megin niðri við sjóinn og skáli F.Í. er í hvarfi rétt utan myndar neðst vinstra megin.



Myndin hér að neðan sýnir vel afstöður. Hún er tekin frá sömu beygju í átt að Hvítserk. Vegurinn liggur um skarðið vinstra megin hans. Gunnhildardalur er fyrir miðri mynd og skáli F.Í. við brekkurætur. Við miðja mynd hægra megin má sjá afleggjarann niður í Húsavík.



Kominn upp í háskarðið og útsýnið opið til Loðmundarfjarðar (h.m.)  og Seyðisfjarðar fjær. Það munar ekki nema hársbreidd að Dalatangi sjáist í fjarskanum...Horft er til Skálanesbjargs beint ofan vegarins og í Skálanesbót litlu innar, þar sem "eyði"býlið Skálanes stendur. ( sjá HÉR)



( Hér ætla ég að stinga inn kortaklippu, þar sem ég er búinn að lita öll helstu örnefni og bæjanöfn sem fyrir koma í textanum. )




Svo voru mestu brekkurnar á niðurleiðinni að baki og Loðmundarfjörður opnaðist.



Ysti hluti nessins heitir Borgarnes, og handan þess liggur Seyðisfjörður með Skálanesbót.



Ég hjólaði inn með firðinum eins rólega og hægt var því það var endalaust eitthvað nýtt að sjá - reyndar var allt nýt þeim sem þarna kom í fyrsta sinn. Framundan er bærinn Stakkahlíð en litli hvíti depillinn vinstra megin, undir Herfelli er kirkjan að Klyppstað. Dálítið sérstakt nafn, Herfell.



Svo sneri ég höfðinu ( og myndavélinni) til vinstri. Svo mikið var að sjá, og svo merkilegur fannst mér fjörðurinn að hefði ég getað snúið höfðinu heilhring, þá hefði það eflaust gengið eins og þyrluspaði. Á myndinni að neðan er horft frá veginum að Stakkahlíð þvert yfir fjarðarbotninn að býlinu sem heitir Sævarendi. Þar er myndarlega hýst, enda er það líklega sá bær sem lengst var búið á í sveitinni, eða til 1973.





Aðkoman að kirkjustaðnum og prestssetrinu Klyppstað. Til að komast að kirkjunni á farartæki þarf að fara yfir vað á Fjarðará. Áin var full vatnsmikil fyrir bláa hjólið ( sem ekki kallar þó allt ömmu sína) og þar sem ég ætlaði ekki lengra en að Klyppstað lagði ég hjólinu og nýtti mér göngubrú við hlið vaðsins. Eyðibýlið / sumarhúsið  Úlfsstaðir eru framar en Klyppstaður, auk fleiri bæja sem eru tóftir einar. Mér fannst ég ekki eiga þangað erindi svo ég lét kirkjustaðinn vera minn leiðarenda.



Rétt utan kirkjunnar og í landi Klyppstaðar er annað hús Ferðafélagsins. Það er myndarlegur skáli ekki síður en sá í Húsavík handan við Nesháls. Dökku klettarnir munu heita Goðaborgir og tindurinn lengst til hægri Skælingur.



Horft frá rústum íbúðarhússins að Klyppstað í átt til kirkjunnar og suður fyrir fjörð í átt til fjallstinds sem á mínu korti gæti heitið Gunnhildur (841m)





Kirkjan var læst eins og við var að búast svo ég lagði myndavélina á rúður og myndaði inn:







Undirstöður hússins eru talsvert farnar að morkna og festur fótstykkisins orðnar lélegar.



Tveir legsteinar í kirkjugarðinum báru af öðrum, enda annar nýlegur.





Ég hef skoðað nokkrar myndir af íbúðarhúsinu að Klyppstað, sem búið var í til 1961. Sumar eru ekki gamlar en þó stendur mun stærri hluti hússins uppi á þeim. Það bendir til þess að á seinni árum hafi húsið látið verulega á sjá og hrörni hratt. Miðað við járnabindingu og steypuna sjálfa hefur þetta hús líklega ekki verið sérlega vel byggt. Kannski hefur efnið ekki verið nógu gott.....



Horft til Herfjalls frá rústum íbúðarhússins. Úlfsstaðir eru í ljósgræna blettinum ofan við gluggann í veggnum



Horft fram Bárðarstaðadal. Enn framar en Úlfsstaðir (lengst t.h.) vou Bárðarstaðir h.m. og Árnastaðir v.m.



