Þessi mynd er varaskeifa. Hún er varaskeifa í því tilliti að ég ætlaði að birta tvennu af allt öðru skipi en finn bara aðra myndina. Hina skannaði ég fyrir mörgum árum og hef svo stungið henni á svo góðan stað að hún finnst ekki aftur. Þessvegna birti ég þessa, þó svo ég hafi áður birt hana - að vísu fyrir löngu og á öðrum vettvangi.
Þetta er gamla Fagranesið, eins og kunnugir sjá. Það eyðilagðist eftir vélarrúmsbruna, nýleg brú var tekin af því og flakinu lagt inni við Reykjafjörð í Djúpi, væntanlega til einhverra nota sem ekki urðu. Myndin er tekin síðsumars 1987 og þá hafði Fagginn legið þarna vel á þriðja áratug og átti talsvert eftir enn, þar til hann var látinn hverfa.
Hann sagði mér hann Pétur andskoti (sem, þrátt fyrir viðurnefnið og hrjúft yfirborð, var gull af manni eins og þeir vita sem best þekkja..) að Fagranesið hefði ekkert þurft að brenna. Hann hafði verið þar vélstjóri og þekkti vel til. Olíufýringin sem var um borð í skipinu var staðsett bak við vélarrúmsstigann. Hún var vangæf og átti til að skjóta út. Af frásögn Péturs mátti skilja að hjörtu hans og olíufýringarinnar hefðu slegið í takti. Svo varð einhver taktbrestur þegar Pétur var ekki um borð, fýringin skaut út meðan vélarrúmið var mannlaust, kveikti í óhreinindum kringum sig og úr varð bál - undir niðurgöngunni svo ekki varð komist niður.......
Á þessa leið var saga Péturs, sögð með því orðfæri sem honum var tamast og þeir þekkja sem þekkja.....
Fagranesið, sem ekki var kannski beysið fyrir enda komið vel til ára sinna, varð ónýtt og Fjölnir frá Þingeyri hljóp í skarðið um tíma. Síðan kom nýsmíðin frá Florö í Noregi sem seinna varð þekkt hér syðra sem Fjörunes eða Moby Dick. Það mun nú komið til Danmerkur, eftir nokkuð harða viðkomu í Færeyjum. Florö - Fagranesið var svo sem ekki óvant hörðum viðkomum við Djúp, svona eins og þegar það ætlaði að ryðja Arnarnesinu úr vegi. Það er hins vegar önnur saga - eða aðrar sögur......
Stúfurinn á myndinni hefur stækkað mér talsvert yfir höfuð.....