Flotinn í Höfðaborg var myndaður á laugardaginn áður en lagt var af stað á borgfirskan hátíðisdag hjóla- og fornbílamanna. Bláa var skilið eftir heima, enda er ill- eða ómögulegt fyrir einn að hafa tvö til reiðar. Jens Sigurjónsson mætti svo rétt um tólf og þar með var lagt af stað. Fjöldi hjólamanna var á uppeftirleið og tveimur, þremur bílum á undan okkur var stór hópur, líklega um þrjátíu hjól. Þessi stóri hópur áði á planinu ofan gangnanna og var rétt að leggja af stað
þegar við komum. Röðin snerist við, Jenni varð fremstur, þá ég og síðan Arnar Þór. Bílarnir í miðjunni fóru niður að Grundartanga og þar með fór Jenni fyrir öllum hópnum alla leið í Borgarnes. Það hlýtur að hafa verið tilkomumikið þegar hópurinn renndi í bæinn, líklega sá stærsti sem kom í einu. Veðrið var ágætt þrátt fyrir hvassviðri undir Hafnarfjalli en vindáttin var tiltölulega hrein austanátt og því ekki mjög hviðótt. Borgnesingar höfðu sett upp fína sýningu hjóla og fornbíla í húsakynnum KB í Brákarey, þar sem borgfirskir bíla- og hjólamenn hafa aðstöðu. Hægt var að kaupa sér kaffi og vöfflu með rjóma og sultu og að sjálfsögðu skelltum við einu setti í andlitið. Við fórum af svæðinu um hálfþrjú og bættum í belginn í Geirabakaríi en brúmmuðum síðan suðurávið með hring um Akranes. Leiðir skildi svo á planinu við Höfðaborg um fimmleytið og við Arnar héldum áfram suður í Garðskaga og til Sandgerðis með dálitlu stoppi hjá Ásgeiri Jónssyni. Heima í Höfðaborg vorum við svo rétt fyrir átta um kvöldið. Þar með lauk stórkostlegum hjóladegi...
(Færslan er upphaflega skrifuð á Facebook og ef smellt er á myndirnar hverja fyrir sig opnast tenging á þá síðu. Smellur á "back" píluna flytur síðan aftur hingað á 123.is)
Tekið við Garðskaga eftir frábæran túr á hjóla- og fornbílasýningu í Borgarnesi. .... Arnar Þór Gunnarsson tók myndina.