Frá veginum um flatan fjarðarbotninn, þar sem hann greinist til Sævarenda og að Klyppstað sá ég vegslóða sem liðaðist upp hlíðina ofan við Stakkahlíð og lá upp í dalverpi þar ofar, þar sem heitir Stakkahlíðarhraun. Ég hafði ekki séð tengingu þessa slóða við Stakkahlíð og einsetti mér að finna hann þegar ég héldi til baka. Það gekk eftir og það fyrsta sem mætti mér var þessi lúna traktorsgrafa:



Ofan Stakkahlíðarhrauns eru þessar fallegu grasflatir, sem munu einfaldlega heita Fitjar. Fari ég rétt með er horft inn skál sem á mínu korti heitir Skúmhattardalur og ofar honum er samnefnt fjall. Í brúninni er svo örnefnið Skúmhattardalsbrík auðskiljanlegt.



Svipmikið Karlfell gnæfir yfir Klyppstað og Stakkahlíð handan þess vinstra megin, og svo Fitjar og Hraunadal hægra megin.



Á leiðinni frameftir fór ég fram hjá tvemur léttklæddum göngukonum, enda var hitinn nánast við suðumark. Lengra á leið komnir voru tveir karlmenn, sýndist mér. Ég áði stutta stund þarna framfrá enda umhverfið hrein paradís. Það rifjaðist upp að ég var ekki alveg nestislaus því í farangursboxi átti ég tvo Svala ásamt hálfum kexpakka, leifar nestis frá Kárahnjúkum daginn áður. það kom sér vel að eiga þennan bita, þótt kexið væri orðið að hálfgerðri mylsnu. Ég lagði mig aðeins í grasið og hefði líklega sofnað, hefði ég legið fimm mínútum lengur....



Svo kom að því að kveðja þurfti þennan fallega, friðsæla blett og halda til baka. Á myndinni að neðan er horft frá brúnum Hrauns og Hraunadals niður yfir botn Loðmundafjarðar og til Stakkahlíðar.



Á leiðinni til baka út með firði í átt til Nesháls er þessi laglegi foss í dálítilli á, Hrauná.  Á ánni er brú og rétt við hana afleggjari í átt til sjávar. Mig langaði að vita hvert hann lægi og hjólaði niðureftir.



Jú, milli kletta í fjörunni leyndust hafnarmannvirki. Fúin og feyskin en samt mannvirki, steinbryggja með stálstiga niður í sjóinn og festipollum fyrir bát.



Glöggir menn geta eflaust giskað á uppruna þessa "bryggjupolla"



Þessi stagfesta var líka kunnugleg. Mér finnst hún líkjast einna mest beislishluta úr dráttarvél. Aðdrættir Loðmfirðinga voru aðallega sjóleiðina frá Seyðisfirði. Þarna hefur verið þokkaleg viðlega fyrir uppskipunarbát í sæmilega sléttum sjó. ( sem reyndar var víst ekki alltaf). Það hefur kostað talsverða vinnu að gera þessa bryggju og allnokkur steypa farið í verkið. Líklega hefur þar allt verið hrært á höndum, flutt á höndum og lagt út á höndum. 



Áfram var haldið heim á leið, út fjörð og yfir Nesháls, fetað niður brekkur og beygjur Húsavíkurmegin og þegar þangað kom valdi ég afleggjarann niður í sjálfa Húsavík. Vegurinn var ákaflega grýttur, grafinn og grófur en svo sem engin fyristaða fyrir hjólið. Ég fann samt dálítið til með þeim bíltíkum sem ég var að mæta á leiðinni, og ekki síst eigendum þeirra, bílaleigunum. Þegar niður að bæjum kom var heimsýnin svona:



 Býlið sem nær er heitir Dallandspartur og virtist ekki vera í íbúðarhæfu standi en greinilegt að talsvert var verið að vinna að viðgerðum. Komnir voru nýir gluggar að hluta og fleiri merki sáust um uppgerð í gangi. Dálítið utar er kirkjujörðin Húsavík. Þangað var afar snyrtilegt heim að líta, húsið nýmálað með nýlegu þaki og gluggum. Kirkjan var einnig nýmáluð og þótt hún virtist dálítið lúin undir málningunni var heildarmyndin til sóma. Bílar voru í hlaði og einnig tveir bílar ferðafólks sem var á gangi þar skammt frá. Ég hitti heimilisfólk á gangi og bað um leyfi til að fá að líta á kirkjuna. Það var auðfengið.











Ég hafði aðeins heyrt Húsavík nefnda í samtölum og þrátt fyrir að hafa einhvern tíma skoðað ljósmyndir frá staðnum, kom hjann verulega á óvart. Auðvitað lagði veðrið sitt af mörkum en mér fannst vera þarna í víkinni dálítið brot af þeirri paradís sem svo margir leita að alla ævi......

