Líklega var það vorið 1990 sem ég lagði mína leið til Þingeyrar til að skoða báta. Hafði þá verið trillulaus allar götur frá 1985 þegar sú sem ég hafði þá keypt þrisvar var að síðustu seld til Reykhóla. Um hana hefur verið fjallað í löngu máli hér á síðunni stakkanes.123.is.
Á Þingeyri var margt bátakyns að sjá en sú trilla sem helst fangaði augað ( og virtist henta hálftómri buddu) var Æsa ÍS. Hún lá umkomulaus uppi á kambi og ástandið á henni var þannig að mér leist hún vænleg til eignar fyrir skikkanlegt verð. Ég aflaði mér upplýsinga og komst að því að Æsa væri sænsksmíðuð, innflutt notuð til Vestmannaeyja og þessi furðulega vél sem í henni var væri ættuð frá Ferguson. Ég fann eigandann, hann tók ekki illa í að selja og lofaði að athuga málið. Bað mig hafa samband litlu síðar.
Hann stóð við sitt og athugaði málið. Í Æsunni, sem hafði verið skráð fiskiskip, leyndust sumsé ónotaðir rúmmetrar. Þar með varð hún að gulli, líkt og Fífan sem ég birti bílstjóraspegils- myndina af á dögunum. Við þessu var ekkert að segja eða gera, svona var kerfið á þeim tíma. Rúmmetrar í fiskibát voru gulls ígildi þegar úrelda þurfti á móti hverri stækkun annars. Æsan fór úr því að vera svona jafnvirði kók og pylsu upp í rétt um milljón, muni ég rétt. Þórður heitinn Júlíusson á Ísafirði keypti rúmmetrana enda var mín milljón eyrnamerkt húsakaupum árið eftir og þar gilti "business before pleasure" eins og sagt er á alheimsmálinu!
Allt um það. Rúmmetrarnir fóru til Ísafjarðar en Æsa fór út á dauðadeildina á tanganum utan við Vélsmiðju Þingeyrar. Þannig fór um þá sjóferð þá - hún var aldrei farin. Næst þegar ég vissi var Æsa farin á bálið og ekkert eftir nema myndir og minning.....
Fyrsta myndin með pistlinum er skönnuð úr stórvirki Jóns Björnssonar, "Íslensk skip - Bátar", 4bnd. bls.99. Hún sýnir bátinn þegar hann hét Æsa og bar einkennisstafina EA-48. Skrár segja Æsu hafa verið endurbyggða 1986-7 en varla hefur það verið mikil endurbygging því þegar ég myndaði hana á Þingeyri 1990 vantaði a.m.k. tvö borð í aðra síðuna. Annað var í þokkalegu lagi. Myndinar sem á eftir fara eru mína eigin, sú síðasta er tekin þegar ekkert var eftir nema að veita náðarhöggið......
...............................