Ég skammast
mín dálítið fyrir að hafa ekki sinnt síðunni minni betur. Hér eru jú geymdar
bæði gamlar minningar og frásagnir af viðburðum sem síðar meir verða að
minningum. Ég ætla ekki að lofa bót og betrun, því ég hef oft lofað meiru en ég
hef getað staðið við. Mig langar þó að standa mig betur og vona að mér takist
það. Þó Facebook sé einfaldur og þægilegur miðill vilja eldri færslur týnast
fljótt og uppfletting þeirra er að öllu leyti erfiðari en hér - eða það finnst
mér allavega.
Í dag, 24.
des. 2016 hafa 22 litið inn á þessa síðu, aðeins til að sjá það sama og áður. Í
gær voru það 19. Ég veit ekki hvort þessar innlitatölur eru réttar, því ég man
eftir að annað bloggkerfi, sem rekið var af 365 Miðlum hafði þann sið að ýkja
innlitafjölda, líklega í því augnamiði að halda uppi auglýsingaverði. Hér er ekki um neinar auglýsingar að ræða og því vona ég að innlitatölur séu réttar. Þessvegna skammast ég mín dálítið, eins og fyrr segir...svona hálfpartinn eins og ég sé að svíkja þá sem enn kíkja inn.
Hvað sem því
líður hafa þessir 22 sem litið hafa inn í dag aðeins séð sömu færsluna og fyrr.
Ég hef verið að reyna að færa það sem ég hef skrifað á Facebook og langar til
að geyma, hingað yfir á síðuna í nokkurn veginn réttri tímaröð. Þess vegna
hefur færslum getað fjölgað framan við þessa sem alltaf birtist. Færslurnar raðast svo í mánaðaröð eins og sjá má í listanum hér til hægri handar, ofanfrá og niður. Ég ætla mér að
halda þessum flutningi áfram þar til endum er náð saman og flytja þá það sem mér finnst
minnisvert og ég skrifa á Facebook, jafnóðum yfir á þessa síðu.
Að þessu
sögðu óska ég öllum þeim sem enn hafa þolinmæði til að kíkja hingað inn, og
hafa skrifað komment og kveðjur gegnum árin, gleðilegra jóla!
....ég lofa áramótakveðju
innan viku