(....en það var reyndar svona í tíunda skiptið í sumar sem ég fékk þá tilfinningu - og ekki í síðasta skiptið )



Stundum er það þannig að þegar maður hefur ferðast daglangt um ókunnar slóðir og sogið upp allt sem fyrir augu ber, að það er eins og hugurinn fyllist - fái hreinlega nóg og ekki verði fleiru að komið í það sinn. Maður verður svona eins og hálfkvalinn af tjáningarþörf en það er enginn til að tjá sig við því það er enginn ferðafélagi sem tekur þátt í upplifuninni. Þegar sú tilfinning kemur yfir mann er ekki gott að vera einn á ferð - en sem betur fer líður hún yfirleitt fljótlega hjá og þá er aftur gott að vera bara einn....
Þannig var mér farið eftir þessa stund í Húsavík og undangengna dvöl í Loðmundarfirði - ég gat bara ekki meira í þetta sinni og þótt mig langaði að vera lengur þá fannst mér ég verða að fara, og hvíla hausinn um stund. Ákvörðuninni fylgdi fyrirheit um að koma aftur síðar og skoða meira.

Ég hjólaði til baka um Gunnhildardal, Vetrarbrekkur og Afrétt niður í Bakkagerðisþorp. Nú var verslunin opin og ég náði mér í dálítið af fastri fæðu ásamt vökva og settist út á verönd meðan ég gerði daginn upp í huganum og nærðist um leið. Síðan lá leiðin "heim" í ferðabílinn á Egilsstöðum.

-------------------------------------------------------------------------------------------------

Það stóðst á endum að þegar ég var kominn til Egilsstaða var ég búinn að "hreinsa út" hausinn og búa til pláss fyrir nýjar upplifanir. Viðstaðan þar var því aðeins örstutt, svo var haldið af stað að nýju til að skoða eina kaflann sem eftir var á lauslegri ferðaáætluninni. Sumarið 2017 var ég á ferð um þessar slóðir á Grána gamla og ók þá út með Seyðisfirði norðanverðum, eins langt og komist varð með góðu móti. Nú langaði mig að loka hringnum og fara út með firði að sunnanverðu, helst alla leið út að Skálanesi ef hægt væri. Ég hjólaði því yfir Fjarðarheiði og gegnum Seyðisfjarðarkaupstað út ströndina þar sem áður var svo mikið athafnalíf. Þrisvar sinnum hef ég siglt með Norrænu út fjörðinn og þrisvar sinnum inn - ég vissi því nokkurn veginn hvað þar væri að sjá og hlakkaði til að skoða það í návígi. Það fyrsta sem mér fannst nógu áhugavert til að mynda var þessi gamla síldarsöltunarstöð við sjóinn, og ákvað að skoða hana betur í bakaleiðinni.



Ég átti ekki gott með örnefnin á þessum slóðum því ekkert kort eða upplýsingar er að finna við veginn. Býlið Hánefsstaðir stendur á hjalla ofan vegar um miðjan fjörð og þessar rústir eru skammt neðan þess, við veginn. Líklega hefur þetta verið sveitabýli frekar en síldarvinnsla.



Á svipuðum slóðum stóð þessi rúst á fjörukambinum. Kannski var þarna síldarverkun - kannski ekki? Mér fannst dálítið slæmt að hafa engan til að spyrja, en við því varð ekki gert. Ég þarf eiginlega að finna mér einhverja góða bók sem lýsir mannlífi og mannvirkjum á ströndinni þegar allt stóð þar sem hæst.



Eitt sinn hús - sálin horfin en útidyratröppurnar ekki....



Svona miðað við staðsetninguna gæti þessi tindur heitið Flanni og verið 777 m.y.s.  Mér fannst hann einmitt nægilega Flannalegur til að það gæti staðist..Uppi á bökkunum fyrir miðri mynd er flugbrautin sem eitt sinn var en er nú löngu aflögð og reyndar orðin hluti vegarins.



Ég komst ekki út að Skálanesi heldur aðeins út í bótina og stoppaði þar við á sem líklega heitir Ytri-Sandá. Í henni var talsvert vatn og þar sem fara þurfti yfir hana á vaði hafði ég allan vara á mér. Við vaðið var bílaleigujepplingur og í honum erlend hjón á miðjum aldri. Þau voru auðsjáanlega rög við að leggja í vatnið, mátuðu sig við ána nokkrum sinnum en hættu jafnan við. Svo kom annar jepplingur utanfrá Skálanesi. Hann lagði umsvifalítið á vaðið svo vel mátti sjá vatnsdýptina. Hún var svo sem ekki til vandræða en hins vegar mátti líka sjá af hreyfingum bílsins, að botninn var grófur og grýttur. Bílstjórinn veifaði og hélt sína leið. Útlendu hjónin, sem höfðu verið að búa sig undir að snúa við, hleyptu í sig kjarki og lögðu varlega á vaðið. Þeirra bíll hentist til á grjótinu en vatnsdýptin hamlaði ekki. Að öllu samanlögðu ákvað ég að minn vegarendi - allavega í þetta sinn - væri þarna við vaðið. Ég var á hjóli sem ég átti ekki (lengur) og auk þess aftur einn. Lenti ég í vandræðum í vaðinu var óvíst hvenær einhvern bæri að til að rétta hendi. Ég sneri við.

Á leiðinni til baka myndaði ég rústina neðan við Hánefsstaði úr annarri átt:



Litlu innar eru þessar verksmiðjuleifar á landdrjúgri eyri. Þarna virtist hafa verið talsverð umsetning og jafnvel síldarbræðsla, ef marka mátti stærð stálgrindarhússins sem staðið hafði á miðri lóðinni. Steypti hringurinn gat verið hvað sem er - síldarþró (samt fulllítill),  einhvers konar seinni tíma fiskeldismannvirki ( jú, alveg möguleiki)  eða kannski olíugildra kringum tank sem þá væri horfinn (neeee.....fullítill til þess - og þó? )  Enn og aftur fann ég verulega til þess að geta ekki spurt neinn um neitt. Svona staðir svara nefnilega ekki alltaf spurningum - þeir eiga hins vegar til að vekja fjölda þeirra...



Allskonar rústir um alla eyrina. Þarna hafa verið mikil mannvirki og stór.



Býlið Hánefsstaðir sést til hægri uppi á bökkunum.



Þá var komið að þeim rústum sem fyrst voru myndaðar. Eins og áður sagði ákvað ég að koma þarna við í bakaleiðinni og mynda meira. Þarna við sjóinn hafa verið mörg hús, og a.m.k. eitt miklu stærra en þetta. Þarna hafa líka verið stór plön, steypt á landi en úr tré út í sjóinn.





Tröppur upp að því húsi sem virðist hafa verið langstærst. Miðað við fjölda, stærð og gerð lagna sem stóðu víða upp úr gólfinu ásamt leifum af milliveggjum og mismunandi gólfbletti giskaði ég á að þarna hefði staðið margskipt hús, líklega íverubraggi - samastaður síldarverkafólks um háannatímann. 



Lofthæðin, sem vel mátti merkja af þakhæðinni á skorsteininum, studdi þessa tilgátu. Verksmiðjuhús eða pakkhús hefði haft meiri lofthæð, ekki satt? 





Blátt hjól horfir út fjörðinn sem það sigldi með Norrænu sumarið 2016 á leið í vikuferð til Færeyja. Skyldi það eiga eftir aðra slíka ferð?



Svo var komið kvöld, sólin að síga og tími til kominn að halda til baka tíl bíls. Það var ekki grilluð krás þetta föstudagskvöld, heldur kom sonurinn í heimsókn með pylsur og brauð sem hann átti frá kvöldinu áður. Það var snætt og síðan var slegið til rólegheita. Þessi föstudagur var senn liðinn, á laugardeginum ætlaði sonurinn að vakna snemma og aka á Grána inn undir Snæfell, sem ganga skyldi á með góðum hópi. Sjálfur ætlaði ég að aka á sjúkra - ferðabílnum til Vopnafjarðar með hjólið á kerrunni sem fyrr, og þaðan áfram ströndina allar götur til Raufarhafnar en einnig ætlaði ég að ganga út í Rauðanes og skoða mig þar um. Síðan skyldi leiðin liggja um Hófaskarð að Ásbyrgi, þar sem hjólið skyldi tekið af og hjólaður hringurinn um Dettifoss - þ.e. suður eystri veginn að Hólsseli og Grímsstöðum, síðan vestur fyrir Jökulsá og norður nýja veginn og yfirstandandi vegagerð, um Hólmatungur og Hljóðakletta til Ásbyrgis. Síðan þetta og hitt eftir þvi sem tíminn og veður leyfði - og fríið dygði........

...en svo bregðast krosstré sem aðrir raftar......
-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Ég var snemma á fótum laugardagsmorguninn 15. ágúst - svo snemma að Egilsstaðir voru ekki vaknaðir þegar ég tók mér stutta morgungöngu um bæjarkjarnann. Næstu tvær myndir birti ég um morguninn á FB undir yfirskriftinni: "Egilsstaðir, eins og þú hefur aldrei séð þá."
Svona hlýtur honum Palla, sem var einn í heiminum, að hafa liðið þegar hann "vaknaði" á sínum morgni......








Eins og áður var komið fram átti mín leið að liggja til Vopnafjarðar í fyrsta áfanga. Ég var búinn að ganga frá hjólinu á kerruna og var tilbúinn til ferðar, en leyfði mér að drolla aðeins meðan bærinn var að vakna. Gráni og sonurinn höfðu lagt snemma af stað inn að Snæfelli enda löng leið að fara og þar átti að taka daginn snemma með fjallgöngu. Mitt síðasta verk fyrir brottför var að fylla ferðabílinn af dísilolíu hjá Orkunni og þar var ég einmitt staddur þegar sonurinn hringdi með slæmar fréttir: Gráni var steindauður á miðjum vegi lengst inni á Fljótsdalsheiði og vildi ekki í gang. Samkvæmt stuttri lýsingu dó hann hreinlega í akstri, einmitt þar sem engar vegaxlir voru til að láta hann renna út á. Þar með lagði hann undir sig heila akrein, staður eins og staur.

Ég vissi af langri reynslu að þegar nauðaeinfalt apparat eins og Gráni steindeyr í akstri, þá væi eitthvað mikið að - eitthvað sem varla yrði lagfært með skrúfjárni og skiptilykli lengst inni á fjöllum. Það var samt ekki um annað að velja en að snúa ferðabílnum í gagnstæða átt, halda inn á Fljótsdal og áfram inn á fjöll til að reyna þó að gera eitthvað.

Ég skildi kerruna með mótorhjólinu eftir við tjaldsvæðið og hélt af stað. Fyrst þrjátíu kílómetra inn dalinn og síðan upp brekkurnar inn á heiðina sem ég hafði farið hjólandi um á fimmtudeginum í Kárahnjúkaleiðangrinum. Ég tók ekki kílómetrastöðuna á mælinum en af því sem ég mundi frá fimmtudeginum var ég kominn langleiðina inn að afleggjaranum að Laugafellsskála þegar ég sá hilla undir Grána á veginum. Á að giska hef ég því ekið c.a. 25 km. frá vegamótunum niðri á Fljótsdal og þar til ég kom að bílnum. Þar sat drengurinn og var símleiðis búinn að boða forföll í ferðina, því félagarnir höfðu lagt af stað á undan honum á öðrum bíl.

Það þurfti að eins lauslega athugun til að sannreyna það sem mig grunaði - að þarna inni á fjöllum yrði ekkert gert að gagni. Kveikjubúnaðurinn í Grána var greinilega bilaður og þannig búnaður yrði ekki lagfærður nema með varahlutum. Svo var hitt líka - kveikjubúnaðurinn samanstendur af nokkrum elektrónískum hlutum og það þurfti að sannreyna, ef mögulegt væri, hver þeirra væri bilaður. Staðan var núll núll.

Ég hringdi í vin. Sá var búsettur á Egilsstöðum, öllum hnútum kunnugur þar og gat bent mér á dráttarbílseigendur sem líklegir væru til að geta sótt Grána inn á heiði og komið honum niður í bæ. Aðeins einn svaraði, sagðist geta sótt bílinn síðdegis og vildi fá um 60 þús. fyrir greiðann. Jújú, það var svo sem ekki um annað að velja, en fyrst hann gat ekki komið fyrr en seinnipartinn ákváðum við í sameiningu að ég myndi reyna að draga Grána á einhvern blett þar sem hann væri ekki fyrir umferð og einnig væri hentugt að komast að honum með dráttarbíl. Við sonurinn lögðum svo af stað með Grána í togi þar til við fundum líklegan stað til að snúa á - þeir staðir voru mjög af skornum skammti. Gráni var leystur úr taumi og saman lögðumst við á hann til að ýta honum afturábak út fyrir veg. 
Að ýta bíl sem er tvö og hálft tonn og að auki með dautt vökvastýri, er ekkert grín. Við hittum ekki á rampinn sem við ætluðum að nota og enduðum með Grána hálfan úti í skurði. Ekki lagaði það stöðuna, og nú kom sér vel að dráttartógið í ferðabílnum var nautsterkt og svo hafði ferðabíllinn eitt aukatonn á Grána og tvöfalda hestaflatölu auk fjórhjóladrifs. Það brakaði nú samt verulega í tóginu þegar við drógum Grána aftur sömu leið upp á veginn. 
Taka tvö gekk eiginlega enn verr, og nú vorum við heppnir að velta Grána ekki þegar við misstum hann aftur út fyrir rampinn. Slagsíðan var veruleg þegar hnýtt var í að nýju, eins stutt og mögulegt var og ferðabílnum komið fyrir þvert á þjóðveginn. Það kom sér vel að umferðin, meðan á æfingunum stóð, var engin. Handan vegar var vegkanturinn dálítið breiðari en annarsstaðar og ferðabíllinn var keyrður eins langt út í kantinn (eða út fyrir hann) og tæpast mátti. Með því að hnika honum fram og aftur náðist að koma honum á stefnu til baka út heiðina og eftir margar "færur" fylgdi Gráni á eftir og stóð loks eins og hross í taumi aftan í ferðabílnum.
Því miður eigum við engar myndir frá þessum barningi því okkur láðist hreinlega að mynda, enda kannski lítill tími til þess.

Okkur syninum kom saman um að næsta skref væri að finna hentugan stað til að skilja Grána eftir fyrir dráttarbílinn. Við lötruðum því af stað í leit að slíkum en máttum fara talsverðan veg þar til kom að einum líklegum. Þar stöldruðum við við og spáðum í spilin, enda nóg um að hugsa. Gráni er sjálfskiptur og slíka bíla má yfirleitt ekki draga um langveg né á neinum hraða að ráði. Fátækleg verkfærakista var tekin fram og lagt til atlögu við drifskaftið í Grána - hugmyndin var að aftengja það og hengja upp svo sjálfskiptingin snerist ekki með hjólunum. Það var hins vegar sama hversu mikið ég tók á skrúflyklinum, hann haggaðist ekki. Sama sagan með alla fjóra boltana, enginn þeirra sýndi snefil af samvinnu. Með því að bregða öðrum lykli á lykilinn tvöfaldaðist átakið með þeim árangri að lykillinn brotnaði, án þess að boltinn hreyfðist. Þar með lauk þeirri tilraun og við urðum sammála um að halda áfram aðeins lengra, á lötri til að hita ekki skiptinguna. 
Hraðinn var c.a. 20 km. út heiðina. Okkur miðaði svona eins og stóra vísinum á klukkunni. Ég hafði farið fram hjá stóru plani snemma á leiðinni inneftir, plani sem virtist hafa verið gert til að geyma vegarefni og/eða vinnuvélar meðan á vegagerðinni stóð (  vegurinn inn að Kárahnjúkum er allur malbikaður).  Þangað vildi ég helst koma Grána og stytta með því leið dráttarbílsins til muna. Loks náðum við á þetta plan og lögðum lestinni á því. Á leiðinni þangað hafði hins vegar kviknað ný hugmynd. Ég þóttist, eftir að hafa farið fram og til baka á fimmtudeginum og í þriðja sinn fyrir stundu, gjörþekkja veginn!  Meðan ég ákvað að gera aðra tilraun við drifskaftið með lengri skrúflykli sendi ég soninn gangandi áfram veginn, og bað hann að athuga hvort ekki leyndist beygja og brú handan við næstu hæð. Handan brúarinnar átti að vera löng hægri beygja og síðan halli á veginum niður í hvarf. 
Ekki létu boltarnir í drifskaftinu sig þótt tekið væri á með öllu sem til var. Loksins þegar eitthvað lét sig, var það lykillinn. Hann brotnaði líka, á þann veg sem ég hef aldrei séð skrúflykil brotna á mínum fjörutíu ára ferli. Þar með var draumurinn út, ég tók saman verkfærin og hafði rétt gengið frá þeim þegar sonurinn kom til baka. Lýsingin mín á því sem átti að bera fyrir augu handan hæðarinna var nógu rétt til að vera ekki röng, og þar með vissi ég að við vorum skammt frá brúnum heiðarinnar, þar sem við taka krappar S-beygjur niður í Fljótsdal. Með þá vissu ákváðum við að reyna með öllum ráðum að koma Grána niður af heiðinni og á plan við vegamótin niðri á dalnum. Enn var lagt af stað og þegar halla fór niður var hlutverkum víxlað og Gráni, hálf-hemlalaus þegar hjálparátakið frá vélinni vantaði, var hengdur framan í ferðabílinn. Þannig lötruðum við niður brekkur og beygjur og ferðabíllinn, með sjálfskiptingu í lággír hélt svo vel við þungann ( sem samanlagður var sex tonn) að það lá við á köflum að þyrfti að bæta við hraðann frekar en að draga úr - ég þurfti rétt aðeins að tylla í bremsur öðru hverju. Ofan við neðstu beygju stöldruðum við við dálitla stund meðan við stikuðum með augunum út vænlegan "lendingarstað" og á meðan runnu fram úr okkur nokkrir bílar af mismunandi gerð og stærð - og augljóslega með mismundandi hæfum ökumönnum, því af einhverjum þeirra lagði sterkan fnyk af glóandi bremsum. Sumir höfðu greinilega haft þann hátt á að aka á fullri ferð beinu kaflana en bremsa svo niður af öllu afli fyrir beygjurnar og gefa svo í aftur eftir þær. Það er ekki góð latína á sjálfskiptum bílum og lyktin var eftir því. 

Við fundum góðan stað til að leggja Grána til hvíldar á planinu við vegamótin. Sonurinn flutti það af dóti sem hann ekki vildi geyma í bílnum, yfir í ferðabílinn. Ég framkvæmdi hugmynd sem orðið hafði til á leiðinni niður brekkurnar, og hringdi í dráttarbílseigandann. Hann var ekki lagður af stað inneftir, svo ég þakkaði honum fyrir góðan vilja en afþakkaði þjónustuna um leið. Það var nefnilega sýnt að með því að koma Grána út í Egilsstaði væri aðeins hálfur sigur unninn. Ég myndi alltaf þurfa að koma honum til Reykjavíkur til viðgerðar, og sú eina leið sem okkur væri fær til þess væri að fá leigða bílaflutningakerru. Þá skipti auðvitað engu mál hvort Gráni stæði á Egilsstöðum og ég væri 60 þús. fátækari, eða hvort hann stæði 30 km. inni á Fljótsdal. Með það hringdi ég í N1 á Egilsstöðum og spurðist fyrir. Þeir voru hins vegar ekki með neina bílakerru til leigu, aðeins smærri kerrur. Þar með var sá draumur úti. Við sonurinn renndum framhjá Hallormsstað út í Egilsstaði, tengdum kerruna með hjólinu á aftan í bílinn og héldum áleiðis til Reykjavíkur. Klukkan var um þrjú þegar við lögðum af stað norðurleiðina í dýrðarveðri.

Á leiðinni pöntuðum við bílaflutningakerru með 3,5 tn. burðargetu hjá N1 í Grafarvogi. Hún skyldi sótt þangað að morgni mánudags og skilað sólarhring síðar. Við komum til Reykjavíkur eftir lokun hjá N1, annars hefðum við líklega lagt beint af stað aftur. Þess í stað náðum við einum hvíldardegi í Reykjavík, degi sem að hluta til var varið í gúggl um bilunina í Grána, fáanlega varahluti og fleira þess háttar.

Svo rann mánudagurinn 17. ágúst upp og rétt eftir kl. átta vorum við ferðbúnir og mættir til að sækja kerruna:



Við lögðum af stað rétt fyrir kl. níu og skiptumst á að aka norður til Akureyrar, þar sem við keyptum vistir til langrar ferðar. Samkvæmt okkar útreikningum áttum við að koma til Egilsstaða milli kl 15 og 16, og okkar björtustu vonir snerust um að leggja af stað þaðan með Grána á kerrunni fyrir kl. 19. 



Áætlaður komutími til Egilsstaða stóðst nokkurn veginn og um leið og við verðlaunuðum okkur með ís bjó ég kerruna undir flutninginn og ferðina suður, fór yfir dekk og varahjól, og jafnaði loft. Undir kerrunni voru 13" burðardekk og uppgefinn loftþrýstingur í þeim var 94 pund. Til samanburðar var ferðabíllinn með um 40 pund í dekkjunum. Svo var haldið áfram inn Fljótsdal að vegamótum Kárahnjúkavegar, þar sem Gráni beið.

Svo var stillt upp og Gráni látinn renna að kerrunni. Ég hafði dálitlar áhyggjur af breidd hans, því séríslenskt smíðaklúður við afturljósafesingar kerrunnar þrengdu hjólabilið en Gráni hins vegar á álfelgum sem gáfu honum yfirbreidd. Það passaði enda, að þegar hann var látinn renna inn á kerruendann rakst annað framdekkið í þennan séríslenska fáránleika og sviptist í sundur. Það sést reyndar ekki á myndinni að neðan, nema hvað Gráni er heldur hnípnari en vanalega. Afganginn af lengdinni var hann dreginn með spili á kerrunni sjálfri auk talíu sem við höfðum meðferðis.
Svo þurfti að festa niður og ganga tryggilega frá öllu til langrar ferðar.



Strax í fyrsta áfanga, þ.e. á leiðinni út í Egilsstaði, kom í ljós að kerran sveiflaðist til þegar hraðinn fór yfir 60 km/klst. Við urðum því að staldra aðeins við í bænum og draga Grána eins framarlega á kerruna og unnt var (og jafnvel aðeins framar en það...) og að auki fór sonurinn í farangursgeymsluna aftast í honum, tók bæði varahjólið, tjakk og felgulykla ásamt öðru dóti, og raðaði því inn í ferðabílinn. Meira varð ekki að gert en þegar við lögðum á Fagradalinn, næsta áfanga á leiðinni til Rvk, kom í ljós grundavallarbreyting á hegðun kerrunnar, sem nú lá eins og klessa á allt að 80 km. hraða. Klukkan var farin að ganga átta að kvöldi þegar við lögðum af stað frá Egilsstöðum.

Myndin hér að neðan er tekin þegar við vorum nýlagðir af stað niður Fljótsdal. 



Svo tók hvað við af öðru, Fáskrúðsfjarðargöng, Hafnarnes og Stöðvarfjörður. Milli hans og Breiðdalsvíkur ókum við inn í þoku við þverrandi dagsbirtu. Þokunni fylgdi talsverð bleyta og það tók að reyna talsvert á augun þegar á leið. Ferðin var annars tíðindalaus, okkur miðaði sæmilega þótt hraðinn væri ekki alltaf mikill, eða mestur rétt um 70 km/klst. Ferðabíllinn virtist ekki finna mikið fyrir Grána og kerrunni aftaní, enda höfðum við valið suðurleiðina vitandi af þoku- og bleytuspá, eingöngu vegna þess að hún er jú nánast brekkulaus. Það var orðið áliðið kvölds þegar við komum að vegamótunum við Höfn, og við vorum þá þegar farnir að ræða um hvíldarstað. Það var sýnt að ég myndi ekki hafa úthald í að keyra alla nóttina í skyggni sem var á köflum bókstaflega ekki neitt, auk rigningar og vindbelgings. Við þræluðumst samt áfram og sonurinn hafði gætur á stikunum sín megin meðan ég reyndi að fylgja hvítu miðlínunni.

Á leiðinni yfir Skeiðarársand ákváðum við að halda áfram að Klaustri og taka smáhvíld þar, enda var ökulagið orðið verulega skrykkjótt. Klukkan var nánast á slaginu tvö þegar við renndum inn á stæði við Klaustur. Það kom sér vel að allur ferðabúnaður sonarins var enn í ferðabílnum. Hann gat því tekið sína sæng og komið sér fyrir í svefnrými Grána á kerrunni meðan ég lagðist til hvíldar í ferðabílnum með vekjarann stilltan á fimm.

Klukkan fimm var auðvitað enn svartamyrkur, og það var enn svartaþoka og rigning. Við gleyptum í okkur fátæklegan "morgunmat" og síðan var haldið af stað að nýju. Tíu mínútur yfir fimm var ræst og enn lagt af stað til Rvk. Svo fór smám saman að birta og ég held að myndin hér að neðan sé tekin vestarlega í Eldhrauni, ekki löngu áður en við komum til Víkur. Í Vík var svo ferðabíllinn fylltur af olíu og lausleg mæling sýndi eyðslu um 14,4 ltr/ 100km - heildarþungi ækisins var sex tonn auk kerrunnar. Ekki fannst mér það eyðsla til að kvarta yfir.......



Þokunni létti ekki að fullu fyrr en við nálguðumst Hvolsvöll. Við ókum svo í sólskini til Selfoss og þegar við lögðum lestinni hjá Almari bakara á þriðjudagsmorgninum var liðinn sólarhringur síðan við lögðum upp frá Reykjavík. Hann var kærkominn morgunmaturinn ..



Við höfðum leigt kerruna í sólarhring og sólarhringurinn var eiginlega runninn út við Hellu. Ég hringdi í N1 í Grafarvogi, lét vita af okkur og lofaði að koma með kerruna milli tíu og hálfellefu. Okkur var því ekki til setunnar boðið og um leið og síðasta bitanum var kyngt hjá Almari bakara lögðum við af stað í síðasta áfangann. Við vorum sammála um að fara Þrengslin til að létta álaginu af Kömbunum af ferðabílnum og beygðum því út við hringtorgið í Hveragerði. Þegar að vegamótunum við Hlíðardal kom, blasti hins veggar við skilti sem gaf til kynna að Þrengslin væu lokuð vegna malbikunarframkvæmda!!!  Við bölvuðum í kross, snerum við til Hveragerðis og leituðum logandi ljósi við hringtorgið að einhverri vísbendingu um lokunina, sem okkur hefði yfirsést. Hún var engin, ekkert sem gaf þessa lokun til kynna við Hveragerði.

Við lögðum því í Kambana og ferðabíllinn virtist svo sem ekkert finna fyrir þessarri brekku #3 á leiðinni (hinar voru upp frá Vík í Mýrdal og svo upp úr Mýrdalnum vestast, við Dyrhólaey). Klukkan var um hálftíu þegar við renndum í hlaðið við Höfðaborg og hófumst strax handa við að draga Grána af kerrunni. Það gekk hratt, og á meðan sonurinn skipti um ónýta framdekkið skilaði ég kerrunni af mér. Um leið benti ég drengjunum hjá N1 á þennan slæma annmarka á kerrunni sem séríslenska fúskið var breiðum bílum. Þeir tóku vel í athugasemdirnar og rukkuðu ekkert fyrir umframtímann. 

Gráni var svo dreginn upp í innkeyrslu til aðgerðar. Ég fór strax í að undirbúa næsta ferðalag, því ég var enn í sumarfríi og ætlaði að nýta það til fulls. Kannski man einhver sem les eftir því að ég var með bláa hjólið í þessu ferðalagi því gula Hondan mín var úr leik vegna varahluta sem beðið var eftir erlendis frá. Þeir varahlutir voru komnir í höfn, fóru strax í hjólið og síðan var skipt á kerrunni - niður fór bláa og upp það gula. Miðvikudagurinn 19. ágúst fór í þessar tilfæringar, auk þess að panta frá Ameríku þá varahluti í Grána sem ég taldi þurfa, eftir lauslega skoðun. 

Um miðjan fimmtudaginn 20. ágúst lagði ég svo enn af stað. Leiðin lá norður í land til að ljúka einhverju af því sem áætlað var þegar Gráni bilaði og öll plön umturnuðust. Sú ferð varð bókstaflega stórkostleg, ekki síðri en vestur - og austurferðirnar dagana og vikurnar á undan. Henni verður lýst næst......























































Flettingar í dag: 67
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135034
Samtals gestir: 27844
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:37:59


Tenglar